Það eru fá lið með jafn mikla bikarhefð og Manchester United. Reyndar bara eitt – Arsenal. Við sem aðeins eldri erum munum þegar bikarsigur var regluleg hefð, ýmist til sárabótar fyrir slæmt gengi í deild á áttunda og níunda áratug síðustu aldar eða sem hluti af tvennum á þeim tíunda. Þá fór United í efsta sæti þessa lista en á tuttugustu og fyrstu öldinni hafa eingöngu bæst við tveir sigrar – 2004 og 2016. United hefur því alls heimt bikarinn tólf sinnum Árin 2005 og 2018 töpuðust úrslitaleikir en á meðan hefur Arsenal unnið reglulega og er því tveimur sigrum á undan United.
Á morgun gefst tækifæri til að saxa á þetta forskot þegar United mætir Manchester City á Wembley. Það er óhætt að segja að United hefur ekki verið jafn ólíklegt til sigurs í bikarúrslitaleik í 38 ár. Í fyrsta skipti síðan þá mætir liðið nýkrýndum Englandsmeisturum, og í fyrsta skipti síðan 1977 mætir United nýkrýndum Englandsmeisturum sem eru á leið í úrslit Evrópukeppninnar.
Þetta er því frekar ný reynsla fyrir marga stuðningsmenn: Úrslitaleikur sem snýst næstum jafn mikið um að hitt liðið sigri ekki og að United sigri. En: bara næstum! Nóg um það, leikurinn á morgun er tækifærið fyrir Eric ten Hag að vera fyrsti stjóri United til að vinna bikarinn á sínu fyrsta tímabili með liðið, eftir að hann varð fyrstur til að vinna bikar á sínu fyrsta tímabili þegar deildarbikarinn var tryggður fyrir rúmum þremur mánuðum. Og þá yrði hann auðvitað fyrstur stjóra að koma með tvo bikara í hús á sínu fyrsta tímabili.
Það er að verða eitt af óáhugaverðari umræðum fótboltans hvort sé mikilvægara, bikarsigur eða Wengerbikarsigur. Nú þarf ekkert að ræða þetta, United er komið með bikar og tryggði sæti í Meistaradeildinni með nokkru öryggi þegar uppi stóð. Ef sigur vinnst á morgun verður þetta tímabil óneitanlega eitt það besta síðan Sir Alex hvarf á braut og það besta síðan 2017 þegar deildarbikarinn og Evrópudeildarbikarinn unnust. Hver hefði ekki þegið það þann þrettánda ágúst síðastliðinn þegar Brentford niðurlægði United 4-0 og tvö töp í tveimur leikjum staðreynd. Síðan þá hefur að mestu gengið vel með smá hikstum og stöku hóstakasti.
Andstæðingar morgundagsins, Manchester City, eru sem fyrr segir Englandsmeistarar, og á leið í úrslit Meistaradeildarinnar gegn Internazionale. Þeir unnu stórsigur á United í haust, en síðasti leikur liðanna var 2-1 sigur United á Old Trafford. Það er alveg hægt að vinna þetta lið
Leiðin í úrslitin
3. umferð Everton 3–1
4. umferð Reading 3–1
5. umferð West Ham United 3–1
6. umferð Fulham 3–1
Undanúrslit Brighton & Hove Albion 0-0
Leikirnir í fyrstu fjórum umferðunum fóru allir fram á Old Trafford en vítaspyrnusigurinn gegn Brighton að sjálfsögðu á Wembley. Tiltölulega þægileg leið að undanúrslitum frátöldum
3. umferð Chelsea 4–0
4. umferð Arsenal 1–0
5. umferð Bristol City 3-0
6. umferð Burnley 6–0
Undanúrslit Sheffield United 3–0
City sá um tvö stórlið í fyrstu tveimur umferðunum, ef hægt er að kalla Chelsea stórlið þetta árið, en fékk síðan létta leið.
Lið City á morgun
Úrslitin í meistaradeildinni eru eftir viku, ekki í miðri viku eins og eitt sinn var og því engin ástæða fyrir City að gera einhverjar breytingar að ráði á sínu liði. Þeir gerðu það um síðustu helgi og á morgun má búast við þeirra sterkasta liði.
Pep Guardiola hefur tæpt á að Rúben Dias, Kevin de Bruyne og Jack Grealish séu tæpir, en það er ekki mikil ástæða til að taka mark á því.
Manchester United
Það eru tvær staðfestar fjarvistir á morgun: Anthony Martial og Lisandro Martínez. Martial verður kannski ekki sárt saknað en ef hann væri til staðar gæti Marcus Rashford verið í sinni bestu stöðu á vinstri kantinum. Victor Lindelöf hefur sannarlega stigið upp síðan Martínezmeiddist en mun þurfa að eiga frábæran leik á morgun. Antony fór meiddur af velli um síðustu helgi en gæti verið til í slaginn á morgun.
Antony hefur vissulega ekki alltaf staðið sig frábærlega á tímabilinu og það eru vissulega skiptar skoðanir um ágæti hans. En það er alveg á hreinu að þegar hann er í liðinu stendur það sig betur en ella. Hann er frekar einfættur og kannski einhæfur í skotum en vinnusemin er mikil og ef einhvern tímann er nauðsyn, þá er það á morgun. Miðja Manchester City er líklega sú besta í boltanum í dag og það kæmi verulega á óvart ef hægt væri að láta Christian Eriksen byrja. Það þarf að vera eins mikið stál þar og hægt er og við vitum að Fred og Casemiro vinna vel saman og við þurfum þeirra besta leik á morgun.
Það er hins vegar ekki spurning hver verður lykilmaðurinn hjá Manchester United á morgun
https://twitter.com/StatmanDave/status/1663203434324008961
Bruno tryggði sigurinn á Old Trafford í vetur með þessu líka ótrúlega skemmtilega marki sem sauð stuðningsmenn City svo rækilega og á morgun getur hann verið sigurvegarinn.
Á bekknum bíður fyrst og fremst Alejandro Garnacho. Garnacho fékk ekki að fara á HM U20 með Argentínu, og hraði hans og leikni getur skipt sköpum ef hann fær tækifærið til að koma óþreyttur inná.
Í fyrsta skipti í mörg ár verður leikið á eðlilegum leiktíma, kl 2 að íslenskum tíma, til að gefa Manchester búum tækifæri á að komast heim eftir leik, en eins til að minnka ölvun á leiknum. Víst er þó að það er vonlaust þegar kemur að mörgum stuðningsmanninum, það er ekki búið að slípa alla kanta af leikupplifun í bikarúrslitaleik!
Skildu eftir svar