Jæja, þá er komið að því! Nýr stjóri tekinn við Manchester United og fyrsti leikur undir hans stjórn er annað kvöld gegn Arsenal, næstum því… Því miður lítur út fyrir að nýi knattspyrnustjóri United Ralf Rangnick verði ekki á hliðarlínunni gegn Arsenal þar sem Brexit takmarkanir koma í veg fyrir það. Vinnu-VISA Þjóðverjans verður líklegast ekki komið í gegn í tæka tíð og gæti dregist eitthvað á langinn, því miður. Því er allt útlit fyrir að Michael Carrick fái að vera í jakkafötunum og heilsa Artete, stjóra Arsenal fyrir leik á morgun sem hefst kl. 20:15 að íslenskum tíma. Rangnick mun þó sennilega fá því ráðið hvernig liðinu verður stillt upp og mun sennilega fjarstýra liðinu á einhvern hátt.
Ég vil benda á frábæran pistil sem Zunderman skrifaði um nýja knattspyrnustjóra United, Ralf Rangnick fyrr í þessari viku. Þið verðið ekki svikin af þessari lesningu.
Arsenal
Skytturnar hófu tímabilið hræðilega, þrjú töp í fyrstu þrem leikjum tímabilsins með markatölunni 9-0 og strax orðið funheitt undir Mikel Arteta, sem mátti ekki við því miðað við hvernig síðasta tímabil endaði. Síðan þá hafa þeir aðeins tapað einum leik í síðustu tíu leikjum og sitja í fimmta sæti deildarinnar fimm stigum á undan okkar mönnum.
Það helsta sem Arteta gerði til að fá þennan stöðugleika í liðið var að búa til afar trausta varnarlínu og skipta um markvörð. Ramsdale hirti stöðuna af arfa slökum Bernd Leno í markinu og tveir óvæntir bakverðir komu inn í liði, Nuno Tavares vinstra megin og Tomiyasu hægra megin. Þessir þrír ásamt White og Gabriel í miðvarðastöðunum hafa spilað óaðfinnanlega upp á síðkastið. Í sjö leikjum af þessari tíu leikja hrinu hefur liðinu tekist að halda hreinu.
Arsenal er búið að mæta öllum hinum liðunum sem teljast til “stóru sex” liðana á tímabilinu og aðeins unnið einn þeirra og tapað hinum þrem sannfærandi. Tap gegn Manchester City, Chelsea og Liverpool og sigur gegn Spurs. Því er spurning hvernig þeir höndli okkar menn á morgun.
Kolasinac og Xhaka eru á meiðslalista Arsenal og sömuleiðis er ungstirnið Saka tæpur fyrir leikinn. Annars mun liðið stilla upp sínu sterkasta liði.
Líklegt byrjunarlið:
Manchester United
Gott stig með ósannfærandi framviðstöðu í síðasta leik, þegar okkar menn fóru á Brúnna og náðu í jafntefli gegn Chelsea. Ég býst við að sjá töluvert betri leik frá United á morgun þar sem Arsenal er ekki alveg sama mulningsvélin og Chelsea er um þessar mundir.
Fyrirliðinn Maguire hefur lokið sínu leikbanni eftir rauða spjald sitt gegn Watford og má því fastlega búast við að hann komi inn í liðið. Einnig trúi ég ekki að Ronaldo byrji á spítunni tvo leiki í röð, þannig að hann byrjar. Það er spurning hvernig liðinu verði stillt upp þar sem Rangnick er kominn með puttana í liðið. Líklegast þykir mér að leikkerfin 4-3-2-1 eða 3-4-2-1 verði notuð og er þá helsti munurinn að van de Beek verður á miðjunni í fyrra kerfinu en Bailly í vörninni í seinna kerfinu. Þetta eru leikkerfi sem Rangnick lét Red Bull samsteypuna spila einnar helst og því sennilegt að hann fari mögulega í það fyrst um sinn, án þess þó að ég hafi nokkra hugmynd um hvað sá þýski er að hugsa. Ég ætla að tippa á að fyrra kerfið verði fyrir valinu með þessari uppstillingu.
Líklegt byrjunarlið:
Eins og fyrr segir hefst leikurinn á morgun kl. 20:15 og verður leikinn á Old Trafford. Dómari leiksins verður hinn þrautreyndi Martin Atkinson.
S says
Hlakka til að sjá áhrif Ralfs þróast í leikstílnum. Held að þetta eigi eftir að verða drauma samband á milli hans og okkar
Sveinn says
Rangnick*