Á morgun koma grannarnir í heimsókn á Old Trafford. Síðasti leikur þessara liða var sýningarleikur Phil Foden og Erling Haaland, þrenna frá báðum og eftir leikinn var United átta stigum frá City, að vísu með leik til góða. United sat þá í sjötta sæti, á eftir Brighton og Chelsea en stigi á undan Newcastle. Síðan 2. október hefur hins vegar margt gerst og United aðeins tapað einum leik í deild og unnið síðustu fjóra. Að auki er samfelld sigurganga liðsins nú átta leikir. Síðasta tap liðsins var sjötta nóvember á Villa Park, en sú einkennilega tilviljun er að það var einmitt síðasti leikur Cristiano Ronaldo fyrir United.
Fyrir vikið hafa United haldið í við City og aðeins betur, eru fjórum stigum á eftir. Liðið getur því saxað forskot City niður í eitt stig með sigri á morgun!
Eigum við að leyfa okkur að láta okkur dreyma? Það er spurningin og eina svarið er „Já, en…“.
Ef það er einhver andstæðingur sem hefur heimavallarforskot United á Old Trafford að vettugi þá er það Manchester City. Síðustu ellefu leikir í deildinni hafa farið þannig að United hefur unnið tvo, tveir enduðu með jafntefli en City hefur unnið hina sjö. Þessir sigurleikir eru þeir einu þar sem United hefur skorað meira en eitt mark í. Sagan segir okkur því að City sé hreinlega líklegra liðið á morgun. Þeim mun stærri prófsteinn er þessi leikur því á þá drauma sem síðustu vikur hafa vakið með okkur stuðningsmönnum. Ef sigur vinnst á morgun þá er virkilega hægt að segja að nýir tímar séu runnir upp á Old Trafford. Jafntefli eða tap, og þá vitum við að baráttan á tímabilinu snýst um fjóra bikara, bikarinn, deildarbikarinn, Evrópubikarinn og Arsène Wenger bikarinn. Arsenal virðist reyndar aldrei þessu vant ekki ætla að blanda sér í baráttuna um þann bikar, en meira um það um næstu helgi.
Lið Manchester United á morgun
Stærsta spurningin fyrir leikinn á morgun er nú hvort Wout Weghorst verður á leikskýrslu, United hefur til hádegis í dag, föstudag, til að skrá hann í hópinn og gera hann löglegan með liðinu. Wout er vissulega ekki leikmaðurinn sem væri fyrstur á blað sem eftirsóttasti sóknarmaðurinn til United, en staðan er þannig að það eru ekki peningar til að kaupa stórt nú í janúar og það þarf greinilega einhvern sóknarmann og helst þá ekki enn einn framherjann sem kann best við sig á vinstri kantinum. Weghorst er af gamla skólanum, 1,97m á hæð og hefur yfirleitt skorað ágætlega í þeim minniháttar liðum sem hann hefur leikið með.
https://twitter.com/oltsport_/status/1613528113295622145?s=20&t=ijTVmzr5NOWDftEzRBaXcA
En hann stóð sig vissulega þokkalega gegn Argentínu, sýndi skallatæknina og svo líka að hann getur eitthvað gert þegar hann fær boltann í fæturna. Það væri ekkert að því að hafa hann á bekknum á morgun, tilbúinn að hrista aðeins upp í leiknum.
En byrjunarliðið velur sig því sem næst sjálft, allir heilir og eina spurningin er hvort Fred eða Christian Eriksen verða á miðjunni. Fyrir þennan hasar sem búast má við á morgun held ég að Fred sé betri kostur, því baráttan á miðjunni má ekki tapast, þaðan af síður snemma leiks, og Fred er eins og nýr leikmaður eftir að hann fékk Casemiro félaga sinn til United. Martial verður í frenstu víglínu og Rashford úti á kanti, en fyrir mitt leyti væri ekkert hræðilegt að sjá Garnacho á kantinum og Rashford fremstan. Það bíður þó líklega skiptinga. Annars er ekki komin staðfesting á meiðslum Diogo Dalot, ef hann er frá á morgun kemur Wan-Bissaka inn
Manchester City
City á að sjálfsögðu ýmsa möguleika til að bregða frá þessu. Cancelo gæti komið inn vinstra megin fyrir Ake, og Jack Grealish fyrir Foden sem hefur reyndar verið oftar raunin síðustu vikur. Svo eru nöfn á borð við Julian Álvarez sem stóð sig svo vel á HM, Cole Palmer og já, Kalvin Phillips. Leedsaranum þætti líklega ekki leiðinlegt að gera United skráveifu. Meiðslalistinn er stuttur, aðallega Ruben Diaz, en John Stones ætti að vera í lagi eftir að hafa misst af leiknum við Southampton á miðvikudaginn í deildarbikarnum. Það þótti sérstaklega fréttnæmt við það 2-0 tap að City átti ekki skot á mark í leiknum. Við myndum alveg þiggja það á morgun.
Leikurinn hefst á morgun kl 12:30 og við vonum að Stuart Atwell hafi lítið að gera á flautunni.
Skildu eftir svar