Það var kannske ekki fallegt varnarlega séð, en sigurinn gegn Wolves á fimmtudaginn var þegar upp var staðið, stórkostlegur! Enn og aftur virðist sem United hafi snúið gæfunni sér í hag og reynslan í vetur kennir okkur að gera ekki ráð fyrir neinu. Á morgun kemur svo óumdeildasti stjóri United síðustu 10 árin í heimsókn á Old Trafford: Við erum öll sammála um að David Moyes var versti stjóri United frá því að Sir Alex lét af störfum! Hann hefur ekkert hatað að gera United grikk síðan þó að aðeins einn sigur hafi unnist undir hans stjórn á Old Trafford síðan. Leikurinn á morgun verður sá þrítugasti og fjórði gegn United eftir hann fauk sem stjóri United, eftir að hafa stýrt United, jú, í þrjátíu og fjórum leikjum.
West Ham liðið sem hann kemur með eru á undan United í töflunni og engu að síður hafa stuðningsmenn þar ekki verið fyllilega ánægð með Moyes. En munurinn er bara eitt stig og á morgun getur United klifrað upp í sjötta sætið, byggt á leiknum gegn Wolves og reynt að koma þessu tímabili í gang núna þegar meiðslavandræðin eru að rjátlast af liðinu
Það verður ekkert fiktað í uppstillingunni. Martínez var tekinn útaf gegn Wolves, en Ten Hag staðhæfði að það væri bara varúðarráðstöfun, hann verði til á morgun.Sofyan Amrabat er kominn til baka og mun verma bekkinn og Victor Lindelöf er orðinn góður til að gegna sama hlutverki.
Verkefnið á morgun er að búa til jafn mikið af færum og gegn Wolves, nýta þau betur, og íhuga svo að spila varnarleik eins og toppliði sæmir!
West Ham2>
Eftir þrjá sigurleiki í röð í lok ársins, m.a. gegn United í London og Arsenal á útivelli hefur árið byrjað illa fyrir West Ham. Þrjú jafntefli í deild og jafntefli og tap í aukaleik gegn Bristol City í deildinni hefur aukið pressuna á Moyes. West Ham státa nú af Kalvin Phillips á láni frá City en seldu á móti Saïd Benrahma og Pablo Fornals í lok gluggans. Meiðslalistinn er stuttur, Lucas Paqueta og Michael Antonio eru frá, Vladimir Coufal er búinn að afplána leikbann og Nayef Aguerd er kominn til baka eftir Afríkumótið.
Liðið verður sirka svona
Eins og United komst að á Þorláksmessu eru það Mohammed Kudus og Jarred Bowen sem sjá um markaskorunina hjá West Ham og vonandi hafa menn eitthvað lært af því. James Ward-Prowse er svo auðvitað hættulegasti aukaspyrnusérfræðingur deildarinnar. Það myndi engum koma á óvart að leikurinn á morgun yrði markaleikur, og vonandi verða fleiri þeirra skoruð í rétt mark.
Leikurinn hefst klukkan tvö og dómari er Andy Madley
Skildu eftir svar