Þá er komið að næsta leik United en það er viðureign við nýliðana í Brentford sem átti að fara fram í desember en vegna kórónuveirufaraldursins var leiknum frestað. Um liðna helgi átti Manchester United erfiðan útileik gegn Aston Villa þar sem liðið glutraði niður tveggja marka forystu og voru líklega heppnir að sleppa heim með stig í farteskinu.
Ralf Rangnick hefur nú stýrt liðinu í átta leikjum og úr þeim komið 4 sigrar, 3 jafntefli og 1 tap. Honum hefur ekki enn tekist að setja mark sitt á leikstíl liðsins og einhverjir leikmenn virðast eiga í stökustu vandræðum með að finna sig í þessu nýja 4-2-2-2 leikkerfi hans. Það varð úr að Rangnick stillti því upp í 4-3-3 sem virtist ganga ansi vel í 70 mínútur en því miður er hver leikur 90 mínútur og því fór sem fór.
En á morgun taka býflugurnar í Brentford á móti okkur en Brentford sem var á efra skilti deildarinnar í desember þegar liðin áttu að mætast situr núna í 14. sæti deildarinnar með 1 sigur í síðustu sex leikjum sínum í deildinni. Sá leikur var einmitt gegn Aston Villa og tókst Býflugunum hans Thomas Frank því það sem okkur tókst ekki um helgina, að klára Aston Villa.
Brentford
Saga liðsins er hreint ótrúleg en liðið spilaði síðast í efstu deild á Englandi fyrir 74 árum. Tímabilið 2006/2007 endaði liðið í neðsta sæti í League One og féll í League Two (d-deildina). Var það að stóru leyti því að kenna að liðið tapaði 10 af síðustu 13 leikjunum í deildinni og fékk á sig 79 deildarmörk yfir tímabilið. Liðið fór í gegnum þrjá stjóra á tímabilinu og til að strá salti ofan í sárin voru fjármál félagsins í hræðilegum málum. En það var uppalinn Brentford stuðningsmaður, Matthew Benham, sem reyndist bjargvættur liðsins. Í september mánuði árið 2005 hafði hann hlaupið undir bagga fyrir félagið og lánað stuðningsmönnum eina milljón punda til að kaupa félagið sem um leið varð fyrsta atvinnufótboltafélagið í Lundúnum þar sem stuðningsmenn áttu meirihluta í félaginu.
Þrátt fyrir þessa peningainnspýtingu gekk ekki vel á vellinum og féll liðið eins og áður sagði í League Two og endaði liðið um miðja deild um vorið 2008. Þá var endurgerður samningur við Benham sem tryggði félaginu eina milljón punda árlega til fimm ára. Þetta gerði það að verkum að hann eignaðist 35% hlut í félaginu og liðinu tókst að vinna sig upp í League One aftur tímabilið á eftir. Að lokum gerði Benham enn einn samninginn við liðið sem færði honum meirihlutavöld yfir liðinu árið 2012.
Áhrifin Benham voru ekki einungis fjárhagsleg því með auknum umsvifum hans innan félagsins jókst áhersla liðsins á tölfræðigögn og leikgreiningu. Liðið gerði afskaplega vel á leikmannamarkaðinum og byggðist stefna liðsins á því að vinna út frá þessum gögnum og kaupa leikmenn sem voru vanmetnir þegar kom að verðlagi. Liðið fékk til liðs við sig leikmenn frítt eða fyrir lága upphæðir en seldi þá oft með miklum hagnaði stuttu síðar. Þannig kom Adam Forshaw frítt en var seldur á 3,5 millj. punda, eins með Stuart Dallas en hann seldur á 1,7 millj. punda. Andre Gray var fenginn til liðsins á 558 þús. pund en Burnley keyptu hann á rúmar 11 millj. punda einungis ári síðar.
Þannig hefur þetta haldist síðan, liðið notaði hagnaðinn af Gray sölunni til að fjármagna kaup á Ollie Watkins (6,5 millj.) og Neal Maupay (1,8 millj.) fyrir tímabilið 2017/2018. Tveimur árum síðar seldu þeir Maupay á 20 millj. og í fyrra seldu þeir Watkins á 30,5 millj. Þá keyptu þeir Saïd Benrahma (1,5 millj.) og Ezri Konsa (2,6 millj) og seldu þá á 24 millj. og 12 millj. innan tveggja ára.
Þetta hljómar örlítið eins og Jóakim Aðalönd sé að spila Football Manager en þrátt fyrir þessa gífurlegu leikmannaveltu hefur liðið staðið sig gríðarlega vel á vellinum á sama tíma. Eftir fimm ár í League One (2009/10 til 2013/14) tókst liðinu að vinna sér sæti í næstefstu deild (Championship) undir stjórn Mark Warburton. En þrátt fyrir að koma liðinu í umspilssæti á sínu fyrsta tímabili (5. sæti) tilkynnti stjórn Brentford að Warburton yrði ekki stjóri liðsins áfram. Liðið féll úr leik í umspilinu og næst tóku við stjórar sem ekki reyndust langlífir í starfi en í nóvember sama ár tók Dean Smith við liðinu sem þá endaði í 9. sæti. Á næstu fjórum tímabilum var liðið rétt fyrir ofan miðja deild og virtist vera að fóta sig í deild þeirra næstbestu á Englandi.
Það var svo í desember 2016 sem daninn Thomas Frank kom til liðsins sem aðstoðarþjálfari, en þegar Dean Smith lét af störfum í október 2018, tók Frank við aðalliðinu. Thomas Frank hafði þá einungis stýrt Brøndby í þrjú ár og þar áður stýrt unglingalandsliðum Danaveldis. Hann kláraði tímabilið 2018/19 með liðið í 11. sæti en á sínu fyrsta heila tímabili skilaði hann liðinu í 3. sæti Championship deildarinnar þrátt fyrir að hafa selt helsta markaskorara liðsins, Neal Maupay, fyrir tímabilið. Í undanúrslitum umspilsins lék liðið í síðasta sinn á heimavellinum Griffin Park og var það eins og skrifað í skýin að liðið myndi kveðja heimavöllinn til 116 ára á leið sinni í deild þeirra bestu.
Í úrslitum umspilsins mætti Brentford Lundúnaliðinu Fulham en eftir að David Raya, markvörður Brentford, gerðist sekur um eitt dýrasta skógarhlaup sögunnar sat liðið eftir í Championshipdeildinni með sárt ennið. Gríðarleg vonbrigði fyrir Thomas Frank og lærisveina hans en einnig Matthew Benham og aðra stuðningsmenn liðsins sem fæstir hverjir voru á lífi síðast þegar liðið var í efstu deild. Því á tímabilinu var mikið rætt um sóknarþríeyki liðsins, sem samanstóð af Said Benrahma, Bryan Mbeumo og Ollie Watkins eða BMW-línan en henni var stundum líkt við framlínuþríeyki Liverpool endar röðuð þeir inn mörkunum og var Watkins markahæstur í deildinni með 25 mörk.
Það boðaði því ekki gott að liðið missti bæði Benrahma og Watkins í sumarglugganum 2020. En rétt eins og áður, það kemur maður í manns stað og Ivan Toney, sem hafði verið hjá Peterborough í neðri deildunum fékk að stíga á sviðið. 31 mark frá honum í deildinni hjálpaði svo sannarlega liðinu sem endaði í 3. sæti á eftir Norwich og Watford en að þessu sinni fór liðið í gegnum úrslitaleik umspilsins og mætti lítilli mótspyrnu frá Svönunum í Swansea City og draumurinn orðinn að veruleika. Í fyrsta sinn í 74 ár var Brentford á meðal þeirra bestu.
Byrjun leiktíðarinnar hjá Brentford lofaði einnig góðu en eftir að meiðsli fóru að setja strik í reikninginn þá situr liðið í 14. sæti með 23 stig og markatöluna -9. Samt sem áður hefur liðið lagt lið eins og West Ham, Arsenal, Aston Villa og gert 3-3 jafntefli við Liverpool svo Brentford virðist eiga fullt erindi í deildina. Thomas Frank hefur verið lunkinn og sveigjanlegur þegar kemur að því að stilla upp liði Brentford. Að undanförnu hefur hann einna mest stuðst við 3-5-2 leikkerfið þar sem Mbeumo og Toney hafa leitt sóknina saman sem er mikil breyting frá því í Championship deildinni þegar liðið spilaði yfirleitt 4-3-3.
Hins vegar hafa meiðsli og aðrir utanaðkomandi þættir þvingað Frank til að breyta til í fjarveru lykilleikmanna eins og Josh Dasilva og David Raya og þá greindist Ivan Toney með COVID-19 nýverið en er aftur kominn á stjá. Liðið er þekkt fyrir að vera sérlega hættulegt í föstum leikatriðum rétt eins og Arsenal menn fengu að kynnast í upphafi leiktíðar og þá hefur liðið einnig verið þekkt fyrir mikla þrautseigju ekki ósvipað og United á síðustu leiktíð og eru vanir að sækja stig þrátt fyrir að lenda undir í leikjum. En ég spái liðinu svona:
Hættulegustu leikmenn liðsins eru vitaskuld Bryan Mbeumo og Ivan Toney en því miður fyrir heimamenn þá hefur Mbeumo átt auðveldara með að hitta í rammann sjálfan en inn í hann og Toney er búinn að vera mjög kaldur á þessu tímabili.
Manchester United
Það er fátt sem fær United stuðningsmenn til að brosa þessa dagana. Fjöldinn allur af sögusögnum um óánægju leikmanna, kergju meðal þeirra og misvísandi sögur og lekar úr klefanum eru ekki að hjálpa. Eftir leikinn gegn Aston Villa sagði Rangnick að Anthony Martial hefði ekki viljað vera í hópnum fyrir leikinn en sá franski póstaði samdægurs á samfélagsmiðlum að það væri ekki rétt. Twitter teymi liðsins ákvað svo að henda í 50 leikja status fyrir Donny van de Beek sem hefur spilað 69 mínútur í deildinni og ekki byrjað deildarleik á þessari leiktíð. Í raun hálf kómískt að hann er með 1, 2, 4, 1, 1, 45, 10, og 5 mínútur spilaðar í þessum 8 leikjum sem hann hefur komið inn á í deild.
Líkamstjáning leikmanna á borð við Rashford, Greenwood, Ronaldo og Bruno hefur verið mjög mikið gagnrýnd og það þarf engum blöðum að fletta að andrúmsloftið í klefanum er ekki í lagi. Fjölmargir leikmenn liðsins virðast óánægðir með leiktímann og vilja burt. Lingard, van de Beek, Eric Bailly o.fl. virðast réttilega gera kröfu á fleiri mínútur en allt kemur fyrir ekki.
Þrátt fyrir að strax í fyrsta leik liðsins undir stjórn Ralf Rangnick hafi ýmsar áherslubreytingar gert vart við sig er hverjum manni það ljóst að það var skammgóður vermir og að enginn ætti að drekkja sér í gleðinni og peppinu. Liðið marði Crystal Palace og Norwich og hefði líklegast ekki skilað 3 stigum gegn erfiðari andstæðing. Liðið sýndi t.a.m. ekki sömu ákefð í að vinna aftur boltann gegn Kanarífuglunum eins og það gerði gegn Örnunum og skapaði ekki mörg færi. Eftir það kom 0-1 tap gegn Úlfunum og 2-2 endurkomujafntefli frá Aston Villa. En vitaskuld er erfitt fyrir Rangnick að gjörbreyta leikstíl liðsins eins og hendi væri veifað á miðri leiktíð og með leikjaplanið eins þétt og það er.
Rangnick stillti upp breyttu liði um helgina en helst var það að frétta að Anthony Elanga, 19 ára gamall svíi úr akademíunni, byrjaði á vinstri kantinum. Sá stutti var sannarlega líflegur og áræðinn og virkar mjög spennandi leikmaður. En leikir vinnast og tapast á miðsvæðinu og þar erum við því miður ekki mjög vel mannaðir. Matic og Fred voru langt frá sínu besta gegn Aston Villa, tankurinn hjá serbanum tæmdist á innan við klukkustund og Fred var mjög mistækur og vel sjáanlegt hvers vegna sumir hafa sagt að lið fókuseri á að pressa hann þegar hann er á boltanum.
Ronaldo var hvergi sjáanlegur gegn Aston Villa og var að glíma við einhver smávægileg meiðsl fyrir leikinn en vonandi verður hann búinn að jafna sig á þeim fyrir leikinn gegn Brentford. Cavani komst lítið á boltann um helgina og er eflaust ekki maður í marga leiki á viku svo portúgalinn verður að taka við keflinu að mínu mati.
Aðrir sem eru frá vegna meiðsla, veikinda, Afríkukeppninnar eða með aðrar ástæður: Aaron Wan-Bissaka, Anthony Martial, Marcus Rashford, Paul Pogba, Amad Diallo, Eric Bailly og Hannibal Mejbri. Góðu fréttirnar eru þó þær að Pogba, Ronaldo og Rashford voru á síðustu æfingu liðsins en frakkinn verður þó ekki leikfær ef marka má orð Rangnick.
Scott McTominay var í leikbanni rétt eins og Luke Shaw fyrir síðasta leik en telja má víst að Rangnick setji saman þá McFred og Bruno í miðjuna ef hann snýr aftur með 4-3-3. Þessi þétti miðjupakki býður upp á er að pressan byrjar mun framar á vellinum og varnarlínan getur leyft sér að fara ofar á völlinn um leið þegar við erum með Raphael Varane í liðinu. Þó má gera ráð fyrir því að enski landsliðsmiðvörðurinn, Harry Maguire, detti inn í liðið á kostnað sænska prinsins og myndi, ásamt Varane, hjarta varnarinnar.
Ef liðið ætlar sér að vera með í baráttunni um 4. sætið og reyna að tryggja áframhaldandi veru sína í Meistaradeildinni á næsta ári þá þarf Ralf Rangnick að fara ráða úr þessari flækju sem liðið er í. Hann virðist vera búinn að gefa eftir 4-2-2-2 leikkerfið en stærsta vandamálið sem blasir við núna virðist vera að gera menn andlega tilbúna fyrir verkefnin. Það virðist þó vera þrautin þyngri, þrátt fyrir að leikmenn fá nokkra tíkalla fyrir vikið og að búið sé að ráða Sascha Lense íþróttasálfræðing til að reyna að skrúfa toppstykkin á þessa leikmenn.
Næstu leikir liðsins eru svo West Ham (heima), Middlesborough (bikar), Burnley (úti), Southampton (heima) og Leeds (úti). Á blaðinu ættu þetta að vera 12 stig og næsta umferð í bikarnum en ég skal éta hattinn minn ef sú verður niðurstaðan. Leikurinn á morgun hefst kl 20:00.
Egill says
Erum við að spila við prime Barcelona eða Brentford?
Egill says
Ohh skrifaði í rangan pistil