Antony Matheus dos Santos er nýr leikmaður Manchester United. Antony er 22 ára gamall brasilískur landsliðsmaður sem kemur frá Ajax í hollensku Eredivise deildinni. Talið er að kaupverðið sé í kringum 95 milljónir evra ásamt 5 millj. í viðbótargreiðslur. Upphæðin gerir leikmanninn að þeim dýrasta sem hefur verið keyptur úr hollensku deildinni en næstdýrustu kaupin eru einmitt góðkunningjar United, þeir Frenkie de Jong (86 millj. evr.) og Matthis de Ligt (85,5 millj. evr.) sem voru seldir 2019/2020.
https://twitter.com/ManUtd/status/1564583777019609088
Antony kom í gegnum unglingastarfið í Sao Paulo í Brasilíu en árið 2020 var hann keyptur til Ajax en hann var fenginn til að taka við keflinu af Hakim Ziyech sem hægri kantmaður hollensku meistaranna. Kaupverðið þá var um 22 millj. evra auk þess að Sao Paulo myndi fá hluta af næsta kaupverði sem mun líklegast hækka upprunalega kaupverðið umtalsvert.
En hvað kemur Antony til með að færa liðinu sem ekki er nú þegar til staðar? Líklegast er að nafni hans, Anthony Elanga, sé sá sem missir sæti sitt í liðinu og að Jadon Sancho færist yfir á vinstri vænginn. Antony er ólíkur þeim sem fyrir eru hjá United þar sem hann er örvfættur, skapandi hægri kantmaður sem viðheldur breiddinni á kantinum, nokkuð sem hefur sárlega vantað síðustu ár hjá United. Hér að neðan sést hitakort (e. heatmap) hans fyrir síðasta tímabil með Ajax þar sem sést vel hve utarlega á vellinum hann heldur sig.
Antony opnar pláss fyrir „under-lapping“ bakvörð eins og Dalot, sem getur þá nýtt sér svæðið sem Antony skapar. Þá snýst leikstíll Antony frekar um að vinna boltann upp völlinn með spili frekar en að stinga hausnum undir sig og keyra á varnarmenn eins og Rashford er til dæmis þekktur fyrir að gera. Antony er einnig mjög vanur hápressubolta hjá ten Hag og þrátt fyrir mikla vinnusemi þá er hann líka skilvirkur í pressunni og mun betri varnarmaður en margir gera sér grein fyrir.
Brasilíumaðurinn er samt mun betri fram á við og til marks um það þá var hann með 12 mörk og 10 stoðsendingar í öllum keppnum fyrir Ajax á síðustu leiktíð en hann byrjaði þessa leiktíð af miklum krafti og er strax kominn með 4 mörk og 2 stoðsendingar í 6 leikjum. En síðan orðrómurinn um skiptin til United fóru af stað hefur hann misst af leikjum, þar sem hann fór í verkfall til að koma kaupunum í gegn. Hjá Ajax spilaði Antony undir Erik ten Hag en styrkleikar kantmannsins felast í hraða, sköpunargáfu, því að vera virkilega góður með boltann og vera stanslaus ógn fram á við ásamt því að vera með þennan X-factor sem fær áhorfendur til að rísa úr sætunum.
Það sem hann mun gera er að draga í sig varnarmenn og skapa pláss eða tækifæri fyrir aðra leikmenn. Rétt eins og við sjáum með Sancho þegar hann er með boltann að þá safnast varnarmenn í kringum hann sem býr til meira pláss fyrir aðra sóknarmenn liðsins. Ólíkt Rashford sem leitar inn á við frá vinstri vængnum þá heldur Antony breiddinni á hægri kantinum betur og teygir þannig vörnina og eins og sést á samanburði þá er Antony mun meira út við hliðarlínuna en t.d. Rashford (20/21):
Sama á við ef Anthony Elanga (21/22) er borinn saman við Antony:
Þá hefur Antony einungis misst af 13 leikjum frá því hann kom til Ajax (yfir tvö tímabil) en meiri hluti þeirra (8) kom undir lok tímabilsins 21/22 þegar hann meiddist á ökkla. Það verður samt að teljast varhugavert að greiða 100 milljónir evra fyrir leikmann sem hefur bara spilað í hollensku deildinni utan heimalandsins og hættan er því alltaf til staðar að pressan frá verðmiðanum verði þess valdandi að sagan endurtaki sig (Maguire, Wan-Bissaka, Depay o.fl.) en það skiptir einna helst máli er að þetta er leikmaðurinn sem Erik ten Hag vildi fá í hópinn.
Það að gefa grænt ljós á svo háa upphæð fyrir einn leikmann lýsir vel hve mikla trú stjórinn hefur á hæfileikum leikmannsins en hafa skal það hugfast að þetta er ungur leikmaður sem enn á sín bestu ár framundan. Hann er til að mynda jafngamall Tahith Chong og Håland og einu ári yngri en leikmenn eins og Darwin Nunez og Mason Mount.
Antony mun líklega eiga auðvelt að blandast inn í hóp United þar sem fyrir eru samlandar hans Fred og Casimiro, fyrrum Ajax félagar hans ten Hag og Martinez og svo er fjöldi leikmanna sem talar portúgölsku (Dalot, Ronaldo, Bruno). Antony lauk læknisskoðun í gær og er fastlega búist við því að hann verði í hóp fyrir Arsenal leikinn sem er seinni partinn á sunnudaginn. Í millitíðinni er leikur við botnlið Leicester City en ólíklegt er að Erik ten Hag muni henda honum beint inn í hópinn án þess að hafa náð svo mikið sem einni æfingu með liðinu.
Laddi says
Frábært! Mikið fé en gríðarlega spennandi leikmaður.
Helgi P says
Ef hann væri að spila á spáni þá væri engin að tala um verðmiðan á honum hann er eftir að reynast okkur vel