Manchester United heldur áfram að klifra upp töfluna eftir gríðarlega sætan sigur á toppliði Arsenal í dag. Leikur liðsins var ekki fulkominn í dag, en líkt og gegn Liverpool þá gáfu leikmenn ekki tommu eftir og börðust fyrir hvorn annan og merkið. Það eitt og sér er 110% bæting frá síðasta tímabili.
https://twitter.com/ManUtd/status/1566487921770860546?s=20&t=Fn6iLxmolumff2438p6QAA
Svona stilltu liðin upp.
Byrjunarlið Man Utd:
Byrjunarlið Arsenal:
Leikurinn
Okkar menn byrjuðu leikinn talsvert betur og náðu að festa gestina aftarlega á vellinum á meðan að leitað var að einhverri opnun. Diogo Dalot og Antony náðu vel saman og þeir félagar sköpuðu fyrsta marktækifæri leiksins fyrir Christian Eriksen. Daninn lúrði á fjærstönginni og freistaði þess að taka boltann á lofti eftir fyrirgjöf Dalot, en setti boltann rétt framhjá markinu með veikari fætinum. Stuttu síðar skoraði Gabriel Martinelli, en eftir langt VAR tékk hjá dómaranum Paul Tierney var markið dæmt af. Hárréttur dómur í ljósi þess að Martin Ödegaard fór í báða fætur Eriksen til þess að vinna af honum boltann og setja Martinelli í gegn.
Eftir „ekki-mark“ gestanna þá réðu þeir ferðinni. United liðið lá aftarlega á vellinum og gaf Arsenal fullt leyfi til þess að halda í boltann. Skytturnar sköpuðu sér einhver hálffæri, en engar alvöru opnanir. Það var svo á 35. mínútu sem að Old Trafford sprakk. Sjón er sögu ríkari.
https://twitter.com/254unitedd/status/1566488454317449216?s=20&t=htZXoNj81kXRA9c24pp_CA
Sending Eriksen í gegnum miðju Arsenal tekur sex leikmenn gestanna úr umferð og allt liðið er á hælunum. Staðan sem að Bruno tekur sér er klók og í algjöru uppáhaldi hjá Portúgalanum. Fyrsta snertingin er glimrandi hjá Bruno og þá gera Sancho og Rashford allt rétt. Antony er svo svalasti maðurinn á svæðinu þegar hann setur boltann framhjá Aaron Ramsdale. 1-0 fyrir góðu gaurunum. Í kjölfar marksins og fram að hálfleiksflauti héldu Arsenal boltanum án þess þó að ógna af einhverju viti og því gátu okkar menn gengið nokkuð brattir til búningsherbergja.
Frá því að Paul Tierney flautaði seinni hálfleikinn í gang þá fannst undirrituðum einungis tímaspursmál hvenær Arsenal myndu ná jöfnunarmarki. Þeir voru á undan í allan bolta og þvinguðu okkur í óþægilegar stöður frá fyrstu sekúndu. Það var því algjörlega í takt við upphaf hálfleiksins þegar að Bukayo Saka jafnaði leikinn fyrir Skytturnar á 60. mínútu. Raphael Varane gerði sjaldséð mistök þegar hann átti afar kærulausa sendingu sem að var étin. Ödegaard fann Gabriel Jesus í svæði inná teig, þar potaði Diogo Dalot boltanum beint fyrir Saka sem að renndi boltanum í markið. 1-1 og United við hina margnotuðu kaðla.
Stuttu fyrir mark Saka hafði Cristiano Ronaldo komið inná fyrir markaskorarann Antony. Þetta færði Rashford útá kantinn, sem að reyndist lukkuskref fyrir Erik ten Hag og okkur öll. Rashford tók alveg glimrandi þverhlaup aftur fyrir vörn Arsenal. Bruno Fernandes fann hann í hlaupinu með frábærri sendingu og með örlítilli hjálp frá Ben White var boltinn í netinu. 2-1!
Við mark Rashford fannst manni allir í okkar liði hækka um nokkra sentimetra. Kassinn var úti og baráttan til fyrirmyndar. Eftir jöfnunarmarkið óttaðist undirritaður það versta og óttinn við að Arsenal myndi ganga á lagið var talsverður. Þær áhyggjur reyndust algjörlega óþarfar og hvað þá þegar að Rashford hafði skorað þriðja mark okkar og annað mark sitt. Þá tók Eriksen afar snjallt hlaup í gegnum háa varnarlínu Arsenal og Bruno Fernandes tímasetti sendingu sína snilldarlega. Eriksen óð upp allan vallarhelming Arsenal áður en hann sýndi af sér dásamlega óeigingirni og renndi boltanum á Rashford sem að setti boltann í opið markið. 3-1 og fórnarlömb hræðilegu dómaranna sáu sæng sína útbreidda.
https://twitter.com/MarcusRashford/status/1566497325819858948?s=20&t=htZXoNj81kXRA9c24pp_CA
Tilraunir gestanna til að komast aftur inn í leikinn voru máttlitlar og með örlítið meiri klókindum og yfirvegun hefði sigurinn jafnvel getað orðið stærri í kjölfarið. Paul Tierney flautaði svo til leiksloka og leikmenn United voru kampakátir og afar gíraðir. Frábært að vinna lið sem að hefur staðið sig vel framan af tímabili og ekkert hundleiðinlegt að lækka aðeins í þeim rostann. On to the next one.
Maður leiksins: Christian Eriksen
Magnaður. Í dag sýndi hann ótrúlegan aga í því að hundelta Martin Ödegaard og berjast inná miðsvæðinu. Þá var það hann sem að fann Bruno í hættusvæði í fyrstu tveimur mörkunum og svo lagði hann upp það þriðja sjálfur. Alvöru happdrættisvinningur sem að við fengum.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1566478179287670785?s=20&t=htZXoNj81kXRA9c24pp_CA
Framhaldið
Næsti leikur er í uppáhaldskeppni okkar allra, sjálfri Evrópudeildinni. Þar eigum við heimaleik gegn spænska liðinu Real Sociedad. Má teljast líklegt að leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo og Casemiro fái byrjunarliðssæti í þeim leik. Leikið er afar þétt fram að Heimsmeistaramótinu í mannréttindaparadísinni Katar og því mikilvægt að reyna að nýta hópinn eins og hægt er.
https://twitter.com/TheEuropeanLad/status/1566478808382951425?s=20&t=htZXoNj81kXRA9c24pp_CA
Við erum klárlega á réttri leið og Erik ten Hag virðist ná vel til leikmanna. Ég er ánægður með að hann sé ekki fastur í leikstílnum sem að hann notaði hjá Ajax, þar sem að hann hefur ekki ennþá kannski þá leikmenn sem að hann vill til þess að spila eftir þeirri hugmyndafræði. Hann er pragmatískur og er að nýta leikmenn á þeim styrkleikum sem að best henta þeim. Liðinu leið vel án boltans í dag og var hættulegt þegar að tækifæri gáfust til þess að sækja hratt á Arsenal. Það munu augljóslega koma leikir þar sem að liðið verður í basli og við upplifum einhverja vaxtaverki, en í kvöld getum við brosað!
Kjartan says
Glory glory Manchester united
Leedsari says
Þvílíkur skandall að dæma á þessa litlu snertingu á baunann. Það mega vera margar aukaspyrnunar ef þetta var brot í hverjum leik. En kannski þjónar það þeim tilgangi að reyna með öllum ráðum dáðum að koma United ofár upp töfluna, hver veit ……
Turninn Pallister says
Hahahah ómæ elska að sjá „Leedsara“ að væla hérna inni, bið að heilsa Ted Lasso vinurinn! Hann vildi nú fá víti fyrir álíka klafs um daginn var það ekki?
Annars flottur sigur og allt að gerast hjá okkar mönnum.
Scaltastic says
Það er ekki annað hægt heldur en að vera gríðarlega ánægður með þennan sigur. Seinustu 35 í fyrri hálfleik vorum við yfirspilaðir og fyrstu 20 í seinni var rasskelling af verstu sort.
Þeim mun sterkara var að slá á puttana á þeim, að mínu mati þá á Bruno mesta heiðurinn af því. Mikið hrós á báða bakverðina. Þeir voru báðir undir í baráttunni í byrjun leiks en tókst báðum að snúa við taflinu í seinni hálfleik. Þeir eru menn leiksins fyrir mér.
Ég hef oft rangt fyrir mér og þessi leikur er engin undantekning frá því. Rashy var hörkuduglegur og nýtti færin vel og Eriksen var svo sannarlega 90 mín spilari í dag. Ég tel það hafa verið rétta ákvörðun að dæma markið þeirra af. Ødegaard nartaði í hælinn á honum og hnéð á honum fór aðeins í Eriksen. Þetta var ekki grófasta brot sem ég hef séð, hins vegar sá Eriksen hann aldrei og því missti hann jafnvægið auðveldlega.
Að lokum verð ég játa það að þetta Arsenal lið er hörkuflott og það kæmi mér á óvart ef þeir ná ekki meistaradeildarsæti á þessu tímabili.
Helgi P says
Frábær sigur nú bara halda þessu áfram
Arni says
ETH ákvað að gera þetta smá stressandi með því að setja Maguire inná
Silli says
@Leedsari
Í fótbolta er bannað að hrinda. Punktur.
Þorsteinn says
Mjög sætt, alltaf sérstaklega gaman að vinna Arsenal.
Rauði baróninn says
Það kom mér á óvart að dómarinn skuli hafa tekið markið af Arsenal. Vissulega var það brot en ekki alveg í takt við hvernig Englendingurinn dæmir. Þeir sleppa þessum brotum yfirleitt og enginn segir neitt og allir glaðir…. nema kannski Bruno F
Jón Þór Baldvinsson says
Frábær sigur og alveg yndislegt að sjá alla þessa góðu hluti sem Ten Hag er að gera með liðinu.
Þvílíkur þjálfari sem við höfum lukkast til að fá loksins, sá efnilegasti í bransanum í dag og getur byrjað enn eitt legacy tímabil fyrir klúbbinn okkar.
And mér fannst ánægjulegast að sjá að minn uppáhalds leikmaður er aftur kominn á beinu brautina og virðist stútfullur af sjálfstrausti eina ferðina enn, lagði upp fyrsta markið og skoraði svo hin tvö.
Marcus Rashford er ég viss um að eigi eftir að skrifa sig varanlega í sögu klúbbsins eins og Giggs og fleiri. Yndislegt alltaf þegar heimatilbúinn demantur af þessari gráðu fær að láta ljós sitt skína.
Helgi P says
Það er ótrúlegt að það hafi ekki verið fleiri lið á eftir Eriksen þvílíkur leikmaður sem hann er meira seigja McTominay lítur vel út með honum
Sir Roy Keane says
Frábær sigur og Ten Hag byrjar frábærlega.
Hugrakkur og mjög ákveðinn þjálfari og leikmenn sýndu sömu eiginleika á vellinum. Það eru ekki margir sem hefðu haft Casemiro á bekknum í stað McTominay í þessum leik eða að setja Antony beint í liðið á meðan Ronaldo er búinn að vera á bekknum seinustu 4 leiki.
Malacia og Eriksen eru að stimpla sig hressilega inn í liðið og verulega gaman að horfa á þá báða. Þeir kostuðu mjög lítið og það stefnir í að þeir tveir hafi verið brilljant kaup.
Það er líka komin miklu meiri baráttuvilji í liðið og á Martinez stóran þátt í að setja það fordæmi. Hann virðist vera hverrar krónu virði.