Nú í vikunni lá United í þriðja sinn í Meistaradeildinni og martraðarbyrjun liðsins virðist engan enda ætla að taka. Liðið situr á botni A riðils með einungis þrjú stig eftir grátlegt tap gegn spræku liði FC Kobenhavn þar sem Marcus Rashford var sendur í sturtu í fyrri hálfleik og dómari leiksins var í aðalhlutverki frá fyrsta flauti til endaloka.
Leiknum lauk með 4-3 tapi en United var í góðri stöðu með tveggja marka forystu áður en Englendingurinn fékk að líta rauða spjaldið eftir um hálftíma leik. 10 manna United liði tókst ekki að kroppa í nein stig á danskri grund og nú er róðurinn orðinn heldur strembinn. En áður en kemur að næsta leik gegn Galatasaray þá fáum við heimaleik gegn nýliðum Luton Town.
Þeim appelsínugulu var ekki spáð glæstu gengi í efstu deild en sitja þó fyrir ofan fallsvæðið með sex stig úr fyrstu 11 leikjunum sínum. Síðasta viðureign þeirra var gegn stjörnuprýddu liði Liverpool á heimavelli en erkifjendur okkar verða að teljast ansi heppnir með það stig sem þeir drógu út úr leiknum eftir að hafa lent 1-0 á 80. mínútu þegar Tahith Chong skoraði eftir skyndisókn. Það var hins vegar og skrifað í skýin fyrir Liverpool að Luis Diaz kom inn á og smellti boltanum í netið á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Luton Town
Luton Town var stofnað árið 1885 við samruna nokkurra liða úr bænum Luton en bærinn og nærumhverfi hans telur rétt tæplega 300 þúsund manns. Liðið fékk viðurnefnið hattararnir (e. the Hatters) en það er tilkomið vegna hattaframleiðslu bæjarins á árum áður. Liðið leikur heimaleiki sína á Kenilworth Road sem tekur rétt rúmlega 11 þúsund manns í sæti en völlurinn, the Kenny, var einmitt mikið í umræðunni í sumar þar sem liðið þurfti að ráðast í talsverðar breytingar á heimavellinum til að gera hann löglegan fyrri Úrvalsdeildina í haust og féllu niður leikir í upphafi leiktíðar vegna framkvæmdanna.
Mörgum þótti lega vallarins og staðsetning minna einna helst á bakgarð þar sem búið væri að koma fyrir smá stúku og ætti raunar frekar heima í áhugamannadeild frekar en stærstu deild Evrópu. En nú er úrbótavinnu lokið og leikvöllurinn telst nothæfur og uppfyllir viðmið til notkunar í Úrvalsdeildinni. Luton er í raun skólabókardæmi um yo-yo gengi enskra fótboltafélaga. Liðið var í efstu deild um miðjan sjötta áratuginn en féllu 1960 og einungis fjórum árum síðar sátu þeir í fjórðu efstu deild. Þeir spyrntu hins vegar duglega frá botninum og voru komnir aftur upp í eftstu deild 1974. Næstu þrjátíu árin flökkuðu þeir svo á milli efstu deildanna áður en þeir féllu aftur í fjórðu deildina árið 2002.
Þeir unnu sig svo upp í Championship deildina og sátu í efri hlutanum 2007 en á þessum árum voru fjármálin í meira limbói en gengi liðsins og lá við gjaldþroti. Fór svo að liðið féll úr næstefstu deild og voru dregin stig af liðinu trekk í trekk og fór svo að lokum að þeir féllu þrjú ár í röð og það varð til þess að þeir léku utan EFL deildanna og áttu þeir eftir að berjast í bökkum þar við að komast upp í atvinnumannadeildirnar að nýju. Það tókst hins vegar að lokum tímabilið 2014/15.
Eftir það lá leið þeirra upp á við með hreint út sagt ótrúlegum hætti. Þeir rétt misstu af tækifærinu 16/17 til að komast upp í þriðju efstu deild (League One) en gerðu það tímabilið eftir. Þar stoppuðu þeir stutt því þeir komust upp um deild aftur 18/19 en þar tók við talsverð baráttan en þeim tókst að komast í umspil um sæti í Úrvalsdeildinni tímabilið 21/22 en féllu þar út en í vor endaði liðið í þriðja sæti Championship deildarinnar og vann umspilið og tryggði sig upp í efstu deild á Englandi að nýju. Hreint út sagt magnaður árangur sem minnir óneitanlega á Öskubuskuævintýri úr Football Manager.
Nathan Jones var sá sem stýrði Luton stærstan hluta þess tíma sem ævintýrið var í gangi en hann tók svo við Southampton þegar Ralf Hassenhuttl var látinn fjúka. Við Lutonkeflinu tók maður að nafni Rob Edwards sem hafði stýrt Watford, erkifjendum Luton, tímabilið áður.
Edwards, sem sjálfur spilaði sem miðvörður, hefur lagt áherslu á agaðan varnarleik og reynt að beita skyndisóknum til að koma höggi á mótherjann, rétt eins og við sáum í leiknum gegn Liverpool um síðustu helgi. Hann leitast við að nota þriggja miðvarða varnarmúr með sóknarþenkjandi vængbakvörðum. En þrátt fyrir að vera af mörgum talinn minnsti spámaðurinn í deildinni þá er Luton ekki að leggja rútunni eins og Mourinho gerir í stöðunni 1-0. Edwards hefur náð góðum árangri með gegenpress hápressunni en þetta tvennt skilaði liðinu miklum árangri á síðasta tímabili.
Það er þó heldur annar tebolli að vera spila í Championship deildinni og svo Úrvalsdeildinni en Luton hefur lekið inn ansi mörgum mörkum það sem af er tímabilinu og fengið á sig 21 mark. Flest þeirra hafa komið á útivelli en þrátt fyrir það hafa þeir sótt megnið af stigum sínum á útivöllum, þrjú gegn Everton og eitt gegn Nottingham Forest. Þeir eru aftur á móti með eitt lakasta gengi á heimavelli í deildinni en grátlegt 0-1 tap gegn Tottenham og enn grátlegra jafntefli 1-1 gegn Liverpool virðast ýta undir þá skoðun að hugsanlega eigi Luton meira inni og séu byrjaðir að vinna sig inn í deildina.
Liðið fékk sinn skerf af gagnrýni fyrir að versla lítið á leikmannamarkaðnum í sumar og töldu margir að stefna liðsins væri bara sú að sækja peninginn sem fylgir farseðlinum upp í efstu deild og nýta svo regnhlífargreiðslunar (e. parachute payments) til að byggja upp innviði félagsins og í raun reikna með því að falla í ár. Þessi fjárhæð getur verið breytileg en falli Luton á sínu fyrsta ári mega þeir eiga von á regnhlífargreiðslu upp á um 46 millj. punda fyrsta árið sitt í Championship, 36 millj. á því næsta ef eim mistekst að komast upp og að loka um 16 millj. punda þriðja árið þeirra í næstefstu deild.
En Luton virðast hins vegar einungis vera að fjárfesta skynsemlega og hafa þrátt fyrir takmörkuð kaup, styrkt liðið sitt talsvert. Þeir keyptu meðal annars Marvelous Nakamba, Tahith Chong, Ryan Giles, Mads Andersen, Jakob Brown og Thomas Kaminski en enginn þeirra kostaði meira en 5 milljónir punda. Þá fengu þeir einnig Ross Barkley, Teden Mengi, Sambi Lokonga, Chiedozie Ogbene, Issa Kaboure, Andros Townsend og Tim Krul á lítið sem ekkert eða á láni.
Liðið sem ég býst við að mæti okkur á morgun er svo hljóðandi:
Manchester United
Hvar á að byrja? Það gengur hvort né rekur hjá okkar mönnum, hvorki í deildinni, bikarnum né Meistaradeildinni. Það er lægð yfir rauða hluta Manchesterborgar sem sér ekki fyrir endann á. United virðist ekki sama lið og það sem sigldi lygnan sjó í þriðja sætinu á síðustu leiktíð. Tannhjólin í varnarleik liðsins hafa hökkt meira en í ryðgaðri sláttuvél og flæði milli varnar, miðju og sóknar virðist alfarið týnt, það er eins og menn séu að spila sitthvora íþróttina á tíðum.
Liðið hefur undanfarið ár oft reitt sig á einstaklingsframtak til að skila sigrum eða jafnteflum en slíkir vonarneistar virðast ekki ætla að líta dagsins ljós á þessari leiktíð. Rashford, Fernandes og fleiri virðast langt frá sínu besta og nýjir leikmenn hafa verið óöryggir og virðast ekki passa inn í liðið eins og flís við rass. Hojlund hefur reyndar fundið Meistaradeildarformið sitt en það hefur alls ekki verið það sama upp á teningnum í deildinni. Amrabat og Onana virðast hafa átt í tómu basli við að aðlagast enska boltanum og leikmenn eins og Eriksen, Varane og Casemiro virðast komnir í kulnun.
Það þarf gífurlega mikið að breytast til að vélin hrökkvi í gang hjá Erik ten Hag og ekki víst að WD-40 dugi heldur virðist þurfa að pússa upp öll tannhjólin í liðinu. Stuðningsmenn gefast fljótt upp á Hollendingnum ef leikur liðsins batnar ekki en stjórinn hefur ítrekað talað um að „innan skamms munum við sjá bættan leik liðsins“ en biðin ætlar að reynast okkur þungbær. Trekk í trekk tekst liðinu að kremja hjörtu stuðningsmanna sem þegar eru brotin og krambúleruð eftir þessa fyrstu mánuði leiktíðar.
Það að spila Maguire og Evans með Dalot úr stöðu fyrir aftan Eriksen og McTominay er ekki það sem við vonuðumst til að sjá á þessari leiktíð. Án þess að ætla að fara úthúða einstökum leikmönnum þá á ég bágt með að trúa því að nokkur mótherji okkar, hvort sem er á Englandi eða utan þess, líti á þessi byrjunarlið United í undanförnum leikjum og hugsi með sér að nú sé við ofurefli að etja. Þess þá heldur hugsa ég að lið líti svo á að ef einhvern tímann sé tækifæri á að koma höggi á vængbrotið, laskað og máttvana lið United þá sé það núna.
Ég vil hins vegar sjá að Erik ten Hag geri einhverjar breytingar og líklegast neyðist hann til að gera það. Jonny Evans fór meiddur út af í vikunni og því geri ég ráð fyrir að Lindelöf og Maguire spili saman en ég óska þess hins vegar að Varane og Lindelöf spili, þrátt fyrir að Maguire hafi verið þokkalegur í undanförnum leikjum og Varane hafi átt afleita innkomu gegn FCK. Rashford var skúrkurinn í Meistaradeildinni en þar sem hann verður í banni gegn Galatasaray er líklegt að hann reimi á sig skóna á laugardaginn en spurning er hvort hann reimi á sig markaskóna eða ekki. Það sama má segja um Hojlund, hann þarf að nota sömu skó og hann notar í Meistaradeildinni.
Leikurinn hefst kl 15:00 og það er enginn annar en Graham Scott sem mun þenja flautuna í Leikhúsi draumanna. Í hinu umdeilda VAR herbergi í Stockley Park verður enginn annar en Robert Jones. Þetta verður áhugaverð viðureign að því leytinu til að Luton hafa ekki haldið hreinu í 15 leikjum í röð á meðan United hefur ekki skorað í tveimur heimaleikjum í röð. Annað verður að víkja og vonandi náum við að teygja þeirra met í 16 leiki. Af síðustu fimm viðureignum þessara liða hefur United unnið 4 og gert eitt jafntefli en það hefur ekkert með úrslit morgundagsins að gera.
United þarf nauðsynlega á sigrinum að halda því jafntefli sekkur sjálfstraustsárabátnum okkar eins og stórt tap myndi gera. United verður og Á að vinna leiki gegn nýliðum í deildinni, bæði heima og heiman en það reynist oft þrautin þyngri að fylgja eftir planinu. Vonum að það verði ekki raunin á morgun!
Skildu eftir svar