Manchester United mætir Wigan Athletic í síðasta leik 3. umferðar þeirrar elstu og virtustu, FA bikarkeppninnar. Leikurinn fer fram á DW leikvellinum, heimavelli Wigan, klukkan 20:15 á morgun, mánudaginn 8. janúar. Leikurinn er sá fyrsti sem United spilar árið 2024, það verður vonandi til þess að United byrji árið 2024 á allt annan hátt en liðið lauk árinu 2023. Wigan Athletic er í League One eða þriðju efstu deild á Englandi (C-deild fyrir Rúv-arana þarna úti). Þetta ætti því ekki að vera sérstaklega erfiður leikur fyrir djöflana frá Manchester. Það hins vegar virðast allir leikir vera erfiðir leikir fyrir United núorðið og alls ekkert ólíklegt að peppaðir Wigan menn stríði þunglamalegum United leikmönnum. Wigan liðið er ekkert í sérstaklega góðum málum, liðið situr í 18. sæti League One, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið sigraði 5. deildar (National League) liðið York City, 0-1 til þess að komast í 3. umferð bikarsins en hafði á undan því unnið 2-0 sigur á Exeter í 1. umferð bikarsins, en Exeter spilar einnig í League One. Gamall vinur okkar United manna Ben Amos leikur í dag með Wigan en hefur misst sætið sitt til Sam Tickle 21 árs ungstirnis. Það er ekki mikið um aðra þekkta leikmenn í Wigan liðinu en fyrrum leikmaður liðsins Shaun Maloney en hann lék með liðinu síðast þegar það var í úrvalsdeild.
Þá er komið að United, meiðslavandræði liðsins hafa lítið breyst en Casemiro og Martinez er þó farnir að æfa aftur með liðinu og það gæti alveg verið að Mason Mount komi eitthvað við sögu á morgun. Það besta við meiðslavandræði United er að þau meiðsli sem ættu að vara lengst eru meiðsli Lindelöf, en Svíinn ætti að snúa til baka snemma í febrúar. Þar af leiðandi ættu menn að fara snúa til baka í hrönnum næstu vikur, eða svona 7,9,13 og allt það.
Innkoma INEOS og Sir Jim Ratcliffe hefur verið talsvert í kastljósinu undanfarið og þrátt fyrir að maður reyni að halda fótunum á jörðinni varðandi þessa yfirtöku. Það er þó er ágætis tilbreyting að sjá jákvæðar fréttir líkt og að Sir Jim hafi haldið Q&A fund með starfsfólki United, sem Glazer-arnir hafa aldrei gert. Þá að sjálfsögðu kemur holskefla af fréttum um leikmenn sem kunna að vera á leið til félagsins, núna eða í sumar. Það er vissulega vegna þess að janúarglugginn er opinn en örugglega einnig vegna innkomu INEOS.
Líklegt byrjunarlið
Það er mjög erfitt að segja til hvernig byrjunarliðið verður, United hefur ekki spilað í talsverðan tíma þannig ég held að Ten Hag hvíli ekkert of mikið og kannski frekar taki menn af velli snemma. Ég held að Martinez og Casemiro byrji að öllum líkindum ekki en ætla að skjóta á að Kambwala fá mögulega séns í miðverði með Varane (kannski Evans). Antony er búinn að vera það lélegur undanfarið að það hlýtur einhver annar að vera settur á kantinn og ég vona að það sé Amad. Ég veit ekkert hvort Hojlund sé tilbúinn eða ekki ef hann er búinn að jafna sig þá myndi ég halda að hann byrji upp á topp.
Að lokum
Það er ekki mikið að segja um þennan leik, United á að vinna þetta punktur og koma sér í 4. umferð bikarsins. Það eru samt alltaf töfrar í FA bikarnum og neðri deildar lið oft mjög mótiveruð að mæta United. Það er þó aldrei afsökun að tapa fyrir League One liði. Vonandi fá einhverjir yngri drengir að spreyta sig á morgun sem og einhverjir leikmenn að koma sér í leikform sem hafa verið talsvert frá. Ég vona að Amad Diallo fá kallið en hann var eiginlega eini bjarti punkturinn í ömurlegum leik gegn Nottingham Forest. Anthony Taylor dæmir leikinn á morgun hann finnur oft upp á einhverju skemmtilegu til þess að dæma á eða dæma ekki á, vonandi sleppum við alveg við það á morgun.
Skildu eftir svar