Þrátt fyrir hetjudáðir Cristiano Ronaldo gegn Tottenham sem að skutu liðinu tímabundið í 4. sætið, þá líður manni örlítið eins og hver einasti Meistaradeildarleikur sé sá síðasti í nokkuð langan tíma. Að biðin eftir tónlistinni verði allavega eitt leiktímabil. Arsenal er í algjörri lykilstöðu, á góðu skriði og eru horfurnar því ekki góðar fyrir Ralf Rangnick. Hvað svo sem því líður að þá er helvíti stórt verkefni framundan. Seinni leikurinn við Spánarmeistara Atlético Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu – nú á Old Trafford. Leikurinn er á morgun, þriðjudag og hefst kl. 20:00. Dómari leiksins er Slóveninn Slavko Vincic.
Leikurinn á Wanda Metropolitano var ekki frábær af okkar hálfu. Við leyfðum heimamönnum að kæfa okkur gjörsamlega með stífri pressu í fyrri hálfleik og hefðum hæglega getað verið meira en 1-0 undir. Ef að við komumst nálægt teig Atlético þá virtumst við aldrei líklegir til þess að láta reyna á Jan Oblak í markinu. En mark ungstirnisins Joao Felix skildi liðin að í hálfleik. Það var í raun ekki fyrr en að Rangnick setti Nemanja Matic inná sem að eitthvert skipulag komst á leik okkar manna. Hann leysti Pogba af og loks kom einhver tengiliður milli varnar og miðju. Það var svo annar varamaður sem að tryggði það að liðið færi ekki tómhent heim. Bruno Fernandes setti Anthony Elanga í gegn og hann renndi boltanum framhjá Oblak í markinu. Allt í einu óskaði maður þess að útivallamarkareglan væri enn í gildi! En 1-1 á útivelli gegn Atlético eru ekki alslæm úrslit.
Liðsfréttir og vangaveltur
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Ralf setur liðið upp á morgun. Við þurfum að sækja sigur og við erum hreint ekki frábærir í því að sitja djúpt og verja forystu. Leikurinn við Tottenham var ekki leikur margra tækifæra og vannst á einstaklingsgæðum, en bestu stundir United í leiknum voru þegar að leikurinn var jafn. Þegar liðið komst í 2-1 þá var í raun tækifæri til að stíga á háls Spursara og gera út um leikinn, en í staðinn þá bauð liðið hættunni heim og fékk á sig klaufalegt mark. Draumastaðan á morgun væri að skora mark snemma og ná að draga Atlético aðeins framar á völlinn. Þeir eru öflugir í skipulagðri pressu, en þeirra ær og kýr eru að bjóða ekki upp á svæði fyrir aftan öftustu fjóra og taka enga óþarfa sénsa.
Fyrirliðinn Harry Maguire varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net um helgina. Hann virðist þó vera í skotheldu vesti þegar kemur að liðsvali, eða öllu heldur að vera ekki valinn. Hann og Raphael Varane munu mynda miðvarðarparið á morgun. Vegna veikinda Luke Shaw þá mun Alex Telles 100% vera vinstra megin, en það er spurning hver byrjar hægra megin í vörninni. Aaron Wan-Bissaka átti ekki sjö dagana sæla gegn Manchester City, eins og margir. Diogo Dalot hefur komist nokkuð áfallalaust frá sínu á þessu tímabili, án þess að vera stórkostlegur og því veðja ég á Dalot.
Eins og ég minntist á í upphafi þá var það Nemanja Matic sem að gerði okkur kleift að færa boltann framar á völlinn á Spáni og það kæmi mér ekki á óvart ef að Ralf hefur leik með Serbann djúpan á miðjunni. Paul Pogba átti ekki frábæran leik gegn Tottenham og ef að hann byrjar þá yrði það í Bruno Fernandes hlutverkinu, tel ég. Undirritaður treystir honum allavega ekki til að tengja spil milli varnar og miðju. Bruno er með COVID-19 og er í kapphlaupi við tímann um að ná þessum leik. Þá eru Scott McTominay tæpur, sem og Luke Shaw en báðir voru með hópnum á æfingu í dag.
Framar á vellinum hefur Jadon Sancho heldur betur verið að sækja í sig veðrið eftir hæga byrjun á ferlinum á Old Trafford. Honum virðist einfaldlega líða betur í eigin skinni og sjálfstraustið virðist verða meira með hverjum leiknum. Hann lagði upp annað mark United gegn Spurs á Ronaldo og hefði sjálfur getað skorað seint í leiknum. Hann og Ronaldo byrja mjög líklega á morgun. Hvort það verði svo Anthony Elanga eða Marcus Rashford sem að hirða síðasta sætið fremst á vellinum er óvíst, en ég skýt á Elanga. Rashford, líkt og Pogba, átti erfitt uppdráttar gegn Tottenham.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Andstæðingurinn
Það verður seint sagt um Atlético Madrid að þeir séu skemmtilegasta lið heims. Þeir eru varnarsinnaðir, leiðist ekkert að fara í taugarnar á andstæðingnum og eru tilbúnir að ganga ansi langt til þess að sigurinn endi þeirra megin. Í liðinu eru þó margir frábærir knattspyrnumenn og þeim er stýrt af mikill fagmennsku – og við fengum að kynnast því á Wanda Metropolitano. Diego Simeone, þjálfari liðsins, stillti heimamönnum upp í 5-3-2 kerfi og áttu okkar menn í miklum vandræðum með að finna sér pláss og svæði á vellinum, þ.e. sem að Atlético hafði ekki ginnað þá í.
Heimamenn pressuðu stíft og unnu boltann nokkrum sinnum ofarlega á fyrstu 10 mínútum leiksins. Eftir eina slíka atburðarrás kom einmitt mark Atlético. Þá hafði gengið hörmulega að hreinsa boltann langt upp völlinn og röndóttir unnið hornspyrnu. Uppúr henni barst boltinn á vinstri vængbakvörðinn Renan Lodi sem að lúðraði frábærri fyrirgjöf beint á pönnuna á Joao Felix, sem að skallaði boltann glæsilega í stöng og inn. Undirritaður óttaðist það versta eftir það. En því fór sem fór og við fórum til baka með 1-1 jafntefli.
Liðið pressar kannski ekki jafn ákaft og lið á borð við Liverpool og Manchester City, en þeir eru ofboðslega skipulagðir og algjörir snillingar í því að loka á sendingaleiðir á milli línanna. Þeim finnst í góðu lagi að leyfa andstæðingnum að vera með boltann á hættulausum svæðum aftarlega á vellinum, en mæta svo eins og vel þjálfuð herlína í takt þegar að djúpur miðjumaður sækir boltann við miðhringinn. Okkar langbestu sóknir voru þegar að boltinn var látinn ganga hratt og í 1-2 snertingum, þar sem að Atlético náði ekki að koma sér í almennilegt „shape“ um leið. Öruggar hliðarsendingar eru jól og páskar fyrir Atlético og þeir hafa alla þolinmæði í heiminum til þess að bíða eftir einni misheppnaðri sendingu eða lélegri fyrstu snertingu.
Líkt og í okkar liði er ansi öflugur Portúgali í liði Atlético. Markaskorarinn Joao Felix átti alveg glimrandi leik á Spáni og reyndist okkur erfiður. Hann er virkilega klókur í hreyfingum án bolta og það er sömuleiðis fjandi erfitt að ná af honum boltann þegar hann er á honum. Held að það sé ekki verra að fá að læra af Luis Suarez í þessum efnum – svo framarlega sem að Felix erfir ekki einhver persónuleikaeinkenni frá mannætunni. Heimsmeistarinn Antoine Griezmann kom inná sem varamaður og átti frábært skot í slá stuttu eftir jöfnunarmark Elanga. Griezmann þarf ekki nema hálffæri til að töfra fram eitthvað stórkostlegt og á honum þarf að hafa góðar gætur, hvort sem að hann spilar eina mínútu eða 120. Auðvitað væri hægt að nefna hálft liðið, enda vel mannað en sannleikurinn er sá að hættan felst í liðsheild Atlético og klókindum þjálfarans. Þurfum að vera 100% allan leikinn. Ekki flóknara en það!
Líklegt byrjunarlið Atlético Madrid:
Spá
Vinnum erfiðan leik 2-1. Jadon Sancho brýtur ísinn snemma leiks og hinn brosmildi Fred bætir við öðru rétt fyrir hálfleik! Felix minnkar muninn seint í leiknum og við verðum með hjartað í buxunum fram að lokaflauti. Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar