Föstudagurinn langi er að sjálfsögðu haldinn há-heilagur hér á ritstjórn og því kemur upphitun með seinni skipunum. Það er nokkuð síðan við hittum ykkur hér síðast, í millitíðinni var landsleikjahlé og jú, léttur og löðurmannlegur sigur á Liverpool, sem beðið var með á síðustu stundu að innbyrða enda veðmangarar miklu ánægðari með leiki sem hægt er að halda opnum fram á lokaflaut. Takk fyrir okkur, Amad Diallo, Marcus Rashford, Scott McTominay og ha hver þú? Antony!!??. Skreppið nú og skoðið leikinn aftur, aldrei of oft horft.
Í kvöld er það skreppur á Gtech Community Stadium í London. Það er þó nokkuð vatn runnið til sjávar síðan United kom síðast við þar, og fór burtu með 4-0 tap á bakinu. Tékkar voru skrifaði i hvelli, Casemiro og Antony keyptir og óhætt að segja að ekki hafi allir þeir peningar skilað sér í frammistöðum. Núna er aftur komið að leik þar og líklega fá okkar sem óttast annan skell. Eftir smá bakslag gegn Fulham og vissulega frekar vænt tap gegn City sendu leikmenn United okkur öll brosandi inn í landsleikjahléið og sigur í kvöld myndi koma liðinu aftur í gírinn sem það var í frá áramótum.
Landsleikjahléiið nýttist í að koma mönnum í stand og jafnvel búist við að Lisandro Martínez verði með í kvöld. Held það sé samt ekki alveg óhætt, eftir öll hans meiðslavandræði væri mjög slæmt að koma með hann of snemma til baka! Annars er Harry Maguire óviss, eftir meiðsli á landsliðsvaktinni og er þar skarð fyrir skildi, Maguire búinn að vera alveg hreint prýðilegur síðustu vikur, kominn í gamalt form og búinn að reka af sig slyðruorðið. Casemiro, Jonny Evans og Kobbie Mainoo ættu að geta spilað en Amad Diallo afplánar svo bann fyrir að fara úr treyjunni við að skora markið sem tryggði Liverpool sigurinn, og var hann þó einna rólegastur alls United fólks innan vallar sem utan við það tækifæri.
Brentford
Moneyball – Midtjylland – Matthew Benham… það er að bera í bakkafullan lækinn að taka þetta lengra, nóg hefur verið rætt og ritað um hvernig Brentford hefur komið sér fyrir í Úrvalsdeildinni. En þetta er ekki alveg dans á rósum síðustu mánuði fyrir liðið. Frá desemberbyrjun hafa sigrar einugis unnist á Luton, Forest og Wolves og svo náði Brentford jafntefli heima gegn Chelsea í upphafi mars. Hinum tólf leikjunum í deild hefur liðið tapað, og svo að auki gegn Wolves í aukaleik í þriðju umferð bikarsins. Það ætti því að bíða auðvelt verkefni í kvöld en þessi vetur hefur ekki gefið allt of marga slíka og óþarfi að telja hænur fyrr en leik er lokið.
Brentford á að auki í þó nokkru meiðslaveseni og að auki misstu þeir lánsmanninn Sergei Reguilon útaf með rautt spjald í tapi á útivelli gegn Burnley fyrir tveimur vikum og hann því í banni.
Það verður ves fyrir stuðningsmenn United að komast heim til Manchester eftir leik því hann byrjar klukkan 8 í kvöld. Simon Hopper dæmir.
Turninn Pallister says
Úff að hafa AWB í vinstri bakverði er stórfurðulegt dæmi. Hversu slakir eru Alvaro Fernandez og Brandon Williams eiginlega? Furðulegt að annar þeirra hafi ekki verið kallaður heim til að vera til taks ef þetta er það besta sem við höfum upp á að bjóða vinstra megin.
Sóknarlega er þetta algjörlega vonlaust, ögn skárra varnarlega en samt verið að bjóða hættunni heim þar líka.
Annars er þetta búið að vera algjör hörmung í fyrri hálfleik og ótrúlegt að Brentford séu ekki búnir að skora 2-3 mörk. Vonandi vakna strákarnir í hálfleik, annars verður þetta klárlega tap.
Helgi P says
Ömurleg frammistaða brendford eiga að vera búinn að slátra þessu leik
Egill says
Ég man ekki eftir svona lélegum leikmanni í treyju nr 10 í sögu Man Utd.
Ég reyndar man ekki eftir jafn lélegum stjóra heldur en jæja, allt er frábært því við unnum Murderers í fa cup