Og enn hefur pendúllinn sveiflast. Eftir hrikalegt tap gegn Newcastle á laugardaginn kom besti leikur United á tímabilinu á miðvikudag, öruggur sigur á slöku Chelsea liði þar sem hver leikmaðurinn á fætur öðrum sýndi meira en hingað til.
Á morgun kemur Bournemouth svo í heimsókn á morgun og nú ríður á að fylgja þessu eftir, ekki síst í ljósi þess að næstu tveir leikir þar á eftir er heimsókn Bayern München á þriðjudag og heimsókn á Anfield um aðra helgi.
Það eru fleiri góðar fréttir. Erik ten Hag var valinn stjóri mánaðarins í úrvalsdeildinni, Harry Maguire leikmaður mánaðarins og, þetta kemur ekki síst á óvart, mark Alejandro Garnacho gegn Everton var valið mark ár… afsakið, mánaðarins. Þrenningin stillti sér upp á æfingu
Annars missti Marcus Rashford af æfingunni í dag vegna veikinda og er efasamt hvort hann nær að verða góður fyrir morgundaginn. Rashford hatarar eru vinsamlegast beðin um að halda í sér. Victor Lindelöf meiddist gegn Chelsea og verður ekki með. Raphaël Varane æfði hins vegar og ætti að vera tilbúinn í slaginn. En ég spái nú samt að Luke Shaw fari í haffsentinn og Reguilón taki bakvörðinn. Vissulega slæmt að missa Shaw af kantinum, endurkoma hans hefur verið lykilatriði í betri leik United undanfarið. Óbreytt annars bara, er það ekki?
OptaJoe sá tilefni til að henda þessu út áðan.
🧤 – André Onana's rank among goalkeepers in the Premier League this season (min. 2 starts):
1st – Clean sheets (5)
1st – Save percentage from shots outside box (100%)
2nd – Save percentage (75.7%)
4th – Goals prevented (3.8)Podium. pic.twitter.com/q5S47bbSyY
— OptaJoe (@OptaJoe) December 8, 2023
Ekki slæmt sérstaklega í ljósi þess að vörnin fyrir framan hann hefur verið allt annað en stabíl og með aðalmönnum.
Bournemouth
AFC Bournemouth þurfti að bíða fram til 28. október til að vinna fyrsta leikinn í deildinni þegar Burnley var lagt að velli , og hafði þá tapað fjórum í röð. En síðan þá hefur lukkan snúist með þeim, sigrar unnist gegn Newcastle, Sheffield United og Crystal Palace, jafntefli kom gegn spútnikliði Aston Villa, og aðeins ferðin á Etihad skilaði 1-6 tapi.
Við sjáum því að Bournemouth á alveg erindi gegn hinum liðunum sem lóna fyrir aftan toppliðin og eru sýnd veiði en ekki gefin. Engin sérstök meiðslavandræði hrjá liðið og framherjarnir þykja ágætlega skæðir. Dominic Solanke er nú þegar búinn að skora sjö mörk í deild, einu fleira en í allan fyrravetur. Aðrir hlutar liðsins hafa ekki alveg sama yfirbragð og vonandi að sókn og miðja United nái nú loksins að halda bolta betur en áður.
Sem sé: Sigur á morgun er bráðnauðsynlegur og það má alveg vona að pendúllinn fari lengra í jákvæða átt. Látum hugsanir um næstu viku eiga sig í bili, gerum hlé á jólaundirbúningi og setjumst við sjónvarpið á eðlilegum knattspyrnutíma, klukkan þrjú á morgun. Dómari verður Peter Bankes
Skildu eftir svar