Á morgun, sunnudaginn 12. mars klukkan 14:00, mun United taka á móti Southampton á Old Trafford í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Eftir að hafa verið slegnir all hressilega niður á jörðina síðustu helgi þá svaraði liðið mjög vel fyrir sig gegn Real Betis í miðri viku, 4-1 sigur á Old Trafford og miðinn í 8-liða úrslit evrópudeildarinnar nánast tryggður (7,9,13). Dýrlingarnir í Southampton sitja á botni ensku úrvalsdeildarinnar með 21. stig. Liðið tapaði gegn Leeds 1-0 í ensku úrvalsdeildinni 25. febrúar, liðið lék þá gegn Grimsby í FA bikarnum 1. mars og tapaði 2-1. Liðið vann svo síðasta leik sinn í ensku úrvalsdeildinni gegn Leicester síðustu helgi 1-0.
Það er nánast óþarfi að segja það en þessi leikur er skyldusigur, þrátt fyrir að United ætti að sigra Southampton talsvert þægilega, þá hafa Southampton verið að sækja stig gegn stærri liðunum í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er búið að vinna Chelsea tvisvar, City einu sinni, hafa sótt stig gegn Arsenal á tímabilinu. James Ward Prowse er markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með sex mörk og ég biðla til United leikmanna að sleppa því að brjóta af sér í ákjósanlegri skotstöðu fyrir Ward-Prowse.
United liðið var óbreytt milli Liverpool leikjarins og Betis leikjarins, kannski skynsamlegt að leyfa mönnum að girða sig sjálfa í brók. Maður fær smá á tilfinninguna að sumir United leikmanna séu orðnir dálítið lúnir á löngu og ströngu leikjaprógrammi og kannski líklegt að Ten Hag hvíli 1-2 leikmenn annað hvort um helgina eða í leiknum í bikarnum næstu helgi. En Ten Hag hvílir aldrei leikmenn, hann gæti mögulega tekið Casemiro og Rashford ef United er í góðri stöðu gegn Southampton. Það er alltaf vesen að mæta liðum sem eru að berjast fyrir lífi sínu og því mikilvægt að United mæti strax til leiks en ekki bara til síðari hálfleiks eins og hefur komið fyrir talsvert oft á tímabilinu.
Líkleg byrjunarlið
United:
Ég ætla bara að spá sama liði og gegn Betis, kannski kemur Wan-Bissaka inn á fyrir Dalot en annars held ég að Ten Hag haldi sig við þetta byrjunarlið.
Southampton
Ég hef ekki mikið að segja um lið Southampton nema fylgist með hinum 19 ára Lavia á miðjunni hann er mjög skemmtilegur. Gæti verið fínn miðjukostur, sérstaklega ef Southampton fellur.
Tóró says
Er ekki löngu kominn tími á að lagfæra nafn fyrirliðans í liðsuppstillingum?