Það er alveg óhætt að segja að nokkrir sigrar í röð hafi lítið gert fyrir hýra brá stuðningsfólks United. Það er gott að vinna, það er frábært að vinna með því að markmaður ver víti á síðustu sekúndu (og já ég ætla að minnast á að það að De Gea hefði ekki varið), en þegar styrkleiki andstæðinganna er sá sem hann var, er horft á málið raunsæjum augum. En það þarf engar áhyggjur af því að sigri á morgun verði ekki fagnað skilyrðislaust. Því á morgun koma Englandsmeistararnir í heimsókn (unnu þeir ekki líka eitthvað annað í fyrra? minnir það) og það er heiður að veði. United er líklega ekki að fara að blanda sér í baráttuna um meistaratitilinn úr því sem komið er, en sigur á morgun gæti hugsanlega fengið okkur bjartsýna fólkið til að hugsa sig tvisvar um. Því þá erum við jú bara þremur stigum á eftir City!
Í derby leikjum er alltaf sagt að form fari út um gluggann og það er engin ástæða til að afskrifa leikinn strax. Pep hefur vissulega unnið helming leikja sinna sem stjóri City móti United, en hey. ef þú heldur að 50% sé sama og 100% þá þarf ég að selja þér brú. Hvað um það, það er ekki eins og það sé mikið sjálfstraust í herbúðum United. Við höfum farið yfir þetta hér og í djöflavarpinu, meiðslin hafa sett gríðarlegt strik í reikninginn og það er eins og Ten Hag þori ekki alveg að spila það leikkerfi sem hann villog fari því í mikla vörn. Gegn FCK átti United samt góða spretti í seinni hálfleik og það er alveg öruggt að ef liðið gefur völlinn eftir móti City verður verkefnið mun erfiðara en ella.
Leikmenn eru smátt og smátt að koma til baka. Varane og Reguilon eru mættir. Wan-Bissaka er byrjaður að æfa og Kobbie Maioo byrjaði U-19 leikinn í Kaupmannahöfn á þriðjudaginn. Casemiro er spurningarmerkið, hann hefur æft frá á mánudag en Ten Hag sagði það kapphlaup um tímann hvort hann næði að spila. Með fullri virðingu þá er stór spurning hvort hann ætti að byrja þó hann væri í formi og með hann ekki 100% og miðað við frammistöður hans í haust þá er vonandi að hans verði ekki þörf í byrjunarliðinu á morgun.
Stillum þessu svona upp, sama lið og á móti FCK.
Upprisa Harry Maguire hefur verið á móti minni liðunum. Leikurinn á morgun getur verið leikurinn þar sem hann endanlega rekur af sér slyðruorðið. Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um að því myndi allt gott fólk fagna. Það er nefnilega frábært þegar leikmenn Manchester United standa sig, það er skemmtilegra að tala vel um leikmenn en að bölva þeim.
Það er enn verið að reyna að bera saman Rasmus Højlund og Erling Haaland og það er alltaf jafn heimskulegt. Højlund á enn eftir að skora í deild en hefur sýnt það er bara tímaspursmál hvenær það gerist. Haaland skoraði 36 mörk í 35 leikjum í deild í fyrra og 9 í 9 í haust. Ef einhverjum finnst það benda til þess að Rasmus sé vonlaus og geti ekkert, þá þarf viðkomandi líklega að leita sér aðstoðar því slíkar ranghugmyndir geta verið afleiðing þunglyndis sem hægt er að vinna bót á.
Það er nefnilega þannig að viðbrögð sumra hefur verið alveg út úr kortinu. Já þetta er ekkert sérlega gott eða gaman, en United er ekki að fara að falla. Já það getur verið ef þetta heldur svona áfram að Ten Hag missi vinnuna, en flýtur meðan ekki sekkur. Og ég geri einfalda kröfu: Þau sem vilja reka Ten Hag eru vinsamlega beðin um að nefna arftakann. Eitthvað sem ónefnt íslenskt lið virðist hafa aðeins flaskað á að hugsa um.
Manchester City
Aðeins flóknara að spá um lið City en hér er einn möguleiki.
Talað er um að Jack Grealish eigi möguleika að byrja eftir að hafa komið vel inn í byrjunarliðið móti Young Boys á miðvikudaginn. Eins og United hefur City ekki enn gert jafntefli í deildinni, en tapað tveimur. Það er líklega ekki tilviljuna að það voru leikir móti Wolves og Arsenal sem Rodri missti af vegna banns. Hnn var svo kominn til baka í sigrinum gegn Brighton um síðustu helgi sem var öruggur þó Brighton hefði minnkað muninn á síðustu mínútu.
Manuel Akanji er í banni á morgun, John Stones er ekkert sérlega slæm varaskeifa fyrir hann. Annars er Kevin de Bruyne sá eini í herbúðum City sem er meiddur og Pep hefur úr nægu að velja. Fyrir utan alla þá þarna sem við þekkjum vel er rétt að benda á Jeremy Doku sem hefur staðið sig vel eftir að City keypti hann á 55 milljónir frá Rennes í sumar.
Líkt og í bikarúrslitaleiknum í vor verður Paul Tierney á flautunni og blæs til leiks klukkan 15.30 að íslenskum, og enskum tíma, enda breytist klukkan í Evrópu í nótt.
S says
Alonso, De Zerbi og Potter. Mjög auðvelt.
Ólafur Kristjánsson says
De Gea hefði ekki varið vítið. Hvernig veistu það? De Gea er farinn. Samt geta sumir ekki stillt sig um að hnýta í þann mikla meistara. Þú ættir skammast þín.
Helgi P says
Það hefði verið mun gáfulegra að halda de gea og eyða onana peningunum í kaupa Gravenberch og sleppa þvi að eyða peningum í Mount sem fær valla mínútur lengur og kaupa Minjae Kim og samt átt pening afgangs Ten Hag er búinn að eyða yfir 400 miljónum í þennan hóp sem er alveg galið og samt lætur hann liðið spila svona ömurlega ég var mjög spenntur fyrir honum þegar hann var ráðinn en hann er bara miðlungs stjóri því miður