Eftir síðasta landsleikjahléð í bili heldur lífið í enska boltanum áfram sinn vanagang. Piltarnir í Manchester United halda suður á bóginn og heimsækja Hertfordskíri, norðan Lundúna, til að spila deildarleik við Watford. Leikurinn hefst á hinum klassíska tíma, klukkan 15:00 á laugardegi. Dómari leiksins verður Jonathan Moss.
Solskjær er enn stjóri Manchester United. Eftir tapið hrikalega gegn Liverpool fengu ansi margir stuðningsmenn nóg og slúðrið um að brottrekstur væri yfirvofandi hékk yfir honum. Einhverjir miðlar fjölluðu um að Solskjær fengi næstu þrjá leiki, fram að landsleikjahléi, til að bjarga starfinu. En úrslitin úr þeim leikjum voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Mjög öruggt tap gegn Manchester City eftir að liðið hafði rétt bjargað stigi gegn Atalanta á útivelli í Meistaradeildinni. Vissulega hafði fyrsti leikurinn verið öruggur sigur á Tottenham sem gagnaðist Solskjær að því leyti að það varð til þess að Spurs rak sinn stjóra og réð einn þeirra sem virtist vera ofarlega á blaði til að taka við af Solskjær ef hann væri rekinn. Conte er líklega einn af fáum stjórum sem gæti tekið þennan núverandi hóp Manchester United og unnið ensku úrvalsdeildina með honum.
En það fór sem fór og Solskjær er hérna enn. Við í ritstjórninni fórum í léttar ekki-pælingar um hvaða stjórar gætu verið orðaðir við starfið. Af einhverjum ástæðum virðist einn á þeim lista vera orðaður við starfið í fúlustu alvöru. Vonum að það komi ekki til þess að við þurfum að styðja gamlan Liverpoolstjóra hjá Manchester United. Varla er heimurinn bara í alvöru kominn þangað?
Watford FC
Watford kom upp í úrvalsdeildina sem nýliðar á þessu tímabili eftir að hafa endað í 2. sæti í Championship deildinni fyrir ári síðan. Kjarninn í þeim árangri var öflugur varnarleikur þar sem liðið fékk fæst mörk á sig í deildinni. Fyrrum United-mennirnir Craig Cathcart og Ben Foster spiluðu stóra rullu í því. Að auki var Tom okkar Cleverley öflugur á miðjunni.
Watford náði þó að skora einhver mörk og þeirra iðnastur við markaskorun var Senegalinn Ismaïla Sarr sem skoraði 13 mörk á tímabilinu, öll í deildinni. Næstur á eftir honum kom Brasilíumaðurinn João Pedro með 9 mörk, líka öll í deildinni.
Fyrir þetta tímabil ákvað Watford að styrkja liðið og fékk meðal annars til sín annan gamlan Manchester United mann, Norðmanninn Joshua King. Hann átti að koma með auka markaógn inn í liðið við hlið Sarr og Pedro. Það hefur gengið upp að marki, Sarr er markahæstur í liðinu á tímabilinu með 4 mörk og King kemur þar á eftir með 3 mörk. King hefur þar að auki lagt upp 2 önnur mark. Annar nýr leikmaður í liðinu, Nígeríumaðurinn Emmanuel Dennis, hefur líka skorað 3 mörk auk þess að leggja upp 3.
Watford hóf tímabilið á góðum sigri á Aston Villa í deildinni. Í byrjun október var hins vegar komið nóg hjá stjórninni sem rak knattspyrnustjórann Xisco úr starfi eftir tapleik við Leeds. Á þeim tímapunkti hafði Watford unnið 2 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 4. Liðið var þá í 15. sætinu. Í sjálfu sér ekkert slæmt sæti fyrir nýliða en stjórn knattspyrnufélagsins Watford er þekkt fyrir ansi margt annað en þolinmæði gagnvart knattspyrnustjórum. Við starfinu tók Claudio Ranieri, það verður áhugavert hvað hann fær langan tíma áður en hið óumflýjanlega gerist og hann verður líka rekinn. Kannski nær hann allavega að klára tímabilið.
Gengið hjá liðinu eftir að Ranieri tók við hefur ekki verið neitt mikið betra. Að vísu kom stórgóður sigur á Everton á útivelli seinni partinn í október þegar Watford skoraði 5 mörk gegn 2. Joshua King skoraði í þeim leik öll 3 mörkin sem hann hefur skorað á tímabilinu fyrir Watford. Hinir leikirnir hjá Ranieri hafa allir tapast og liðið situr nú í 17. sæti.
Það er töluvert af fjarveru hjá Watford. Varnarmaðurinn Christian Kabasele, sem spilaði 21 leik fyrir Watford í fyrra, er meiddur. Sömuleiðis Sílemaðurinn Francisco Sierralta, sem spilaði 29 leiki í vörn Watford á síðasta tímabili. Sænski miðjumaðurinn Ken Sema er líka frá vegna meiðsla en hann spilaði 43 leiki í fyrra. Það munar líklega minna um Peter Etebo og Kwadwo Baah sem eru einnig meiddir. Þá er Tyrkinn Ozan Tufan tæpur fyrir þennan leik.
Slóvakinn Juraj Kucka kom til liðsins í sumar frá Parma og hefur spilað 10 af 11 leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu. Hann fékk hins vegar rautt spjald í síðasta leik, í tæpu 0-1 tapi gegn Arsenal, og verður í banni í þessum leik.
Búist er við að heimamenn stilli upp þessu liði:
Mikilvægt verður að hafa gætur á Sarr og Dennis því þeir gætu verið hvað duglegstir í að skapa hættu hjá Watford.
Manchester United
Eftir 11 umferðir er Manchester United í 6. sæti deildarinnar. Það er ekki nógu gott. Það er ekki bara það að liðið hafi haldið áfram að aula frá sér stigum gegn slakari liðum, sérstaklega á heimavelli, heldur sýndu nýlegir leikir gegn Liverpool og Manchester City að okkar menn virðast ansi langt frá því að komast á þann stall. Liðið ætti ekki að vera svona langt frá þeim miðað við mannskap og þá upphæð sem hefur verið eytt í leikmannakaup á síðustu árum. En hér erum við samt og það er óþægilega langt síðan Manchester United fór úr því að gæla bjartsýnislega við toppbaráttuna og yfir í örvæntingarfulla baráttu fyrir því að ná Meistaradeildarsæti. Núna eru 5 stig í 4. sætið, eftir 11 umferðir.
Leiðin að Meistaradeildarsæti er þó víst bara tekin einn leik í einu og við erum með þennan leik í höndunum núna. Þetta er fyrsti leikur United gegn nýliðum þessa tímabils en síðustu 3 leikir síðasta tímabils gegn nýliðum enduðu allir með jafntefli (gegn WBA, Leeds og Fulham).
Síðustu sex leikir United í deildinni hafa ekki verið sérstaklega skemmtilegir. Aðeins einn sigur í þeim leikjum, afdrifaríki sigurinn gegn Tottenham. Eitt jafntefli, á heimavelli gegn Everton, og hinir fjórir töpuðust allir. Markatalan í þessum 6 leikjum er 6-13.
Horfurnar eru þó fínar gegn Watford fyrir þenna leik. Bæði hefur Watford verið í basli á tímabilinu en svo hefur United haft ágætis tak á Watford í gegnum söguna. Liðin hafa spilað 35 leiki og United hefur unnið 24 þeirra. Síðasta tap gegn Watford kom í desember 2019 þegar Sarr og Troy Deeney skoruðu einu mörk leiksins, United hefur þó unnið 18 af síðustu 20 leikjum liðanna.
Það vantar nokkra hjá Manchester United af hinum ýmsu ástæðum. Raphaël Varane og Edinson Cavani eru meiddir. Paul Pogba er líka meiddur en tekur auk þess út sinn síðasta leik í leikbanni eftir að hafa fengið beint rautt gegn Liverpool. Þá eru Scott McTominay, Marcus Rashford og Luke Shaw tæpir.
Það verður áhugavert að sjá hvort Anthony Martial fái sénsinn í þessum leik en hann er sá leikmaður í sögu Manchester United sem hefur skorað flest mörk gegn Watford. Hann hefur skorað 4 mörk í 9 leikjum gegn Watford. Á eftir honum koma Denis Law, Dwight Yorke, Wayne Rooney, Marcus Rashford og Frank Stapleton með 3 mörk hver.
Annar sem verður áhugavert að sjá hvort fái tækifæri í liðinu er Donny van de Beek. Bæði hann og Jesse Lingard hafa verið töluvert í fréttum síðustu vikuna. Talað er um að þeir vilji báðir fara frá liðinu strax í janúar og séu óánægðir með lítinn spilatíma. Það er vel hægt að skilja þeirra sjónarmið, mögulega hefði verið hægt að leyfa þeim að fara síðasta sumar og nýta peninginn í að kaupa inn varnarsinnaðan miðjumann. En kannski fá þeir að sýna sig í þessum leik.
Setjum niður þetta byrjunarlið fyrir morgundaginn:
Ertu ósammála þessari pælingu? Hvernig heldurðu að leikurinn fari?
Tony D says
Þetta ætti að vera meira spennandi uppstilling en undanfarið nema ég veit ekki með Martial. Hann virðist ekki hafa vott af sjálfstrausti og spurning hvað hann myndi gera. Ég veit hreinlega ekki hvernig ætti að stilla þessu upp en vonandi mæta menn dýrvitlausir og fara að berjast til síðasta blóðdropa. Ole gæti gert verri hluti en að henda Lingard og Van de Beek inn í liðið og þessi uppstilling væri ekki galin. En hinsvegar væri Ole alveg trúandi til að henda Matic inn á miðjuna með McT eða Fred og halda sig við sama byrjunarlið og verið hefur í 4-2-3-1 því menn hafa staðið sig vel á æfingum og fundum. Ekki má gleyma að starfið hans er undir og hann fer væntanlega í það sem hann treystir. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og ég bragði á sokknum mínum en ekki má búast við of miklum breytingum hjá honum.
Það má alltaf vona samt.
Eigum við að skjóta á að leikurinn detti 2-0 fyrir okkar menn og eitt mark komi úr horni?
Daníel Smári says
Glimrandi upphitun. Auðvitað eru flestir útileikir í Úrvalsdeildinni erfiðir og við höfum lent í vandræðum á Vicarage Road, að því sögðu þá er þetta Watford lið illa mannað og því eðlilegt að gera kröfu um sigur og að United sé ofan á flestum sviðum fótboltans.
En þetta United lið okkar er ekki beint eðlilegt og ég veit hreinlega ekkert við hverju ég á að búast. Held samt í bjartsýnina og spái 1-4 sigri! Bruno verður allt í öllu, skorar tvívegis og leggur upp tvö.