https://twitter.com/ManUtd/status/1465282005369860098
En hver er þessi maður sem ekkert of margir stuðningsmenn United höfðu heyrt af fyrr en fyrir um mánuði síðan? Einn Rauðu djöflanna hefur fylgst með honum um nokkuð langa hríð.
Mín fyrstu kynni af Rangnick voru 1999, þegar RÚV sýndi þýska boltann. Arfleifð Ásgeirs Sigurvinssonar og Eyjólfs Sverrissonar tryggði að Stuttgart hefur alltaf verið mitt lið þar og ég man eftir ungum þjálfara með hornspangargleraugu sem var þá nýtekinn við. Óljóst rámar mig í að hann hafi gefið ungum leikmönnum tækifæri. Hann entist í rúmt eitt og hálft ár hjá Stuttgart – sem er nokkuð gott á þeim bænum. Hann vann InterToto bikarinn og kom liðinu í undanúrslit bikarsins en vandræðagangur í deildinni kostaði hann starfið. Nafnið og karakterinn varð mér eftirminnilegt og hef ég því alltaf haft auga með honum.
Uppljómunin gegn Dynamo Kiev
Rangnick er fæddur 29. júní 1958 í Backnang, þorpi rétt utan Stuttgart. Svæðið er kallað Swabia (Schwaben) og þeir sem þaðan koma Swabar. Þeir hafa orð á sér fyrir vinnusemi og að spara peningana þar til þeir geta keypt sér fína hluti – eins og Benz-bíla sem framleiddir eru í Stuttgart. Vert er að minnast því að Jürgen Klopp er af sama svæði. Leiðir þeirra hafa oftar legið saman og þeir tala vel hvor um annan.
Leikmannaferill Rangnick er ekki merkilegur, hann komst í B-lið Stuttgart og var síðan hjá Ulm um tíma en var látinn fara þegar liðið komst upp í aðra deild. Hann gerðist spilandi þjálfari hjá Viktoria Backnang og í því starfi tók hann þátt í æfingaleik gegn Dynamo Kiev sem breytti lífi hans. Þjálfari Kieve var þá Valeriy Lobanovskyi, sem samhliða þjálfaði sovéska landsliðið og var með Kiev fram yfir aldamót.
Rangnick segir sjálfur frá því að viðbúið væri að Kiev-liðið myndi yfirspila það þýska. Hann hafi hins vegar þurft að telja til að sannfæra sig um að gestirnir væru ekki fleiri inni á vellinum en þeir áttu að vera. Aldrei hafi verið friður með boltann, alltaf hafi þrír til fjórir mótherjar verið mættir í pressu. Rangnick lagði síðar mikið á sig til að læra af úkraínska liðinu.
Það er kannski sérstakt til þess að hugsa en Þjóðverjar eru að mörgu leyti afar hrifnir af Englandi og öllu ensku, meðal annars þegar kemur að fótbolta. Sem ungur maður var Rangnick skiptinemi á suður-Englandi, lærði íþróttakennslu. Hann hefur síðar sagt frá því að sú dvöl hafi haft þau áhrif að hann fór að efast hvernig Þjóðverjar spiluðu fótbolta. Honum þótti meðal annars merkilegt hversu hart blaklið svæðisins lagði að sér við æfingar.
Ungur maður með geggjaðar hugmyndir
Rangnick fékk stöðuhækkun frá Backnang og var ráðinn til að þjálfa unglingalið Stuttgart. Þar hitti hann fyrir verkfræðinginn Helmut Groß. Sá hafði lagt mikið á sig til að kynna sér leikfræði, einkum svæðisvörn. Þeir lögðu saman og eyddu miklum tíma í að afla sér fróðleiks. Meðal annars fengu þeir videóspólur með upptökum af AC Mílan, sem Arrigo Sacchi, þjálfaði og yfirkeyrðu vídeótækið með að vera stöðugt að stoppa og spóla aftur á bak eða áfram. Aðferðir þeirra skiluðu árangri sem eftir varð tekið sem varð til þess að Rangnick var ráðinn þjálfari Ulm. Hann kom liðinu upp í aðra deildina og var í toppbaráttu vorið 1998 þegar á vormánuðum 1999 kvisaðist út að hann væri búinn að semja við Stuttgart. Hann kláraði því ekki tímabilið með Ulm sem veturinn eftir spilaði sitt eina tímabil í efstu deild.
Vert er að muna stöðu þýsks fótbolta á þessum tíma. Þótt Bayern München hafi vissulega alltaf skilað sínu í Evrópukeppnum (við munum hversu langt það lið fór árið 1999) var landsliðið að sigla í strand. Á HM 98 var það burstað af Króatíu í fjórðungsúrslitum, þótt stóra skipbrotið kæmi ekki fyrr en tveimur árum síðar þegar það komst ekki upp úr riðlakeppninni.
Á þessum tíma trúðu Þjóðverjar á maður-á-mann vörn, 3-5-2 með sópara og að karakter leikmanna gerði síðan gæfumuninn. Upp var þó að koma ný kynslóð þjálfara með aðrar hugmyndir og varð Rangnick talsmaður hennar. Sem slíkur mætti hann í Sportschau, aðalfótboltaþáttinn í þýska sjónvarpinu, í desember 1998. Rangnick stóð þar ásamt þáttastjórnanda sem bað hann um að útskýra „þessa fjögurra manna vörn og svæðisdekkun sem við höfum heyrt um síðustu ár.“ Rangnick hófst handa við að svara og sýna samspil pressu á bolta og svæðisvarnar á græna töfluna.
Þótt Rangnick hafi síðar sagt að það hafi verið mistök hjá honum að mæta í þáttinn og útskýra hugmyndir sínar, hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu viðkvæmur gamli skólinn væri fyrir breytingum. Landsliðsþjálfarinn Erich Ribbeck (gæi sem eitt sinn gekk svo langt að láta skrúfa fyrir vatnið í sturtunum því hann trúði því að óhollt værir fyrir leikmenn að drekka vatn) sagði alltof langt gengið í tali um leikaðferðir og látið væri eins og þjálfarnir í efstu deildinni væru fávitar.
Þátturinn er þó það afdrifaríkur að sagt er frá honum í tveimur lykilbókum um þýskan fótbolta, Das Reboot eftir Raphael Honigstein og Tor! eftir Uli Hesse. Heill kafli er svo að segja tileinkaður houm í þeirri fyrrnefndu og nýttist hann vel í þessa samantekt. Sem fyrr segir tók Rangnick við Stuttgart um vorið og byrjaði að framfylgja hugmyndum sínum sem náðu út fyrir það valdsvið sem honum var ætlað sem þjálfara. Sambland af því, slöku gengi í deildinni og óvinsælum ákvörðunum, eins og að bekkja stjörnuna Krasmir Balakov sem var ekki til í hápressuna, kostaði Rangnick starfið hjá Stuttgart.
Átök við yfirmenn
Þaðan fór hann yfir til Hannover, kom liðinu upp í úrvalsdeild í fyrsta sinn í 13 ár og hélt því þar. Hann lenti upp á kant við yfirstjórnina, auk þess sem liðið dróst niður í fallbaráttu og var rekinn. Haustið 2004 var röðin komin að öðru stórliði úr þýskum fótbolta, Schalke. Hann kom liðinu í úrslit bikars og annað sæti deildarinnar en hætti, sem stundum fyrr, vegna ágreinings við stjórnendur.
Þótt Rangnick hafi átt erfið samskipti við yfirmenn sína hefur hann alltaf verið opinn fyrir að deila þekkingu sinni með öðrum þjálfurum. Meðal þeirra sem heimsóttu hann til Schalke var þýskur íshokkíþjálfari sem Jürgen Klinsmann, sem þá var kominn með það verk að bjarga andliti þýsks fótbolta fyrir HM á heimavelli 2006, leitaði mikið til. Sá kom skilaboðunum áfram til Klinsmann. Aðstoðarmaður hans var Joakim Löw, sem hafði verið þjálfari Stuttgart ári á undan Rangnick og lært af Groß. Rangnick kom víst til greina í stöðuna en valdi aðra leið.
Michel-kokkar krydda pylsur
HM árið tók hann við Hoffenheim, þá í þriðju deild. Hoffenheim er smábær, ekki fjarri Stuttgart. Eigandi liðsins hafði auðgast á hugbúnaðarþróun og ákvað að bæta liðið í heimabænum. Hann réði til sín sálfræðing landsliðsins og sálfræðing landsliðsins. Samlíkingin var að eins og Michelin-kokkar hefðu verið fengnir til að steikja pylsurnar við völlinn á leikdegi.
Hjá Hoffenheim birtist ýmislegt byltingakennt, sem Rangnick og hans sporgöngumenn tóku með sér lengra. Hann sótti í smiðju Arsenal þegar hann byggði upp nýtt æfingasvæði. Ekki keyptir leikmenn eldri en 23ja ára og óspart sótt til Brasilíu. Hoffenheim skaust upp um deildir og uppi í þá efstu, þar sem nýliðarnir komust á toppinn um stund. Rangnick var fenginn aftur í Sportschau en að þessu sinni sem virtur Bundesligu-þjálfari frekar en ungur maður með galnar byltingahugmyndir.
Á ný varð ágreiningur við stjórnendur til þess að Rangnick skipti um umhverfi þegar einn Brasilíumannanna, Luiz Gustavo, var seldur til Bayern þrátt fyrir hans mótmæli. Um sumarið hafði liðið keypt ungan Íslending, Gylfa Sigurðsson. Í þjálfaraliðið var einnig kominn ungur maður, Julian Nagelsmann. Fleiri nafntogaðir þjálfarar hafa komið við hjá Hoffenheim.
Næsti viðkomustaður var Schalke aftur vorið 2011. Ekki löngu eftir að hafa tekið við vann Rangnick Inter Milan samanlagt 7-3 í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Í undanúrslitum mætti Schalke Manchester United sem vann samanlagt 6-1. Þar vann hann líka sinn eina titil í Þýskalandi, þýska bikarinn. Veran entist ekki lengi, um haustið sagði Rangnick af sér vegna „krónískrar þreytu“ – þess sem nú kallast kulnun í starfi eða að vera brunninn.
Rauða nautið
Tæpu ári síðar, sumarið 2012, skaut Rangnick upp kollinum á ný sem forstöðumaður knattspyrnumála hjá Red Bull og gegndi þeirri stöðu hjá liðum fyrirtækisins í Salzburg í Austurríki og Leipzig í Þýskalandi. Vinnan var hafin hjá austurríska liðinu og það varð fljótt ráðandi í deildinni þar þótt það lenti ítrekað í vandræðum við að komast í Meistaradeildina. Meðal leikmanna sem komu frá félaginu á þessum tíma voru Sadio Mané.
Leipzig byrjaði hins vegar í fjórðu deildina enn vann sig fljótt upp, enda með margfalt fjármagn á við keppinautana. Fjölmörg dæmi eru þó um að það sé ekki nóg, alltaf þurfi að fara skynsamlega með þá. Hjá Red Bull hélt Rangnick áfram að vinna á þeirri braut sem hann hafði lagt út á hjá Hoffenheim. Krefjandi hápressu, kaupa unga leikmenn úr ýmsum heimshornum og þjálfa þá áður en þeir voru seldir áfram, útbúa sérstakt matarræði fyrir hvern leikmann, alls konar videó af æfingum og sálfræðipælingum.
Sumarið 2015 tók Rangnick við þjálfun Leipzig og hætti þá afskiptum af Salzburg. Vorið 2016 komst Leipzig upp í Bundesliguna og keflið var látið ganga til Ralph Hasenhüttel. Hann þjálfaði liðið í tvö tímabil en sumarið 2018 tók Rangnick við aftur, til að brúa bilið þar til Nagelsmann kæmi. Liðið varð í þriðja sæti, komst þannig aftur í Meistaradeildina og komst í úrslit þýska bikarsins.
Rangnick fór frá Leipzig til að gefa Nagelsmann full yfirráð og tók við stjórn íþróttasviðs Red Bull á heimsvísu, en fyrirtækið átti þá einnig félög í Brasilíu og Bandaríkjunum. Hann virðist samt aldrei hafa fundið sig í því starfi. Covid-faraldurinn kom í veg fyrir ferðalög á milli landa. Hann átti í viðræðum um að taka við AC Milan, þar til liðið tók upp á að vinna á ný, var orðaður við stjórnunarstöðu hjá Manchester United og endurkomu til Schalke í sumar áður en hann endaði sem ráðgjafi hjá Lokomotiv Moskvu.
Framfaramaðurinn
Og þá er spurningin – hvers konar þjálfara er Manchester United að fá?
Rangnick er þjálfari sem aldrei virðist vera hræddur við að fara nýjar leiðir í von um bættan árangur. Hann beinlínis leitar þær upp. Leikstíll hans byggir á pressu og hraða, honum er tíðrætt um að knattspyrnumenn þurfi í dag að vera fljótir að hlaupa – ef ekki þá eldsnöggir að hugsa. Þegar boltinn vinnst af mótherjunum gengur leikurinn út á að koma honum sem fyrst fram á við og helst á markskot að vera komið innan tíu sekúndna.
Hann hefur líka orð á sér fyrir að vilja stjórna öllu. Það var einfalt hjá Backnang en ekki jafn vinsælt þegar hann var farinn að skipta sér af sjúkraþjálfuninni hjá Schalke. Af Hoffenheim eru sögur um að hann hafi blandað orkudrykki fyrir leikmenn í hálfleik. Hann er sagður hafa róast í seinni tíð og orðið tilbúnari til að treysta öðrum fyrir verkefnum.
Rangnick er óhræddur við að segja sínar skoðanir á hvað standi í vegi fyrir framförum fótboltans, allt frá svæðisdekkningunni yfir í að 50+1 reglan, um að stuðningsmenn eigi meirihluta í þýsku liðunum, sé úrelt. Hún komi í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu og haldi aftur af samkeppnishæfni þýsks fótbolta. Hvernig Hoffenheim, Salzburg og Leipzig hafa keypt sig til árangurs er vægast sagt umdeilt meðal annarra stuðningsmanna og jafnvel þeirra eigin, sem ítrekað hafa mótmælt þeim. Um þverbak þótt keyra vorið 2019 þegar stuðningsmenn Gladbach voru með borða sem minntu á kulnun Rangnick hjá Schalke. Það var fordæmt.
Rangnick er ekki maður sem unnið hefur til fjölda titla, sem þjálfari eru það bikar, deildarbikar og ofurbikar auk neðri deilda í Þýskalandi, sem stjórnandi tveir austurrískir meistaratitlar og bikar. Hafa ber þó í huga að hann hefur yfirleitt verið með lið sem vart hafa talist samkeppnishæf um stærstu titlana.
Forgangsatriði að laga vörnina
Á margan hátt virðist því skynsamt að byrja á sex mánaða samningi við Rangnick. Hans bíður ærið verk, forgangsverkefni er að þétta leka vörn. Margir hafa spurt hvernig leikmenn eins og Ronaldo bregðist við hápressunni og eins hvort Rangnick ráði við egóin í klefanum. Því er til að svara að Rangnick hefur áður fengist við eldri stjörnur, Raúl var framherji Schalke 2011. Hann ætti að hafa leið framhjá því, þótt undanfarinn áratug hafi hann lagt áherslu á leikmenn sem eru yngri en 23ja ára. Fordæmin sýna að Rangnick er óhræddur við að taka ákvarðanir og það skiptir hann mestu að menn leggi sig fram á æfingum sem í leikjum.
Rétt er að stilla væntingunum í hóf það sem eftir er tímabils. Forgangsatriðið er að tryggja Meistaradeildarsætið. Góður árangur í Meistaradeild eða bikarnum væri gleðiefni. Óskandi er að eftir dapran mánuð verði gaman að sjá liðið taka framförum og einhverjir leikmenn sömuleiðis. Áhugavert verður til dæmis að sjá hvort Rangnick haldi sig við David de Gea í markinu eða veðji á Dean Henderson, sem hefur orð á sér fyrir að standa framar og styðja þannig betur hápressuna.
Hvað gerist eftir tímabilið?
Meiri væntingar eru kannski til þess sem tveggja ára samningur hans um stjórnunarstöðu hjá United eftir tímabilið skilar. United hefur efnilega þjálfara eins og Kieran McKenna og Michael Carrick. Frægustu lærlingar Rangnick eru Thomas Tuchel og Nagelsmann, en vert er að muna að sjö af 18 aðalþjálfurum Bundesligunnar í dag koma á einn hátt eða annan úr hans skóla.
Það sem er framúrstefnulegt í fótbolta er það sjaldnast lengi, því um leið og það skilar árangri herma önnur lið eftir. Líkur eru því á að minnsta kosti eitthvað af uppfinningum Rangnick sé þegar til staðar hjá United, til þess má ætlast af einu fremsta félagi heims. Þó má búast við einhverjum nýjum aðferðum eða framþróun. United hefur bylt unglingastarfinu síðustu þrjú ár, búast má við að Rangnick haldi því áfram. Brexit hefur þó skapað vandamál því erfiðra er orðið að sækja unga leikmenn til annarra landa. Möguleg lausn gæti falist í venslafélögum, líkt og var með Royal Antwerpen um aldamótin.
Í þessu felst vonin um að Rangnick geti á næstu árum hjálpað Manchester United að nýta fjármagn sitt og orku á réttan hátt, frekar en umsvifalauss umsnúnings í spilamennsku, þótt vissulega séu það væntingarnar og þörfin næstu sex mánuði.
Tómas says
Vel gert. Takk fyrir þennan flotta pistil.
Robbi Mich says
Mjög áhugaverð kynning, takk kærlega fyrir!