Jú við erum víst nýbúin að spila við Aston Villa en fáum nú smá tækifæri til að hefna tapsins, þegar Villa kemur í heimsókn í Carabao bikarnum annað kvöld. Venjulega værum við að horfa upp á verulega breytt lið frá sunnudeginum og þá í átt að yngri leikmönnum og þeim sem eru á jaðri aðalliðs en það verður ef eitthvað er öfugt hjá United. Bruno Fernandez er frjáls úr banninu, Anthony Martial kom inn á sunnudaginn og ætti að vera heill og Antony og Jadon Sancho gætu báðir verið orðnir góðir af meiðslum og veikindum. Að auki er aðeins þessi leikur og deildarleikurinn gegn Fulham á sunnudag eftir fram að HM hléi og því engin ástæða til að hvíla menn.
Villa er aðeins meira spurningamerki. Leander Dendoncker og Jan Bednarek eru báðir bikarbundnir og spila ekki og verið gæti að Emery róteri eitthvað en sama gildir auðvitað um Villa, það er lítil ástæða til að hvíla menn og hví ekki að láta kné fylgja kviði og reyna að vinna United aftur.
Leikurinn hefst kl 20.00 annað kvöld og flautuleikari er David Coote
Skildu eftir svar