United mætti Charlton í átta-liða úrslitum enska deildarbikarsins í kvöld. Erik Ten Hag gerði miklar breytingar á United liðinu frá Everton leiknum 6. janúar. Það koma þó kannski ekki að koma neinum á óvart þar sem Charlton leikur í 1. deild og United er í miklu og ströngu leikjaprógrami en næsti leikur er gegn Manchester City. Maguire leiddi liðið út á völlinn og í fyrsta sinn á nýju ári fengum við að sjá McFred miðju í byrjunarliðinu. Þá var kannski áhugaverðasta breytingin sú að Kobbie Mainoo 17. ára piltur byrjaði. Antony, Elanga og Garnacho leiddu framlínu United til að byrja með.
Liðin
United:
Bekkur: De Gea, Wan-Bissaka, Casemiro, Eriksen, Pellistri, Shaw, Rashford, Lindelöf og Zidane Iqbal
Charlton:
Fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikur byrjaði frekar fjörlega og fyrsta færi United kom eftir eina og hálfa mínútu þegar Garnacho prjónaði sig inn í teig og sendi boltann út í teiginn. Boltinn aðeins of utarlega fyrir Antony en boltinn barst út til Dalot sem henti í eitt gott bakvarðarskot talsvert yfir markið í fínu færi. Fimm mínútum síðar sendi Garnacho bakvörð Charlton yfir í næstu sýslu með einfaldri gabbhreyfingu út við hliðarlínu og keyrði inn á teiginn en skot hans yfir, argentínumaðurinn sprækur í upphafi. Hálfri mínútu síðar lúðraði Maguire boltanum yfir á títtnefndan Garnacho sem kom sér inn á teiginn átti skot í varnarmann en fékk þó ekki hornspyrnu. Eftir rúmlega 11 mínútna leik var það svo komið að Malacia að ógna af vinstri kantinum þegar hann kom með fína sendingu út í teiginn á Fred, sem hélt boltanum niðri en af varnarmanni fór boltinn og í horn. Leikurinn róaðist aðeins sérstaklega vegna smávægilegra höfuðmeiðsla Charlton leikmanns en á 21. mínútu fékk Antony boltann frá Fred rétt fyrir framan vítateig, „köttaði“ inn á vinstri og smellti boltanum upp í vinkilinn fjær, glæsilegt mark og staðan 1-0 fyrir United.
Örlitlu síðar komst Malacia upp að endamörkum og átti sendingu fyrir en varnarmaður Charlton rétt náði að koma boltanum í burtu áður en Garnacho renndi sér á boltann. Mikið fjör fyrstu 25 mínúturnar. Á 32. Mínútu fékk United aukaspyrnu á fínum stað eftir að brotið var á Fred, áður en spyrnan var tekin settist Dalot niður, leik hans því miður lokið og Wan-Bissaka kom inn í hans stað, vonandi ekki alvarlegt, Dalot er nýkominn tilbaka úr meiðslum. Fred tók aukaspyrnuna sem hann krækti í og my oh my, Fred þrusaði boltanum í stöngina og ótrúlega nálægt því að auka forystu United. Örskömmu síðar fékk Charlton aukaspyrnu á sama stað hinu megin á vellinum, Morgan tók aukaspyrnu Charlton en skotið talsvert framhjá. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks keyrði Garnacho inn á teig en skot hans hátt yfir.
United menn voru ágætlega sprækir í upphafi fyrri hálfleiks en eftir markið dróg nokkuð af þeim og Charlton menn fengu aðeins meira sjálfstraust, kannski var einhver sviðsskrekkur í leikmönnum Charlton til að byrja með. United hefðu samt alveg geta leitt með meiri en einu marki miðað við þau færi sem þeir fengu, þó var ekkert af þeim algjört dauðafæri. Garnacho var einna helst sprækasti maður United og flest færi komu eftir aðkomu hans. United voru 73% með boltann í fyrri hálfleik og xG upp á 0.73, Charlton voru með xG upp á 0.1 en það var líklegast aukaspyrnan sem þeir fengu, því ekki ógnuðu þeir marki Heaton að neinu örðu leiti.
Seinni hálfleikur
Charlton átti fyrsta færi seinni hálfleiks þegar Leaburn flikkaði boltanum áfram og Fraser fékk boltan en átti skot yfir markið fyrir utan vítateig. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik átti Wan-Bissaka fyrirgjöf og Elanga koma boltanum í netið en Svíinn var réttilega dæmdur rangstæður. Á 60. mínútu gerði Ten Hag þrefalda breytingu Kobbie Mainoo, Antony og Fred fóru útaf fyrir Rashford, Casemiro og Eriksen. Þá gerðu Charlton skiptingu á sama tíma, af velli fór Blackett-Taylor og í hans stað koma Eoghan O’Connell, taktísk breyting úr 4-3-3 í 5-4-1 eða 3-4-3. Stuttu eftir skiptingarnar geystust United í sókn og Garnacho kominn inn á teig en Maynard-Brewer varði skot hans mjög vel. Á 76. mínútu kom há sending inn fyrir vörn Charlton, Maynard-Brewer kom út og renndi sér á boltann rétt áður en Garnacho náði til knattarins, Maynard-Brewer renndi sér þó út fyrir teiginn og klárlega aukaspyrna og gult. Dómarinn dæmdi þó ekkert og í sókn fóru Charlton menn, Malacia braut af sér rétt fyrir utan vítateig en aukaspyrnan fór þó beint á Heaton í markinu. Nokkrum mínútum síða átti Garnacho enn nú aftur fínt hlaup inn á teiginn og náði sendingu á Eriksen sem setti knöttinn í varnarmann og aftur fyrir. Horspyrnan var tekinn boltinn skallaður útfyrir teiginn þar sem Rashford tók hann viðstöðulaust en hitti hann afar illa, boltinn rúllaði til Martinez sem var einn og óvaldaður, hann lyfti boltanum yfir Brewer en Martinez mjög rangstæður og markið því dæmt af.
Í næstu sókn keyrði Garnacho inn á teig sendi boltann fyrir, fékk svo aftur boltann sendi hann á Eriksen sem átti lúmskt skot en Maynar-Brewer varði mjög vel og í horn fór boltinn. Varamarkmaður 1. deildarliðs Charlton að sanna hið forkveðna: Markmenn andstæðinga á Old Trafford leika ávallt yfir getu. Erik Ten Hag gerði þá síðustu breytinguna sína í leiknum og inn á koma Facundo Pellestri fyrir Anthony Elanga. Rétt eftir að hafa komið inn á átti Pellestri fínann sprett sem endaði á því að hann sendi boltann á McTominay sem átti skot í varnarmann úr fínu færi og Maynard-Brewer greip hann þægilega. United virtist ætla að merja 1. deildarlið Charlton með einu marki, þangað til heitasti maður Englands í dag mundi að hann átti eftir að skora. Rétt fyrir uppbótartíma vann Garnacho knöttinn á vallarhelmingi United, koma honum á Casemiro sem átti glæsilega skiptingu yfir á Pellestri. Pellestri koma honum á Rashford sem kláraði þægilega fram hjá Maynard-Brewer, 2-0 fyrir United. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af uppbótartíma átti Casemiro snyrtilega sendingu inn fyrir á Marcus Rashford sem hélt uppteknum hætti og setti hann fram hjá Maynard-Brewer, 3-0 fyrir United. Dómarinn flautaði leikinn svo af um leið og Charlton tók miðjuna, leik lokið.
Að lokum
United voru mun betri aðilinn í leiknum þó að bestu mínúturnar hafi kannski verið fyrstu 25 mínúturnar þá tókst þeim ekki að drepa leikinn fyrr en alveg í blálokin. Charlton menn geta verið ansi ánægðir með sína frammistöðu, þeir ógnuðu kannski marki United ekki mikið en þeir voru þyrnir í síðu United löngum stundum og gerðu United erfitt fyrir. Það má þó segja að United menn virtust vera frekar kærulausir eftir að fyrsta markið kom og spiluðu meginnþorra leiksins í öðrum gír. Það dugði en spilamennskan var ekki til mikils útflutnings. Garnacho var mjög sprækur og þrátt fyrir að hafa ekki skorað né lagt upp þá var hann eiginlega besti leikmaður United í kvöld, Marcus Rashford kom svo inn á og sýndi leikmönnum United að það er ekkert sérstaklega erfitt að skora gegn þessu Charlton liði.
Það var alveg augljóst að það var enginn framherji inn á hjá United, þangað til Rashford koma inn og fór upp á topp, þrátt fyrir að Rashford sé ekki pjúra senter þá er hann talsvert betri þar en Elanga. Kobbie Mainoo má vera ágætlega sáttur með sinn fyrsta leik, sást ekkert sérstaklega mikið en var heldur ekkert lélegur, þá getur Pellestri verið ánægður með sína innkomu en hann var talsvert sprækur og lagði upp eitt mark. Lisandro Martinez virtist vera í smá basli í leiknum, missti boltann of langt frá sér og átti misheppnaðar sendingar, skrifast líklegast niður á lélegt leikform, vonandi verður hann betri gegn City næsta laugardag. United var 70% með boltann í leiknum og var með 2.11 í xG, Charlton var með 0.28 í xG. United er komið í undanúrslit deildarbikarsins og leika næst gegn City í ensku úrvalsdeildinni laugardaginn 14. janúar.
EgillG says
þetta var bara lauflétt, gott að getað hvílt nokkra leikmenn. McT þarf samt aðeins að fara í smá sjálfsskoðun að vera í feluleik á móti 3. deildarliði er bara vandræðalegt