Fyrsti leikur á United á nýju ári er í ensku úrvalsdeildinni gegn Bournemouth klukkan 20:00 þann 3. janúar á Old Trafford. Fyrir umferðina er United í fjórða sæti, tveimur stigum á eftir Newcastle en búið að leika einum leik færra en skjórarnir frá Norðymbralandi. United hefur farið vel af stað eftir HM og unnið báða leikina í úrvalsdeildinni sem og deildarbikarleikinn gegn Burnley. Bournemouth hefur ekki unnið leik eftir HM og ekki einu sinni skorað mark. Bournemoth tapaði 0-2 gegn Crystal Palace á gamlársdag og hafa einungis unnið einn leik í síðustu fimm deildarleikjum sínum.
Lisandro Martinez er kominn aftur til Manchester eftir stífan fögnuð í Argentínu og gæti þetta verið fyrsti leikur hans eftir HM. Meiðslalistinn hjá United er sem betur fer ekki langur, Jadon Sancho er kominn til baka til Manchester eftir að hafa verið að æfa einn en hann hefur verið að takast á við andlega veikindi og því ólíklegt að hann verði í hóp á morgun. Diogo Dalot kom meiddur heim af HM, það styttist þó í að hann verði tilbúinn en að öllum líkindum verður hann þó ekki í byrjunarliðinu gegn Bournemouth. Þá er Scott McTominay að glíma við einhvers konar veikindi og óvíst hvenær hann verður tilbúinn í að spila. Það er kannski óþarfi að fara mjög ítarlega í meiðsli leikmanna í herbúðum Bournemouth en helstu fréttirnar eru þær að Phillip Billing er meiddur og verður ekki með gegn United, Billing er markahæsti leikmaður Bournemouth í deildinni á tímabilinu með 4 mörk.
Leikurinn á morgun er mjög mikilvægur þar sem Arsenal og Newcastle liðin í 1. og 3. sæti mætast á Emirates vellinum sama kvöld. United getur því minnkað bilið og mögulega komist yfir Newcastle í töflunni. Næsti leikur United í ensku úrvalsdeildinni er svo gegn grönnum sínum í City þann 14. janúar og það væri mjög vel þegið að mæta í þann leik með sigurleik í síðasta deildarleik á bakinu.
Liðin
United
Ég held að Erik Ten Hag muni stilla upp svipuðu liði og gegn Wolves en geri mögulega tvær breytingar. Ég tel að Lisandro Martinez komi inn í miðvörðinn og verði þar með Raphael Varane og að Luke Shaw fari í vinstri bakvörðinn, það myndi þýða að Tyrell Malacia setjist á bekkinn. Þá finnst mér næsta víst að Rashford verði í byrjunarliðinu nema að hann sofi aftur yfir sig, hann kæmi þá inn á vinstri kantinn í stað Garnacho.
Bournemouth
Suðurstrandar drengirnir frá Bournemouth munu að öllum líkindum stilla upp í 3-5-2 líkt og í síðustu leikjum og eins og áður sagði verður Phillip Billing ekki með vegna meiðsla. Fyrrum vonarstjarna Liverpool Dominic Solanke mun þá að öllum líkindum leiða framlínuna ásamt Walesverjanum Kieffer Moore.
Að lokum
Þessi lið hafa mæst tíu sinnum í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun og hefur United unnið sjö viðureignir en Bournemouth aðeins tvær, þá hefur Bournemouth aldrei unnið á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar en eina jafntefli liðanna í deildinni kom þó í Leikhúsi draumanna. Dómari leiksins er Michael Salisbury en hann hefur dæmt 10 leiki í úrvalsdeildinni á ævi sinni og gefið 45 gul spjöld í þeim og eitt rautt spjald, hann hefur aldrei verið aðaldómari í úrvalsdeildarleik hjá United. Craig Pawson mun síðan fylgjast grannt með leiknum í VAR herberginu. Það spáir rigningu í Manchester á morgun sem ætti ekki að koma neinum á óvart og hitastigið verður u.þ.b. 12 gráður. Þrátt fyrir að enginn leikur í ensku úrvalsdeildinni sé auðveldur að þá ætti United að vinna þennan leik nokkuð þægilega og setja pressu á liðin fyrir ofan.
Skildu eftir svar