Þá er komið að síðari viðureign United gegn Omonia Nicosia en liðin mættust á fimmtudaginn var á heimavelli kýpverska liðsins í 3. umferð Evrópudeildarinnar. Þeim leik lauk með sigri United 2-3, en fátt sem heillaði eftir hroðalegheitin gegn nágrönnum okkar í deildinni. Leikmenn eins og Eriksen og Ronaldo virtust þreyttir og langt frá sínu besta og mistök voru gerð sem kostuðu okkur ódýr mörk en að lokum sigldi United skyldusigrinum heim undir forystu þeirra Marcus Rashford og Anthony Martial. Þeir byrjuðu svo leikinn gegn Everton um helgina sem endaði með baráttusigri United í leik sem var miklu betri en sá á fimmtudaginn.
Eins og staðan er núna situr Omonia á botni Evrópudeildarriðilsins (E riðill) með 0 stig eftir fyrri helminginn á meðan United er í öðru sæti. Á sama tíma mætir Sheriff til Spánar og mætir þar toppliðinu. United ætti að fara í gegnum næstu tvo leiki hikstalaust og þar með tryggja sig upp úr riðlinum og ef allt gengur eftir verður leikurinn við Real Sociedad í síðustu umferðinni einungis leikur uppá hvort liðið endar í efsta sætinu.
En rétt eins og í bikarkeppni þá getur allt gerst í þessum Evrópudeildarleikjum. Erik ten Hag fékk smjörþefinn af því út á Kýpur þegar Omonia mættu grimmir til leiks, náðu forystunni og voru virkilega vel undirbúnir fyrir leikinn og hefðu með smá heppni geta tekið stig í leiknum. Það má ekki gerast aftur og United þarf að kæfa leikinn með 2 mörkum snemma í leiknum. Þeir kýpversku voru þó virkilega þéttir til að byrja með og voru erfiðir viðureignar og má ætla að þeir verði það aftur á morgun en munurinn verður þó sá að nú verða um 70 þúsund manns á móti þeim en ekki rúmlega 20 þúsund að hvetja þá. Vonandi mun andrúmsloftið á Old Trafford duga til að draga úr þeim þann kraft sem þeir sýndu í fyrri viðureigninni. En þá að liðunum.
Omonia Nocosia
Athletic Club Omonia Nicosia eða einfaldlega Omonia er kýpverskt íþróttafélag sem stofnað var stuttu eftir síðari heimsstyrjöld og er eitt sigursælasta fótboltalið á Kýpur í seinni tíð. Liðið spilar á stærsta velli Kýpur, New GSP Stadium, sem tekur 22.859 í sæti og er stutt af hlutfallslega flestum á eynni. Liðið hefur reyndar ekki farið vel af stað heima í deildinni en liðið er með þrjá sigra og þrjú töp en liðið tapaði núna um helgina á útivelli gegn liðið í fallbaráttunni. Líklegt verður að teljast að þeir reyni svipað upplegg og í fyrri leiknum þar sem þeir stilltu upp í 5-3-2 og lágu djúpt á vellinum og reyndu svo að nýta þau fáu tækifæri sem þeim fengu til að valda usla hinu megin á vellinum.
Ekki er ljós hvaða leikmenn eru á meiðslalistanum hjá þeim en flestir af þeim sem byrjuðu leikinn á fimmtudaginn var eru heilir og klárir í þennan leik og því vænti ég að liðið verði keimlíkt þótt í raun gæti ég haft kolrangt fyrir mér. Það er samt næsta víst að Omonia er sýnd veiði en ekki gefin, því þeir fóru til Spánar og mættu Real Sociedad og spiluðu 3-5-2 og voru ekki langt frá því að ná í úrslit þar en leiknum lauk með 2-1 sigri Spánverjanna.
Manchester United
Það var allt annað að sjá til liðsins um helgina eftir dapran leik gegn Omonia á fimmtudaginn og sorglegan leik þar áður en gegn Everton, sem fyrir leikinn voru með þéttustu vörn deildarinnar (believe it or not!) virtist loksins glytta aftur í Erik-ten-Hag boltann sem við höfum öll beðið spennt eftir. Liðið var mun skipulagðara en oft áður og virtist flæðið í leik liðsins vera allt annað. Spilað var stutt frá markmanni og David de Gea á hrós skilið fyrir bæði sendingar og það hversu duglegur hann var að koma út frá marklínunni sem hann hefur nánast staðið fastur á síðasta áratuginn eða svo. Casimiro kom inn í fyrsta byrjunarleik sinn í deildinni og spilaði allan leikinn og þrátt fyrir mistök hans í marki Everton spilaði hann svo eins og heimsklassaleikmaður eftir það og lagði upp sigurmarkið til að kóróna flottan leik.
Anthony Martial virkaði líka líflegur og mikil synd að hann hafi farið útaf meiddur því að sá franski er þrjú mörk og tvær stoðsendingar á þessum 134 mínútum sem hann hefur spilað á tímabilinu. Það þýðir að hann kemur að marki á 26,8 mín. fresti þegar hann spilar en til samanburðar er Erling Braut Svindlkall með mark/stoðsendingu á 41,7 mínútu fresti að meðaltali. Ef hann gæti bara haldist heill hugsa ég að sóknarleikur liðsins myndi stórbætast en því miður virðist hann gerður úr postulíni að hluta því bara áþessu tímabili er hann búinn að glíma við þrenn meiðslatímabili.
Af öðrum leikmönnum sem eru á meiðslalistanum eru þeir Brandon Williams, Donny Van de Beek og Harry Maguire en þá er Scott McTominay kominn í leikbann í deildinni og því má gera ráð fyrir að hann byrji þennan leik.
Það sem þarf að gerast í leiknum er númer 1 að leikmenn haldi einbeitingu í +90 mínútur því það sást í fyrri leiknum hversu fljótir þeir geta verið að refsa liðum sem gera mistök og sofa á verðinum. Númer 2, þá þarf McTominay að spila eins og hann byrjaði þessa leiktíð og númer 3 þá þarf United að taka stjórnina í leiknum og ekki sleppa henni á neinum tímapunkti. Ef þetta gengur eftir þá er bara spurningin um það hversu mörg mörk við skorum og svo lengi sem þau verða fleiri en hjá kýpverska liðinu þá skiptir annað ekki máli.
Á flautunni verður enginn annar en Jerome Brisard, 36 ára gamall franskur dómari úr Ligue Un en hann mun flauta til leiks á slaginu 19:00. Góða skemmtun!
Bjarni says
Jæja seinni hálfleikur að byrja, eigum við ekki að vinna þetta lið?
Helgi P says
Við eigum bara í erfiðleikum með öll lið sem við spilum við
Bjarni says
Hlýtur að detta inn eitt að lokum.
Arni says
Við eigum ekkert erindi í meistaradeildina með svona spilamennsku