Eftir dágott landsleikjafrí er komið aftur að alvörunni hjá okkar mönnum. Níu leikir eftir af tímabilinu, því miður allir í sömu keppninni. Baráttan heldur áfram um að tryggja sæti í Meistaradeildinni að ári. Næstir í röðinni eru Leicester City sem mæta á Old Trafford til að taka seinnipartsleik á laugardegi. Það er kominn sumartími á Bretlandi svo blásið verður til leiks klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Dómari leiksins verður Andre Marriner. Michael Oliver verður í VAR-herberginu.
Staðan í deildinni
Staðan í deildinni áður en umferð helgarinnar fer af stað er svona:
Arsenal þarf alveg sérstaklega að fara að tapa stigum til að gera þessa baráttu meira spennandi, ekki nema Chelsea taki upp á því að fara í algjört hrun. Þetta er því miður ekki alveg í höndum Manchester United eins og er, það er þó nauðsynlegt að taka þrjú stig til að halda áfram að vera með í þessari baráttu.
Leikirnir sem hin liðin í baráttunni eiga þessa helgina eru:
- Chelsea – Brentford (lau. kl. 14)
- Wolves – Aston Villa (lau. kl. 14)
- West Ham – Everton (sun. kl. 13)
- Tottenham – Newcastle (sun. kl. 15:30)
- Crystal Palace – Arsenal (mán. kl. 19)
Staðan á leikmannahópum
Úrúgvæski nautabaninn okkar, hinn baneitraði en hnjasksækni Edinson Cavani þurfti að yfirgefa völlinn í landsleik í vikunni vegna meiðsla. Því miður ekki óvænt þar sem þetta er búið að vera strembið tímabil fyrir framherjann hvað meiðsli snertir. Hefur svo sannarlega munað um að hafa hann ekki til taks eins mikið og í fyrra.
Cavani missir því af þessum leik. Sömuleiðis Mason Greenwood, hann er að öllum líkindum búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Gestirnir eru með fleiri menn frá fyrir þennan leik. Það er búið að staðfesta að Jamie litli Vardy nær leiknum ekki vegna meiðsla. Wilfred Ndidi fór í aðgerð á hné um daginn og spilar ekki meira með á tímabilinu. Ryan Bertrand og Danny Ward eru sömuleiðis frá vegna meiðsla.
Tæpir eru Marc Albrighton og Luke Thomas. Jonny Evans hefur verið að glíma við meiðsli en spilaði landsleik í fríinu og er að koma til baka. Brendan Rogers hefur þó sagt að Evans sé líklega ekki tilbúinn í 90 mínútur. Wesley Fofana var einnig að glíma við meiðsli og spilaði ekki í síðasta leik Leicester, gegn Brentford. Allar líkur eru þó á að hann geti spilað leikinn.
Þrír tapleikir í röð
Manchester United er heilt yfir með góðan árangur gegn Leicester City í gegnum tíðina. United er með 68 sigra í 134 leikjum gegn Leicester, þar af 19 sigra í 31 leik í úrvalsdeildinni eftir að hún var stofnuð.
Hins vegar hefur gengið mjög illa að spila gegn Leicester í síðustu leikjum. Leicester hefur unnið síðustu 3 leiki þessara liða og á nú séns á að taka tvennuna gegn Manchester United í deildinni í fyrsta skipti síðan tímabilið 1973 til 74. Það er tímabil sem við viljum lítið vera að rifja upp sem stuðningsfólk Manchester United því United féll það tímabil úr efstu deild. Eina annað skiptið sem þetta hefur gerst var tímabilið 1900-01, þegar Manchester United hét Newton Heath og Leicester City hét Leicester Fosse og bæði lið spiluðu í 2. deildinni.
Förum ekkert að setja núverandi tímabil í þennan félagsskap.
Fyrri leikurinn á tímabilinu endaði með 4-2 sigri Leicester í október. Það var endirinn á 29 leikja taplausu hrinu Manchester United á útivelli og pressan jókst heldur betur á Solskjær.
Leikurinn fyrir það var deildarleikur á Old Trafford í maí í lok síðasta tímabils. Þá vann Leicester 2-1 sigur sem endanlega tryggði Manchester City deildartitilinn. United var þó með hugann við Evrópudeildina og hvíldi marga menn í leiknum. Á undan því hafði United líka tapað fyrir Leicester í enska bikarnum þegar Leicester vann 3-1 sigur á sínum heimavelli í 8-liða úrslitunum í mars í fyrra. Leicester fór svo alla leið í keppninni og endaði á að vinna hana með því að taka Chelsea í úrslitaleiknum á Wembley.
Það sem þessir leikir eiga allir sameiginlegt, fyrir utan tapið, er að Mason Greenwood skoraði fyrir Manchester United í öllum leikjunum. Hvort það hafi verið óhappamerki skal ekki segjast, í það minnsta er enginn möguleiki á að þetta verði fjórði leikurinn sem Greenwood skori í.
Líkleg byrjunarlið
Manchester United stillir líklega upp eitthvað í þessa áttina:
Leicester hefur verið að spila með 3 miðverði og stillir mögulega upp svona:
Þó gott byrjunarlið skipti alltaf máli þá getur líka skipt miklu að hafa góða varamenn til að setja inn á völlinn. Ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið fleiri mörk frá varamönnum en Manchester United, alls 10 talsins (Rashford með fjögur þeirra). Það er skemmtileg samsvörun í þeirri tölfræði að ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið á sig fleiri mörk frá varamönnum andstæðings en Leicester City, samtals sjö mörk.
Það er því alls ekki ólíklegt að við fáum eins og eitt varamannsmark frá United í þessum leik. Megi það verða sigurmarkið!
Skildu eftir svar