Jæja! United fær tækifæri til að svara fyrir ófarirnar á Emirates og verkefnið gæti orðið býsna strembið. Á morgun, fimmtudag, mæta Evrópumeistarar Chelsea í heimsókn á Old Trafford. Leikurinn hefst kl. 18:45. Formið hjá bláliðum Thomas Tuchel hefur verið fínt, en tap gegn Arsenal hefur sennilega sviðið sárt. Við eigum það að minnsta kosti sameiginlegt. Þá datt liðið úr Meistaradeildinni eftir frábært einvígi gegn Real Madrid, þar sem að Karim Benzema reyndist munurinn á liðunum. Fæst orð bera minnsta ábyrgð hvað okkar form varðar.
Líkt og Arsenal og Manchester United voru toppliðin og stærstu leikirnir í kringum aldamótin að þá kom Chelsea eins og stormsveipur í toppbaráttuna þegar að Rússinn Roman Abramovich keypti félagið árið 2003. Á Jose Mourinho tímanum velti undirritaður því fyrir sér hvort að við myndum þurfa að horfa uppá Chelsea lyfta dollunni næstu 10 árin, en Sir Alex Ferguson var ofboðslega fljótur að klippa á hnútinn og úr varð virkilega spennandi og skemmtilegur rígur tveggja frábærra liða. Þó að liðin ættu eftir að etja oftar kappi eftir það að þá náði rígurinn augljóslega hámarki þegar að liðin mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008. Það er af sem áður var…
Liðsfréttir
Talsvert er um meiðsli í leikmannahópi United um þessar mundir. Það kemur lesendum líklega gríðarlega á óvart að Edinson Cavani er ekki heill heilsu, en ásamt honum eru Fred, Harry Maguire, Jadon Sancho, Luke Shaw, Aaron Wan-Bissaka og hinn sívinsæli Paul Pogba allir á meiðslalistanum. Ralf minntist á það á blaðamannafundi fyrir Arsenal leikinn að Pogba myndi líklega ekki spila aftur á tímabilinu og því er þrælöruggt að gera ráð fyrir því að ferli hans hjá Manchester United sé lokið – í annað sinn. Dýrt spaug.
Ralf talaði um að mögulega yrði einhverjum af yngri leikmönnum liðsins gefið tækifæri. Hann nefndi þar til dæmis Hannibal Mejbri til sögunnar, en sagði að mikilvægt væri að henda kjúklingunum ekki of snemma í djúpu laugina og að augnablikið þurfi að vera rétt. En miðað við lengd meiðslalistans að þá fáum við að sjá nokkra á bekknum, í það minnsta.
https://twitter.com/utdreport/status/1519296698773909504?s=20&t=hvamrvDdQKQ_aI0jgtF_wg
Gestirnir eru ekki í jafn miklum meiðslavandræðum. Vinstri bakvörðurinn Ben Chilwell er frá út tímabilið og Callum Hudson-Odoi og Mateo Kovacic verða ekki með. Hægri bakvörðurinn Reece James hefur náð sér af meiðslum og Andreas Christensen var með niðurgang, sem að Daninn hefur vonandi jafnað sig á. Þá er miðvörðurinn Antonio Rudiger byrjaður að æfa aftur, en er þó spurningamerki fyrir morgundaginn.
Við hverju má búast?
Ég hef ekki beinlínis verið rödd bjartsýninnar í upphitunum mínum undanfarið og liðið hefur svosem ekki beinlínis gefið manni ástæðu til þess að breyta þeim stíl. Þó að Meistaradeildarsætið sé nokkurnveginn geirneglt hjá gestunum og svo gott sem úr sögunni hjá okkur, þá tel ég að Chelsea muni pressa okkur stíft og koma okkur í allskonar vandræði. Chelsea kaffærði Real Madrid í pressu oft á tíðum, en undanfarið hefur liðið þó verið að leka fleiri mörkum en venjulegt þykir undir Tuchel.
Þetta myndi kannski gefa öðrum liðum byr undir báða vængi, en okkar menn eru vægast sagt vængstífðir og ekki líklegir til þess að nýta sér það. Ég gef leikmönnum það að færasköpun var með talsvert betra móti gegn Arsenal en hún hafði verið í langan tíma fyrir heimsóknina á Emirates. Vörnin heldur þó áfram að vera spaugileg og þarf alvöru uppstokkun í sumar.
Eins og áður segir að þá er liðið án nokkurra aðalliðsmanna. Hversu slæmt það er… hreinlega veit ég ekki. Það er varasamt að henda of mörgum krökkum í byrjunarliðið gegn góðu liði eins og Chelsea, en að sama skapi myndum við kannski sjá sómasamlegar hlaupatölur og vilja til þess að gera vel fyrir aðdáendur og klúbbinn. Miðað við ummæli á blaðamannafundi dagsins mun Ralf reyna að takmarka eins og hann getur fjölda unglingaliðsleikmanna í byrjunarliðinu.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Spá
Við töpum þessum leik nokkuð sannfærandi 1-3. Chelsea komast í 0-3 áður en að Ronaldo klórar í bakkann fyrir okkur úr vítaspyrnu. Sokkið mig endilega, kæru leikmenn.
Áfram Manchester United!
Hallgrímur says
Maguire er ekki í liðinu
Daníel Smári says
Takk fyrir ábendinguna Hallgrímur.