Þá er komið að fyrsta leik Manchester United á árinu 2022. Við eigum fjóra leiki í janúar og þrír þeirra eru heimaleikir sem verður að teljast ágætt í ljósi þess að útivallargengi liðsins er ekki það sama og það var í fyrra. Á morgun mæta Úlfarnir hans Bruno Lage í heimsókn á Old Trafford en þessi 45 ára gamli portúgali tók við af Nuno Espirito Santo í júní á síðasta ári.
Úlfarnir fóru ekki vel af stað í byrjun tímabils en það hefur verið ákveðinn stígandi í leik þeirra og sérstaklega hefur honum tekist að þétta varnarleikinn. Liðið situr í 9. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Man United en eins og flestum er kunnugt þá er lítið mark takandi á töflunni á meðan leikjum hefur verið frestað hægri, vinstri. United situr í 7. sætið en gæti með sigri jafnað West Ham að stigum sem situr í 5. sætinu.
https://twitter.com/ManUtd/status/1477122910749794305
Wolves
Í sumar tók Lage við keflinu af Nuno og fékk til liðsins leikmenn á borð við Trincão, Ait-Nouri, José Sá og Hee-Chan Hwang. Liðinu gékk ekki vel framan á leiktíðinni eins og áður sagði en Lage hefur tekist að stoppa í götin og státar félagið af ansi þéttum og öflugum varnarleik á kostnað sóknarinnar. Raúl Jimenez, þeirra helsti markaskorari, hefur ekki verið eins hættulegur eins og áður frá því að hann snéri til baka eftir að hafa höfuðkúpubrotna í leik gegn Arsenal á síðasta tímabili. Adama Traoré hefur fengið urmul tækifæra en er enn sem komið er ekki búinn að skora í deildinni og það sama á við um Daniel Podence og Fabio Silva.
Lánsmaðurinn frá Red Bull Leipzig, Hwang Hee-Chan, er þeirra markahæsti maður með fjögur mörk og það eru góðar fréttir fyrir varnarlínu United að hann verður ekki í hópnum hjá Úlfunum á morgun þar sem hann er að glíma við vöðvatognun. Það sama á við um Pedro Neto, Willy Boly, Ait-Nouri og Fabio Silva. Fastlega má búast við því að Lage haldi áfram að stilla upp í 3-5-2 leikkerfið með Jimenez og Traoré fremsta.
Varnarlínan, Kilman, Coady og Saiss, hefur skellt í lás og hefur liðið núna haldið hreinu í sjö leikjum í deildinni og fær einungis á sig að meðaltali 0,8 mörk í leik sem er litlu meira en Manchester City (0,6 mörk per leik) og talsvert minna en United (1,4 mörk per leik). Í síðustu sex leikjum Úlfanna hafa einungis þrjú mörk verið skoruð. Einungis Liverpool og City tókst að lauma inn einu marki á lærisveina Lage en á sama tíma tókst þeim einungis að skora eitt mark og kom það gegn Brighton.
Það er heldur ekki verra fyrir liðið að José Sá virðist vera kominn í gang og er ekki bara að verja eins og berserkur heldur er hann kominn á blað með stoðsendingu auk þess að vera valinn maður leiksins í þrígang í deildinni. Hann er sá eini í Úrvalsdeildinni sem stenst samanburð við okkar eina sanna de Gea þegar kemur að tölfræði um mörk sem markvörður hefur komið í veg fyrir.
Það er enginn markvörður heldur með sambærilegt hlutfall þegar kemur að markvörslu en 85,1% þeirra skota sem rata á mark Úlfanna ver hann. Ef við ætlum okkur þrjú stig út úr þessum leik þá er José Sá líklegast stærsta hindrunin á þeirri leið. Þegar litið er á sóknartölfræði Úlfanna er hins vegar allt aðra sögu að segja. Þeir hafa skorað 13 mörk (19. sæti) og einungis Norwich sem hefur skorað færri mörk en þeir.
Þeir eiga líka að meðaltali einungis 9,9 skot í leik (20. sæti) og af þeim fara einungis 3,2 á markið (19. sæti). Það að stóru leyti orsakast af skorti á færum en Úlfarnir skapa að meðaltali einungis 1,7 góð tækifæri í leik (big chances created). Hins vegar gefa þeir mótherjum sínum ekki nema 12 skot í hverjum leik að meðaltali og eru þar í 4. sæti á eftir Liverpool, Chelsea og Man City. Þegar kemur að annarri tölfræði sitja þeir að mestu um miðja deild.
Man United
Úr okkar herbúðum er það sama að frétta og síðast, Lindelöf er enn að jafna sig eftir COVID-19 og Pogba og Martial eru ennþá á meiðslalistanum. Rangnick sagði reyndar að Anthony Martial væri búinn að tjá honum að hann vildi fara og því eðlilegt að hann verði ekki í hópnum þrátt fyrir það ef hann nær að jafna sig fyrir leikinn. Bruno Fernandes er búinn að jafna sig eftir álagið sem fylgir fimm gulum og fyrst Donny van de Beek fékk ekki tækifæri í fjarveru portúgalans þá tel ég ólíklegt að hann fái tækifæri gegn Úlfunum.
Ralf Rangnick hefur verið að prófa sig áfram með mismundi uppröðun í varnarlínu sinni en miðað við frammistöðu Aaron wan-Bissaka býst ég við að Diogo Dalot fái hægri bakvarðarstöðuna en meiri óvissa ríkir um vinstri hlutann. Annars spái ég liðinu einhvern veginn á þennan veg:
Jadon Sancho virðist loksins vera að komast í takt við liðsfélaga sína og Ronaldo velur sig sjálfur. Varane var ryðgaður og skítkaldur gegn Newcastle en varnarlína United án hans (þegar hann er heill) er bara ekki samanburðarhæf, hvað þá þegar sænski prinsinn er líka fjarri góðu gamni. Sama má segja um Cavani, það er eitthvað sem hann færir liðinu sem gerir það mun betra. Það sást vel í leiknum gegn Newcastle þegar hann kom inn á og í leiknum gegn Burnley.
Eftir viku verður svo komið að fyrsta leik liðsins í bikarnum en þá mætum við Aston Villa í einskonar upphitunarleik fyrir næsta deildarleik sem er útileikur gegn Aston Villa. Bikarleikurinn um næstu helgi er því kærkomið tækifæri fyrir „minni spámenn“ í liðinu til að sýna sig og sanna fyrir nýjum stjóra og á sama tíma kærkomin hvíld fyrir byrjunarliðsmenn liðsins. Það þarf þó að minnast á það að það eru miklar líkur á því að einhver þeirra United-leikja sem frestað var verði settir á dagskrá hjá liðinu í janúar en liðið á eftir að spila við Brentford og Brighton.
En leikurinn gegn Úlfunum hefst á morgun 17:30 en sigur í leiknum er gríðarlega mikilvægur ef liðinu ætlar að takast að mynda öryggisbil niður í liðin fyrir neðan okkur. Síðustu leikir þessara liða hafa verið ansi þurrir og ekki mikið fyrir augað. Þetta hafa verið baráttuleikir sem hafa gjarnan þróast út í algjör miðjumoð og hálfgerðan mýrarbolta þar sem niðurstaðan verður oftar en ekki jafntefli og ef ekki þá eins marks sigur.
Þegar þetta er skoðað og á sama tíma tekið tillit til þess forms sem liðin eru í um þessar mundir þá er ekki mjög mikil hætta á neinni flugeldasýningu. Wolves gengur ekkert að skora en frábærir að liggja djúpt og verjast frábærum sóknarliðum en United á sama tíma hálf ráðalausir gegn liðum sem verjast djúpt og leyfa andstæðingnum að hanga á boltanum án þess að skapa sér nokkurn skapaðan hlut.
Baráttan um 4. sætið hefur svo aldeilis harnað þar sem Arsenal, Tottenham og West Ham eru öll á góðu skriði þessar vikurnar og því mikilvægt að gefa ekki þumlung eftir. Þá þarf einnig að hamra járnið á meðan það er heitt en Arsenal tapaði stigum í gær og augljóst að einhver liðanna fyrir ofan okkur munu gera það á komandi vikum þar sem þau mætast innbirgðis.
Mín spá er sú að leikurinn við Úlfana fari bara á einn veg. Það liggur í loftinu að jafntefli verði niðurstaðan en ef það kemur mark í leikinn snemma, n.b. fram að Burnley leiknum hafði United ekki tekist að skora deildarmark á fyrstu 15 mínútunum, má búast við opnari og skemmtilegri leik en undanfarin misseri. 1-0 fyrir United á 81. mínútu með skallamarki frá Ronaldo eftir fyrirgjöf frá hægri kantinum og Ralf Rangnick heldur áfram að malla Unitedlestinni í fyrsta gír með enn einum 1-0 sigrinum. Maður leiksins verður samt sem áður McFred. Glory, glory!
Audunn says
Vinnum 2-0 og Jones með bæði mörkin með skalla eftir hornspyrnur :)