Manchester United tekur á móti Glasgow Rangers í næst síðasta leik liðanna í deildarkeppni Evrópudeildarinnar á Old Trafford annað kvöld. United þráir ekkert heitar en sigra og nýja leikmenn en hvort tveggja er vandfundið þessa dagana.
Janúarglugginn
Þótt stuðningsmenn United séu upp til hópa á móti að selja Alejandro Garnacho þá virðast stjórnendur félagsins að vera að skoða það af fullri alvöru. Napoli hefur sýnt sterkastan árangur en lítið mun hafa þokast í samkomulagsátt þar í dag. Chelsea hefur einnig verið orðað við hann en engar viðræður milli liðanna eru hafnar enn.
Sky skýrði annars í kvöld hvernig málið snýst um hvernig málið snýst um miklu meira fyrir United en einhverjar 60 milljónir punda í söluandvirði. Sala á uppöldum leikmanni myndi gera liðinu kleift að eyða allt að 180 milljónum í nýja leikmenn, samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar.
Þarna er í gangi köld hagfræði. Með að fórna Garnacho, sem óvíst er hversu vel hentar nýjum leikstíl liðsins, væri hægt að kaupa nokkra leikmenn sem henta því. Aðrir kostir virðast ekki í boði. Anthony virðist á leið til Real Betis, en það er bara lán og eignafærslan á honum þannig að hann skilar aldrei pening í kassann. Kobbie Mainoo væri einnig hægt að selja en það er jafnvel enn verra en Garnacho.
Kannski var Marcus Rashford settur út í kuldann til að pína hann frá félaginu í þessum tilfangi, hann er bæði eldri og launahærri en Argentínumaðurinn. Barcelona hefur vart efni á honum í janúar og hann vill ekki Borussia Dortmund. Fréttir um að Rashford telji sig ekki eiga neitt sökótt við Rubin Amorim, hafi lagt sig fram við æfingar að undanförnu og sé tilbúinn ef á þurfi að halda benda til þess að hann telji útgönguleiðir lokaðar að sinni. Við þetta má bæta að hreyfingar eru hjá Dortmund. Þjálfarinn Nuri Sahin var rekinn í morgun og Erik ten Hag er talinn meðal þeirra líklegustu til að taka við.
United hefur í vikunni átt í viðræðum við Lecce á Ítalíu um Patrick Dorgu, tvítugan vinstri bakvörð frá Danmörku. Hann þykir mikil orkusprengja þótt einhverjir kunni að setja spurningamerki um innkaup á leikmanni með takmarkaða reynslu frá liði sem er í fallbaráttu í Serie A. Framherjar hafa einnig verið orðaðir við félagið.
Bræðisköst Amorims
United tapaði á sunnudag 1-3 fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni í leik sem best er að hafa sem fæst orð um. Reyndar mun Rubin Amorim hafa haft um hann heldur fleiri orð inni í klefa en hann er vanur eftir leiki. Hann virðist nánast hafa gengið berserksgang, öskrað á leikmenn og mölvað sjónvarpstæki. Stuðningsmenn United hafa deilt slíkum tilfinningum með honum og fyrri þjálfurum, en óskandi er fjárhags heimilanna vegna að sjónvarpstækin hafi sloppið. Á fréttamannafundi í dag sagðist Amorim sjá eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu. Hann sé enn ungur af þjálfara að vera og geri því mistök.
Orð hans opinberlega um að núverandi United lið væri það versta í sögunni vöktu líka athygli. Hann sagðist einnig hafa gengið of langt þar. Æfingar í vikunni hefðu hins vegar gengið vel. Það hefur heyrst áður án þess að það skilaði sér út í leiki.
Staðan á liðunum
Af æfingasvæðinu eru reyndar ágætar fréttir. Fyrrnefndur Rashford sást á æfingu með liðinu í dag og sömuleiðis Victor Lindelöf. Svíinn er þó ekki enn leikfær hafandi verið meiddur í mánuð. Amorim sagði einnig að endurhæfing Luke Shaw og Mason Mount gangi vel. Johnny Evans er enn meiddur.
Jack Butland, sem ekki fyrir svo löngu var í láni hjá United og Tom Lawrence, sem er uppalinn hjá félaginu, eru í dag hjá Rangers og báðir tæpir fyrir leikinn. Það sama gildir um varnarmennina John Souttar og Dujon Sterling. Miðjumaðurinn Mohamad Diomande er í banni. Þá eru þeir Rafael Fernandes, Inanis Hagi, Rabbi Matondo og Clinton Nsiala ekki í Evrópuhópi félagsins.
Nauðsynleg keppni
Evrópudeildin skiptir United máli því möguleikarnir á Evrópusæti í gegnum ensku úrvalsdeildina fara þverrandi með hverjum leiknum. Sigurvegari keppninnar spilar í Meistaradeildinni að ári. Þótt sigurlíkurnar séu takmarkaðar með núverandi spilamennsku er aldrei að segja hvað hægt sé að berjast áfram í útsláttarkeppni, eins og United sýndi í enska bikarnum í fyrra.
Fyrsta verkið er að vera meðal átta efstu liðanna til að þurfa ekki að spila aukaleiki um sæti í 16 liða úrslitum. United hefur með þremur sigrum í röð tekist að komast í sjöunda sætið en Rangers er í því áttunda. Í skosku deildinni er liðið vel á eftir Celtic.
Leikurinn hefst klukkan 20:00.
Einar says
Takk fyrir upphitunina Zunderman. Alltaf gaman að lesa þetta þótt árangurinn á vellinum sé ekki til að hrópa húrra fyrir. Skyldusigur í kvöld.