Manchester United leikur sinn síðasta heimaleik í kvöld. Andstæðingurinn er Brentford og hefst leikurinn kl. 19:00. Það eru engar líkur á því að liðið hafni í Meistaradeildarsæti, en aðeins meiri líkur eru á því að liðið gæti endað í 7. sæti og þar með í Sambandsdeild Evrópu. Okkar menn sitja sem sakir standa í 6. sæti, með 55 stig en West Ham eru sæti neðar með 52 stig. Undirritaður hlakkar ekkert sérlega til þess að hlusta á Evrópudeildarlagið fyrir leiki á fimmtudögum, en ég ætli það það sé ekki skömminni skárra en að hlakka til leikja gegn liðunum sem að lentu í 9. sæti í efstu deild í Færeyjum og Finnlandi. Þetta er staðan og henni verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti.
Við mættum Býflugunum á útivelli í janúar. Sá leikur vannst 1-3 en það er spurning hvort að sigurinn hafi verið verðskuldaður. Okkar menn áttu í vök að verjast og Thomas Frank, stjóri Brentford, sagði eftir leik að sitt lið hefði „rústað“ Manchester United. Það má liggja á milli hluta hversu sönn þau orð eru í ljósi úrslitanna, en Brentford spilaði vel og átti eitthvað skilið úr leiknum.
Liðsfréttir
Það brutust út þær fréttir í síðustu viku að Austurríska knattspyrnusambandið væri á höttunum eftir Ralf Rangnick og vildi fá hann sem næsta landsliðsþjálfara. Þær fregnir voru svo staðfestar stuttu síðar og mun hann taka við taumunum þar. Nýja starfið mun þó ekki breyta hlutverki Ralf hjá Manchester United og mun hann áfram sinna þar ráðgjafastöðu undir Erik ten Hag.
https://twitter.com/FabrizioRomano/status/1519992591915307008?s=20&t=45AOvG3DNTSY0U0V3Bx2sA
Jadon Sancho er með sýkingu í hálskirtlunum og missir af leiknum. Vængmaðurinn ungi gæti verið kominn í sumarfrí vegna veikindanna og mætir staðráðinn í að standa sig betur á næstu leiktíð. Við fengum smjörþefinn af því sem að hann hefur uppá að bjóða en hann, líkt og flestir í liðinu, hefur átt erfitt updráttar. Gleðigjafinn Paul Pogba og hinn síspræki Luke Shaw eru báðir meiddir og verða ekki með í kvöld.
Edinson Cavani, Harry Maguire, Jesse Lingard og Fred gætu allir spilað, en Cavani er þó ólíklegastur. Úrúgvæinn hefur ekki spilað síðan 15. mars, þegar að liðið tapaði gegn Atletico Madrid – sælla minninga. Persónulega finnst mér að hann ætti ekki að spila oftar fyrir liðið og auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á, en það voru mistök að endursemja við hann.
Í liði Brentford vantar Ethan Pinnock, Saman Ghoddos, Sergi Canos og Frank Onyeka. Pinnock hefur spilað nánast alla leiki á tímabilinu og verið afar mikilvægur í vörn Brentford. Thomas Frank hafði vonast til þess að hann yrði heill fyrir leikinn, en sú virðist ekki ætla að vera raunin.
Leikurinn
Það eina sem að ég vona er að liðið leggi sig 100% fram og að þeir gefi í það minnsta áhorfendum á Old Trafford ástæðu til þess að hafa hátt og hrópa lið sitt áfram. Það hefur verið ofboðslega leiðinlegt að sjá leikmenn beinlínis gefast upp og leggja ekki nóg á sig til að vinna grunnvinnuna inni á fótboltavellinum. Sama hvað þeir segja svo í viðtölum eftir leiki. Ég er að horfa á þig, Bruno Fernandes. Vinna fyrsta og annan bolta, vera ofan á í baráttunni inni á miðjunni og þéttir til baka. Þetta eru hlutirnir sem að ég vil sjá frá United í dag. Það mætti eiginlega halda að ég væri að tala um Watford eða Norwich.
Liðið í kvöld verður líklega keimlíkt því sem að við sáum gegn Chelsea. Þar lagði ég til að Ralf myndi gefa einhverjum ungliðum tækifæri. Hann gaf Alejandro Garnacho þrjár mínútur og leyfði jafnframt hinum síungu Juan Mata og Phil Jones að spreyta sig. Mögulega fær Garnacho lengri tíma í kvöld og hugsanlega einhver liðsfélagi hans úr unglingaliðinu. Þetta er allt mögulegt og hugsanlegt.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Brentford liðið spilar af ákefð og pressar stíft. Á því verður væntanlega engin breyting í kvöld og mögulega tvöfaldast ákefðin, svona í ljósi þess að þeir vilja hefna fyrir tapið á Brentford Community Stadium – og líka vegna þess að það er ótrúlega auðvelt að spila gegn Manchester United ef að lið bara nenna að leggja á sig smá vinnu. Hættulegustu menn liðsins eru framherjinn Ivan Toney og vængmaðurinn Bryan Mbeumo. Komist þeir mikið í boltann er voðinn vís fyrir stórkostlega vörn okkar. Brentford hefur unnið frábæra sigra gegn liðum á borð við Arsenal og Chelsea og gætu vel tekið þrjú stig í kvöld. Vonum nú ekki.
Spá
2-1 sigur. Lendum 0-1 undir, en Cristiano Ronaldo skorar tvívegis á síðustu 20 mínútunum og tryggir sigur.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar