Manchester United tók á móti West Ham United á Old Trafford í dag í miklum baráttuleik sem skipti töluverðu máli fyrir komandi Meistaradeilarsætisbaráttu hjá báðum liðum. Eftir mikinn og misskemmtilegan baráttuleik stefndi allt í markalaust jafntefli þegar Marcus Rashford poppaði upp á réttum stað á réttum tíma og stýrði flottri fyrirgjöf Cavani í netið af stuttu færi á lokasekúndum uppbótartíma. Alvöru baráttusigur og United skellti sér í fjórða sætið í bili.
Byrjunarliðið hjá Manchester United var svona:
Bekkur: Henderson, Jones, Lingard, Mata, Matic, van de Beek, Cavani (82′ fyrir Greenwood), Martial (82′ fyrir Fred), Rashford (61′ fyrir Elanga).
Byrjunarlið gestanna:
Bekkur: Randolph, Diop, Fredericks (70′ fyrir Coufal), Masuaku, Johnson, Kral, Noble, Vlasic, Yarmolenko.
Mörk:
Marcus Rashford með eina mark leiksins. Get in!
Gul spjöld:
Manchester United: Maguire
West Ham: Rice
Fyrri hálfleikur
West Ham mætti til leiks, eins og vænta mátti, mjög vel skipulagt og til í baráttu. Manchester United var það hins vegar líka og hafði góð tök á leiknum að mestu í fyrri hálfleik. Varðist heilt yfir mjög vel og stjórnaði miðjunni megnið af leiknum. Hins vegar vantaði upp á þegar kom að snertingum og sendingum á síðasta vallarþriðjungi. Það var þó eitthvað betra yfirbragð á leik liðsins í fyrri hálfleik en hefur verið, að mínu mati.
West Ham, með hinn öfluga Declan Rice í fararbroddi, varðist þó líka vel. Rice var út um allan völl og er orðinn afskaplega góður í að koma auga á hvar hætturnar geta leynst. Hann var alltaf mættur í hjálparvörn og datt iðulega inn á svæði nokkrum skrefum áður en boltinn og spilið mættu þangað. Þótt ég ætli ekki að fara að ofhæpa hann alveg þá minnti þetta element í hans leik mig töluvert á Carrick upp á sitt besta. Hann var líka að vinna öll sín einvígi í fyrri hálfleik og kom boltanum nánast mistakalaust frá sér á samherja. Hann vantar enn ýmislegt upp á að ná Carrick sem leikmanni en hann er að þroskast og þróast í verulega flottan leikmann. Verðmiðinn er vissulega hár en það bara hlýtur að koma að því að hann haldi í einhvern toppklúbb.
Bruno Fernandes skapaði annars álitlegt upphlaup fyrir Greenwood í byrjun leiks en Mason tapaði á því að vilja snúa til að koma boltanum á vinstri löppina frekar en að láta bara vaða í fyrsta með hægri. Skil ekki alveg af hverju, verandi þetta jafnfættur og hann hefur oftast sýnt, en hann náði í það minnsta ekki skotinu.
Ronaldo setti aukaspyrnu af hættulegum stað beint í varnarvegginn. Það var lýsandi fyrir marktilraunir í fyrri hálfleik. Liðin áttu saman 6 tilraunir og ekkert þeirra hitti rammann, þetta var allt ýmist framhjá rammanum eða í varnarmann.
Ronaldo vildi svo fá vítaspyrnu á 35. mínútu þegar hann var í baráttu við varnarmann um sendingu inn í teiginn. Hann fékk varnarmann vissulega aðeins í bakið en það var ekki mikið í þessu þótt sá portúgalski reyndi að mjólka þetta ansi mikið. Ekki vítaspyrna að mínu mati.
Seinasti hluti fyrri hálfleiks var svo meiri barátta og misheppnaðar sendingar fram á við hjá báðum liðum. 0-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur
Það var engin sérstök ástæða til að breyta neinu í hálfleik og barátta liðanna hélt áfram í seinni hálfleiknum.
Eftir tæplega fimm mínútna leik kom loks fyrsta tilraun leiksins sem hitti á rammann. Fred fékk þá nokkuð óvænt færi vinstra megin við D-boga vítateigsins og lét vaða. Fínasta skot sem stefndi langleiðina upp í skeytin fjær en Areola náði að verja vel í horn.
Manchester United hafði ekki skorað úr skrilljón hornspyrnum í röð, eða álíka, en Varane var nálægt því á 58. mínútu þegar hann tók gott hlaup á nærstöngina og mætti fínni hornspyrnu frá Alex Telles. Hann reyndi að sneiða boltann með höfðinu í fjærstöngina en boltinn var aðeins of hár fyrir það. Munaði alls ekki miklu þó.
Elanga átti ágætis skottilraun eftir um klukkutíma leik en hann var að taka skoppandi bolta sem kom á ferðinni svo þetta var erfitt og boltinn endaði framhjá. Stuttu síðar fór hann svo af velli fyrir Marcus Rashford.
Seinni hálfleikurinn var skemmtilegri en sá fyrri en þó vantaði enn upp á lokaafurðina hjá báðum liðum. Eftir því sem leið á leikinn fóru gestirnir að falla aftar og aftar en okkar menn reyndu að finna leiðir framhjá þeim. West Ham reyndi þó að nýta tækifærin sem gáfust, fengu til dæmis gott upphlaup sem endaði með frábærum varnarleik frá Alex Telles og Mason Greenwood í sameiningu.
Rangnick ákvað svo að gera sóknarsinnaða breytingu á 82. mínútu þegar Greenwood og Fred fóru af velli fyrir Cavani og Rashford. United skipti þá yfir í hálfgert 4-1-3-2 kerfi og reyndi að sækja sem mest til að vinna leikinn. Áfram nýttu gestirnir þó tækifærin til að sækja hratt og voru tvisvar nálægt því á lokamínútunum að skora mark. Á 87. fengu þeir hornspyrnu og hafa, ólíkt Manchester United, verið hættulegir í hornspyrnum í vetur. Soucek réðst á boltann og náði skalla sem fór hættulega nálægt stönginni fjær en sem betur fer framhjá. Á 90. mínútu þurfti de Gea svo allt í einu að verja vel, í fyrsta skipti í leiknum, þegar boltinn barst upp völlinn og Antonio átti hörkuskot niðri nær sem de Gea varði í horn.
En á lokasekúndum uppbótartímans kom sigurmark Manchester United. Ronaldo, Martial, Cavani og Rashford tóku þá þátt í hröðu spili, í þessari röð. Martial sendi góða stungu á Cavani (sem virtist reyndar rangstæður en VAR var ósammála því) sem brunaði upp, gaf fastan jarðarbolta fyrir markið þar sem Rashford var mættur á fjær og skoraði. Þvílík gleði! West Ham hafði rétt tíma til að taka miðjuna áður en leikurinn var flautaður af. 3 stig og fjórða sætið staðreynd! Í það minnsta þangað til á morgun.
Pælingar eftir leik
Declan Rice var algjörlega frábær í þessum leik. Virkar eins og ekta leikmaður sem Manchester United gæti notað. Stuðningsmenn virðast margir á sama máli.
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/1484928249335590916?s=20
Manchester United hélt hreinu í þessum leik, í fyrsta skipti í háa herrans tíð. Enda var varnarlínan mjög traust í þessum leik og de Gea flottur í eina skiptið sem reyndi eitthvað á hann. Ég hafði mjög gaman af bakvörðunum og fannst Dalot eiga einn sinn besta leik sem ég hef séð hjá United. Varane og Maguire voru líka solid í sínum leik og ánægjulegt að sjá Maguire eiga svona sterka innkomu eftir gagnrýni að undanförnu. Það var helst að þeir væru að klikka í löngum sendingum, þar hefði Lindelöf verið betri en þeir vörðust mjög vel og náðu að taka þátt í spili og sókn þegar færi gafst.
Skiptingarnar hjá Rangnick gengu upp. Það var gaman að sjá hann keyra á að sækja þrjú stig og ná þeim með þessum hætti. Allir leikmennirnir sem komu inn á voru sóknarsinnaðir og þeir áttu allir stóran þátt í markinu. Martial fékk reyndar óblíðar móttökur þegar hann kom inn á en hann reyndi samt sitt besta, sjáum hvernig þetta verður í framhaldinu.
Maður leiksins að mínu mati var Diogo Dalot en Rashford fær heiðurstilnefningu fyrir að tryggja stigin þrjú.
Nú er komið að smá fríi fyrir leikmenn Manchester United en næsti leikur verður föstudaginn 4. febrúar þegar Middlesbrough kemur í bikarheimsókn á Old Trafford. Vonandi nýtir Manchester United fríið vel og kaupir eins og einn öflugan miðjumann eða svo…
Zorro says
Meiri leiðindar göngubolti sem við spilum….eins og Roy Keane sagði…..verðum lélegari með hverjum leik😞😞
Arni says
Einn leiðinlegasti hálfleikur sem ég hef horft á það er meiri skemmtun að horfa leik í íslensku deildinni en að horfa á þetta united lið
EgillG says
Náði bara að sjá síðust 5min, svo ég er nokkuð sáttur
Scaltastic says
Hvort Cavani var réttstæður eður ei, mér gæti ekki verið meira drull. Hann dróg okkur í land í dag og þetta heldur lífi í baráttunni. Vissulega er Tottenham langlíklegastir en þetta var bráðnauðsynlegt.
Persónulega var ég sáttur með liðið í dag fyrir utan fremstu fjóra sem voru ekki nálægt því að vera tengja saman hlaup og spil. Liðið var ekki að veigra sér við návígum, varnarleikurinn var í miklu meira jafnvægi en í vetur. Einnig fannst mér orkustigið umtalsvert meira en vanalega.
Tómas says
Voruð þið að horfa á sama leik og ég? Full mikill neikvæðni.
United var við stjórnvöldin og loksins þurfti DeGea ekki að bjarga okkur endurtekið.
Vorum vissulega ekki að skapa mikið en West Ham varðist vel lengst af og Rice er helvíti öflugur.
Rosalega sætur sigur og spilamennskan og varnarleikur batnandi.
Þorsteinn says
Frábær sigur hjá okkar mönnum, ég var vandræðilega ánægður með þetta mark í lokin – komin tími á svona sigur.
Snorkur says
Fannst þessi leikur góður á köflum. Vantaði mikið fram á við og lélegar ákvarðanir þar. En það var eitthvað sem mér þótti vera jákvætt, sennilega ákefð sem glitti oft í.
Góð stig. Nú bara vona að tíma verði vel varið í innleiðingu á nýjum hugmyndum.
Árni Björnsson says
Mér fannst við hafa stjórn á þessum leik að mestu leyti, en nákvæni í samspili og hreyfing án bolta þarf að vera meiri og betri. En jákvæðar skiptingar í lokin gerðu gæfumunin og markið var virkilega flott.
Kv. Árni
Dór says
Þá er greenwood búinn að spila sinn síðasta leik þetta er að verða annsi þunskipaður hópur hjá okkur
Arni says
Það er bara allt í rugli hjá þessum klúbb
Scaltastic says
Auðvitað er hugur manns nr.1 hjá stúlkunni og aðstandendum þeirra en bleeping bleep hvað þetta er stórt högg og álitshnekkir fyrir félagið og unglingaakademíuna. Hann átti að verða burðastolpi í sóknarlínu liðsins næsta áratuginn.
Þetta svíður allverulega :(
birgir says
Ég er nú ekki United maður, en vil meina að þetta sé fyrst og fremst álitshnekkur (vægt til orða tekið) fyrir manninn sjálfan.
Félagið bregst hárrétt við og reyndar held ég að öll félög í PL hefðu sett drenginn í bann
Jonas Omar Snorrason says
Næsta land fyrir Greenwood að spila verður Saudi Arabia, sanniði til.
Elis says
Það er glugga dagur og hérna er ekkert að frétta.
Þarf ekki að taka umræðu um þetta Greenwood mál og áhrif á hans framtíð hjá Utd eða ekki framtíð?
Þarf ekki að taka umræðu um að stjórinn fær ekki stuðnings núna í leikmannakaupum því að hann verður líklega ekki áfram við stjórnvöldin?
Þarf ekki að vera umræða um þennan gluggadag?
Dór says
Við byrjum tímabilið með breiðasta hópinn og endum það með þunasta hópinn það er svo mikið að hjá þessu liði
Snorkur says
Þvílík vonbrigði sem þessi dagur hefur verið (30mín eftir) .. stjórnin virðist hafa ákveðið að slaufa þessu tímabili eftir Óla …bráðabirgða stjóri sem er ekki bakkaður upp :/ smá dapur ég
Arni says
Hættur að stiðja þetta lið á meðan þetta glazerpakk eiga þetta lið þvílíkt djók sem þessi klúbbur er orðinn
Alexander says
Ein og hálfur í leik? Hvað er að frétta
Scaltastic says
Veit ekki hvort er meiri skita. Færanýtingin eða að markið þeirra hafi staðið… ættum að hafa klárað leikinn á fyrstu 30 mín.
Scaltastic says
Þetta Boro lið bauð uppá verstu 90 mín frá gestaliði á Old Trafford síðastliðin fimm ár, passívir en galopnir tilbaka samtímis. Það er ákveðið afrek útaf fyrir sig að hafa klúðrað þessu verkefni.
Scaltastic says
Þvílíkt og annað eins small club hugafar. Þetta er óboðlegt… Til hamingju Boro
Dór says
Bara leggja þennan klúbb niður þvílíkt drasl sem þetta lið er orðið
Arni says
Maður er hættur að láta þetta lið pirra sig