Eftir háðuglega og verðskuldaða flengingu gegn Manchester City um síðustu helgi er komið að sex stiga Meistaradeilarsætisbaráttuleik gegn Tottenham Hotspur á Old Trafford. Gengi þessara liða hefur verið ansi rysjótt upp á síðkastið sem hefur gefið Arsenal dauðafæri á að ná tangarhaldi á fjórða sætinu. Krafan er að leikmenn bæti rækilega fyrir frammistöðuna í síðasta leik, sýni karakter og sæki nauðsynleg þrjú stig í þessum leik.
Leikurinn hefst klukkan 17:30 á morgun. Dómari leiksins verður Jonathan Moss.
Form liðanna
Tottenham er með 3 sigurleiki og 4 tapleiki í síðustu sjö deildarleikjum. Liðið tók þrjá tapleiki í röð, vann svo Manchester City, tapaði fyrir Burnley en hefur sigrað síðustu 2 leiki, gegn lánlausum liðum Leeds og Everton, samtals 9-0. Markatalan í þessum 7 leikjum er 14-10.
Manchester United er á sama tíma með 12 stig af 21 mögulegu. Þrjú grátleg jafntefli trufla ansi mikið og svo auðvitað tapleikurinn gegn Manchester City um síðustu helgi. En í þessum síðustu 7 leikjum hafa komið sigrar gegn West Ham, Brighton og Leeds. Markatala United í þessum leikjum er 10-8.
Leikirnir framundan
Manchester United á 10 leiki eftir í deildinni á meðan Tottenham á 12 leiki. United er með 47 stig eins og er en Tottenham með 45. Aðeins munar einu marki á markamun liðanna.
Leikirnir sem Manchester United á eftir á þessu tímabili eru:
- Tottenham heima
- Leicester heima
- Everton úti
- Norwich heima
- Liverpool úti
- Arsenal úti
- Brentford heima
- Brighton úti
- Chelsea heima
- Crystal Palace úti
Á meðan á Tottenham þessa leiki eftir:
- Manchester United úti
- Brighton úti
- West Ham heima
- Newcastle United heima
- Aston Villa úti
- Brighton heima
- Brentford úti
- Leicester heima
- Liverpool úti
- Burnley heima
- Norwich úti
Arsenal er þó enn í bestu stöðunni, er í fjórða sætinu eins og er og á 3 leiki inni á Manchester United.
Leikmannafréttir og líkleg byrjunarlið
Ronaldo og Cavani misstu báðir af leiknum gegn Manchester City en voru báðir mættir á æfingu strax á þriðjudag. Þeir eru mögulega báðir tæpir fyrir þennan leik en gætu náð honum. Í það minnsta sagðist Ralf reikna með að þeir væru báðir tilbúnir í þennan leik.
Luke Shaw og Raphaël Varane fengu Covid og misstu þess vegna af leiknum gegn Manchester City. Shaw er ekki enn búinn að losa sig við veiruna og missir því af þessum leik líka. En Varane er kominn aftur. Það er bara vonandi að þeir hafi hvorugir veikst mikið af þessu og þetta muni ekki hafa langtímaáhrif á þá.
Scott McTominay er tæpur vegna kálfameiðsla. Ralf sagði á blaðamannafundi að það þyrfti að bíða og sjá til en honum þætti líklegra að Scott myndi missa af þessum leik. Hann vill í það minnsta ekki taka of mikla áhættu fyrir seinni leikinn gegn Atletico Madrid í Meistaradeildinni á þriðjudaginn.
Mason Greenwood spilar líklega ekki fótboltaleik aftur, í það minnsta ekki fyrir Manchester United.
Aðrir ættu að vera til í slaginn fyrir þennan leik.
Setjum þetta sem líklegt byrjunarlið hjá Manchester United:
Ryan Sessegnon meiddist í síðasta leik og er tæpt að hann nái þessum. Japhet Tanganga og Oliver Skipp eru meiddir en aðrir ættu að geta verið með.
Spáum þessu byrjunarliði hjá gestunum:
Hvernig hljóma þessi byrjunarlið? Ef þið hafið einhverjar pælingar varðandi þau, endilega hendið þeim í athugasemd hér fyrir neðan.
Af stjórapælingum hjá Manchester United
Í ljósi nýjustu frétta af Chelsea og eigendamálum þar á bæ hefur Thomast Tuchel allt í einu dúkkað upp sem mögulegur kandídat í stjórastarfið hjá Manchester United. Auðvitað er hann ennþá stjóri Chelsea og verður það áfram í einhvern tíma. En það er alveg spurning hversu lengi þessar aðgerðir gegn Abramovich standa yfir og hvenær Tuchel gæti farið að líta í kringum sig. Eða Chelsea neyðst til að láta menn fara.
Það er í það minnsta í lagi að skoða þennan möguleika, þó það væri ekki annað.
Við skelltum í Twitter-könnun í gær varðandi þessa þrjá sem koma helst til greina núna. Hvað finnst ykkur?
https://twitter.com/raududjoflarnir/status/1501938890797551621?s=20&t=1vT0LetcXtA78oyi3L4xLw
Skildu eftir svar