Arsenal gegn Manchester United. Í kringum aldamótin var þetta leikurinn. Wenger gegn Ferguson. Keane gegn Vieira. Tvö langbestu lið Englands að etja kappi. Umræðan fyrir viðureignir þessara liða í kringum aldamótin var eins og fyrir þungavigtarbardaga í hnefaleikum. Pressan át upp öll skot og ummæli sem að hægt var að snúa útúr, eins og það þyrfti að kasta meiri olíu á eldinn. Á leikdag gerðist svo yfirleitt eitthvað sem að mátti kjamsa á – stundum bókstaflega! Það er skemmst frá því að segja að sú er ekki raunin í dag. Liðin hafa í besta falli verið sæmileg undanfarin misseri og heyja nú stórundarlega baráttu um þetta eftirsótta 4. sæti – ásamt Tottenham og West Ham. Þar standa Norður-Lundúnaliðin, Spurs og Arsenal, betur að vígi en Man Utd og West Ham.
Manchester United mætir Arsenal á Emirates vellinum á morgun, laugardag. Hefst skemmtunin kl. 11:30 og því hafa langþreyttir aðdáendur afsökun til að leita í kaldan drykk snemma. Liðin mættust í desember 2021 á Old Trafford og þar hafði United 3-2 sigur, í síðasta leik Michael Carrick sem knattspyrnustjóri liðsins. Þar skoruðu Bruno Fernandes og Cristiano Ronaldo (2) mörk United, en Emile Smith-Rowe og Martin Ödegaard mörk gestanna. Núverandi stjóri okkar, Ralf Rangnick, fylgdist með leiknum úr stúkunni og hugsaði máske með sér að kannski þyrfti ekki að breyta svo miklu…
Nýr stjóri – nýtt lið?
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá nokkrum að nýr þjálfari tekur við taumunum hjá United í sumar. Manchester United tilkynnti í gær að Erik ten Hag, núverandi stjóri AFC Ajax, myndi taka við sem knattspyrnustjóri á Old Trafford í sumar. Þar fer Gunnar Gunnarsson, eða Zunderman, yfir feril og ferðalög Ten Hag og hvað hefur leitt Hollendinginn til Manchester.
https://twitter.com/ManUtd/status/1517095827109515264?s=20&t=3Ek407GDqPI9pUI6pWA0-A
Ten Hag veit að breytingar eru í vændum. Nokkuð stór hluti hópsins mun yfirgefa félagið í lok tímabils og verður nokkuð spennandi að sjá hvernig sumarglugginn verður hjá United.
Í einum potti ertu með þá sem að hafa ekki endurnýjað samninga sína. Paul Pogba, Jesse Lingard, Nemanja Matic, Juan Mata, Edinson Cavani, Lee Grant eru allir að klára samninga sína í vor og það er afar ólíklegt að endursamið verði við nokkurn þeirra. Vill það einhver stuðningsmaður? Burt, burt, burt.
Hverja ætti liðið svo að selja? Alla segja sumir. Það gerist víst aldrei. Alex Telles, Aaron Wan-Bissaka, Eric Bailly, Phil Jones og Anthony Martial (já, hann er enn til) eru allir á hættusvæði. Ég er ekki forseti aðdáendafélags Harry Maguire, en mér finnst ólíklegt að hann verði látinn fara. Fyrirliðinn varð fyrir því áfalli að fá senda sprengjuhótun og það þarf ekki að orðlengja um hversu ömurlegt það er.
https://twitter.com/utdreport/status/1517514748098658305?s=20&t=3Ek407GDqPI9pUI6pWA0-A
Svo er það stóra spurningin hversu margir verða fengnir inn. Ralf Rangnick sagði eftir tapleikinn gegn Liverpool að jafnvel TÍU leikmenn yrðu fengnir til félagsins. Hvort að sú verði raunin skal ósagt látið, en það er vitað að einhverjir þurfa að koma í staðinn fyrir þá sem að yfirgefa klúbbinn. Undirrituðum finnst þurfa að styrkja nær allar stöður, þó að mest liggi á því að miðsvæðið sé uppfært. Það er með hreinum ólíkindum hversu illa hefur verið keypt þar inn á síðustu árum, enda töpum við miðjubaráttunni nánast undantekningarlaust.
Leikurinn og andstæðingurinn
Það er hver einasti leikmaður og amma þeirra að bíða eftir því að tímabilið verði flautað af. Liðið mun gera ótal mistök í sama hálfkæringi og hefur viðgengist í allan vetur og það er bara bara spurning hversu æstir Arsenal menn eru í að ganga á lagið. Þeir eru stórundarlegt lið sem að getur unnið mjög góð lið, en sömuleiðis steinlegið á móti afleitum liðum. Hljómar kunnuglega.
Í liði Arsenal eru fínir leikmenn. Norðmaðurinn Martin Ödegaard hefur tekið miklum framförum og skorað 6 mörk í deildinni á leiktíðinni. Hann er orðinn ákveðin kjölfesta í spili liðsins og er afar flinkur á boltanum, ásamt því að vera mjög útsjónarsamur. Annar leikmaður sem að hefur sprungið út á tímabilinu er Emile Smith-Rowe. Smith-Rowe er uppalinn í Arsenal og hefur sýnt að hann hefur gott auga fyrir sendingu og er nokkuð markheppinn einnig. Svo ber að varast vængmanninn Bukayo Saka. Englendingurinn á bara eftir að verða betri og mér þykir líklegt að hann verði einn af mikilvægustu leikmönnum Arsenal á næstu árum. Liðið er orðið nokkuð skipulagt undir Mikel Arteta og eins og áður segir, þá hefur það staðið í liðum á borð við Liverpool og Manchester City en fengið svo skell á móti liðum eins og Crystal Palace.
https://twitter.com/Arsenal/status/1517086742561517569?s=20&t=3Ek407GDqPI9pUI6pWA0-A
Varðandi okkur að þá er eiginlega lítil ástæða til þess að orðlengja of mikið um hvað Ralf reynir að plana eða setja upp með. Þessir leikmenn gera það sem þeir vilja og ef að hlutirnir detta ekki fyrir þá, þá er ofsalega stutt í uppgjöf og fýlu. Þó væri dásamlegt að geta fagnað sigri á Emirates. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Hannibal Mejbri byrji sinn fyrsta leik í Úrvalsdeildinni. Hann sýndi ekki mikil gæði á boltanum gegn Liverpool, en hann sýndi þó örlítið hjarta. Sem er meira en aðrir leikmenn Manchester United geta sagt.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar