Ralg Rangnick gerði eina breytingu á liðinu sem mætti Aston Villa á sunnudaginn var. Í stað Cavani kom Ronaldo inn.
Á bekknum voru þeir: Henderson, Heaton, Maguire(’70), Mata, Jones, Matic(’84), van de Beek, Rashford(’70) og Martial.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði ekki vel, a.m.k. ekki fyrir United menn. Brentford mættu eins og þeir hefðu gírað sig upp í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og voru dýrvitlausir framan af. Fyrstu mínúturnar virtist mark liggja í loftinu og einungis David de Gea í fantaformi sem sá við þeim. United var kannski meira með boltann en þeir hunskuðust ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut af viti með hann. Mathias Jensen og Vitaly Janelt fengu sitthvort dauðafæri sem de Gea varði með lipurri fótafimi og Bryan Mbeumo var eins og gazella út um allan völl og mætti halda að það hefðu verið þrjú eintök af honum á vellinum.
Á meðan voru miðjumennirnir okkar, sérstaklega McTominay og Bruno, að hanga á boltanum fá menn í bakið og missa boltann á hættulegum stöðum. Þetta var eflaust besti leikurinn til að fá akkurat núna. Heimamenn voru tilbúnir í slaginn og mættu í hverja tæklinguna og hvert einvígið með það markmið að koma út sem sigurvegari á meðan United virtust vera að reyna að hanga fram að hálfleik.
Því hvernig getur lið sem er 70% með boltann gert nákvæmlega ekki neitt allan hálfleikinn á meðan heimaliðið rétt kemur við boltann en eru stórhættulegir í hvert skiptið? Þeir spiluðu líka upp á föstu leikatriðin, sem virðast ætla verða einhvers konar farsi hjá okkar mönnum þrátt fyrir að Eric Ramsey eigi að heita set-piece specialist-inn okkar. Það var þá, liðið var í eintómum vandræðum hvort sem um var að ræða hornspyrnur eða löng innköst.
Ekki gékk heldur betur sóknarlega í föstu leikatriðunum. Undirritaður fór á Kjarnafæðismótið hjá 8. flokk í sumar og þar eru ekki teknar hornspyrnur en ég efast stórlega um að þær væru verri en það sem var boðið upp á frá okkar mönnum í dag. Þar að auki skapaðist oft á tíðum heilmikil hætta eftir föstu leikatriðin okkar þar sem Brentford komst í boltann og brunaði í sókn.
Diogo Dalot átti reyndar ágætis tilraun fyrir utan teig á 25. mínútu en mikill snúningur á boltanum varð til þess að hann skrúfaðist frá vinklinum. Stuttu síðar fékk svo Jansen aftur tækifæri en enn varði de Gea með kolkrabbalíkri fótavinnu. Ethan Pinnock var svo þeirra hættulegasti maður í föstu leikatriðunum en hann átti fínan skalla á markið eftir rúmlega hálftíma leik. Báðum liðum mistókst hins vegar að skora í fyrri hálfleik, öðru liðinu mistókst að komast framhjá markverðinum en hinu liðinu mistókst að finna markið en það átti eftir að breytast.
David de Gea made 3 saves from shots inside the box in the first half, Brentford ended the half with an XG of 1.15.
Made some crucial saves. 🇪🇸🧤 pic.twitter.com/zgKaWvoKJe
— Statman Dave (@StatmanDave) January 19, 2022
Síðari hálfleikur
Þegar liðin mættu út úr búningsklefum í síðari 45 mínúturnar var greinilega búið að sparka í nokkra yfirborgaða rassa. Menn mættu út á völl eins og þeir ætluðu sér að spila tuðruspark. Strax á fyrstu mínútu komst Ronaldo í færi þegar hann fékk sendingu frá Mason Greenwood en færið var þröngt og skotið fór af varnarmanni og í horn. Úr horninu, sem var tekið stutt, kom ágætisfæri fyrir Ronaldo en skalli hann datt ofan á þverslánna en að öllum líkindum var portúgalinn í rangstöðu þegar sendingin kom.
Reyndar fékk Mathias Jensen ENN eitt tækifærið hinu megin á vellinum eftir hraða sókn heimamanna en honum tókst ekki að nýta færið sem Mbeumo skapaði. Sem betur fer fyrir okkar menn átti sá franski eftir að hafa sig hægan í síðari hálfleik miðað við þann fyrri.
En eftir tíu mínútna leik dróg loks til tíðinda. United var búið að liggja í sókn, en loksins virtist einhver ógn fylgja með, þegar Fred fékk boltann eftir að boltinn var búinn að berast manna á milli fyrir utan teiginn án þess að nokkur glufa hefði myndast á vörninni. Sá brasilíski kom auga á Anthony Elanga sem tók afbragðsgott hlaup inn í teig með Jansson á hælunum. Sænski prinsinn gerði gífurlega vel þegar hann tók við boltanum en boltinn hrökk af fætinum og upp í höfuð hæð á meðalmanni (semsagt vel yfir Elanga) sem stökk upp og skallaði boltann í netið framhjá Lössl í markinu. 0-1 og þungu fargi létt af öllum United mönnum.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1483911935712190471
Það leið ekki á löngu þar til dróg til tíðinda aftur. McTominay, sem var gríðarlega kraftmikill og vinnusamur í dag, átti þá sendingu fram völlinn á Ronaldo sem kassaði boltann í hlaupaleiðina hjá Bruno sem stakk vörn heimamanna af og geystist í átt að teignum. Greenwood tók af rás með honum og þegar Lössl kom út á móti Bruno renndi hann boltanum fimlega yfir á Greenwood sem skoraði í tómt markið og tvöfaldaði forystun. 0-2.
Thomas Frank gerði þá þrefalda skiptingu og inn á komu þeir Shandon Baptiste, Yoane Wissa og Rico Henry í stað þeirra Vitaly Janelt, Sergi Canós og Mathias Jensen. Það gaf heimamönnum byr undir báða vængi fyrir lokametrana en mótleikur Ralf Rangnick fólst í því að taka Cristiano Ronaldo og Mason Greenwood útaf á 70. mínútu fyrir þá Harry Maguire og Marcus Rashford. Þétta átti vörnina og fara í 3 miðvarða varnarlínu til að draga sigurinn yfir línuna og forðast klúður eins og gegn Aston Villa um síðastliðna helgi.
Heimamenn virtust vera að snúa við blaðinu og ná smá yfirhönd í leiknum á 76. mín en þá fengu þeir þriðja markið í andlitið eins og rennblauta tusku. Scott McTominay vann enn einn boltann á miðjunni og snéri af sér tvo leikmenn áður en hann kom boltanum á Bruno Fernandes sem bar boltann að vítateignum. Marcus Rashford kom þá eins og eins manns eimreið hægra meginn við portúgalska töframanninn og fékk stungu inn fyrir vörnina og hamraði boltann á 170 km/klst upp í nærvinkilinn og gulltryggði sigurinn og þrjú verðmæt stig á töfluna.
Scott McTominay neyddist síðan til að fara af velli vegna meiðsla og í hans stað kom Nemanja Matic. Serbinn kom inn á þegar heimamenn fengu innkast ofarlega á vellinum en Beck, sem hafði verið að taka löngu innköstin fyrir Brentford, hlóð í eina kannónu inn í teiginn og eftir örlítið ping-pong inn í markmannsteignum datt tuðran fyrir lappirnar á Ivan Toney sem var búinn að hafa sig heldur hægan. Sá gerði sér lítið fyrir og skemmdi daginn fyrir David de Gea sem átti svo sannarlega skilið að halda markinu hreinu í dag en allt kom fyrir ekki. 1-3 og stefndi í æsispennandi mínútur þar sem heimamenn eygðu von um að koma inn öðru marki.
En eina hættulega færið féll okkur í skaut þegar Bruno Fernandes kom einn og óvaldaður með boltann inn fyrir vörnina og átti bara eftir að komast framhjá óöruggum Lössl í markinu en í stað þess að hamra boltann á markið, í stað þess að leggja hann innanfótar í fjærhornið, í stað þess að rekja boltann framhjá markverðinum eða skjóta framhjá markinu þá ákvað hann að vippa boltanum í hendurnar á Lössl sem lyfti engu öðru nema augabrúnunum til að lýsa undrun sinni á því hversu illa Bruno hefði nýtt færið.
En dómarinn flautaði leikinn fljótlega af og því 1-3 sigur United í höfn í kaflaskiptum leik sem vekur eflaust upp fleiri spurningar en hann svaraði. Næsti leikur liðsins er svo núna um helgina þegar West Ham kemur á Old Trafford kl 15:00 á laugardaginn. West Ham vélin hans Moyes hefur heldur betur verið á blússandi siglingu en hún hökkti í síðustu umferð þegar liðið tapaði 1-3 fyrir Leeds. Hamrarnir eru sem stendur í 4. sætinu, tveimur stigum á undan United sem á leik til góða á lærisveina Moyes. Leikurinn er því gríðarlega þýðingamikill í þessari Meistaradeildar baráttu og gæti vissulega flokkast sem sex stiga leikur!
GHE says
Mikið væri það skemmtilegt að sjá liðið svona eins og einu sinni spila 90 minútur á fullu,annars bara góður sigur.
Snorkur says
Góður sigur – seinni hálfleikur var heilt yfir skemmtilegur og góður. Sá fyrri arfaslakur.
Þetta er voðalega brothætt hjá okkur. Hefði hæglega getað farið illa :/
Svo koma kaflar þar sem gæðin ná í gegn – reyndar full oft einstaklingsgæði frekar en liðsgæði.
Sigur er sigur :) og við getum horft á að seinustu 45 mín af fótbolta voru flottar :)
Scaltastic says
Góðu punktarnir: Elanga… Hann er að sanna það að hann er rúmlega tilbúinn í verkefnið. McTominay tók yfir seinni hálfleikinn og stjórnaði leiknum. Munurinn á honum og Matic er massívur. Loks gladdi það mig umtalsvert að sjá Rashford klára færið sitt, vonandi nær hann að trekkja inn smá sjálfstraust í framhaldinu.
Vondu tíðindin eru þau að Rangnick beit á agnið, líkt og forverar hans þrír. Að lúffa fyrir Martial. Meðvirkni okkar ágæta félags í garð hans er og hefur verið óskiljanleg síðastliðin ár. Ég vona það innilega að einhver innan félagsins hafi þann kjark að taka hann úr aðalliðshópnum, nóg er nóg komið.