Manchester United hefur leik á ný eftir mánaðarlangt hlé vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu þegar liðið tekur á móti Burnley á morgun miðvikudag í 16 liðar úrslitum enska deildarbikarsins.
Fjórir leikir keppninnar eru leiknir í kvöld, einn á fimmtudag en þrír á morgun. Leikur United hefst klukkan 20:00.
United nýtti hléið á Spáni og spilaði þar tvo æfingaleiki en reið ekki feitum hesti frá þeim. Tapaði fyrst 4-2 gegn Cadiz og síðan 1-0 fyrir Real Betis. Vissulega fengu margir leikmenn mínútur sem vanalega komast ekki einu sinni á varamannabekkinn en í liðinu voru líka leikmenn sem ekki komust á HM, til dæmis Antony Martial, David de Gea og Viktor Lindelöf.
Aaron Wan-Bissaka fékk sín fyrstu tækifæri í langan tíma en glansaði ekki. Donny van der Beek spilaði fyrri leikinn en náði sér ekki á strik. Í umsögn sinni spurði Andy Mitten hvort hann myndi nokkurn tíman gera það í United-treyjunni.
Nóg hefur samt verið af fréttum af United í hléinu. Í fyrsta lagi var Cristiano Ronaldo leystur undan samningi eftir að hafa flúið í faðm Arsenal-aðdáandans Piers Morgan og grenjað úr sér lungun. Við hafa tekið vangaveltur um arftaka, einna helst Cody Gakpo sem átti gott mót með Hollendingum eða Goncalo Ramos sem setti þrennu fyrir Portúgal gegn Sviss. Ekkert í þeim málum skýrist fyrr en eftir áramót.
Í öðru lagi sýndu Glazerarnir áhuga á að selja félagið, í það minnsta að fá inn nýtt hlutafé. Slíkt skapar vissulega óvissuástand en gæti líka falið í sér tækifæri að fá einu sinni til tilbreytingar fé inn í félagið frekar en það þjóni sem lánastofnun fjölskyldunnar.
Síðustu daga hafa síðan verið vangaveltur um nýja samninga. United hefur ekki nýtt sér tækifæri til að framlengja við David de Gea og Marcus Rashford er sagður krefjast launahækkunar langt umfram verðbólgu og almenna kjarasamninga.
Jadon Sancho var sendur í séræfingar hjá hollenskum þjálfurum. Hann er ekki enn mættur til æfinga hjá United og verður því ekki með á morgun. Milli línanna má lesa að vandamál hans eru ekki bara andleg heldur líkamleg líka.
https://twitter.com/LisandrMartinez/status/1604577311772315650
Lisandro Martinez verður í verðskulduðu fríi eftir að hafa orðið heimsmeistari með Argentínu. Raphael Varane veitir heldur ekki af hvíld eftir að hafa verið skipt út af örmagna í framlengingunni í úrslitaleiknum.
Flestir HM-fara United æfðu í morgun. Þar voru Rashford, Harry Maguire, Luke Shaw, Casemiro, Fred, Anthony, Tyrrell Malacia, Bruno Fernandes, Christan Eriksen og Facundo Pellistri en ekki Diego Dalot. Nokkrir yngri leikmenn voru einnig á æfingunni sem og Brando Williams sem fékk ekki tækifæri í Spánarferðinni en er orðinn heill af meiðslum sem hrjáð hafa hann í haust.
Burnley ber að taka alvarlega því liðið hefur spilað keppnisleiki í Championship-deildinni síðustu tvær helgar og unnið í bæði skiptin. Þar með hefur liðið unnið fjóra af síðustu fimm leikjum. Það féll úr úrvalsdeildinni í vor en hefur farið frábærlega af stað í deildinni á fyrsta tímabilinu undir stjórn Vincent Kompany og er efst í deildinni með 47 stig og 22 mörk í plús. Burnley og Sheffield United eru þar í algjörum sérflokki. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu en þar eru samt kunnugleg andlit, Jóhann Berg Guðmundsson spilaði síðasta leik og Jay Rodriguez var fremsti maður. Vert er að muna að Burnley er ekki fjarri Manchester og því um hálfgerðan grannaslag að ræða.
Skildu eftir svar