Á morgun mæta okkar menn Watford. Hefst leikurinn kl. 15:00 líkt og fjórir aðrir leikir í Ensku úrvalsdeildinni. Fer leikurinn fram á Old Trafford og mun Kevin Friend vera með flautuna.
Fyrri viðureign liðana á tímabilinu reyndist banabit Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra United. Hræðileg frammistaða í 4-1 tapi gegn liði í bullandi fallbaráttu. Kristallaðist þessi frammistaða sennilega í brottvísun á fyrirliða liðsins, Harry Maguire og að Donny hafi skorað eina mark United, en hann var hreinlega ekki nægilega góður til þess að Ragnick gæfi honum traustið.
Watford
Watford situr í næst neðsta sæti deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti. Hin fjörgamli Roy Hodgson er mættur í stjórastólinn hjá liðinu, en hann er þriðji maðurinn til að stýra Watford á tímabilinu. Liðið er aðeins búið að vinna einn leik frá sigrinum gegn okkar mönnum í lok nóvember. Sá sigur kom gegn Aston Villa fyrir tveim umferðum. Emmanuel Dennis er markahæsti leikmaður liðsins með 9 mörk í deildinni. Hann fór einmitt hamförum gegn United í fyrri leiknum, skoraði og lagði upp tvö mörk. Hann mun pottþétt byrja á morgun, en vonandi hafa hægt um sig. Nokkrir leikmenn eru tæpir í liði Watford en munu þó sennilega taka þátt í leiknum.
Líklegt byrjunarlið:
Manchester United
Eftir dapra frammistöðu á Spáni í vikunni sem leið eru það fín úrslit að taka með sér 1-1 stöðu inn í seinni leikinn gegn Atletico Madrid á Old Trafford. Líkt og með flesta leiki upp á síðkastið verður leikurinn á morgun að vinnast svo okkar menn haldi sér í og við Meistaradeildarsætin. Því eftir þennan leik er United að fara sennilega inn í erfiðasta kafla tímabilsins. Næstu fjórir leikir í deildinni eru nefnilega gegn Manchester City, Tottenham, Liverpool og Leicester.
Ég býst fastlega við því að Elanga fái að byrja á morgun enda sá leikmaður liðsins sem er mest “in form”. Við munum líklegast fá að sjá Dallot og Telles í bakvarðarstöðunum. Annars er Cavani en frá vegna meiðsla og McTominay er tæpur fyrir leikinn.
Líklegt byrjunarlið:
Ég spái 2-1 sigri á morgun og mun sigurmarkið koma frá leikmanni af bekknum líkt og síðustu þrjú mörk liðsins. Vonandi verður Rashford þar að verki enda veitti honum ekki af því að fá smá sjálfstraust.
Skildu eftir svar