Erik ten Hag skellti í tvær breytingar frá liðinu sem vann Newport County í bikarnum um helgina. Marcus Rashford kom á vinstri kantinn og Garnacho flutti sig yfir á þann hægri í fjarveru Antony. Onana kom svo svellkaldur frá Afríkumótinu og Bayindir settist á tréverkið.
Á bekknum voru þeir: Bayindir, Wan-Bissaka, Evans, Forson, Antony, Amad Diallo, Kambwala, Maguire, McTominay og Eriksen.
Gary O’Neil stillti upp sterku liði:
Á bekk heimamanna voru þeir: Bueno, Gomes, Hodge, Ait-Nouri, Bentley, Chirewa, Sarabia og Fraser.
Fyrri hálfleikurinn
Leikurinn fór fjörlega af stað. Strax á þriðju mínútu fór Casemiro í svörtu bókina eftir tæklingu út við hliðarlínu, óþarfi en þýðir lítið að deila við dómarann. Í næstu sókn leituðu United upp hægri helming vallarins þar sem boltinn endaði hjá Garnacho sem byrjaði einmitt á hægri kantinum.
Hann renndi svo boltanum á Diogo Dalot sem staldraði við um stund meðan samherjar hans tóku mismunandi hlaup í kringum hann. Hann ákvað svo að renna boltanum út í miðjan teiginn þar sem fyrirliðinn okkar hoppaði léttfættur yfir boltann þar með endaði boltinn hjá Hojlund. Sá danski tók við boltanum og renndi honum á Rashford sem svaraði kallinu og lagði boltann snyrtilega í hægra hornið framhjá Jose Sá í markinu. 1-0 og einungis fimm mínútur búnar af leiknum.
Aftur komust United í sókn um 5 mínútum síðar en eftir laglegt samspil datt boltinn fyrir fætur Casemiro en skot hans lak framhjá stönginni. United virkuðu mjög ákveðnir og voru talsvert meira með boltann þessar fyrstu mínútur. Loksins á 13. mínútu komust heimamenn eitthvað áleiðis þegar Neto komst inn í teiginn og átti skot sem Dalot náði að komast fyrir og boltinn endaði í lúkunum á Onana.
Heimamenn fikruðu sig ofar á völlinn og virtust vera að vinna sig meira og meira inn í leikinn. Þeim tókst samt ekki að skapa sér nein. hættuleg færi en það kom hins vegar í hlut gestanna á 23. mínútu. Þá bar Garnacho boltann upp hægri kantinn og keyrði svo inn á völlinn og skipti yfir á Rashford hinu megin á vellinum. Hann stakk boltanum inn fyrir vörnina í hlaupaleiðina fyrir Luke Shaw sem renndi boltanum fyrir markið þar sem Dawson virtist ná fyrstu snertingunni á tuðruna.
Hún var þó ekki betri en það að hann setti boltann á milli fóta Jose Sá og á einhvern stórfurðulegan máta tókst Hojlund að setja fremstu kvarttommuna af stóru tánni sinni í boltann og þaðan fór hann í netið. 2-0 og United litu mjög vel út á þessum tæpa hálftíma.
Það leið ekki á löngu þar til næsta færi kom en þá fengu United aukaspyrnu á um 35 metra færi en sending Bruno rataði á Casemiro sem potaði boltanum aðeins framhjá markinu. Brassinn virtist ekki hafa alveg reimað á sig markaskóna fyrir leikinn í kvöld.
Hojlund var næstum því búinn að setja annað mark þegar United þjarmaði að heimamönnum og Matt Doherty átti slaka sendingu á Jose Sá sem skaut boltanum í Danann og þaðan rétt framhjá markinu. Aftur fengu United marktækifæri þegar Hojlund fékk boltann inn í teignum en renndi honum út í vítateigsbogann á Bruno en skotið hans var óvanalega skakkt og rataði ekki á markið.
United hefði hæglega geta verið búnir að setja tvö mörk í viðbót en áfram hélt pressan og næst fékk sjálfur Varane skotfæri en bogadregið skot hans endaði ofan á þaknetinu. Úlfarnir virtust heillum horfnir og áttu engin svör við leikglöðum gestunum.
Daninn var aftur á fleygiferð þegar Rashford fann gott hlaup hjá Garnacho á milli varnar og miðju heimamanna en guttinn var snöggur að sjá þann danska sem stakk sér á milli miðvarðanna, fékk sendinguna og kláraði færið sitt vel en var hins vegar ekki réttstæður.
2 mínútum síðar fengum við aukaspyrnu en Bruno smellhitti pönnuna á Casemiro sem stangaði boltann inn í netið en aftur fór flaggið á loft. United fékk svo dauðafæri þegar Hojlund náði að stinga boltanum upp vinstri kantinn þar sem Bruno Fernandes var einn á auðum sjó með Garnacho hinu megin á vellinum í góðu hlaupi. En í þetta skipti brást Portúgalanum bogalistin en sendingin hans var eins vond og vont getur orðið en síðan var blásið til hálfleiks.
Síðari hálfleikur
Engar breytingar voru gerðar í hálfleik en það tók ekki mínútu fyrir United að komast í fyrsta skotfærið en Bruno fékk þá boltann í teignum en skot hans varið af varnarmanni. Úlfarnir fengu hins vegar ágætisfæri út frá aukaspyrnu utarlega á vellinum en úr fyrirgjöfinni skapaðist hætta eftir skógarhlaup Onana en Martinez kom og bjargaði markverðinum sínum með því að hreinsa boltann nánast á línunni eftir skalla frá Max Kilman.
Fyrsta skipting kom svo á 55. mínútu þegar Rayan Ait-Nouri kom inn fyrir Doherty á meðan United undirbjó að taka aukaspyrnu. Casemiro var aftur réttur maður á réttum stað en skallinn hans var mjög slakur í grasið og beint í greiparnar á Sá. Aftur komst United í tækifæri til að auka forystuna þegar Hojlund fékk boltann inn í teig og komst einn gegn markmanni en var í brasi með að skjóta og Sá varði vel með því að teygja út vinstri fótinn og stoppaði boltann á elleftu stund.
Úlfarnir fengu hins vegar gott færi stuttu síðar þegar Craig Dawson átti skot sem Varane truflaði örlítið en boltinn hrökk af fæti Frakkans og í ennið á Onana. Heimamenn fóru þá að þjarma að okkar mönnum og áttu líka hörkugott skot sem skrúfaðist yfir markvinkilinn af fætinum á Cunha.
Það virtist mark liggja í loftinu en spurningin var hvoru megin það myndi falla. Alla jafna hefur ekki verið mikið skorað í leikjum þessara liða á undanförnum árum en það virtist annað vera upp á teningnum í dag. United voru þéttir til baka og vörðust djúpt sem er alltaf hættulegur leikur. Völlurinn tók líka vel við sér og stormur virtist í aðsigi.
Þá var komið að Jose Sá að henda í skógarhlaup þegar Hojlund var við það að stinga af varnarmenn Úlfanna á eftir boltanum en markvörðurinn var kominn langt út úr markinu og rann til en það gerði Hojlund hins vegar líka og færið rann út í sandinn.
Næsta skipting var einnig heimamanna þegar Bellegarde fór útaf fyrir Pablo Sarabia en enn voru engar breytingar gerðar hjá gestunum. En á 68. mínútu komust Úlfarnir í teiginn þar sem Neto fékk boltann og féll með tilþrifum eftir að Casemiro setti löppina út. Dómari leiksins benti strax á punktinn en málið fór þó í VAR dómsalinn og þar var ákvörðunin tekin um að senda hann ekki í skjáinn og dómurinn stóð.
Varamaðurinn Pablo Sarabia steig á punktinn nýkominn inn á völlinn en hann setti boltann á mitt markið á meðan Onana skutlaði sér til vinstri. 2-1 og United gat nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt betur þessi færi á þessum fyrstu 70 mínútum leiksins.
Þetta ýtti við Erik ten Hag sem gerði þá fyrstu breytingu gestanna en hann tók þá út Rashford og Casemiro sem var á gulu spjaldi en í þeirra stað mættu Antony og McTominay.
Rétt eins og hjá Úlfunum þá áttu varamennirnir eftir að stimpla sig fljótt inn í leikinn en Antony átti skottilraun nánast með sinni fyrstu snertingu og í kjölfarið fengu United hornspyrnu. Fyrirgjöfin frá fyrirliðanum strauk hársvörðinn á Martinez og fór þaðan í Skotann okkar sem á einhvern hátt tókst að stýra boltanum í markið og breyta stöðunni í 1-3. Miðjumaðurinn einfaldlega getur ekki hætt að skora.
Dampurinn virtist detta örlítið úr drengjunum hans Gary O’Neil við þetta en þeir reyndi þó að skapa sér eitthvað. OðNeil tók þá Toti og Doyle útaf og Gomes og Fraser komu inn á í þeirra stað. Þeim tókst að blása smá lífi í sóknarleikinn en United voru mjög þéttir og skiluðu góðri varnarvinnu, allir sem einn og köstuðu sér fyrir hvert skotið á fætur öðru og tvímenntu á menn hægri vinstri.
Það kom þó loksins að því að varnarveggurinn brast eftir hornspyrnu Úlfanna þegar boltinn var hreinsaður stutt út og Dawson sem skaut í jörðina en annar miðvörður, Max Kilman, tók að sér að framlengja skotið og setti boltann í Onana og þaðan í Dalot og í netið. 2-3 og aftur tók völlurinn við sér.
Erik ten Hag setti þá Forson inn fyrir Hojlund og ætlaði greinilega að freista þess að þétta enn frekar og halda fengnum hlut. Pressan jókst ískyggilega mikið á þessum kafla leiksins og ekki frá því að ef það væri annað mark í kortunum þá var það nokkuð örugglega jöfnunarmark frekar en fjórða mark gestanna.
Þó tókst Garnacho að hefja skyndisókn og stakk sér af stað upp hægri kantinn og renndi boltanum á Antony sem var felldur af Cunha við vítateigsbogann og uppskar hann gult spjald fyrir vikið. Á meðan Bruno stillti upp boltanum skellti fjórði dómarinn upp skiltinu og gaf til kynna að 9 mínútum yrði bætt við leiktímann. Það eru níu mínútur sem undirritaður veit ekki hvernig voru reiknaðar út.
Garnacho var svo tekinn af velli og inn í hans stað kom Jonny Evans. Skýr merki frá stjóranum. En þrátt fyrir þessar varnarsinnuðu skiptingar átti United eftir að fá enn eitt dauðafærið þegar Luke Shaw notaði Norður-Írann sem batta og sendi boltann á McTominay sem var einn á móti Jose Sá en skaut beint í hann.
Það reyndist dýrkeypt því í næstu sókn Úlfanna komst Pedro Neto upp að teignum, setti boltann á milli lappa Varane og í nærhornið en Onana virtist víðsfjarri og aldrei líklegur til að verja þetta frekar en fyrridaginn. Gestirnir litu mjög illa út í þessu markið.
En leikurinn var ekki búinn. Það var nefnilega einn lítill 18 ára strákur sem hefur dreymt um að spila fyrir United frá unga aldri, sem byrjaði þennan leik og hann tók léttan klobba áður en hann tók gagnhreyfingu og opnaði líkamann og smellhitti tuðruna betur en hann hefur sjálfsagt nokkurn tímann dreymt um að gera. Boltinn sveif í fullkomnum boga í átt að fjærstönginni og sleikti hana áður en hann söng í netinu og breytti stöðunni í 3-4 á fimmtu mínútu uppbótartímans.
Þar við sat, þótt stóri úlfurinn hefði blásið og blásið síðustu mínúturnar sem eftir voru og 3 stigin tryggð og komin á tölfuna. Maður leiksins verður sjálfsagt Mainoo sem var upp að markinu búinn að vera stórkostlegur og sigurmarkið kórónaði bara þennan stórglæsilega og stórskemmtilega leik.
United situr nú í 7. sæti deildarinnar og næsti leikur er svo gegn West Ham á Old Trafford núna á sunnudaginn 4. febrúar.
Helgi P says
Þessi þjálfari er svo glataður sem við erum með hvernig getur maðurinn látið rashford byrja
Egillg says
rashford hefði ekki átt að vera í hóp, hvað þá byrja leikinn, það þarf að vera sú menning hjá klúbnum að þegar menn brjóta af sér þá hafi það alvarlegar afleiðingar. Klúbburinn verður sirkus í nokkur ár í viðbót greinilega
Tómas says
Óþarflega spennandi en ein besta frammistaðan í vetur myndi ég segja. Áttum að skora meira. Mainoo þvílíkur talent!