Þessi viðureign gegn Nottingham Forest á laugardaginn getur ekki komið nógu fljótt fyrir suma á meðan einhverjir myndu helst vilja taka heilt undirbúningstímabil fyrir leikinn. United er með þrjú stig eftir tvo leiki, ósanngjarn heimasigur gegn Úlfunum og grautfúlt útitap gegn Tottenham en þetta upphaf leiktíðarinnar skilur vafalaust eftir ákveðið óbragð í munninum hjá stuðningsmönnum Rauðu djöflanna og minnir óneitanlega að sumu leyti á upphaf síðustu leiktíðar.
En það er fullsnemmt að byrja að örvænta. Erik ten Hag hefur vissulega fengið sinn skammt af gagnrýni fyrir liðsuppstillingu og skiptingar í þessum tveimur umferðum en gullfiskaminni ákveðins minnihluta stuðningsmanna er fljótt að gleyma hversu vel hann gerði á síðustu leiktíð þrátt fyrir að vera bæði með þunnan og takmarkaðan hóp auk þess að þurfa að takast á við prímadonnur og vandræði innan vallar sem utan. Undirbúningstímabilið virðist þó ekki hafa dugað til að slípa breytingar á leikkerfi og nýja leikmenn inn í leikstílinn liðsins en bæði Onana og Mount náðu einungis hluta undirbúningstímabilsins og tannhjólin hafa ekki verið að smellpassa saman í þessum fyrstu tveimur leikjum.
Á undanförnum misserum hefur United ekki átt í miklum vandræðum með Nottingham Forest en síðustu fjórir leikir liðanna hafa endað 2-0 eða 3-0 fyrir United. En sagan hefur ekkert að segja um daginn í dag. United hefur einungis skorað 1 mark á meðan Forest hafa sett 3 mörk á sama tíma. Það myndi hins vegar gjörbreyta stöðunni ef við skoruðum meira úr þeim færum sem við sköpum okkur, því vænt mörk (xG) og mörk fengin á sig (xGC) gefa upp betri mynd af ástandinu þó þau breyti ekki neinum úrslitum.
Í leiknum gegn Úlfunum var United með 1,97 xG en að sama skapi voru Úlfarnir með 1,72 xG og við það má bæta að líklegast hefðu þeir átt að fá vítaspyrnu undir lok leiksins sem telur ekki inn í þessa tölfræði. En í leiknum gegn Angeball var hins vegar Tottenham með 2,54 xG og skoruðu 2 mörk en á sama tíma var United með 2,45 xG en skoruðu ekki mark. United heldur því áfram uppteknum hætti með að skapa sér færi og nýta þau ekki. Sama vandamál var til staðar í fyrra enda var það hverju mannsbarni augljóst að framherji með alvöru markanef myndi færa United nær titilbaráttunni að nýju meira en nokkur önnur staða.
Það voru því eflaust margir sem hristu hausinn þegar miðjumaður var fyrstur inn um dyrnar og markvörður þar á eftir og síðan var farið í eltingaleik við framherja. En hann kom loksins inn í dæmið núna fyrir nokkrum vikum þegar hinn hávaxni, hárprúði dani, Rasmus Hojlund hjólaði inn um dyrnar á Leikhúsi draumanna. En hann hefur reyndar ekki komið við sögu í neinum leik vegna álagsmeiðsla í baki sem komu upp á yfirborðið í læknisskoðuninni fyrr í mánuðinum. Nýjustu fréttir herma að hann mun verma bekkinn loksins núna um helgina en nýnýjustu fréttirnar herma hins vegar að það hafi komið bakslag og hann verði ekki með.
Nottingham Forest
Forestmenn keyptu rúmlega tvö heil byrjunarlið af leikmönnum á síðasta leiktímabili og hreint ótrúlegt að Steve Cooper hafi náð að púsla saman þessum risastóra hóp á jafnskömmum tíma og raun bar vitni og haldið þeim uppi í deild þeirra bestu. Þetta kaupæði þeirra var hálfkómískt en nauðsynlegt enda komust þeir upp í Úrvalsdeildina að miklu leyti með aðstoð leikmanna sem hurfu á braut um sumarið en þeir náðu að halda sér uppi og þrátt fyrir að margir hallist að því að þeir muni smitast allhressilega af secondseasonsyndrome hafa þeir farið ágætlega af stað í ár. Fyrst mættu þeir á erfiðan útvöll gegn Arsenal og töpuðu þar 2-1 og gerðu sér síðan lítið fyrir og skelltu Sheffield United 2-1 en þeir verða eflaust í talsverðri fallbaráttu við lið á borð við Sheffield United svo þetta var kærkominn sigur.
Í sumar hafa þeir hins vegar ekki verið eins umsvifamiklir á leikmannamarkaðinum eins og í fyrra en þeir hafa engu að síður fengið til liðs við sig þá Matt Turner (markmann) frá Arsenal, Anthony Elanga (kantmann) frá okkur, Chris Wood (framherja) frá Newcastle United og Ola Aina (varnarmann) á frjálsri sölu. Einungis Sam Surridge og Braian Ojeda hafa verið seldir frá félaginu en svo hafa nokkrir runnið út af samningi eins og til dæmis Jesse nokkur Lingard.
Steve Cooper heldur sig líklega við 3-4-3 leikkerfið og því spái ég að liðið sem mætir okkur komi til með að líta svona út á blaði:
Helsta ógn þeirra Forest manna er að sjálfsögðu Liverpool akademíustrákurinn, Taiwo Awoniyi, sem virðist ekki geta hætt að skora. Þessi 26 ára gamli nígeríski vinnuhestur er tröll að takast á við og þegar Virgil van Dijk á erfitt með þig á æfingum er líklegast eitthvað varið í þig. Það er svo ekki á það bætandi að eftir að hann er búinn að vera að þjösnast á miðvörðum mótherjanna í 60-70 mínútur samfleytt, tekur séntilmaðurinn Chris Wood við og sýgur úr þér síðustu orkuna á lokametrunum. Leikurinn mun því líklegast taka vel á líkamlega fyrir mennina í öftustu línunni okkar á laugardaginn leyfi ég mér að fullyrða.
Mikilvægasti leikmaðurinn þeirra er samt að öllum líkindum Morgan Gibbs-White sem var hreint út sagt þeirra langbesti leikmaður á síðustu leiktíð. Það hjálpar svo ekki til að fá þá Brennan Johnson og Serge Aurier á flugbrautinni á vinstri kantinum gegn vinstri bakverði sem er ekki vanur að spila fyrir okkur, a.m.k. ekki vinstra megin hver svo sem það verður. En meiðslalistinn hjá gestunum er líka langur en á honum eru þeir Felipe, Biancone, Montiel, Aina, Richards og Hennessey.
Styrkur liðsins snýst einna helst um að spila hratt upp kantana, sérstaklega á hægri kantinum með Brennan Johnson í fararbroddi með Awoniyi sem targetman sem heldur boltanum meðan liðið færir sig ofar á völlinn. Steve Cooper átti það til á síðustu leiktíð að breyta á milli 3-4-3 og 3-4-1-2 þar sem munurinn lá í því hvort hann spilaði með tvo framherja með „tíu“ fyrir aftan eða tvo sókndjarfa vængmenn sitthvoru megin við framherjann. Nottingham Forest er lið sem er vanalega minna með boltann en andstæðingurinn og þegar þeir eru án bolta færist liðsstillingin vanalega í 5-2-3. Bakverðir þeirra sjá vanalega um að teygja varnarlínu mótherjanna til að búa til pláss á miðjusvæðinu (svæði 14) fyrir utan vítateiginn en við sáum einmitt Úlfana gera ekki ósvipaða hluti í fyrstu umferðinni og virtust Cunha og Neto hafa fullt af plássi á miðsvæðinu til að gera aðhlaup á vörnina okkar aftur og aftur. Vonandi hefur liðið og stjórinn lært af fyrri mistökum og heldur þeim þéttar á laugardaginn.
Manchester United
United hefur ekki verið að heilla marga það sem af er og þarf ýmislegt að breytast til að svo verði. Það kallar á breytingu á byrjunarliðinu en fyrir síðasta leik kallaði höfundur eftir því að Sancho kæmi inn í liðið en viti menn, sama byrjunarlið og í fyrstu umferðinni og svipað ósannfærandi leikur og í raun alls ekki boðlegur útileikur gegn toppliði. Núna fær Erik ten Hag og restin af liðinu tækifæri á nýjan leik til að rétta úr kúrnum. Það fyrsta sem þarf að laga er hugarfarið en það hefur verið harðlega gagnrýnt að menn virðast vera að jogga fram og til baka um völlinn, hengja haus þegar á móti blæs og eiga erfitt með að gíra sig í 90 mínútna leik. Hringir þetta einhverjum dejavu-bjöllum? Þarf stjórinn að henda hópnum aftur í 14 km hlaup og rífa menn út úr sumarfríshugarfarinu og koma mönnum í leikinn eins og á síðustu leiktíð eða er nóg að taka snöggan hárblásara og gera mannabreytingar?
Það er alvitað að knattspyrnustjórar eru þrjóskari en múrsteinar í aldagömlum kirkjum sem þráast oft við að spila leikmönnum þrátt fyrir að þeir ættu að henda þeim á tréverkið. Anthony er dæmi um það, en brassinn hefur ekki verið nálægt sínu besta og virðist vera one-trick-pony sem auðvelt er að loka á. Í ofan á lagi er mögulega hugur hans ekki fyllilega í leiknum eftir að fréttir um ásakanir fyrrum kærustu litu dagsins ljós að nýju núna fyrir nokkrum dögum. Þetta, ásamt slakri frammistöðu Garnacho og Rashford, finnst mér kalla á róteringar á liðinu. Garnacho þarf að endurheimta sjálfstraustið með því að koma inn á síðasta hálftímann af leiknum og kveikja í áhorfendum og liðsfélögum sínum á sama tíma og Anthony þarf smá pásu.
Það myndi gefa Sancho tækifæri til að byrja í sinni mest skapandi stöðu, hægri kantinum þar sem hann getur róterað við Bruno í tíunni á meðan Marcus Rashford fer í sína hættulegustu stöðu, vinstri kantinn, þar sem honum líður langbest. En hver á þá að leysa toppinn, fyrst Hojlund er ennþá frá og verður ekki tilbúinn fyrr en eftir landsleikjahlé hið fyrsta? Svarið er Anthony Martial. Postulínsmaðurinn sjálfur. Frakkinn kom inn á á 85. mín gegn Tottenham en maður lifandi hvað flæðið með hann og Jadon Sancho er allt annað. Mistök Erik ten Hag (að mínu mati) voru að gera breytinguna ekki fyrr og að halda Rashford ekki inni á vinstri kantinum með Martial því eins og glöggir stuðningsmenn muna þá tengja þeir tveir jafn vel saman og Ástríkur og Steinríkur.
Varnarlínan þarf ekki endilega neinar breytingar en þeir þurfa hins vegar að skrúfa hausinn á sig og finna út úr því hvernig þeir koma í veg fyrir að opnast eins og brostin stífla þegar miðjumönnum liðsins tekst ekki að sópa upp fyrir framan þá. En nú fyrir 11 mínútum síðan voru að berast þær fréttir að Luke Shaw verður frá í einhverjar vikur sem flækir málin enn meira þar sem Tyrell Malacia er líka frá vegna meiðsla. Það er því augljóst að varnarlínan gegn Notthingham Forest verður eitthvað óvanaleg hvernig sem hún mun svo líta út.
Á meiðslalistanum hjá okkar mönnum eru þeir Amad Diallo, Harry Maguire, Kobbie Mainoo, Mason Mount, Luke Shaw, Tom Heaton og nýji maður Rasmus Hojlund. Það er því ekki úr mörgum að velja þegar kemur að sumum stöðum á vellinum.
Mikið hefur verið rætt, skrifað og hugsað um gengi United í síðustu tveimur umferðum og sparkspekingar og spekúlantar hafa keppst við að gagnrýna liðið, stjórann, einstaklinga og stuðningsmenn fyrir allt milli himins og jarðar að því er virðist. Fótboltaáhugamenn og -sérfræðingar margir hverjir virðast þjást af ákaflega takmörkuðu minni sem oft nær ekki lengra en tvær vikur aftur í tímann. Skemmst er að minnast þess hvernig Graeme Souness kallaði Casemiro „steady Eddie“ og sagði hann hafa hafa verið heppinn að spila í þessu Real Madrid liði og núna er Jamie Garragher að tala um að þessi kaup okkar á brassanum séu ekki eins góð kaup og Declan Rice eða Moises Caicedo þar sem Casemiro sé bara örugglega búinn á því en hitt eru „örugg, framtíðarkaup“. Þá er gott að minnast þess einnig að þessir tveir töldu Lisandro Martinez ekki eiga neitt erindi í Ensku úrvalsdeildina. Held að þeir séu enn að plokka upp úr sér þræði úr þeim táfýlusokk.
Liðið er sem stendur með 3 stig eftir tvo leiki og það er þremur stigum meira en við vorum með á sama tíma í fyrra. Það að ætla dæma leiktíðina eftir tvo fyrstu leikina er einfaldlega allt of snemmt en þó má ekki líta framhjá því að ákveðin varhugaverð teikn eru á lofti. Liðið hefur ekki skorað nema 1 mark og það gegn liði sem varð fyrir algjörri uppstokkun á leikmannahóp og þjálfarateymi þremur dögum fyrir leikinn og síðan tókst þeim ekki að skora gegn liði sem eins er með glænýjan stjóra sem er þekktur fyrir að spila blússandi sóknarbolta á kostnað varnarinnar. Eins hefur líkamstjáning leikmanna United ekki verið álitleg og það er hlutverk þjálfarans og fyrirliðans að laga.
En við tökum einn leik í einu áður en við förum að hugsa út í leiktíðina í heild sinni. Í dómaragallanum verður enginn annar en stórflautuleikarinn Stuart Atwell sem blæs leikinn á stundvíslega kl 14:00 að íslenskum tíma. Minni að lokum á ljómandi gott djöflavarp frá því fyrr í vikunni þar sem farið var yfir leikmannamálin, Mason Greenwood og síðasta leik liðsins.
Sir Roy Keane says
Virkilega flottur pistill. Takk fyrir.
Verður gaman að sjá leikinn og spennandi að sjá hvort að Alvaro fái einhverjar mín. Ég væri til í að sjá Ten Hag það frakkann að skella honum beint í byrjunarliðið og taka sjensinn. Þessir guttar þurfa að fá sjens og hann stóð sig virkilega vel á láni síðasta vetur. Nú er tækifærið.
Tony D says
Mjög góð upphitun, takk fyrir pistilinn!
Menn þurfa bara að rífa sig í gang og fara að byrja mótið.
Ólafur Kristjánsson says
Nú er að duga eða drepast