Fyrir akkúrat einum mánuði síðan spilaði Manchester United síðasta leik tímabilsins og fór liðið eftir það í langþráð sumarleyfi. Daginn eftir kom nýi stjóri liðsins, Hollendingurinn Erik ten Hag, inn á skrifstofuna og hóf sín störf. Nú styttist í að æfingar hefjist aftur og liðið haldi síðan í æfingaferðalag á framandi slóðir, venju samkvæmt. Þessi pistill er hugsaður sem létt yfirferð á því sem hefur verið í gangi síðasta mánuðinn og vettvangur til að ræða það nýjasta og ferskasta í slúðrinu.
Sagan af Frenkie de Jong
Bjartsýnustu menn (les. ég) vonuðust til þess að þessi pistill hérna, sá næsti í röðinni á eftir kynningu á nýja stjóranum, yrði pistill fljótlega á eftir þeim sem byði velkominn fyrsta leikmanninn sem kæmi til félagsins í stjóratíð Ten Hag. Helst að það yrði einhver algjör bombukaup sem gæfi tóninn fyrir 1-2 önnur kaup sem yrðu svo kláruð fljótlega á eftir því. Allar fréttir fyrstu dagana sögðu frá því hversu duglegur Erik ten Hag væri að undirbúa störf sín hjá Manchester United, hversu æstur hann væri að koma til starfa og að hann hefði ákveðið að kíkja beint á skrifstofuna í Manchester í stað þess að byrja á sumarleyfi og mæta svo í lok júní til starfa.
En það hefur orðið töf á þessu. Við vitum að Erik ten Hag hitti mennina með völdin og leikmenn hafa verið ræddir. En það virðist allt stranda á því að United hefur ákveðið að setja ein kaup í algjöran forgang, slíkan forgang að allt annað sem gerist í sumarglugganum mun í raun ákvarðast út frá því hvernig þessi fyrstu kaup ganga. Frenkie de Jong á að verða lykilleikmaður í uppbyggingarstarfi Ten Hag hjá Manchester United. Hann á að leiða fjallgönguna aftur upp á tindinn, upp á toppinn. Út frá honum mun spilastíllinn blómstra og liðið aftur fara að berjast um titla. Hans útsjónarsemi inni á vellinum á að gefa tóninn fyrir restina af liðinu.
Barcelona verður að selja hann, þeir vilja selja hann. En þeir vilja bara fá hellings pening fyrir hann. Manchester United vill kaupa hann, United *verður* að kaupa hann. En Manchester United vill passa hversu stóra sneið af sumarinnkaupakökunni þeir setja í þessi kaup. Þess vegna hefur þetta dregist á langinn. Flestir áreiðanlegir fótboltablaðamenn virðast á því að þetta sé töluvert líklegra en ekki til að gerast. En reglulega koma þó bæði fréttir um að Barcelona vilji ekki fara niður fyrir ákveðna upphæð sem og fréttir um að United vilji ekki borga of mikið fyrir hann og sé reiðubúið að ganga frá samningaborðinu.
Þess vegna erum við hér. Þess vegna er enginn leikmaður kominn inn ennþá. Þolinmæðisverk sem verður að fá að koma í ljós hvort sé það rétta í stöðunni eða ekki. Manchester United gæti klárað þennan díl í dag, ef þeir einfaldlega borga þá upphæð sem Barcelona er búið að segjast vilja fá fyrir hann. Sem er líklega einhvers staðar í kringum 85 milljón Evrur eða 73 milljón pund. Samkvæmt nýjustu fréttum er tilboð United komið í 75 milljón Evrur eða 64,4 milljón pund. Ég ætla að ganga svo langt að segja að þetta sé tímaspursmál en það er bara spurning hversu langan tíma þetta tekur. Helst myndum við vilja fá leikmanninn inn áður en liðið fer í æfingaferðalagið og það algjörlega út úr kortinu að draga þetta framyfir upphaf tímabilsins. Liðið þarf á góðu undirbúningstímabili að halda, með eins fullskipuðu liði og hægt er.
Vonum að þeir nái að klára þetta fljótlega og til vara slútta þessu nógu tímanlega til að hægt sé að klára önnur kaup tímanlega.
Ajax bakgrunnur er algjört möst
Manchester United virðist ætla að vinna með þetta 100-150 milljónir punda (115-173 milljón Evrur) í innkaupasjóð sumarsins, fyrir utan það sem gæti komið inn með mögulegum sölum á leikmönnum. Því miður er söludeildin ekki upp á sitt besta hjá Manchester United. Söluvörurnar eru oftast á of háum launum og ekki nógu góðir leikmenn til að lið séu að berjast mikið um þá. Það væri vel séð að ná að selja Anthony Martial en því miður virðist það langsóttur draumur. Dean Henderson fer en bara á láni. Aaron Wan-Bissaka, Eric Bailly og Phil Jones mega fara en maður sér ekki margar milljónir koma inn á móti. Blanda af slæmum samningum og slökum frammistöðum hafa komið félaginu í þessa stöðu. Þá skilur maður líka betur af hverju liðið sýnir aðeins meiri þolinmæði í samningaviðræðum við Barcelona, það munar um hverja krónu (eða Evru/pund).
Það stoppar fjölmiðla þó ekki í að orða leikmenn við liðið. Helstu uppskriftirnar af því að orða leikmenn við liðið eru:
- Hann spilar eða hefur einhvern tímann á ferlinum spilað fyrir Ajax
- Hann spilar í Portúgal
Ajax tengingin er mjög skiljanleg. Það bíða flestir spenntir eftir að sjá hvernig fótboltinn verður sem Ten Hag ætlar að láta Manchester United spila. Það á alveg eftir að koma í ljós hversu tilbúnir núverandi leikmenn eru fyrir það að spila hans leikstíl en það er nokkuð vitað að þeir sem koma úr Ajax-skólanum ættu að geta fúnkerað nokkuð vel í hans leikstíl. Sérstaklega þeir sem hafa verið að spila fyrir hann hjá Ajax að undanförnu. Antony er þar mjög ofarlega á blaði, sprækur og áræðinn hægri kantmaður sem kann á kerfið. Það er líka talið líklegt að Ten Hag vilji miðvörð frá Ajax til að veita þeim Harry Maguire, Raphaël Varane og Viktor Lindelöf samkeppni, ef ekki hreinlega ganga beint inn í byrjunarliðið. Jurrien Timber var einn af þeim fyrstu sem var orðaður við Manchester United og það er talið að United hafi verið komið ágætlega á leið með viðræður við kappann þegar Louis van Gaal byrjaði að tala og sagðist ekki geta valið Timber á HM nema hann væri að spila reglulega. Tvennt í þessu; ef Timber óttast það að geta ekki unnið sér byrjunarliðssæti í þessari United-vörn þá er hann kannski ekki með karakter sem United þarf og hvernig van Gaal getur sagt þetta á meðan hann heldur áfram að velja Nathan Aké í hópinn sinn og jafnvel byrjunarlið er frekar fyndið. En allavega, Timber verður áfram hjá Ajax, virðist vera.
Hinn miðvörðurinn hjá Ajax, Argentínumaðurinn Lisandro Martinez, hefur tekið við keflinu sem Ajax-miðvörður sem er orðaður við Manchester United. Timber er lágvaxinn en Martinez er jafnvel enn lágvaxnari. Til að setja þetta í samhengi þá er Daley Blind hávaxni maðurinn í varnarlínunni við hliðina á miðvarðaparinu. Ajax er þó ekki par sátt við að missa frá sér enn fleiri leikmenn en þegar er orðið svo það virðist allt benda til þess að United þurfi að velja annað hvort Antony eða Martinez í þessum sumarglugga. Það ætti að skýrast ef(tir) að Frenkie de Jong díllinn klárast.
Annar Ajax-drengur sem hefur verið orðaður við Manchester United er hinn síspræki Christian Eriksen. Eriksen kæmi þó ekki beint frá Ajax heldur eru komin 9 ár frá því hann yfirgaf hollenska klúbbinn. Í millitíðinni hefur hann spilað fyrir Tottenham, Inter og Brentford. Hann er mjög klár knattspyrnumaður með auga, heila og fætur fyrir skapandi sóknarleik. Það væri kostur að fá hann inn með mikla reynslu á frjálsri sölu en hann er víst enn að hugsa málið og ekki víst að hann sjái Manchester United sem verkefni fyrir sig. Sjáum hvað verður.
Ef það er eitthvað sem toppar Ajax-tenginguna þegar kemur að slúðurvélinni þá er það líklega ef leikmaðurinn getur eitthvað og spilar í Portúgal. Þá er strax farið að orða hann við Manchester United. United átti víst að hafa boðið 100 milljón skrilljónir (eða eitthvað þar um bil) fyrir sóknarmanninn Evanilson hjá Porto. En þrátt fyrir að vissulega sé komin ágætis hefð fyrir portúgölskum tengingum hjá Manchester United þá virðist þetta vera enn eitt dæmið um portúgalska umboðsmenn og portúgölsk félög sem nota Manchester United til að hræra upp áhuga á leikmönnum þeirra. A tale as old as time. Kannski kemur portúgalskur leikmaður til United í sumar en eins og staðan er núna virðist ekki mikið benda til þess í fullri alvöru.
100 leikmenn á leiðinni
Það er alltaf jafn hressandi að fylgjast með slúðrinu í kringum Manchester United. Það er þessi skemmtilega blanda af leikmönnum sem vilja nýta United til að fá nýja samninga, félög sem vilja selja leikmenn, umboðsmenn sem vilja búa til áhuga og umtal á umbjóðendum sínum, blaðamönnum sem ýmist hafa rangar heimildir, reyna að giska í eyður eða einfaldlega taka sér ákveðið skáldaleyfi (líklega ekki margir í síðasta hópnum samt) og svo jú, þessir nokkru leikmenn sem Manchester United hafa í alvöru áhuga á og eru að reyna að vinna í að fá til félagsins.
Í sumar nálgast tala leikmanna sem hafa verið orðaðir við United á einhverjum tímapunkti núna 100. Það er svakalegt, eftir aðeins einn mánuð af sumarfríi og enn styttri tíma þar sem glugginn sjálfur hefur verið opinn. Förum við ekki bráðum að sjá Wesley Sneijder orðaðan við liðið? Hlýtur að styttast í það.
https://twitter.com/Muppetiers/status/1539071934083629056?s=20&t=Y2hmdGu_7Hyhq78egEl9ew
Held við getum nú flest afskrifað ansi hressilegan hluta af þessum nöfnum strax þótt það sé verið að orða þau við félagið. Hins vegar væri ansi gaman ef það kæmi svo einhver góð þruma úr heiðskíru og United myndi semja við leikmann sem væri ekki búið að orða við félagið.
Richard Arnold, nýi forstjóri Manchester United, hitti stuðningsmenn á hverfispöbbnum sínum um daginn. Það var skemmtileg leið til að koma í veg fyrir að þeir myndu mótmæla fyrir framan húsið hans, að fara í staðinn, hitta þá á barnum og bjóða þeim upp á bjór á meðan þeir ræddu málin. Hann fór um víðan völl og ræddi meðal annars um væntanleg innkaup félagsins.
https://twitter.com/centredevils/status/1538221847309078528?s=20&t=yrDnA8nD-4NlWCvDUVC_lA
Hluti af mér finnst þetta mjög vel gert hjá Arnold en það er líka partur af mér sem finnst þetta minna á nokkuð alræmd orð Ed Woodward á sínum tíma.
https://twitter.com/ManUtdStuff/status/506774687808909312?s=20&t=2KkG333kk-3ZOrW74QzGJA
Það er ekki víst að þeir sem sjái um samningaviðræður við Barcelona hafi verið sérstaklega ánægðir með þessi orð frá Arnold en sjáum til hvernig málin þróast og hvernig gengur svo í framhaldinu hjá Arnold.
Hvað er í gangi með kvennaliðið?
Það var gaman að fylgjast með kvennaliði Manchester United á síðasta tímabili. Þær voru í toppbaráttunni framan af og héldu sér inni í baráttu um Meistaradeildarsæti allt fram í lokaumferðina. Í síðasta leik gáfu þær verðandi deildarmeisturum Chelsea góðan leik og mikla baráttu en urðu á endanum að játa sig sigraðar.
Þetta er enn meira afrek í ljósi þess að samkvæmt nýjustu fréttum þá er United að vinna með lægra fjármagn í kvennaliðinu en allavega fimm önnur félög. Það leiðir til þess að kvennaliðið getur illa keppt við hin toppliðin um laun og leikmenn.
https://twitter.com/UtdDistrict/status/1538857067766861825?s=20&t=yrDnA8nD-4NlWCvDUVC_lA
Þetta hefur leitt til þess að öflugir leikmenn, eins og t.a.m. Lauren James, hafa yfirgefið félagið og þær bestu hjá liðinu núna eru tregar til að framlengja.
https://twitter.com/em_sandy/status/1538840228827475968?s=20&t=yrDnA8nD-4NlWCvDUVC_lA
Þetta er ekki nógu vel gert hjá félagi eins og Manchester United. Þegar félagið kom loksins aftur í nútímann og skráði kvennalið aftur til leiks þá virkaði við fyrstu sýn eins og það væri verið að gera þetta rétt. Mjög efnilegur og klár þjálfari var ráðinn, flottur hópur leikmanna með blöndu af reynslu, gæðum og tengingu við Manchester United var safnað saman og út á við leit út eins og stefnan væri sett á toppinn. En Casey Stoney hætti sem þjálfari liðsins eftir að ljóst varð að aðstaðan sem liðinu var boðið upp var ófullnægjandi, skipulagið lélegt, fjármagn lítið og metnaður stjórnar ekki nógu mikill heldur.
Kannski finnst þeim bara nóg að vera með lið í efstu deild, telja sig ekki þurfa að keppa um eitthvað meira en það. Það er sorglegt, þessir leikmenn eiga meira skilið. Það hlýtur að vera hægt að leggja meira í þetta. Vonandi á þetta eftir að batna því það væri frábært að sjá metnaðarfullt kvennalið hjá Manchester United, með titlabaráttum, Evrópukeppnum og jafnvel fleiri íslenskum leikmönnum.
Eitthvað að lokum?
Við tökum áfram stöðuna hérna. Munum koma inn með pistla þegar leikmenn fara að rúlla inn, tökum umræður þegar æfingaferðin hefst og hver veit nema við hendum jafnvel í nýtt podkast fljótlega.
Eruð þið með einhverja fleiri punkta eða umræður hingað inn? Hendið þeim endilega í komment hér að neðan.
Hjöri says
Góður pistill, og gaman að sjá minnst á kvennaboltann, og vonandi verður fjallað um hann hér í vetur. Það er aðeins farið að bera meir á umfjöllun um kvennaboltann í íslenskum miðlum, en samt ekki nóg að mínu mati. Hvað leikmannakaup varðar finnst mér að það hafi enginn áhuga að koma til Utd, allavega sér maður töluvert um það í miðlum, en vonandi fer að rætast úr þessu, að það verði ekki á síðustu sekúndum eins og komið hefur fyrir. Góðar stundir.
Scaltastic says
Þakka pistlahöfundi fyrir óeigingjarnt framlag á sögulegum tímum. Ég ætla framvegis að temja mér að bíta í tunguna, en geri undantekningu í þetta eina skipti.
Fyrir mér er þetta ekki flókin greining. Forstjóri félagsins leysti fullkomlega frá skjóðunni án þess að það væri hans áætlun geri ég ráð fyrir. Peningurinn sé til staðar til að kaupa leikmenn, en það þyrfti að finna öfluga fjárfesta til að uppfæra Carrington og Old Trafford. Ég er afar þakklátur að að þessi fullyrðing frá Richard Arnold sé til á hljóði (þó svo að ég sé ekki sammála því að taka fólk upp án þeirra vitundar almennt), vegna þess að þarna afhjúpar hann í fyrsta lagi metnaðarleysi eigendanna, ásamt því hvað þeir eru í mikilli afneitun um að stærð og prófíll félagsins geti framfleygt því lengi áfram á sjálfstýringu. Í öðru lagi þá gera heimsklassa leikmenn kröfur um alvöru æfingaaðstöðu. Það er barnalegt að telja sér trú um annað og félagið er langt frá því að vera samkeppnishæft varðandi Carrington.
Það er eina von Glazer’s, Arnold, Murtough, Fletcher og Co að Ten Hag sé topp fimm stjóri í heiminum ASAP. Ef svo væri og hann næði 90%+ út úr leikmannahópnum þá gætum við barist við Arsenal um 5. sætið. Tottenham og Chelsea eru því miður með sterkari hópa og topp klassa þjálfara. Trú mín á að Ten Hag sé á þeim stað núna er hins vegar afar veik, enda væri það óraunhæft. Þessir ágætu herrar eru ekki að rétta honum styrka hjálparhönd, svo mikið er víst.
Ef Ten Hag er í raun og veru topp 5 í heiminum þá er United nógu stórt vörumerki til að halda uppi þessum undursamlegu hrægömmum. Annars er okkar eina von að þeir selji félagið innan fimm ára.
Ps. Andy Pereira, Tony Martial, Brandon Williams, Axel Tuanzebe, Eric Bailly, Phil Jones, Aaron Wan Bissaka… Bara létt áminning að þeir eru að mæta til starfa á mánudaginn. Stjórninni er tíðrætt um að launakostnaður sé vandamál hjá félaginu, en halda í vonina um að fá alvöru pening fyrir þessu ágætu herra þrátt fyrir að þeirra þjónustu sé ekki lengur óskað. Það er í raun fáranlegt að a.m.k helmingur þeirra sé ekki seldur á sportprís. Það myndi lækka launakostnað og skapa aukna velvild við umboðsmenn annarra leikmanna. Hins vegar eru menn yfirleitt ekki að hugsa málin út til enda frekar en fyrri daginn.
Vonandi hefur United fólk á klakanum það ánægjulegt í sumar… ekki er vanþörf á.
Helgi P says
Að við séum að eyða öllu sumrinu í leikmann sem vil ekki koma er fáránlegt þetta verður langur vetur hjá okkur
Halldór Marteins says
Því hefði væntanlega verið sjálfhætt strax ef hann hefði ekki áhuga á að koma.
Það er augjóslega áhugi beggja félaga á að gera þennan díl ef ásættanlegur millivegur næst og United væri ekki að standa í því ef leikmaðurinn vildi svo ekki koma. Svo slíkar fréttir eru næsta augljóslega bull.
Miðað við allar fréttir sumarsins til þessa (ekki einstaka ýkjufrétt) þá væri Frenkie sennilega alveg til í að vera áfram hjá Barcelona en er samt til í skiptin ef það er það sem verður.
Arni says
Það eru öll lið að styrkja sig nema united
Turninn Pallister says
Ekki beint til þess að gleðja mann nýjustu fréttirnar af arðgreiðslum Glazier vampýranna nú þegar maður hefði haldið að klúbburinn þyrfti á blóðgjöf að halda í formi fjármuna. Það virðist morgunljóst að það er ekki mikill metnaður í því að reka þetta félag öðruvísi en til þess eins að blóðmjólka það í sinn eiginn vasa.
Helgi P says
Þetta fer að vera hálf vandræðalegt þessi gluggi
Halldór Marteins says
Ekki vandræðalegur nærri ennþá. Greinilega mjög mikið í gangi og tvenn afskaplega álitleg kaup komin á lokastig.
Það er nú bara júní ennþá, slökum aðeins á.
Sir Roy Keane says
Það stefnir í að að séu að koma til okkar tveir spennandi leikmenn, Malacia og De Jong sem gætu farið beint í byrjunarliðið. Flottar fréttir.
Er mjög spenntur að sjá hvernig Ten Hag ætlar að stilla upp miðjunni næsta vetur og við erum ekki orðaðir sterklega við pjúra varnarmiðjumann sem gefur frekar lítið af sér sóknarlega. Eru kannski mjög góð rök fyrir því og mu sú týpa af leikmönnum deyja hægt og rólega út í bestu liðunum í framtíðinni?
Náum við þessu jafnvægi sem okkur vantar á miðjuna með því að:
1. Fá inn De Jong í algert lykilhlutverk sem annar af djúpum miðjumönnum í 4-2-3-1
2. Miðjan fær betri stuðning varnarlega með nýjum alvöru miðverði, t.d. Pau Torres
3. Sá sem spilar við hliðina á De Jong er mjög góður á boltanum og „situr“ meira þegar De Jong fer framar í leikjum. Koma kannski Tilemans, Garner eða Beek til greina hérna? Hvernig er t.d. Fred með alvöru partner eins og De Jong? Hann var okkar besti miðjumaður á seinasta tímabili
4. Bruno að spila boltanum meira og tapa honum mun sjaldnar og fá alvöru samkeppni um að vera í byrjunarliðinu. Eru það Eriksen og Beek sem eiga að pressa á hann?
5. Hvert er hlutverk Beek, er hann einfaldlega sulta og vantar meira drive í hann?
Dór says
Ronaldo vil fara kemur ekki á óvart
Scaltastic says
Já, hakan er ekki á gólfinu yfir áformum Ronaldo. Þetta ætti líka ekki að koma félaginu í opna skjöldu. Ég er 99% viss um að það verði alvöru neitunarvald/afneitun út allan júlí áður en raunveruleikinn síast inn og hann fer.
Besta í stöðunni er að drífa söluferlið af stað og fara á fullu í að reyna að kaupa Victor Osimhen í staðinn, e.t.v. er það óraunhæft en það sakar ekki að láta reyna á það. Vara kostirnir sem ég tel vera raunhæfari eru Ivan Toney og Calvert Lewin.
Það er enn tími til að leysa þetta vandamál en þá þurfa Murtough og Co að hafa hraðar hendur. Vegna þess að það væri óboðlegt og algjörlega vonlaust að fara inn í tímabilið með Martial og Rashford sem einu „striker-ana“.
Helgi P says
Við erum búnir að eyða 2 mánuði í de jong og nú segir forseti barcelona að hann sé ekki til sölu þetta united lið dag verður nálagt falli þetta verður einhvað djók season
Tómas says
Held að þetta sé einhvers konar pólítík hjá Laporte. Hann veit að það er ekki vinsælt hjá öllum stuðningsmönnum Barca að selja De Jong en þykist opna fyrir að hann verði áfram lækki hann launin. Hann veit að það er stór möguleiki að hann brilleri hjá öðru liði.
Með þessu varpar hann ábyrgðinni svoltið frá sér að þurfa selja góðan leikmann út af fjárhagsstöðunni.
Væri fráleit að draga United á asna eyrunum í tvo mánuði eða meira og fyrir hvað? Væri bara fullkominn vanvirðing.
Er minna stressaður út af Ronaldo, hann er 37 og það er uppbygging að hefjast.
GHOm says
Vonandi munu eigendur félagsins sjá sóma sinn í að styðja betur fjárhagslega við bakið á félaginu á markaðinum, a.m.k. betur en hingað til. Annars held ég að tími Glazer ættarinnar sé á enda og fáir ef nokkrir munu fella tár þeirra vegna, á.m.k. verður E.T.H. að fá stuðning í verki.
Elis says
Mér hefur alltaf fundist eitt pínu fyndið í sambandi við viðhorf gagnvart eigendum Utd.
Byrjum á staðreyndum, þetta eru lélegir eigendur sem tóku lán til að kaupa liðið. Borga svo lánið með hagnaði frá Utd og taka sér arð beint úr félaginu = Viðbjóðslegt.
EN
Allt tal um að þeir styðji ekki liði í leikmanna kaupum er algjört kjaftæði. Man utd er líklega eitt það liða í heiminum sem hafa eytt hvað mest í leikmenn og laun á síðustu 10 árum.
Vandamálið er ekki að þeir setja ekki fjármagn í leikmenn eða laun heldur hvaða leikmenn eru keyptir eða fá þessi laun.
Halldór Marteins says
Það er ekki sama stuðningur og stuðningur. Það er spurning hvernig þetta er gert og þar hafa þessir eigendur brugðist alltof oft. Þeir eru btw ekki að leggja neitt í þetta sjálfir, aldrei. Þeir bara gefa félaginu stundum leyfi til að eyða sínum eigin pening í leikmenn en þá hefur það ekki verið gert nógu vel, eins og þú segir.
Svo er líka oft verið að eyða glórulausum upphæðum í að endursemja við leikmenn sem eru ekki að skila sínu í einhverri bókhaldsleikfimi sem snýst um að vernda virði leikmanna. Ekkert endilega fyrir væntanlegum sölum (því þar er United ekkert sérstaklega öflugt) heldur af því það þarf að halda ákveðnu virði í Excel-skjalinu fyrir lánadrottna. Bara það að félag eins og Manchester United skuldi allan þennan pening ætti að vera brottrekstrarsök.
Svo þessi „stuðningur“ frá Glazer-fjölskyldunni hefur verið sannkallaður bjarnargreiði. Fyrir nú alveg utan það hvað þessir þöngulhausar hafa leyft Old Trafford og allri æfingaaðstöðu að grotna niður, hvað allt utanumhald varðandi kvennaliðið er til skammar og fleira í hinum almenna rekstri sem er glatað út af því að eigendur félagsins eru fávitar sem hugsa aðallega með veskinu.
En það beiskasta er samt að um leið og við losnum við Glazerana þá eru allar líkur á að það komi bara eitthvað verra og við fáum alvöru viðbjóðseigendur eins og Manchester City og Newcastle sitja uppi með. Sem leggja kannski pening í verkefnið en hugsa fyrst og fremst um svindl og íþróttalegan hvítþvott.
Það er því ekkert fyndið við viðhorf gagnvart eigendum United. Þeir eiga allar bölvanir skilið. Megi þeir stíga á legókubba á hverjum degi!
Sir Roy Keane says
Fréttir í pressunni um að Ronaldo vilji fara.
Það eru líklega ekki margir aðdáendur sammála mér en ég er dauðfeginn ef hann fer í sumar og það sem fyrst. Ég var alls ekki spenntur fyrir því að fá hann í fyrra. Hafði vonda tilfinningu fyrir því.
Ég hef fylgst með mínu liði í tæp 40 ár og hef einhvernveginn aldrei verið sérstakur fan af Ronaldo. Held að liðið í dag og það sem verið er að byggja upp verði mun betra sem liðsheild án hans og við munum skora fleiri mörk en á seinasta tímabili:)
Keane says
„Sir Roy keane“…. Manutd er fjármálafyrirtæki. Þið eruð svo heimskir og blindir „stuðningsmenn“ að allir hlæja að ykkur. Þið haldið að hipsterinn ten hag bjargi öllu.. Glazer out! Ekki hægt að styðja þessa bankastofnun. Þið stuðningsmenn eruð blind fífl. Þið hlakkið eflaust til að horfa á magsquire skíða fram og kenna einhverjum öðrum um þegar hann fær á sig enn eitt markið eftir 5 mínútna 360° snúning…. sleppið stoltinu og haldið kjafti, annars verður biðin lengri en pool. Þið eruð heimskasti, blindasti og leiðinlegasti söfnuður af öllum sruðningsmönnum…
Keane says
Andskotans hálfvitar
Arni says
Hvaða væl er þetta í Ronaldo var hann ekkert búinn að fylgjast með þessu united liði í mörg ár við erum bara búnir að spila ömurlegan bolta síðan gamli kallinn hætti og það er ekki mikil bjartsýni fyrir þessu tímabili