Eftir afskaplega viðburðarríkt ár, innan sem utan vallar, er komið að síðasta leik ársins. Við endum árið á heimaleik gegn lærisveinum Sean Dyche í Burnley. Leikurinn fer fram annað kvöld og verður flautaður á klukkan 20:15. Dómari leiksins verður Jonathan Moss en Darren England sér um skjádómgæsluna að þessu sinni.
Manchester United
Raphaël Varane og Edinson Cavani spiluðu loksins aftur með Manchester United í síðasta leik, gaman að sjá að þeir séu aftur komnir á ról og inn á völlinn. Að öðru leyti var leikurinn gegn Newcastle alls ekki nógu góður. Vonandi að liðið verði betur gírað fyrir þennan leik.
Paul Pogba er enn meiddur og nær þessum leik ekki. Það fer líklega að styttast í hann en það er spurning hvort hausinn og hjartað séu tilbúin í spilamennsku með Manchester United eða hvort það sé allt farið að flögra í átt að brottför frá félaginu.
Victor Lindelöf smitaðist af Covid og það hefur haldið honum frá, mun gera það áfram í þessum leik. Það er mikið búið að ganga á hjá honum sjálfum og fjölskyldu hans síðustu vikur, vonandi að hann og fjölskyldan jafni sig sem allra best af þessu bæði líkamlega og andlega.
Bruno Fernandes fékk gult spjald gegn Newcastle sem þýðir að hann verður í leikbanni í þessum leik. Hann hefur ekki alveg verið sá Bruno sem við þekkjum sem best en liðið í heild sinni hefur verið í lægð svo það er vonandi að hann og félagar hans fari að finna leið til að snúa því við.
Reyndar hefur David de Gea verið gjörsamlega frábær. Það er þó oft ekki góðs viti fyrir Manchester United þegar hann er sem bestur, þá þýðir það of oft að restin af liðinu sé að spila vel undir getu. De Gea hefur verið markmanna duglegastur í deildinni að bjarga mörkum. Miðað við xG þá hefur hann verið að bjarga 7,6 mörkum umfram það sem eðlilegt ætti að þykja að liðið hefði fengið á sig miðað við xG. Næstur á eftir honum kemur José Sá með 6,7 mörk og síðan Robert Sánchez hjá Brighton með 2,1 mörk. Aðrir markmenn eru með töluvert minna, jafnvel í mínustölu.
Fyrir utan þessa sem eru meiddir, veikir og í banni hér að ofan þá eru Scott McTominay og Anthony Martial tæpir fyrir leikinn.
Eric Bailly var floginn af stað til fundar við landslið Fílabeinsstrandarinnar í undirbúningi fyrir Afríkukeppnina en hann mun taka snögga ferð til baka til að taka þennan leik með Manchester United áður en hann fer aftur til Afríku. Vel gert hjá Eric en það er spurning hvort hann muni fljúga hingað til þess eins að sitja á bekknum eða hvort hann fái að spila í leiknum.
Manchester United tapaði gegn Burnley á Old Trafford í janúar 2020. Það er eini tapleikurinn í síðustu 13 gegn Burnley, United hefur unnið 8 þeirra og 4 endað með jafntefli. Hins vegar hefur Burnley náð í 6 af þeim 10 úrvalsdeildarstigum sem liðið hefur unnið gegn United á Old Trafford.
Það hlýtur að vera tilefni til að rótera, bæði vegna þess að liðið spilaði ekkert sérstaklega vel síðast en líka af því það er stutt á milli leikja þessa dagana (þegar þeim er ekki frestað vegna Covid, það er að segja). Segjum því að byrjunarliðið verði eitthvað á þessa leið:
Þetta teiknast upp sem 4-4-2 af því kerfið býður ekki upp á 4-2-2-2 en það verður þó líklega meira þannig, með Sancho og Donny fyrir framan Matic og Fred að spila þrengra og reyna að tengja við fremstu menn.
Haldið þið kannski að Ralf muni fara að prófa aðra uppstillingu fyrst liðið virðist ekki alveg vera að finna sig í 4-2-2-2?
Manchester United er núna sjö stigum frá fjórða sætinu. Það er ekki gott. En liðið á þó tvo leiki inni á Arsenal sem nú er í fjórða sætinu. Það þarf að vinna þá leiki til að halda okkar liði í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Burnley
Burnley er sem stendur í 18. sæti deildarinnar en hefur verið alveg einstaklega óheppið með frestanir að undanförnu. Hvort sem það er veður eða Covid þá virðast þeir ekki geta fengið tækifæri til að spila fótbolta, enda eru þeir bara búnir að spila 15 leiki á meðan önnur lið hafa öll spilað 17-19 leiki. Síðustu þremur leikjum liðsins hefur öllum verið frestað, þeir spiluðu síðast 12. desember í markalausu jafntefli við West Ham.
A blizzard and a good inch of snow at Turf Moor and Sean Dyche is rocking a shirt and suit trousers #hardasnails pic.twitter.com/ehLpw6jc0u
— Evan Bartlett (@ev_bartlett) November 28, 2021
Burnley hefur ekki skorað í síðustu 3 leikjum. Með öllum frestunum þýðir það að liðið skoraði síðast 20. nóvember. Þá reyndar skoraði liðið 3 mörk í fjörugu jafntefli við Crystal Palace. Síðasti sigur Burnley kom 30. október, í 3-1 sigri gegn Brentford á heimavelli.
Kosturinn við allt þetta hlé er að Burnley hefur getað fengið menn til baka úr meiðslum. Ashley Barnes er reyndar enn frá vegna meiðsla en það er líklegt að hinn fjölhæfi Maxwel Cornet sé kominn aftur eftir meiðsli.
Held að Dyche muni lítið flækja málin heldur henda bara í hið klassíska kerfi, fjóra fjóra tvo:
Bestu menn Burnley á tímabilinu hafa verið miðjumaðurinn Dwight McNeil og varnarmennirnir James Tarkowski og Charlie Taylor. Tarkowski er kominn með eitt mark og tvær stoðsendingar í deildinni á tímabilinu. Maxwel Cornet er markahæstur Burnleymanna með 5 mörk í deild, Chris Wood kemur á eftir honum með 3 mörk. Ashley Westwood er stoðsendingahæstur með 3 stoðsendingar.
Skildu eftir svar