Louis van Gaal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Manchester United. Samningur Van Gaal er til þriggja ára. Eftir fund Van Gaal og Ryan Giggs í Hollandi virtist ljóst að Ryan Giggs en ekki Patrick Kluivert yrði aðstoðarmaður Van Gaal og það er nú staðfest.
Þeim til aðstoðar verða Frans Hoek og Marcel Bout. Hoek er markmannsþjálfari Hollendinga nú og hefur áður séð um þjálfun markmanna á borð við Edwin van der Sar og Victor Valdez. Marcel Bout verður aðstoðarþjálfari með áherslu á kortlagningu andstæðinganna og var m.a. með Van Gaal hjá Bayern og hélt þar áfram þó Van Gaal hætti og var fram á síðasta ár.
Um ráðninguna hefur Van Gaal þetta að segja
It was always a wish for me to work in the Premier League. To work as a manager for Manchester United, the biggest club in the world, makes me very proud. I have managed in games at Old Trafford before and know what an incredible arena Old Trafford is and how passionate and knowledgeable the fans are. This club has big ambitions; I too have big ambitions. Together I’m sure we will make history.
Sagt var að Manchester United hefði haft samband tveim vikum áður en Moyes var rekinn en Van Gaal vildi ekki við þá tala fyrr gengið hefði verið frá þeim málum. Fljótlega eftir að Moyes var rekinn komu fyrstu fréttir um að samkomulag hefði náðst og síðustu þjár vikur hafa farið í endalaust slúður. en ekkert hefur verið staðfest fyrr en nú. Getum er leitt að í upphafi hafi United haft samband við aðra, sagt var að Ancelotti hafi verið boðinn samningur, og hugsanlega Guardiola, en fyrst þeir vildu ekki starfið er Van Gaal sá sem stendur uppi með pálmann í höndunum. Eða þannig.
Van Gaal mun taka við Manchester United eftir að Hollendingar falla úr keppni á HM (nú, eða vinna styttuna). Þó er þess vænst að hann sé búinn að fá United innkaupalista til að fara eftir enda hefur leikmannaslúður verið á fullu þessar vikur. Meðal þess sem slúðrað hefur verið er að Van Gaal ku líta helst til Þýskalands með þessi kaup, svo sem þá Kroos og Mats Hummels en fyrst mun United koma með betra boð í Luke Shaw eftir að 27 milljón punda boðinu var hafnað. Nú á að reyna 30 milljónir. Svo hafa hollensk nöfn verið að dúkka upp. Kevin Strootman er meiddur fram á síðsumar eftir frábært tímabil með AS Roma. Strootman fór til Roma fyrir 17m evra eftir að United hafði fylgst með honum í áraraðir. Moyes vildi hann ekki þá en nú er talað um allt að 40m evra boð. Dýr töf það ef af verður. Bruno Martins Indi er 22 ára miðvörður í hollenska landsliðinu og Van Gaal ku vilja hann lílka.
En nóg um það og meira um Van Gaal.
Aloysius Paulus Maria van Gaal er 62 ára Hollendingur. Ferill hans sem leikmaður var ekki merkilegur, lengst var hann hjá Sparta Rotterdam. Eftir að hafa lokið ferlinum hjá AZ Alkmaar gerðist hann aðstoðarstjóri þar og síðar hjá Leo Beenhakker hjá Ajax. Hann tók við framkvæmdastjórastöðunni af Beenhakker árið 1991 og stýrði félaginu gegnum seinni gullaldarár þess. Undir hans stjórn varð Ajax þrisvar meistari, vann UEFA bikarinn, komust í úrslit í Meistaradeildinni árin 1995 og 1996. Fyrra árið vann Ajax Milan í úrslitum 1-0 með marki Patrick Kluivert sem einmitt verður ekki aðstoðarstjóri Van Gaal hjá United þrátt að líkur væru á því í upphafi. Þetta Ajax lið var eitt skemmtilegasta lið tíunda áratugarins og að langmestu leyti byggt á hollenskum leikmönnum, flestum uppöldum. Eftir sigurinn í Meistaradeildinni hirti Ajax síðan bæði Ofurbikar Evrópu og heimsbikar félagsliða. Árið eftir töpuðu þeir svo úrslitaleiknum í vítaspyrnukeppni gegn Juventus.
Eftir þetta sigurtímabil þar sem hann var að láta allar þessar tilvonandi stórstjörnur spila dúndurskemmtilegan fótbolta tók hann við Barcelona árið 1997. Tveir titlar komu í hús en honum fannst erfitt að koma sínu leikskipulagi fram gegn ‘Barcelona stílnum’, samband hans við blaðamenn var stirt og eftir að hafa tapað titlinum til Deportivo vorið 2000 sagði hann upp störfum og tók við hollenska landsliðinu. Meðal þeirra sem stigu sín fyrstu skref í Barcelona liðinu undir stjórn Van Gaal var 18 ára gutti að nafni Xavier Hernandez, betur þekktur einfaldlega sem Xavi.
Ekki gekk þessi stefnubreyting Van Gaal sem skyldi, hollenska landsliðinu mistókst að komast á HM í fyrsta sinn í 16 ár og Van Gaal hætti. Vorið 2002 var uppi orðrómur að hann myndi taka við United þegar Sir Alex hætti þá um vorið eins og áætlað var. Sir Alex hætti auðvitað ekki og af þessu varð ekki. Í stað þess fór Van Gaal aftur til Barcelona haustið 2002. Sú vera var enn endasleppari en sú fyrri. Liðið sýndi afspyrnuslakan árangur og stjórnin gafst upp og rak Van Gaal í janúar 2003 þegar liðið var þrem stigum frá fallsæti. Van Gaal tókst þó að sýna traust sitt á efnilega unga menn. Í þetta sinn hét 18 ára unglingurinn sem Van Gaal gaf tækifærið Andrés Iniesta.
Þá var komið að smá endurnýjun, næsta stopp AZ Alkmaar og fjögur ára vera hans þar endaði á að skila deildartitli þar 2009. Þetta var nóg til að næsta stórlið bankaði uppá, München var næsta stopp. Fyrra ár hans með Bayern var gott, hann notaði unga leikmenn, skilaði meistaratitli og tapaði Meistaradeildarúrslitum fyrir Inter. En næsti vetur gekk ver, og endaði á að honum var sagt upp störfum.
Þá var bara að taka við Hollandi aftur, og í þetta sinn hefur það gengið betur, Holland vann alla leiki utan einn í undankeppni HM og Van Gaal verður með þá á HM í sumar.
Tottenham hefur verið að bera víurnar í Van Gaal í vetur og í þeirra herbúðum finnst mönnum sem Van Gaal hafi aldrei gefið svar af því hann hafi verið að bíða eftir akkúrat þessu: Að Moyes yrði rekinn og Van Gaal fengi tækifærið sem gekk honum úr greipum 2002. Slúðrið segir að auki að Robin van Persie hafi sagt Van Gaal að bíða með að taka við Spurs, það gæti dregið til tíðinda. Van Gaal þykir enda líklegur til að verðlauna Van Persie með fyrirliðabandinu.
Ef horft er á feril Van Gaal standa nokkrir hlutir upp úr. Hann kann að vinna titla, óhræddur við að nota unga leikmenn og hefur haldið tryggð við sitt leikskipulag, sem byggir á sóknarbolta og miklu spili. Allt þetta er eitthvað sem við viljum að stjóri Manchester United hafi. Van Gaal er að auki þekktur fyrir að lenda upp á kant við a.m.k. eina stórstjörnu í hverju liðið (Rivaldo, Luca Toni) og persónlega mætti hann alveg rífast svolítið í Rooney. Enda virðist nú ólíklegt að Rooney verði fyrirliði, enda leggur Van Gaal mikið uppúr því að fyrirliði hafi persónuleika sem honum líkar við. Óhollendingslegri leikmann en Rooney er erfitt að ímynda sér og það er fyrir Hollendingur sem Van Gaal þekkir vel.
Á hinn bóginn er ljóst að ferill hans er fjarri því laus við galla og jafnvel þó hann væri yngri en 62ja ára sæi ég ekki fyrir mér að hann yrði langtímastjóri með haug af titlum. Van Gaal er þekktur fyrir að nýta 4-3-3 með senter og tveim köntum og leggur áherslu á tíuna, annað hvort sem annan senter eða þriðja miðjumann og svo tvo á miðjunni. Mata og Rooney ættu að berjast um tíuna, en eitt er víst: Fyrirliðinn Robin van Persie mun ekki þurfa að kvarta.
Frekari lesningu má að sjálfsögðu finna víða á víðlendum Alnetsins:
Hér er nýleg greining á því hvernig hann gæti látið United spila, FourFourTwo skrifaði um Van Gaal síðasta haust, tók saman feril hans og hvernig hann vill að knattspyrna sé spiluð og síðan er hægt að lesa langt og ansi áhugavert viðtal við hann sjálfan frá AZ árunum þar sem einnig er kafað er í taktík.
Árið 1997 kom út bók þar sem Van Gaal og fleiri þjálfarar frá Ajax fóru yfir þjálfunaraðferðir. Daily Telegraph birtir útdrátt úr bókinni.
Hlustum að lokum á viðtal við Van Gaal frá í vetur þar sem hann fer yfir það hvers vegna hann sé einn af þeim bestu
Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með Van Gaal takast á við stjórastöðuna hjá ‘stærsta klúbbi í heimi’ eins og hann kallaði United í síðustu viku. Eitt ætti að vera nokkuð öruggt: United ætti ekki að spila leiðinlega knattspyrnu og við vonum hann hafi jafnmikinn áhuga á ungum leikmönnum og þetta myndskeið bendir til.
Kristján Birnir Ívansson says
Þá er það, klárt. að þaður þarf að halda með Hollendingum í sumar.
Hjörtur says
Það breytist ekkert hjá mér, hef alltaf haldið með Hollendingum. En ég held mér lítist bara vela á þetta allt saman, og að við verðum í a.m.k. topp fjórum næsta tímabil.
Tryggvi Páll says
Maður er alltaf veikur fyrir Hollendingunum á stórmótunum og það breytist ekkert núna. Spurning hinsvegar hvort að það sé ekki best fyrir United að Holland detti út sem fyrst svo að Louis van Gaal geti tekið til starfa sem fyrst?
Björn Friðgeir says
Eftir að hafa haldið uppá Hollendinga frá ’78 þá urðu alger vinslit 2010 þegar þeir spiluðu eins og verstu óþokkar.
Núna verður auðvelt að taka upp þráðinn aftur. Þetta verður svona win-win, ef þeir detta út snemma þá er Van Gaal reddí, ef þeir vinna, þá Húrra og við höfum heimsmeistara við stýrið (og í senternum)
Annars eru Hollendingar í riðli með Spánverjum og annað sætið í þeim riðli mætir sigurvegaranum úr riðli Brasilíu. Þannig að að morgni dags 29. júní gæti Louis verið að pakka saman í Brasilíu og fljúga til Manchester…
Atli says
Ekkert tengt Ráðningu Van Gaals en ég held að næsti leikur hjá United sé 23 Julí á móti LA Galaxy, svo kemur AS Roma 26 Julí eins og þið segið hér að ofan. Vissi ekki hvar annar staðar ég gat bent á þetta. :)
Björn Friðgeir says
@ Atli:
Já sá það um daginn að þetta er vitlaust. Við erum núna búnir að útvista þessu þannig ég get ekki breytt þessu, en pota í gaurinn sem býr þetta til.