Ralf Rangnick gerir þrjár breytingar frá leiknum gegn Aston Villa um helgina en leikmenn eins og Ronaldo, Rashford og Maguire hafa verið að glíma við smávægileg meiðsli en Shaw og McTominay voru í leikbanni eftir uppsöfnuð gul spjöld. Helstu fréttir kvöldsins voru samt þær að Rangnick stillti ekki upp í 4-2-2-2 heldur 4-2-3-1 og í fjarveru Maguire og Ronaldo var Bruno með bandið. Raunar má færa rök fyrir því að liðið hafi stillt upp í 4-3-3 með Matic sitjandi dýpst á miðjunni og Fred og Bruno sitthvoru megin við hann.
Á bekknum voru þeir Henderson, Heaton, Jones, Maguire, Lingard (’88), Mata, Sancho (’75) og Van de Beek (’88).
Steven Gerrard stillti upp sterku liði heimamanna:
Á bekknum voru svo þeir Steer, Kesler-Hayden, Targett, Hause, Iroegbunam, Chukwuemeka, Archer og nýjasta viðbótin við liðið, Philippe Coutinho.
Leikurinn
United byrjaði leikinn af miklu meiri krafti en heimamenn og fóru fyrstu sex mínúturnar nær eingöngu fram á varnarþriðjungi Villa. United vann hvert fasta leikatriðið á fætur öðru og uppskar að lokum aukaspyrnu vinstra meginn á vellinum. Þeir Alex Telles og Bruno stóðu yfir boltanum en í stað þess að lúðra boltanum beint á kollinn á fremsta varnarmanninum þá hljóp Telles yfir boltann og sendi hann aftur fyrir sig á meðan Bruno tók við honum og fór nær teignum. Fyrirliðinn kom með skot fyrir utan sem fór beint á Martínez en argentíski búrvörðurinn missti boltann á klaufalegan hátt á milli fóta sér og inn lak boltinn. Klárlega ekki fallegasta markið hjá Bruno en telur jafn mikið.
Reyndar vildi Martínez meina að Cavani hefði verið rangstæður og haft áhrif á sjónarsviðið með fyrrnefndum afleiðingum en markið dæmt gott og gilt, a.m.k. gilt.
Áfram héldu yfirburðir Manchester United næstu mínúturnar en þegar 12 mínútur voru liðnar voru heimamenn einungis búnir að vera með boltann um 15% af leiknum. Mesti sóknarþungi United kom upp vinstri vænginn þar sem Elanga og Telles sáu um að halda breiddinni með Bruno með sér. Sá sænski var mjög líflegur framan af og minnti um margt á Rashford á fyrstu mánuðunum sínum í aðalliðinu. Hann var beinskeyttur, áræðinn og hugrakkur í sóknaraðgerðum sínum og var að valda Matty Cash og Konsa miklum vandræðum.
Anthony Elanga átti svo ágætis færi þegar hann stakk þessa fyrrnefndu herramenn af en datt í teignum en kom engu að síður boltanum með örlitlu klafsi á Cavani en færið rann út í sandinn. Næsta hættulega sóknin kom svo þegar Greenwood fékk fyrirtaks færi. Boltinn hrökk þá upp í loftið vinstra meginn úr teignum, yfir á fjærstöngina þar sem Greenwood tók boltann í fyrstu en Emi Martínez var mættur út á móti og náði að loka vel á skotið og bjarga í horn.
Einungis tveimur mínútum síðar lagði Greenwood af stað í eins manns sókn þegar hann lék heimamenn grátt á hægri kantinum og brunaði framhjá þeim og dróg sinn inn á miðjuna en lét að lokum samherja fá boltann og lítið varð úr sókninni.
Eftir 31 mínútu kom loksins fyrsta færi heimamanna þegar David de Gea þurfti að verja frá Watkins eftir að Emi Buendía átti sendingu í gegnum vörnina. Hættulegasta færið þeirra kom þó þegar Cash brunaði niður að endalínunni hægra megin við markið og átti fyrirgjöf sem rataði á hinn bakvörðinn, Digne, sem var einn og óvaldaður og hamraði boltann í fyrsta en de Gea varði með fótunum. Það var honum að þakka að United fór inn í klefann í hálfleik með forystuna.
Síðari hálfleikur
Heimamenn byrjuðu þann seinni eins vel og United hafði byrjað þann fyrri. Þeir réðu lögum og lofum fyrstu mínúturnar en þrátt fyrir það átti Elanga fyrsta skotið í síðari hálfleik en Martínez sá við honum. Jacob Ramsey átti síðan skot á markið hjá gestunum stuttu síðar en hann átti eftir að koma meira við sögu þrátt fyrir að sá spænski hefði varið í þetta skiptið. Næsta færi heimamanna féll svo í skaut Buendía eftir að sá smávaxni fékk frían skalla á markið en de Gea vel staðsettur og beint á hann.
Hinu megin á vellinum héldu þó varnarmistökin áfram. Matty Cash reyndi að hreinsa boltann á vítateigslínunni, en boltinn fór hátt upp í loftið en endaði hjá Elanga sem tók nokkra varnarmenn á og skaut svo rétt framhjá markinu en Bruno, sem var einn og óvaldaður í um 4 metra fjarlægð var æfur yfir því að sá sænski hefði ekki rúllað boltanum á hann þar sem hann var í upplögðu færi.
Næst var komið að Greenwood þegar hann fékk boltann frá Fred og bar boltann inn í teig heimamanna og tók skot með hægri úr þröngu færi en boltinn sleikti stöngina og spurning hvort hann hefði frekar átt að reyna fyrirgjöf eða skot með vinstri úr þessu færi. Aftur var það svo Fred, sem að þessu sinni komst inn í arfaslappa sendingu frá Sanson og bar boltann að vítateignum og dróg um leið varnarmenn í sig sem skapaði pláss fyrir Bruno Fernandes. Sá portúgalski fékk stungusendinguna og gjörsamlega smurði boltann í neðri hluta þverslánnar og inn. 0-2 og United í virkilega góðum málum þegar innan við hálftími var eftir af leiknum.
Á 68. mínútu urðu ákveðin kaflaskil í leiknum þegar gamall erkióvinur United, Coutinho, kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir Aston Villa og skömmu síðar kom Chukwuemeka inn á. Þessir tveir leikmenn voru svo viðriðnir næsta mark leiksins þegar sá síðarnefndi kom boltanum á Coutinho sem dansaði inn í teig gestanna og fann Jacob Ramsey óvaldaðan sem skoraði með þrumu fram hjá de Gea. 1-2 og völlurinn tók virkilega við sér.
Fimm mínútum síðar gerðist það svo sem lá í loftinu. Heimamönnum tókst að jafna þegar Buendía kom boltanum á téðan Ramsey sem átti laglega sendingu fyrir markið á fjærstöngina þar sem Coutinho var svo mættur fyrstur manna og skoraði. Varane hefði að öllum líkindum náð tá í boltann ef hann notaði hálfu númeri stærra af skóm en staðan orðin 2-2 og eftirleikurinn virtist vera dæmdur til þess að „þrauka fram að flauti“ fyrir United.
Coutinho átti svo annað færi og virtist ekkert benda til annars en að ef einhver myndi stela sigrinum á lokasprettinum þá yrðu það heimamenn. Buendía meiddist í upphafi viðbótartímans sem gerði það að verkum að leikið var í tæpar 7 mínútur umfram þessar hefðbundnu 90 en á ’90+6 féll boltinn fyrir Van de Beek, sem hafði ásamt Jesse Lingard, komið inn á rétt fyrir 90. mínútu. Sá hollenski tók snúning inn í teignum, virtist týna boltanum en fann hann fljótt aftur en skot hans var stoppað af Hause og þar með rann síðasta færi leiksins út í sandinn.
Að leik loknum…
Það er augljóst að liðið er að spila langt undir getu. Þrátt fyrir meiðsli og kórónuveirusmit, sem reyndar flest öll lið eru að glíma við líka, þá er hópurinn sem við telfdum fram í kvöld það sterkur að hann á að geta unnið Aston Villa á útivelli ef menn spila nálægt getu. En vandamálið virðist vera stöðugleikinn, því United er aldrei með 11 byrjunarliðsmenn sem eru allir að spila nálægt getu. Það eru alltaf einhverjir sem eiga slæman dag og hvernig sem viðrar hjá okkur virðast mótherjar okkar eiga mjög auðvelt með að gíra sig upp.
Leikurinn í dag sýndi að minnsta kosti að Rangnick er ekki eins þrjóskur stjóri og forverar hans. Í síðustu leikjum hefur 4-2-2-2 leikkerfið þurft að víkja í síðari hálfleik og nú var uppleggið greinilega 4-3-3 með Matic dýpstan. Það gerði það að verkum að við sáum betri hliðina af Fred í dag þar sem hann spilar rullu svipaða þeirri og hann gerir með brasilíska landsliðinu. Hins vegar er Matic ekki sambærilegur Casemiro og virtist serbinn eiga í stökustu vandræðum með að fóta sig í þeim síðari.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1482428593472950274
Bruno virtist líka loksins vera að vakna af værum blundi og átti flottan leik. Vissulega var Martinez gjafmildur í byrjun leiks en portúgalinn var mjög góður í dag. Það sama má segja um Varane, David de Gea og Anthony Elanga. En enn og aftur voru margir farþegar í liðinu í dag og það var að lokum það sem gerði út um leikinn.
Bæði lið áttu 13 skot og sjálfsagt jafntefli sanngjarnasta niðurstaðan. Fyrir leik hefðu sjálfsagt einhverjir stuðningsmenn tekið jafnteflinu en þegar lið er komið með tveggja marka forystu og rúmar tuttugu mínútur eru eftir af leiknum þá er óneitanlega súr tilfinning sem fylgir þessu staka stigi þegar öll þrjú stigin voru innan seilingar. Úrslitin þýða það að eftir 20 leiki er United með 32 stig, að meðaltali 1,6 stig úr leik. Það þýðir lítið að horfa á liðin í kringum okkur þar sem sum lið hafa spilað 21 leik en sum 1, 2 eða 3 leikjum færra.
Það verður á brattann að sækja ef liðið ætlar sér fjórða sætið en næst er viðureign gegn Brentford sem lögðu Aston Villa fyrir skemmstu og þrátt fyrir að einhverjir vilji meina að þeir liggi vel við höggi þá getur það auðveldlega snúist við þegar þeir mæta Rauðu djöflunum. Viðureignin er á miðvikudaginn kl 20:00.
Zorro says
Ùff hvað við eigum langt i land…öll lið yfirspila okkur
Rúnar P says
Að taka Elanga út af og setja Sancho inn á, leikmaður sem nennir varla að hreyfa sig!
Sveinbjörn says
„Fyrir leik hefðu sjálfsagt einhverjir stuðningsmenn tekið jafnteflinu…“
Veit reyndar ekki um marga sem hefðu gert það en klúbburinn er kominn á ansi slæman stað ef menn sætta sig við jafntefli fyrir leik á móti Aston Villa…
Það er löng leið framundan hjá Rangnick og félögum, vonandi er þetta rétti þjálfarinn fyrir okkur.
Friðrik Már says
Eflaust einhverjir stuðningsmenn sem horfðu á bikarleikinn gegn Villa á mánudaginn og bjuggust við að þeir myndu vinna okkur.
En já, jafntefli við Villa eiga ekki að vera gleðifréttir. En ég er líka að tala um að einhverjir hefðu tekið jafnteflinu út frá þeirri frammistöðu og gengi liðsins að undanförnu.
Scaltastic says
Fyrstu 30 mín voru það besta frá liðinu sem ég hef séð á þessu tímabili, restin af leiknum var samt kunnuglegt stef.
Svo að orð mín misskilist örugglega ekki. Þessi leikmannahópur er tæknilega góður og kann alveg að spila fótbolta. Einnig er ég ekki að fordæma líkamlegt þrek leikmanna.
Hins vegar þá er liðið okkar í league one gæðum þegar það kemur að fitness level-i. Í fljótu bragði þá dettur mér aðeins tveir menn (Macca og Bailly) sem hafa alvöru samkeppnishæfann styrk, sprengikraft og hraða miðað við premier league.
Þetta er langt frá því að vera hernaðarleyndarmál, öll hin liðin gera sér grein fyrir þessu. Ole gerði sér grein fyrir þessu, Ralf gerir sér grein fyrir þessu. Skrifstofan… keep up the good work, þetta er allt á réttri leið ;)
Tómas says
Eins svekkjandi og jafnteflið var. Sá maður hluti sem mér finnst gefa til kynna þetta sé á réttri leið.
En það bráðvantar í þetta lið sérstaklega DM eins og allir vita.
S says
Rangnick að segja stjórninni að losa sig við Shaw, AWB og Maguire. Ég veit ekki með ykkur en hann Ralf er að skora hátt hjá mér með þessu útspili.