Manchester United vann flottan 3-0 sigur á Brentford í síðasta heimaleik tímabilsins. Það var annar bragur á sóknarleik liðsins og naut Juan Mata sín í botn þar sem að Spánverjinn virtist ná vel saman við undrastrákinn Cristiano Ronaldo, sem að skoraði sitt 24. mark á tímabilinu í kvöld. Mörkin þrjú gerðu Bruno Fernandes, Cristiano Ronaldo og Raphael Varane, sem að gerði sitt fyrsta mark fyrir klúbbinn.
https://twitter.com/ESPNUK/status/1521227284153311235?s=20&t=A7Yt0EUSDVlLyRJ6xJCRxw
Svona stillti liðið upp.
Byrjunarlið Man Utd:
Leikurinn og framhaldið
Liðið spilaði lengst af ágætlega í leiknum. Það voru, eins og alltaf, augnablik varnarlega sem að myndu líklega ekki sjást hjá liðum í Lengjudeildinni, en heilt yfir komust okkar menn bara vel frá verkefninu. United er nú 6 stigum á undan West Ham, sem að á leik til góða, en sigurinn var mikilvægur í þessari æðislegu Evrópudeildarbaráttu. Liðið á enn tölfræðilegan möguleika á Meistaradeildarsæti, en er 5 stigum á eftir Arsenal, sem að á tvo leiki til góða. Ekki séns.
Aftur mótmæltu aðdáendur eignarhaldi Glazer fjölskyldunnar með því að vera seinir inn á völlinn og fjöldaútganga hafði verið skipulögð á 73. mínútu, en það voru ekki margir sem að létu sig hverfa. Þó var töluvert um gula og græna trefla í stúkunni.
https://twitter.com/MUFC_redarmy99/status/1521146008167755777?s=20&t=A7Yt0EUSDVlLyRJ6xJCRxw
Það segir kannski ýmislegt að frammistaðan í kvöld hafi verið með þeim betri í vetur. Líklega toppaði liðið í opnunarleik tímabilsins þegar að Leeds var gjörsigrað 5-1 og völlurinn var skoppandi eftir að nýkeyptur Raphael Varane gekk út á miðjan völlinn og heilsaði uppá aðdáendur. Ekki var um neina kennslustund að ræða, en það var allt annað að sjá hreyfinguna á boltanum.
Þar spilaði El mago, eða einfaldlega Juan Mata, ofboðslega stóra rullu. Það er í raun glæpsamlegt að litla snillingnum hafi verið spilað út á hægri væng stóran part ferilsins hjá United. Hann er eins hreinræktuð tía og þær gerast. Auðvitað eru lappirnar löngu farnar og hann hefur í raun ekkert erindi hjá risaliði eins og Manchester United, þ.e. ef að klúbburinn ætlar sér upp í hæstu hæðir. En líklega er viturlegra að nota hann, frekar en Marcus Rashford á þessum tímapunkti. Mata hefði getað nælt sér í stoðsendingu (og gerði það tæknilega…) en Cristiano Ronaldo var naumlega rangstæður. Eins og Guðmundur Benediktsson nefndi einhverntímann: „Þú gætir látið Mata fá boltann inni í símaklefa, troðfullan af varnarmönnum, en hann kæmi boltanum samt á samherja.“
https://twitter.com/AidanWalshMUFC/status/1521226429584785416?s=20&t=A7Yt0EUSDVlLyRJ6xJCRxw
Ronaldo sannaði í þúsundasta skipti að aldur er bara tala. Það er með ólíkindum hvernig hann hefur stigið upp á þessum síðustu og verstu. Eftir að hafa upplifað verstu mögulegu sorg sem að hægt er að hugsa sér, þá hefur Portúgalinn beinlínis dregið vagninn. Hann er orðinn virkari þáttur í öllu uppspili og ef að hann kemst í færi að þá er útkoman alltaf sú sama. Skot og mark. Hvað verður um Ronaldo í sumar er svo stór spurning. Eins og hann hefur spilað undanfarið að þá finnst mér eiginlega ótrúlegt ef að Erik ten Hag metur dæmið þannig að hann hafi ekki not fyrir hann. Ef að Sebastian Haller gat orðið markamaskína í Meistaradeildinni undir stjórn Hollendingsins, að þá ætti að vera eitthvað hægt að vinna með Cristiano Ronaldo.
Ég pirraði mig örlítið á því að Ralf Rangnick skyldi ekki gefa unglingunum Alejandro Garnacho og Alvaro Fernandez nokkrar mínútur í kvöld. Phil Jones hafði fengið gott lófatak og smá spiltíma gegn Chelsea. Sömuleiðis þarfnaðist ég þess ekkert að sjá Edinson Cavani kveðja Old Trafford. El Matador hafði unnið sig inn í hug og hjörtu aðdáenda á síðustu leiktíð, en það hefur verið ótrúleg tilviljun hvernig meiðslaganga framherjans í vetur hefur einhvernveginn aldrei staðið í vegi fyrir honum þegar að stór landsliðsverkefni hjá Úrúgvæ eru framundan. Leggur sig alltaf fram inná vellinum, en það hefur verið eitthvað bogið við framboðið í vetur. En kannski er ég Neikvæður Nonni of að lesa aðeins of djúpt í þetta og Cavani hefur bara verið meiddur á óheppilegum tímum.
Næsti leikur er gegn Brighton á laugardaginn, kl. 16:30. Leikur liðanna á AmEx vellinum á síðustu leiktíð verður lengi í minnum hafður, en þar tryggði Bruno Fernandes ótrúlegan sigur úr vítaspyrnu eftir að flautað hafði verið til leiksloka. Væri gaman að endurtaka einhverja svoleiðis vitleysu!
Áfram Manchester United!
Egill says
Besti leikur liðsins í langan tíma. Það mætti skilja Rashford og Maguire eftir utan miklu oftar.
Ronaldo var gjörsamlega geggjaður í allt kvöld! Í raun àtti allt liðið mjög góðan leik.
Það versta er að mér finnst við hafa sóað bestu árum Mata í ekki neitt, hann er alltaf til í að leggja sig fram og er enn með töfra í löppunum. Mata á betra skilið.
Steve Bruce says
Góður punktur um Mata. Furða mig á því að hann hafi ekki verið oftar notaður á sínu sterkasta spilasvæði.