Fáum við mörk?
Það er enga hvíld að fá fyrir leikmenn Manchester United sem annað kvöld taka á móti Brighton. Liðið freistar þess að landa sigri eftir þrjú 1-1 jafntefli í röð.
Ekki verður deilt um að United hefur verið mun betra liðið í síðustu þremur viðureignum sínum, en ekki uppskorið sigra eftir því.
Í viðtölum eftir leikinn gegn Southampton á laugardag vísaði Ralf Rangnick til þess að liðið hefði verið með vænt mörk (xG) upp á 2,67. Nú er vissulega rétt að vænt mörk eru aðeins spádómsgildi, því miður ekki alvöru mörk, en þau gefa vísbendingar um gæði þeirra skota og færa sem lið skapa sér og þar með um frammistöðu þeirra.
Vefurinn Understat er reyndar rausnarlegri í útreikningum sínum heldur en sérfræðingar Rangnick og segja United hafa verið með 2,99 í xG á laugardag. Gildið hefur aldrei verið hærra í deildarleik á leiktíðinni, hæst var það áður gegn Newcastle 2,77, þar sem United henti inn fjórum mörkum. Um síðustu helgi var aðeins Manchester City með hærra xG gildi, 4,45 sem varð að fjórum mörkum gegn Norwich.
Stífluð sókn
Með tilkomu Rangnick hefur varnarleikurinn snarbatnað en sóknarleikurinn stíflast. Cristiano Ronaldo hefur nú spilað í sex leikjum í röð án þess að skora. Hann byrjar væntanlega frammi, Edinson Cavani er meiddur. Annar kostur frammi væri Marcus Rashford sem lítið hefur gengið að skora í vetur. Góðu fréttirnar eru að Jadon Sancho er farinn að sýna þann leik sem varð til þess að United keypti hann frá Borussia Dortmund.
Tilraunir United til að skora úr aukaspyrnum og hornum hafa ekki borið árangur undanfarna mánuði. Því er grín gert að þeim þjálfara sem sérhæfður er í þeim. Á það má þó benda að andstæðingarnir skora ekki jafn grimmt úr þeim og áður, auk þess sem tvö mörk hafa komið eftir þær í síðustu leikjum – verst var að í bæði skiptin voru það rangstöðumörk. Þetta er samt eins og fleira, hænufet í rétta átt.
Brasilíumennirnir búnir með Covid
Rangnick hefur aðeins gert minniháttar breytingar á byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum. Nú er komið að fjórða leiknum á ellefu dögum og hann þarf að meta vel hverjir eru nógu ferskir í hann, um leið og Ralf hugar að næstu leikjum, meðal annars Atletico Madrid eftir viku.
Harry Maguire hefur sætt gagnrýni fyrir frammistöðu sína í vörninni alveg síðan í haust. Viktor Lindelöf fékk sjensinn um daginn og nýtti hann til hálfs. Hann hefur tekinn hitann af Luke Shaw sem var langt fyrir innan félaga sína og spilaði mótherjana réttstæða í síðustu tveimur mörkum. Alex Telles hefur náð sér eftir Covid sem skapar samkeppni fyrir Shaw. Einn maður myndar þó ekki heila vörn.
Sólskinsdrengurinn og landi hans Fred er líka laus úr einangrun. Hæpið er að hann spili 90 mínútur, en hann er kostur ef hvíla þarf einhvern miðjumannanna. Nemanja Matic er enn meiddur.
United hefur líka verið yfir í hálfleik í öllum leikjum þremur undanfarna viku, en sofnað á verðinum í skyndisóknum í seinni hálfleik. Á blaðamannafundi í morgun svaraði Rangnick því til að hann væri í stöðugu samtali við sálfræðing liðsins um hvernig hægt væri að efla leikmenn til að annars vegar halda einbeitingunni, hins vegar fara eftir skipulaginu þegar líður á.
100. leikur Potter
Brighton er lið sem hefur getið sér gott orð fyrir að vera vel þjálfað og útsjónarsamt, þótt það hafi stundum verið haldið sama veikleika og United nú, að nýta illa færin. Leikurinn verður sá 100. sem þjálfarinn Graham Potter stýrir liðinu í. Það hefur leikið sjö leiki í röð án taps.
Brighton vann Watford 2-0 um helgina og er Potter með sama leikmannahóp úr að velja. Miðvörðurinn Lewis Dunk lék þar sinn fyrsta leik síðan hann meiddist í byrjun desember og hann er klár í leikinn á morgun. Enock Mwepu og Jeremy Sarimento eru hins vegar meiddir.
Leikurinn hefst klukkan 20:15.
S says
Mér er svo drull hvernig en plz sigrið