Annað kvöld lýkur riðlakeppni Evrópudeildarinnar en Manchester United hefur þegar tryggt sér farseðilinn upp úr riðlinum og sömuleiðis Reacl Sociedad. Eftir sitja Omonia Nocia og FC Sheriff en þau mætast einmitt á sama tíma og United mætir á heimavöll Real Sociedad í leik um efsta sæti E-riðils.
Ólíkt Meistaradeildinni þá mætir efsta sætið í riðlinum ekki liði sem endaði í 2. sæti í öðrum riðli heldur situr liðið hjá á meðan liðin í öðru sæti etja kappi við þau lið sem duttu úr Meistaradeildinni (3. sætið í sínum riðli) í einskonar „bónus“ 32-liða úrslitum.
Sú umferð er spiluð alla jafnan í febrúar svo það er til mikils að vinna fyrir liðið sem endar í efsta sætinu því með því sleppur liðið við að leika tvo leiki í mjög svo þéttskipuðum febrúarmánuði. Þar að auki sleppur liðið við að mæta liðum á borð við Bayer Leverkusen, Sevilla, Barcelona, Juventus eða Ajax sem öll geta eða eru fallin úr leik í Meistaradeildinni.
En hvað þarf að gerast í viðureign United og Real Sociedad til að United sleppi við þessa auka umferð og fari beint í 16-liða úrslitin? Lítum á riðilinn eins og hann stendur í dag. Real Sociedad sitja á toppnum með 15 stig og +9 í markatölu á meðan United situr í öðru sætinu með 12 stig og +6 í markatölu.Einfalda svarið er að United þarf að vinna til að eiga möguleika á fyrsta sætinu en það er þó ekki nóg eitt og sér. Þegar lið eru með jafnmörg stig (eins og myndi gerast ef United sigraði á morgun) þá er næst litið til stigafjölda úr innbyrðisviðureignum. Þar sem Real Sociedad vann á Old Trafford og ef við vinnum úti þá væri það 3 stig á haus. Því næst er litið til markatölu úr innbyrðisviðureignum og hér vandast málið. 1-0 myndi jafna árangur Real Sociedad frá því í september. Þá væri næst litið til heildarmarkatölu úr riðlinum þar sem United er 3 mörkum á eftir Real Sociedad og því þýðir ekkert annað en tveggja marka sigur til að ná efsta sætinu.
Þó að Sociedad væri með +20 mörk yfir okkur þá myndi okkur nægja að vinna 2-0 því tekið er fyrst mark á markatölu úr innbyrgðisviðureignum en það að ætla á spænska grund og taka öll stigin er nokkuð sem hefur reynst United ansi snúið undanfarin ár. En ef United getur farið til Parísar og gert það sem engu liði hafði áður tekist að gera í Meistaradeildinni, snúa við 2-0 tapi á heimavelli og slá út puntdúkkurnar í París þá er þetta ekkert óraunhæfur möguleiki á morgun.
Real Sociedad
Mögulega er til betri tími til að mæta spænska liðinu en núna. Þeir sitja í 5. sæti La Liga og hafa unnið 9 af síðustu 11 leikjum sínum. En eins og með svo mörg lið þá eru meiðsli að hrjá Real Sociedad en á meiðslalistanum eru þeir David Silva, Oyarzabal, Umar Sadiq, Momo Cho, Alex Sola, Aihen Munoz, Ander Barrenetxea og Takefusa Kubo og af þeim er einungis talið líklegt að fyrrum City maðurinn, Silva, verði klár á fimmtudaginn. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að spá fyrir um liðsuppstillinguna en knattspyrnustjórinn, Imanol Alguacil, hefur notast við 4-1-2-1-2, 4-3-3, 4-5-1 og 4-2-3-1 í Evrópudeildinni og því ómögulegt að segja til um mögulega liðsuppstillingu en samt sem áður spái ég liðinu svona:
Manchester United
Það rétt hafðist um helgina gegn West Ham þegar Rauðu djöflarnir vörðu 1-0 forystu síðustu 20 mínúturnar af leiknum. Það sama getur ekki verið upp á teningnum á morgun. Real Sociedad þarf að koma í veg fyrir að United skori 2 eða fleiri mörk og það kann vel að vera að Alguacil þétti liðið í fjarveru þessara lykilleikmanna og spilið með liðið djúpt og reyni að halda í sæti sitt með öguðum varnarleik fyrst og fremst.
United er að glíma við einhver meiðsli líka en stærsta skarðið skilur Varane eftir sig. Þá urðu þeir Anthony Martial, Jadon Sancho og Antony allir eftir í Manchester og verða því ekki með okkur á morgun. Þar sem Bruno Fernandes er kominn í leikbann í Úrvalsdeildinni mun hann að öllum líkindum byrja leikinn. Hópurinn sem ferðaðist til Spánar:
De Gea, Dubravka, Vittek, Lindelof, Maguire, Martinez, Malacia, Dalot, Shaw, Wan-Bissaka; Fernandes, Eriksen, Fred, Casemiro, Pellistri, Van de Beek, McTominay, Iqbal, Ronaldo, Rashford, Elanga, Shoretire og Garnacho.
United þarf að byrja þennan leik eins og leikinn gegn PSG fyrir 2 árum síðan, þ.e.a.s. af miklum krafti og helst að skora snemma í hálfleik til að hrista upp í heimamönnum. Það er virkilega brött brekka fyrir United að ætla að sækja til sigurs og það með 2 mörkum hið minnsta og leikmenn þurfa að mæta virkilega tilbúnir í þennan leik ef þeim á að takast ætlunarverkið.
Það er þó enginn heimsendir að ná ekki í úrslit hér en það gæti haft mikið að segja þegar upp er staðið í febrúar en leikirnir eru mitt á milli leikja við Leeds, Leicester og Brentford en liðið á einmitt inni frestaðan heimaleik við Leeds. Það væri því gráupplagt að geta lagt Leeds tvisvar sinnum í febrúar í stað þess að þurfa að leika við Barcelona, Juventus eða Leverkusen t.a.m.
Þar sem United verður án Sancho, Antony og Martial mun Ronaldo að öllum líkindum byrja upp á topp. Eriksen og Fernandes sjá um að skapa færin en Rashford og Elanga/Garnacho verða á vængjunum. Það verður svo ansi stór hlutverk fyrir Harry Maguire að stýra vörninni sem í fjarveru hans hefur varla fengið á sig mörk í undanförnum leikjum en þeir þurfa að skella í lás ef liðið ætlar sér að eiga möguleika á verkefninu.
Að skora þrjú mörk eða fleiri á jafn vel skipulagt lið og Sociedad mun reynast mjög erfitt enda hefur það einungis gerst tvisvar á þessu tímabili, annars vegar í 1-4 tapi heima fyrir gegn Barcelona og svo í 3-5 sigri á Girona á útivelli. Þrátt fyrir að Ronaldo sé nú með lélegustu tölfræðina í Evrópudeildinni af framherjunum mun það koma í hans hlut að leiða framlínuna okkar, einfaldlega vegna manneklu. Það er til einföld lausn á málinu. Skella airpods í Portúgalann og spila þemalag Meistaradeildarinnar þegar hann gengur út úr búningsklefanum. Hann ætti að kunna að gíra sig upp í leiki gegn La Liga liðum og ef hann nær að koma sjálfum sér í það hugarfar að hann sé í Meistaradeildinni þá mun kvikna á kauða.
Við erum í þessari stöðu eftir vafasaman vítaspyrnudóm á heimavelli og ég er viss um að Martinez er ekkert á þeim buxunum að tapa þessum leik. Það kemur hins vegar í hlut þeirra sem framar eru á vellinum að galdra fram einhverja töfra og finna lausnir gegn varnarleik heimamanna. United þarf því að halda vel á spilunum og má ekki misstíga sig ef draumurinn um farseðilinn beint í 16-liða úrslitin á að haldast á lífi. Leikurinn fer fram 17:45 og á flautunni verður enginn annar en Gregori Kabalov frá Búlgaríu.
Egill says
Hvað er að gerast með ETH og þessar skiptingar? McTominay á aldrei að spila fyrir Man Utd, hvað þá að setja hann í miðvörð af engri ástæðu.
Ognað setja Slabhead í sóknina er avo glórulaust að ég á ekki orð. Gæinn getur ekki skallað boltann fyrir fimmaur og við erum ekki með leikmenn inná sem geta sent fyrirgjafir.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ETH gerir skiptingar sem styrkja andstæðinginn, hann var mæstum því búinn að klúðra leiknum gegn West Ham með furðulegum skiptingum.