Nú fara línurnar í Evrópudeildinni að skýrast en annað kvöld fer fram næstsíðasta umferð riðlakeppninnar. Sheriff frá Moldóvu mætir á Old Trafford en fyrri viðureign þessara liða fór fram 15. september en leiknum lauk með tiltölulega þægilegum 0-2 sigri United með mörkum í fyrri hálfleik frá Sancho og Ronaldo. United mætti því næst City og það fór eins illa og hægt fór en síðan þá er United taplaust og það sem meira er þá hefur United einungis fengið á sig tvö mörk í síðustu fimm leikjum. Það sama hefur ekki verið upp á teningnum hjá mótherjum okkar sem töpuðu um síðustu helgi og töpuðu í tvígang fyrir Real Sociedad í millitíðinni.
Sheriff
FC Sheriff Tiraspol frá Moldóvu var stofnað 1997 og hét þá Tiras Tiraspol en þrátt fyrir ungan aldur hefur Sheriff stillt sér upp á meðal sterkustu liða í Moldóvu en liðið hefur unnið 20 deildartitla, 11 bikarkeppnir ásamt fleiri titlum í heimalandinu.
Raunar hefur liðið nær einokað deildina heimafyrir og unnið sér þátttökurétt í Meistaradeildinni í umspili (og Evrópudeildinni) og þar af leiðandi stendur félagið á styrkari fótum fjárhagslega samanborið við önnur lið í moldóvsku deildinni.
En þrátt fyrir að eiga nánast fast sæti í Meistaradeildinni eru ekki margir leikmenn liðsins sem hinn almenni fótboltaáhugamaður þekkir. Gegn United 15. september var liðsuppstillingin 4-3-3:
Sheriff hefur ekki gengið sérstaklega vel að halda mönnum inn á í Evrópudeildinni því í báðum leikjunum gegn Real Sociedad enduðu Sheriffmenn 10 á vellinum og fyrir leikinn gegn okkar mönnum verður hægri bakvörðurinn Armel Zohouri í banni. Í hans stað má gera ráð fyrir að brasilíski bakvörðurinn Renan Guedes mæti á grasið á morgun. Miðjumaðurinn Moussa Kyabou tók út sitt bann í síðari leiknum og verður því tilbúinn í leikinn á morgun.
Fyrri leikur liðanna (á heimavelli Sheriff) var frekar jafn þrátt fyrir að leiknum lyki með 2 marka sigri þeirra spænsku og voru t.a.m. moldóvsku meistararnir með fleiri skot en mótherjinn. Í síðari leiknum var hins vegar allt aðra sögu að segja þegar Real Sociedad átti 27 skot á móti 2 hjá Sheriff og þar af rötuðu 8 á rammann og í þrígang endaði boltinn í netinu á meðan Sheriff átti ekki skot á rammann. Það þarf hins vegar að benda á það að Sheriff voru manni færri frá 33. mínútu og öll mörkin kou eftir það.
FC Sheriff hafa átt tilhneigingu til að vera í brasi á útivöllum, sérstaklega í Evrópu en þeim tókst þó að fara í fyrra á Santiago Bernabeu og hrifsa öll stigin af firnasterku Real Madrid liðið sem endaði á að vinna Meistaradeildina það árið.
Það er því augljóst að FC Sheriff er sýnd veiði en ekki gefin og það væri óskynsamlegt af Erik ten Hag að senda út varaskeifur gegn þeim.
Manchester United
Frá því að Casimiro kom inn í liðið hefur United ekki tapað og hefur brassinn náð að veita United gífurlegt frelsi framar á vellinum með yfirvegun og leikreynslu sinni. Hann á líka sjálfsagt harma að hefna eftir tapið á Bernabeu á síðustu leiktíð en það er þó mikilvægt að hafa í huga að núna reynir verulega á breiddina í hópnum og mikilvægt fyrir Erik ten Hag að rótera leikmönnum í þessu mikla leikjaálagi.
Góðu fréttirnar eru þær að Donny van de Beek, Harry Maguire, Aaron wan-Bissaka og Cristiano Ronaldo sáust allir á æfingu í gær. Hins vegar er Anthony Martial enn fjarri góðu gamni.
Á meiðslalistanum með honum er Raphael Varane, sem meiddist í síðasta leik og þá verður að teljast ólíklegt að ten Hag hætti á að láta Maguire spila en hann hefur verið tæpur og eins hefur Donny van de Beek lítið sem ekkert spilað á þessari leiktíð.
Það verða því þeir Wan-Bissaka og Ronaldo ásamt Victor Lindelöf sem koma inn í liðið en eins spái ég því að Luke Shaw og Marcus Rashford fái hvíld og liðið verði því þannig skipað:
Þrátt fyrir að Jadon Sancho hafi átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum tel ég að stjórinn líti á þennan leik sem kjörið tækifæri fyrir Englendinginn til að sanna sig og auka sjálfstraustið eftir slakt gengi undanfarið. Tyrell Malacia kemur aftur inn til að hvíla Shaw, Lindelöf og Wan-Bissaka koma í vörnina stað Varane og Dalot og geitin leggst upp á topp.
Hins vegar myndi ég byrja með Casimiro og Eriksen því með þeim tveimur í leik þar sem fastlega má búast við að United verði um 70% með boltann er mikilvægt að hafa menn sem annars vegar geta stoppað sóknaruppbyggingu mótherjanna í fæðingu og hins vegar þá sem geta brotið á bak aftur lið sem verjast djúpt á vellinum.
Með því að hvíla Diogo Dalot loksins missum við hins vegar það sem hann hefur upp á að bjóða, þ.e. góðar fyrirgjafir af hægri vængnum og því veltir undirritaður fyrir sér hvort ekki sé ráð í að hvíla Antony líka og fá réttfættan mann á hægri kantinn. En of margar breytingar gætu verið af hinu verra og vert að minnast á það að United þarf ennþá 1 stig úr síðustu 2 leikjunum til að tryggja sig áfram og helst þrjú stig til að halda draumnum um efsta sæti riðilsins á lífi.
Takist það myndi United sleppa við auka umferð í Evrópudeildinni í febrúar en annars spilar liðið heima og heiman við lið sem enda í 3. sæti í sínum riðli í Meistaradeildinni (lið sem þykja líkleg til að enda í Evrópudeildinni: Barcelona, Ajax, Atletico Madrid, Sevilla og Juventus).
Það myndi því hjálpa okkur gríðarlega ef Sheriff myndu halda uppteknum hætti og næla sér í rautt spjald og United næði marki snemma inn til að þurfa ekki að reiða sig á lykilleikmenn í leiknum enda er viðureign við West Ham á sunnudaginn sem United verður að vinna.
Leikurinn gegn FC Sheriff byrjar kl 19:00 og á flautunni er gríski stórflautuleikarinn Anastasios Sidiropoulos
Skildu eftir svar