Þá er fyrsta leik 4. umferðar ensku Úrvalsdeildarinnar lokið. Dýrlingarnir hans Ralf Hasenhuttle tóku á móti óbreyttu United liði frá sigurleiknum gegn Liverpool um síðustu helgi.
Á bekknum voru þeir Heaton, Maguire, Wan-Bissaka, Ronaldo, Fred, Casemiro, Shaw, van de Beek og Garnacho.
Heimamenn gera fáar breytingar á liði sínu frá sigurleiknum gegn Leicester um síðustu helgi en Che Adams, sem átti magnað innkomu og skoraði tvö mörk í þeim leik, fékk að byrja sem fremsti maður í stað Mara.
Á bekknum voru þeir : McCarthy, Lyanco, Bednarek, Valery, Perraud, Romeu, Diallo, Armstrong og Mara.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór ekki af stað með sama krafti og leikurinn við Liverpool. Bæði lið voru föst í varkárnisgírnum framan af og virtust bæði vera að reyna að fóta sig. Liðin skiptust á að reyna að skapa færi en trekk í trekk klikkaði síðasta sendingin eða menn reyndu of mikið og töpuðu boltanum. Á 7. mínútu átti Bruno Fernandes tilraun frá miðju þegar hann kom auga á að Bazunu var langt út úr markinu en honum tókst ekki að leika eftir markið hans Cavani á síðustu leiktíð og Bazunu greip boltann auðveldlega.
Bæði lið voru mikið að reyna háar fyrirgjafir sem varnarlínur liðanna áttu auðveld með að takast á við. Það lá þó í loftinu að það þyrfti ekki mikið að breytast til að leikurinn yrði fjörugur þar sem liðin skiptust á að sækja. Það var ekki fyrr en á 19. mínútu að fyrsta alvöru færið kom og sannkallað dauðafæri.
Diogo Dalot kom þá með fyrirgjöf frá hægri hluta vítateigsins sem rataði á kollinn á Bruno en Walker-Peters komst fyrirboltann og hann barst aftur yfir á hægri helming vítateigsins. Þar var það Anthony Elanga sem tók boltann og hamraði hann í átt að markinu en beint í belginn á Bazunu. Aftur skutu United menn að markinu en varnarmaður heimamanna komst fyrir skotið. Færið var ekki runnið úr greipum United því boltinn skoppaði fyrir fæturnar á Bruno sem negldi tuðrunni í trýnið á Walker-Peters og þaðan í horn. Hreint með ólíkindum að boltinn hafi ekki ratað í netið úr einhverri af þessum tilraunum.
Eftir um hálftíma leik kom fyrsta hættulega færið hjá heimamönnum þegar Elyounoussi átti fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Che Adams en boltinn sveif yfir þverslánna. Lítið markvert sem gerðist annað en að liðin skiptust á að reyna að skapa færi, þá yfirleitt með háum fyrirgjöfum en án árangurs. Liðin fóru því inn í hálfleik jöfn.
Síðari hálfleikur
Engar breytingar voru gerðar í hálfleik en leikurinn fór af stað keimlíkt og fyrri hálfleikur hafði endað. Liðin skiptust á að reyna og reyna en alltaf vantaði upp á gæðin í lokasendingunni. Heimamenn fengu aukaspyrnu eftir að Dalot braut á Djenepo sem var að hefja skyndisókn en James Ward-Prowse átti frekar slappa sendingu úr aukaspyrnunni og De Gea greip boltann og kom af stað skyndisókn. Elanga átti góðan sprett inn í vítateig Southampton en Bella-Kotchap, sem var án vafa einn besti maður vallarins, náði að henda sér fyrir skot svíans í tæka tíð.
En loksins gerðist eitthvað marktækt á 55. mínútu þegar Sancho fann Dalot á vinstri vængnum og portúgalinn kom með fyrirgjöf út í teiginn þar sem Bruno Fernandes stóð einn og óvaldaður og smellhitti tuðruna á lofti og beint út í vinstra hliðarnetið framhjá Bazunu í marki heimamanna. 1-0 og ísinn brotinn.
Southampton-menn tóku vel við sér eftir markið og tóku stjórn á leiknum og United virtist í bölvuðum vandræðum að hnoða saman eins og 3-4 sendingar milli manna. Á tímabili var Southampton með boltann meira en 80% á móti United liði sem hékk aðeins of aftarlega og þjörmuðu þeir vel að gestunum. Örstuttu eftir markið vildu þeir fá hendi dæmda á McTominay eftir að hann og Adams voru í baráttu um skallabolta og vissulega fór boltinn í höndina á skotanum en einnig í höndina á Adams og af verulega stuttu færi. Hefði verið grimmt að dæma víti en það hefði samt ekki endilega komið á óvart.
Næstu mínútur voru alfarið í eigu Southampton og á 66. mínútu kom frábær sending frá Adam Armstong frá vinstri kantinum á Aribo sem stóð nánast óvaldaður í markmannsteignum sem skallaði boltann í átt að markinu en De Gea kastaði sér snyrtilega fyrir boltann og bjargaði því sem hefði átt að heita nær öruggt mark. Tveimur mínútum síðar kom Ronaldo inn fyrir Sancho en portúgalinn var farinn að haltra einungis 7 mínútum síðar en endaði reyndar á að klára leikinn.
McTominay átti því næst sendingu á Ronaldo í teig heimamanna en rétt í þann mund er hann ætlaði að skjóta úr upplögðu færi náði Djenepo að kasta sér fyrir skotið og bjarga. á 72. mínútu gaf Malacia, sem átti ekki sérstakan leik í dag, aukaspyrnu úti við hornfánann og Ward-Prowse sendi á fjærstöngina þar sem Adam Armstrong skallaði boltann í brjóstkassann á Varane og vildu margir heimamenn þar fá víti en augljóst að boltinn fór ekki í hönd frakkans.
Loksins á 80. mínútu kom Casemiro inn fyrir Elanga til að gulltryggja hreint lak en örstuttu síðar komst félagi hans, Ronaldo, í hörkugott færi þegar hann sótti hratt að marki heimamanna og virtist vera kominn inn fyrir en Bella-Kotchap elti hann og náði að vinna upp nokkra metra og kasta sér svo fyrir skotið.
Heimamenn héldu áfram að reyna og reyna en fundu engar leiðir framhjá varnarmúr United, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Fred kom inn á fyrir Eriksen og á sama tíma var gefið upp að viðbótartíminn yrði um sex mínútur. Heimamenn fengu þó eina loka tilraun þegar Sekou Mara, sem kom inn á fyrir Che Adams, átti bakfallsspyrnu sem líklegast var þó á leið framhjá en hefði verið (fyrir hlutlausan áhorfanda eða stuðningsmenn heimamanna) afar glæsilegur endir á annars döprum leik.
Leiknum lauk svo með 0-1 sigri United. Langt því frá sama grimmd og gegn Liverpool á erfiðum og vondum velli en þrjú stig í hús og lengsta leikjahrina án sigurs á útivelli í tæp 90 ár þar með lokið.
Næsti leikur verður gegn Leicester City á lokadegi leikmannagluggans, 1. sept. n.k. kl 19:00.
EgillG says
Gat ekki séð leikinn, gott að fá 3 stig, vona að þetta er að skána hjá okkur.
Glazers out
Helgi P says
Fínt að ná í sigur þegar við spilum ömurlega Elanga er eingan veginn tilbúinn til starta leiki
Brynjólfur Rósti says
Sigur og hreint lak á útivelli gegn liði sem tók 3 stig gegn Leicester í síðustu viku. Get alveg sætt mig við það. Martial var sárt saknað og það voru alveg einstaka augnablik af einbeitingar- og/eða samskiptaleysi í vörninni, en heilt yfir bara allt í lagi.
Turninn Pallister says
Fannst vörnin heilt yfir vera fín í dag. Miðjan var dálítið gloppótt sem gerði það að verkum að það mæddi mikið á vörninni. Það vonandi lagast þegar Casemiro hefur slípast við hópinn. Sóknarleikurinn var hinsvegar bitlaus í dag og nokkuð ljóst að næsta skref verður að styrkja liðið þar.
Annars bara góð 3 stig og ekkert væl yfir því svona á síðustu og verstu tímum.
Rúnar P says
Sammála síðasta ræðumanni