Eftir fréttir um daginn að Mickey Phelan og Eric Steel hefði verið sagt upp sem aðstoðarframkvæmdastjóra og markmannsþjálfara, virðist sem breytingar í þjálfaraliðinu séu að komast á hreint.
Nú virðist ljóst að René Meulensteen, sem var aðalliðsþjálfari, hafi einungis boðist minni staða í nýju þjálfarateymi og hann ákveðið að taka henni ekki heldur reyna fyrir sér á nýjum miðum.
Meulensteen hefur verið einn af lykilmönnum í þjálfarateyminu síðustu tíu árin, fyrst sem unglingaþjálfari og nú síðustu ár sem þjálfari aðalliðsins. Meulensteen var einn af helstu lærisveinum Wiel Coerver, en þjálfunaraðferðir hins síðarnefnda eru heimsfrægar og þykja frábærar. Það er því nokkur missir að Meulensteen, en það er nú þannig að það er vel skiljanlegt að Moyes vilji hafa sína menn í kringum sig þegar kemur að því að setja mark sitt á liðið. Enn sem komið er hafa litlar fréttir borist af væntum breytingum í unglingastarfinu, þar sem er líklega mikilvægara að séu ekki miklar hræringar. Á meðan nýir þjálfarar eru starfi sínu vaxnir eiga fullorðnir fótboltamenn að geta æft undir stjórn þeirra án þess að sakna þeirra fyrri of mikið.
Að nýju mönnunum sem nú eru líklega á leiðinni.
Phil Neville þarf ekki að kynna. Moyes ætlar að setja traust sitt á hann sem þjálfara og kemur greinlega bæði til af samstarfi þeirra síðustu 8 árin hjá Everton og einnig að Neville þekkir kúltúr Manchester United út og inn. Það sem Neville þekkir síður eru kannske leikmennirnir, en af þeim sem í dag spila með United eru einungis þrír sem léku með liðinu þegar Neville hætti. Já það er það langt síðan! Það má hins vegar reikna með að ef hann kannast ekki við þá flesta gegnum… ákveðin tengsl… sem hann hélt jú við félagið, þá er stutt fyrir hann að fara ef hann vill innherjaupplýsingar um hvernig á að fara að guttunum.
Steve Round er búinn að vera aðstoðarframkvæmdastjóri Everton í fimm ár. Fátt er vitað um pilt, eins og títt er með aðstoðarstjóra, en við treystum bara Moyes. Á Wikipediu er hins vegar að finna fyndnasta hrós sem ég hef séð í lengri tíma „Round has a glowing reputation and is frequently rating as one of the most talented assistant managers on computer game Football Manager.“ Stundum hefur maður séð á fésinu og Twitter fólk vera að dæma leikmenn eftir einkunnum þeirra í FM, en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé FM koma við sögu aðstoðarstjóra!
Chris Woods verður markmannsþjálfari. Hann er í dag markmannsþjálfari Everton og bandaríska landsliðsins og ku vera að standa sig vel sem slíkur. Ég sé ekki að hann fái að halda stöðunni hjá Bandaríkjunum ef hann kemur til okkar. Woods þekkja þeir sem komnir eru vel til vits og ára sem fyrrverandi markmann enska landsliðsins, var einn af þeim sem voru endalaust í biðröðinni sem ‘næsti markvörður Englands’ á eftir Peter Shilton. Á endanum þraukaði hann nógu lengi til að verða númer eitt og hélt treyjunni í 3 ár áður en David Seaman kom til sögunnar. Woods hefur verið markmannsþjálfari Everton frá 1998.
Robbie Cooke er aðalnjósnari Everton og myndi taka við sömu stöðu hjá okkur. Hann var í eina tíð senter hjá stórliðum á borð við Mansfield, Peterborough, Cambridge og Brentford, vann síðan á ferðaskrifstofu í níu ár og var þá allt í einu ráðinn sem yfirmaður njósna hjá Everton og er búinn að vera þar í 11 ár. Aftur, maður sem Moyes treystir en þarf nú að fara að skoða leikmenn sem eru einum til fimm verðflokkum ofar en þeir sem hann mátti áður hugsa um.
Leikmannaslúður hefur ekki verið mikið að ráði undanfarna viku, a.m.k. ekki hvað okkur varðar en orðið er laust og umræðan opin!
Stefan says
Frábær pistill, leiðinlegt að missa Meulensteen þar sem hann er klárlega einn af bestu þjálfurum sem hægt er að hafa. Eins gott að Moyes viti hvað hann er að gera.
Svo virðist ansi líklegt að við fáum Strootman á miðjuna sem er fínt þar hann fittar vonandi vel með RVP og Buttner, liðið að verða hollenskara :)
Annars líst mér best á þá rumors að Fabregas og Ronaldo komi haha.
Brynjar Hafsteins says
Er pínulítið hræddur um að missa Meulensteen og Phelan þá sérstaklega þann fyrr nefnda.
Ástæðan fyrir velgengni okkar á seinustu árum hafa vafalaust verið þjálfarateimið og SAF.
McNissi says
Er ekki hrifinn af því að verið sé að hreinsa til. Það getur vel verið að Moyes sé nógu hæfileikaríkur til að fá þessa ,,stöðuhækkun“ en hverjar eru líkurnar á því að allir þessir karlar séu það?
KristjanS says
Verð að játa það að ég er ansi stressaður yfir þessum breytingum, finnst þetta miklar breytingar. Hefði viljað halda René Meulensteen áfram, sem og Eric Steele.
Hér er flott grein um Steele:
http://therepublikofmancunia.com/tribute-to-eric-steele/
Athyglisvert og afar metnaðarfullt hjá Steele að læra spænsku til að ná betur til De Gea. Er Chris Woods ekki sleipur í spænskunni…
En maður verður að treysta Moyes og styðja við bakið á honum!
Varðandi leikmannaslúðrið þá myndi ég ekki gráta það að fá Fabregas en samt finnst mér það ósennilegt, eins og þessar fréttir með Ronaldo.
Runólfur says
Ég næ þessu ekki. a) Auðvitað á Rene að fá að halda áfram í þeirri stöðu sem hann er núna, hann er augljóslega að sinna frábæru starfi miðað við hvernig er talað um hann og það er í raun fáránlegt að hann fái ekki að halda því áfram. b) Það er enn fáránlegra að reka Eric Steele þar sem að hann og De Gea virðast ná vel saman og De Gea liggur við bætir sig dag frá degi. c) David Gill er líka að hætta, það gæti haft ansi mikil áhrif. d) Ég fýla reyndar að fá hluta af njósnarateymi Everton til MUFC þar sem að Everton hefur sýnt ansi magnaða hluti á leikmannamarkaðinum og hver veit hvað gerist þegar verð er ekki jafn mikil hindrun og hjá Everton. e) Hefur eitthvað verið talað um að „taktísku“ snillingarnir hans Moyes komi með til MUFC ? Það er altalað að enginn spáir jafn mikið í taktík og Moyes og var hann víst með teymi af mönnum hjá Everton sem leikgreindu hin liðin í þaula – þætti líklegt að við myndum sjá enn taktískara lið United á næstu árum (með þó vonandi dass af „flair & skills“ í sóknarleiknum.
Ps. Er ég sá eini sem dauðlangar í Carlos Queroz sem næsta aðstoðar manager ?
McNissi says
@Runólfur
Zaha kemur klárlega með nægt flair fyrir heilt lið! Mér lýst svakalega vel á það sem ég hef séð af honum. Hann er algjörlega óttalaus og veður á menn eins og Valencia þegar hann var uppá sitt besta og hann kann öll trixin í bókinni og gott betur og minnir á Nani þar. Ég held því að við séum að fá algjöran gullmola sem hefur það besta frá Nani og Valencia + góða krossa og leggur hann mikið upp.
Þvílík snilld hjá kallinum að fá hann á 15 millur!