Í dag tók Everton á móti okkar mönnum á Goodison Park á úrkomumiklu kvöldi í Liverpoolborg. Erik Ten Hag gerði fjórar breytingar frá síðasta leik og bar þar helst að nefna að Anthony Martial var mættur upp á toppinn og Casimiro fékk að byrja við hlið Eriksen á miðjunni. Annars var liðið svona:
Á bekknum voru þeir Fred, Pellistri, McTominay, Heaton, Ronaldo (’29), Sancho, Elanga, Malacia og Varane.
Lampard stillti upp nánast óbreyttu liði nema Dwight McNeil settist á bekkinn og í hans stað kom Demariay Gray.
Á bekknum hjá heimamönnum voru þeir McNeil, Davis, Garner, Begovic, Calvert–Lewin, Rondon, Keane, Vinagre og Kyle John.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór hressilega af stað og United byrjaði í sókn en Everton menn voru skeinuhættir í skyndisóknum sínum og þrátt fyrir að stilla upp í 4-3-3 virkuðu þeir frekar þéttir í 4-5-1 þegar þeir voru að verjast og United komst lítið áfram. Það var líka ekki margar mínútur komnar á klukkuna þegar Casimiro gerði sig sekan um mistök þegar hann tapaði boltanum á eigin vallarhelming í baráttu við Onana sem stal boltanum og kom honum á Gray sem lagði boltann á Iwobi rétt fyrir utan D bogann. Sá gerði sér lítið fyrir og smurði boltann í fallegum boga fram hjá David de Gea í markinu og breytti stöðunni í 1-0 fyrir heimamenn.
Það veit ekki á gott þegar þú lendir undir gegn liðinu sem hefur á pappírum bestu vörn deildarinnar (fæst mörk fengin á sig) en sú var raunin fyrir okkar menn. Þeir tóku hins vegar í framhaldinu öll völd á vellinum og Everton menn voru glaðir tilbúnir til að gefa United pláss og rými utar á vellinum en United var með boltann yfir 70% af fyrri hálfleiknum.
Ekki leið á löngu þar til að varnir heimamanna brustu loks undan þrýstingnum en United hafði þjarmað nokkuð jafnt og þétt að þeim frá markinu. Anthony Martial var þá arkitektúrinn þegar hann dróg varnarmenn í sig með hreyfingu fyrir utan teig og fékk boltann í lappirnar og renndi honum til hægri þar sem Anthony kom á siglingunni, einn og óvaldaður og lagði boltann snyrtilega innanfótar í fjærhornið og jafnaði metin, 1-1.
Martial þurfti svo að fara af velli vegna meiðsla en í hans stað kom Cristiano Ronaldo sem átti einnig eftir að setja sitt mark á leikinn.
United komst fljótt aftur í kjörið færi þegar Dalot átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina beint á Bruno sem bar boltann að endalínunni og renndi boltanum út í teig þar sem Martial og Rashford virtust vera að dansa á sama fermetranum en á endanum komu þeir skoti á markið en Pickford var þá kominn út úr markinu og lokaði á skotið. Aftur fengu United frábært færi þegar Rashford vippaði tuðrunni yfir varnarvegg heimamanna í hlaupaleiðina hjá Casimiro sem kom á ferðinni og enginn virtist elta hann. Sá brasilíski skallaði boltann en honum tókst að stýra skallanum framhjá markinu, þrátt fyrir að það hafi líklega verið auðveldara að skora en skalla framhjá úr þessu færi.
Casimiro var aftur á ferðinni hinu megin á vellinum rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar honum tókst að missa boltann en vann hann um leið aftur af Iwobi og sá þráðbeina stungusendingu fyrir sér þegar Ronaldo tók á rás upp völlinn. Sendingin rataði beint í fæturnar á Ronaldo sem rak boltann áfram og var kominn einn inn fyrir og hamraði boltann með vinstri fæti framhjá enska landsliðsmarkamanninum sem kom engum vörnum við og breytti stöðunni í 1-2 fyrir gestina.
Síðari hálfleikur.
Fyrsta færið í síðari hálfleik kom eftir fyrirgjöf frá Casimiro frá hægri vængnum en Ronaldo tók framherjahugsunina og reyndi að skalla boltann en Bruno far beint fyrir aftan hann í betri stöðu. Eftir þetta fyrsta færi síðari hálfleiksins fóru Everton menn að gera sig líklegri og fór að þjarma að United. Það skilaði sér einungis í hálffærum og ekki neitt sem De Gea þurfti að gera annað en að taka útspörk og grípa æfingabolta. Hættulegasta færið kom sjálfsagt þegar Iwobi smellti honum viðstöðulaus fyrir markið en Seamus Coleman náði einungis að reka hálfa stóru tánna í tuðruna og boltinn rann af henni út fyrir aftan endalínuna.
Næsta færið okkar kom þegar United fékk aukaspyrnu á vinstri vængnum en Eriksen og Bruno stóðu fyrir boltanum og Rashford var einungis um tveimur álnum frá þeim. Furðuleg uppstilling en úr fyrirgjöfinni skapaðist ekki mikil hætta því enginn náði snertingu á boltann sem endaði þar af leiðandi í greipum Pickford. Aftur náðu Everton ágætiskafla sem lauk með stórhættulegri skyndisókn hjá United en þegar Rashford ætlaði að setja boltann þvert fyrir markið á Ronaldo sem sigldi í átt að fjærstönginni náði Colemann að nota hinn hlutann af stóru tánni og pota boltanum í horn. Hefði verið sannkallað dauðafæri ef ekki hefði verið fyrir bakvörðinn reynslumikla.
Aftur kom upp kafli þar sem heimamenn pressuðu stíft að marki gestanna en án nokkurs árangur. Þeir fengu fyrsta hornið sitt þegar 3/4 var liðinni af leiknum en rétt eins og áður endaði þessi kafli þeirra með því að United fékk hættulega sókn þar sem Everton voru komnir frekar hátt á völlinn með marga menn. Fallegt samspil milli leikmanna í fremstu víglínu skapaði loks grundvöllinn fyrir góðu tækifæri þegar Ronaldo fékk fyrirgjöf sem endaði reyndar fyrir aftan hann en með bakið að markinu ákvað hann að renna boltanum á Eriksen sem kom í seinni bylgjunni og hamraði boltann en framhjá markinu. Daninn hefði sjálfsagt viljað gera margfalt betur úr þessu færi og var augljóslega svekktur með sjálfan sig.
Heimamenn gerðu þá breytingar þegar um 15-20 mín voru eftir af leiknum þegar Calvert-Lewin og James Garner komu inn á í stað Coleman og Gueye. Stuttu eftir skiptingarnar kom dauðafæri eftir útspark frá De Gea. Ronaldo reis manna hæst og fleytti boltanum áfram á Marcus Rashford sem skallaði boltann líka en var fyrstur á vettvang sjálfur og tók á rás. James Tarkowski reyndi að taka hann niður en boltinn skoppaði af hverjum útlimnum af fætur öðrum og áfram hélt Rashford á meðan miðvörðurinn skoðaði grasið undir takkaskónum framherjans.
Svipaða sögu er að segja þegar Pickford kom út á móti Rashford, boltinn hrökk af fætinum á markverðinum, í boga yfir hann og eftirleikurinn auðveldur fyrir Rashford sem lagði boltann í tómt markið og skoraði fyrsta markið sitt gegn Everton. En VAR dómgæslan ákvað að boltinn hefði haft viðkomu í handlegg Rashford og þar með væri markið dæmt ólöglegt og staðan enn 1-2 og allt í járnum. Scott McTominay kom svo inn fyrir Eriksen til að styrkja miðjuna en gerði svo vel að næla sér í leikbann á fyrstu mínútunum sínum þar sem hann náði sínum 5. gula spjaldi undir eins.
Rondón kom inn fyrir gestina sem blésu til sóknar og reyndu hvað þeir gátu til að breyta leiknum og síðustu mínútur leiksins voru afar óþægilegar fyrir flesta United stuðningsmenn enda hver fyrirgjöfin og hálffærið eða skallinn sem ógnaði sigrinum. Hjarta stuðningsmanna hefði líklegast brostið í þúsund mola ef David de Gea hefði ekki hent í stórkostlega sjónvarpsmarkvörslu í uppbótartíma þegar James Garner, úr unglingaakademíu United, tók sig til og sýndi fyrrum liðsfélögum sínum hvað í hann er spunnið þegar hann smellti knettinum í óaðfinnanlegan boga í átt að markvinklinum. Þrátt fyrir að hafa haft lítið að gera í leiknum og þá sérstaklega í síðari hálfleik, þá var spænski kötturinn í markinu vel á verði og hélt boltanum úr búrinu.
Eftir þetta héldu heimamenn stífri pressu og fengu hvert hornið á fætur öðru og Pickford virtist ætla að fara fram í þeim öllum en að lokum blés Coote í flautu sína og stigin þrjú í höfn. Erfið baráttustig en framundan eru þrír heimaleikir, fyrst gegn Omonia í Evrópudeildinni og því næst Newcastle og Tottenham í deildinni en bæði lið hafa verið á ágætissiglingu undanfarið og verður hægara sagt en gert að skila 9 stigum úr þessum þremur leikjum.
Snorkur says
Góður sigur. Hefði þó viljað hafa hann öruggari, svona miðað við yfirburði framan af.
Casimiro víða valinn maður leiksins – Sé að hluta af hverju, finnst þó eins og hann eigi svoítið í land með að átta sig á tíma sem hann hefur á bolta.
Rashford er að koma virkilega vel til baka – verður mikilvægt að halda honum heilum.