Það er 2. september 2013. Síðasti dagur félagsskipta fyrir sumargluggan 2013 er að klárast. Við stuðningsmenn Manchester United erum búnir að bíða allt sumarið eftir (staðfest) merkinu á Ronaldo, Bale, Fabregas, Thiago. Við erum orðin það örvæntingarfull að við vonum innilega að United nái að klára kaupin á Fellaini fyrir miðnætti. Allt í einu koma fregnir að United sé að bjóða í Ander Herrera, ungan spænskan miðjumann Athletic Bilbao. Skyndilega er komin smá spenna í þetta. Eftir að hafa ekki keypt miðjumann frá árinu 2007 erum við kannski að fara að fá tvo miðjumenn. Á SAMA DEGINUM.
Það sem gerist síðan myndi vel hæfa lélegri Hollywood-mynd. Bilbao hefur ekki minnsta áhuga á að selja einn af sínum besti leikmönnum. Baskarnir er ekki til í tuskið og neita að selja. Skilaboðin frá þeim eru einföld: Þessi ungi drengur er með klásúlu í samningnum sínum upp á tugi milljóna evra. Þið getið reynt að virkja hana en við ætlum ekki einu sinni að hella upp á kaffi fyrir ykkur á meðan þið reynið að koma þessu í gegn á þessum þrem tímum sem eftir lifa af félagsskiptaglugganum.
Á svæðið mæta svo þrír jakkafataklæddir lögmenn, þeir segjast vera fulltrúar Manchester United og þeir séu komnir til þess að greiða upp samning Ander Herrera. Einhverjar sögusagnir fara á stað um þessir þrír dularfullu menn sem birtust skyndilega séu svikahrappar, mættir á svæðið til þess að nýta sér þá óreiðu og misvísandi upplýsingar sem liggja í loftinu til þess að græða nokkrar evrur. Tíminn líður, ekkert gerist. Klukkan slær, enginn Ander Herrera.
Sannleikurinn, eins og alltaf, var ekki jafn krassandi. Þessir menn reyndust vera lögfræðingar á lögfræðistofu í Bilbao sem aðstoðuðu Bayern München við að kaupa Javi Martinez frá Bilbao ári áður. Það tók Bayern margar vikur að klára þau kaup enda ekki auðvelt og alls ekki þægilegt að semja við Bilbao þegar þeir vilja ekki selja. Í rauninni semja menn ekkert við þá. Menn fara bara í gegnum það flókna ferli sem fer í gang þegar greiða á upp samning leikmanna á Spáni. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fannst forráðamönnum Bayern München það gáfulegt að taka sér vikur í að klára kaupin á Javi Martinez, fremur en nokkrar klukkustundir, eins og Woodward ætlaði sér.
Belgíska hárkollan Marouane Fellaini voru því einu kaup Manchester United í þessum glugga. Það er óþarfi að ræða frekar hvernig það fór allt saman.
Færum okkur aftur í nútímann. Það er 21. júlí. Ed Woodward er ekki bara búinn að kaupa Ander Herrera, hann er líka búinn að splæsa í Luke Shaw. Glugginn er búinn að vera opinn í 3 vikur og Woody-kallinn er með þetta. Eitthvað hefur hann lært af Herrera-fíaskóinu frá því í fyrra því nú gekk hann snyrtilega til verksins. Frá því í janúar er búið að orða United við alla leikmenn í heiminum og aldeilis búið að auglýsa það að nú muni Manchester United aldeilis taka upp veskið. Vænleg samningaðferð, þó ekki sé meira sagt. Aldrei var þó neitt minnst á Ander Herrera og maður hélt satt að segja að það nafn yrði eingöngu tengt við algjörlega misheppnaða stjóratíð David Moyes.
En Woodward okkar virðist vera búinn að læra á þetta og að það sé ekki endilega góð hugmynd að láta alla blaðamenn heimsins vita nákvæmlega hvaða leikmenn félagið sé að sækjast eftir. Eins og þruma úr heiðskýrum himni streyma inn fregnir frá áreiðanlegum miðlum að United sé við það að ganga frá kaupum á Ander Herrera. Búmm. King Woody.
Að vísu kom eitthvað smá hikst í þetta þar sem Bilbao var ekkert áfjað í að missa sinn mann reyndu að tefja málið en þar sem Woodward hafði lært að það er ágætis þumalputtaregla að ætla sér meira en einn vinnudag í að klára viðskipti upp á tugi milljóna punda skipti það ekki máli. Woodward nældi sér í leikmann, þegjandi og hljóðalaust.
En nóg um þetta. Hver er þessi Ander Herrera? Hvernig mun Louis van Gaal nýta sér krafta hans?
Herrera fæddist í höfuðborg Baskalands, Bilbao þann 14. ágúst 1989. Hann verður því nýorðinn 25 ára þegar United spilar fyrsta leik sinn í úrvalsdeildinni 16. ágúst. Hann fór þó ekki í gegnum unglingastarfið hjá Athletic Bilbao þrátt fyrir að vera hreinræktaður Bilbæingur. Faðir hans, Pedro María Herrera, var nefnilega knattspyrnumaður og hann spilaði hjá Real Zaragoza og varð seinna einn af stjórnarmönnum liðsins. Sonur hans steig því sin fyrstu skref á fótboltavellinum í Zaragoza.
Zaragoza
Herrera eldri var miðjumaður og Herrera fetaði í fótspor hans. Hann fór upp yngri flokkana hjá Real Zaragoza, spilaði með B-liði þeirra áður en hann fékk tækifæri með aðalliðinu tímabilið 2009/2010 þegar Zaragoza spilaði í spænsku B-deildinni. Hann spilaði 18 leiki það tímabil og hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild, þar sem það hefur spilað síðan.
Okkar maður festi sig í sessi í byrjunarliðinu nú þegar Zaragoza var komið í efstu deild og fór að vekja athygli fyrir frammistöðu sína. Á meðan hann var hjá Zaragoza spilaði hann fyrir öll yngri landslið Spánar en hann á 30 yngri landsleiki fyrir Spánar hönd. Mesta athygli vakti hann á lokamóti Evrópukeppni u-21 landsliða árið 2011. Þar var hann valinn í lið mótsins og skoraði tvö mörk, m.a. fyrra mark Spánverja í 2-0 sigri þeirra á Svisslendingum í úrslitaleik mótsins. Hverjir voru liðsfélagar hans í spænska liðinu og í liði mótsins? Jú, nema hvað: David de Gea og Juan Mata.
Bilbao
Það er líklega ansi þægilegt starf að vera einn af njósnurum Athletic Bilbao. Það eina sem þeir þurfa að gera er að fylgjast með þessum örfáum Böskum sem geta eitthvað. Þeir hafa líklega verið með Ander Herrera á radarnum ansi lengi og þegar honum skaut upp á stjörnuhimininn í kjölfar frammistöðu sinnar á EM u-21 sumarið 2011 mættu forráðamenn Athletic til Zaragoza með skjalatösku fulla af $$$. Þeir skildu skjalatöskuna eftir en sneru til baka með Ander Herrera og hann fékk draum allra baskneska knattspyrnumanna uppfylltann. Að spila fyrir Athletic Bilbao.
Herrera var meiddur þegar hann mætti til leiks hjá Bilbao. Marcelo Bielsa hafði verið ráðinn knattspyrnustjóri Bilbæinga fyrir tímabilið. Hann er ansi sérstakur knattspyrnuþjálfari eins og viðurnefni hans, „El Loco“ gefur til kynna. Hann krefst þess að liðið spili eftir mjög ákveðnu kerfi, einhverskonar 3-3-1-3 þar sem allt snýst um að halda boltanum innan liðsins. Herrera var fljótur að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu eftir að hann kom úr meiðslum og eignaði sér eina af þremur miðvallarstöðunum hjá Bielsa. Þrátt fyrir tiltölulega slakt gengi í deildinni vakti lið Bilbao mikla athygli þetta tímabil þar sem það komst bæði í úrslit Evrópudeildarinnar og spænska Konungsbikarsins. Á leið sinni í úrslitaleik Evrópudeildarinnar rúllaði Bilbao m.a. yfir Manchester United og er það ein besta frammistaða liðs gegn Manchester United í Evrópukeppni sem undirritaður hefur horft á. Liðið tapaði að vísu báðum úrslitaleikjunum en Herrera, Javi Martinez og Fernando Llorrente voru skyndilega orðnir eftirsóttir bitar á markaðnum og Bilbao eitt af mest spennandi liðum Evrópu.
Það var á þessum tíma sem stjórn Bilbao tók upp á því að vera ekkert að standa í því að semja við önnur lið um kaup og kjör á sínum bestu leikmönnum, skiljanlega þar sem það er öllu erfiðara fyrir Bilbao að skipta út sínum bestu leikmönnum en önnur lið vegna stefnu þeirra að spila aðeins baskneskum leikmönnum. Javi Martinez fór eins og áður hefur verið nefnt eftir mikið stapp og Fernando Llorrente þótti vænlegast að láta samning sinn renna út til þess að koma sér í burtu. Næsta tímabil var því enginn dans á rósum. Llorente var ósáttur við stjórn félagsins og stjórn félagsins var ósátt við hann, Javi Martinez var farinn til Bayern og Ander Herrera glímdi við kviðslit sem plagaði hann mest allt tímabilið og náði hann sér ekki á strik líkt og allt lið Bilbao. Liðið var snemma slegið úr öllum keppnum og endaði tímabilið í 12. sæti. Það olli miklum vonbrigðum og Marcelo Bielsa hélt á brott eftir að hafa slegist við iðnaðarmenn sem voru að störfum við endurbætur á æfingarsvæði Bilbao. Bielsa þótti þeir vera latir, dýrir og óhæfir. Skrýtið, enda almennt ekki sú reynsla sem fólk hefur af iðnaðarmönnum
Kornið fyllti mælinn, Bielsa fór og við tók Ernesto Valverde við fyrir tímabilið sem var að líða. Það var undir stjórn hans þar sem Herrera tók virkilega að blómstra. Hann átti þó erfitt uppdráttar í byrjun eftir allt ævintýrið á lokametrum félagsskiptagluggans þegar United reyndi að kaupa hann. Herrera hafði gefið það út að hann vildi fara til United og Bilbæingar taka ekkert sérstaklega vel í það þegar stjörnurnar þeirra vilja fara eitthvað annað. Javi Martinez og Fernando Llorente voru látnir æfa með varaliðinu eða einir síns liðs þegar þeir gáfu það út að þeir vildu fara frá Bilbao. Valverde var þó ekki alveg svo grófur, hann lét sér það nægja að setja hann á bekkinn í fyrstu leikjunum. Hann kom sér þó fljótlega aftur í liðið og varð lykilmaður á frábæru tímabili Bilbæinga sem endaði með því að liðið tryggði sér sæti í Meistaradeildinni í fyrsta sinn síðan tímabilið 1997/1998 þegar liðið kláraði tímabilið í 2. sæti.
Undir stjórn Bielsa spilaði Herrera á miðri miðjunni og var lykilmaður í liði hans. Sir Alex Ferguson hafði t.d. svo miklar áhyggjur af honum í viðureigninni gegn Bilbao í Evrópudeildinni að hann setti sjálfan Park-Ji-Sung í það hlutverk að dekka Ander Herrera. Við munum öll eftir því þegar Park dekkaði Andrea Pirlo út úr Meistaradeildinni í fjórðungsúrslitunum 2010. Það segir allt sem segja þarf um mikilvægi Herrera fyrir Bilbao undir stjórn Bielsa.
Hann fékk þó nýtt hlutverk á þessu tímabili undir stjórn Ernesto Valverde. Þjálfarinn færði hann í holuna fyrir aftan framherjann og þar átti hann sitt besta tímabil í Bilbao-treyjunni. Tölfræðisíðan WhoScored tekur saman einkunnir allra helstu leikmanna Evrópu í öllum keppnum:
Svona var síðasta tímabil hjá honum:
Manchester
Síðasta tímabil var hans það besta á ferlinum í stöðu þar sem United á nóg af leikmönnum. Shinji Kagawa, Juan Mata og Wayne Rooney. Þurfum við virkilega enn eina tíuna?
Stutta svarið er nei og við látum það duga. Ander Herrera er nefnilega ekki keyptur til þess að spila þá stöðu fyrir okkur. Hann er keyptur til þess að spila á miðri miðjunni eins og við fáum vonandi að sjá núna á undirbúningstímabilinu. Hans uppáhalds staða er nr. 8. Hinn skapandi miðjumaður:
My best position is number eight
Sagði hann í viðtali við Andy Mitten fyrir skömmu þar sem hann þakkaði m.a. Bielsa fyrir að hafa gert sig að þeim leikmanni sem hann er.
With Bielsa I played six, like Sergio Busquets at Barca, eight like Iniesta and Xavi, and as a 10. Bielsa said I could become one of the best players in that position
Hann er því fjölhæfur miðjumaður og á Spáni telja sumir hann vera þann leikmann sem getur tekið við hlutverki Andres Iniesta í spænska landsliðinu
An intelligent, quick attacking midfielder with a great brain and a superb attitude he is not dissimilar to his idol, Andres Iniesta, who might or might never get Andres highs but he is nevertheless considered by many to be the logical successor in the Spanish side to Barcelona’s mercurial maestro. #
Þetta varpar örlitlu ljósi á það afhverju Manchester United smellti 30 milljónum punda á þennan ágæta leikmann sem félagið hefur fylgst með undanfarin þrjú ár. Tölfræðin hans á síðasta tímabili varpar þó enn betra ljósi á þessa ákvörðun og hverju við megum búast við af Ander Herrera á komandi tímabili:
Skoðum og berum saman Ander Herrera við miðjumenn United á síðasta tímabili:
Eins og sjá má er Juan Mata eini miðjumaður United sem á fleiri lykilsendingar eða skapar fleiri færi en Herrera. Fastlega má búast við því að Mata muni spila framar á vellinum en Herrera á komandi tímabili. Eins og áður sagði búumst við við því að Herrera spili á miðri miðjunni. Þar er ekki nóg að vera skapandi heldur þurfa menn að vera góðir að tækla og þar stóð Herrera sig betur en allir aðrir miðjumenn á síðasta tímabili, betur en Carrick og Fellaini sem eiga þó að heita tæklararnir í liðinu. Herrera er einnig óhræddur við að skjóta. Miðað við þessar tölur er óhætt að segja að við séum að fá dýnamískan miðjumann í liðið, einhvern á miðjuna sem getur skapað en jafnframt látið finna fyrir sér. Á komandi tímabili mun Herrera vera sá leikmaður sem hefur sóknina, sá sem stingur boltanum inn a þann sem gefur stoðsendinguna. Hann er vítamínið sem miðjan okkar þarf á að halda.
Á síðasta tímabili var miðjan okkar alveg einstaklega döpur, hún var oft á tíðum ekki með í leikjunum og alveg ótrúlega passív. Það sást best á því að Ryan Giggs var besti miðjumaður síðasta tímabils þegar hann fékk að spila, enda eini leikmaðurinn sem hafði hugmyndaflug til þess að gera eitthvað annað með boltann en einfaldlega að gefa hann á næsta leikmann sér við hlið. Ég held að Ander Herrera hafi alla burði til þess að verða lykilmaður á miðjunni hjá United næstu árin ef hann nær að aðlagast enska boltanum. Hann hefur sýnt það að hann er fljótur að læra og aðlagast nýjum kerfum enda búinn að vera undir stjórn tveggja þjálfara hjá Bilbao sem spila á mismunandi hátt og ávallt fest sig í sessi sem lykilmaður. Ef Louis van Gaal nær svo að klófesta vélar á miðjuna á borð við Vidal eða Strootman við hlið Herrara gætum við verið að horfa á afar spennandi, skapandi, fljótandi og umfram allt virka miðju.
Ander Herrera er fyrsta púslið í því púsluspili.
Ingvar says
Gaman að lesa þetta, get ekki beðið eftir að sjá liðið í leik á miðvikudaginn!
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Frábær póstur, skemmti mér vel við að lesa þetta :D
Þór says
Frábær pistill
Rúnar Þór says
klukkan hvað er leikurinn gegn la galaxy? maður á að geta horft á hann á MUTV en sé það ekki i dagskránni, er hann ekki örugglega á miðvikudaginn 23,júlí?
McNissi says
Glæsilegur pistill Tryggvi, einn af þeim bestu sem skrifaður hefur verið á þessari síðu.
Ég var að lesa að Evra er farinn til Juventus… Það hlýtur að auka líkurnar á því að við séum að splæsa í Vidal. Eddi hlítur að borga hvað sem er fyrir menn eftir þetta mont sitt um daginn.
Þó ég sé nú ekki hrifinn af því að hann hafi verið að blaðra því hversu sterkir við erum fjárhagslega þá var það svosem augljóst fyrir alla sem fylgjast með fréttum.
Það er virkilega sexy að hugsa til þess að miðjan gæti orðið Herrera-Vidal í stað Cleverley – Carrick.
DMS says
@ Rúnar Þór:
Sérð dagskrána hér:
http://www.manutd.com/en/Fixtures-And-Results.aspx
En annars mjög skemmtilegur pistill. Hlakka mikið til að sjá Shaw og Herrera spila sinn fyrsta leik.
Tryggvi Páll says
Ég fæ ekki betur séð en að allir leikirnir í æfingaferðalaginu séu í beinni á MUTV. Fyrsti leikurinn gegn LA Galaxy er þó á frekar ókristilegum tíma. Hann hefst klukkan 20.06 að bandarískum tíma sem þýðir það að hérna heima hefst hann klukkan 03.06 um nóttina, hann er því í raun þann 24. júlí.
Næsti leikur í ferðalaginu er á aðeins skaplegri tíma. Hann er gegn Roma þann 26. júlí og hefst að íslenskum tíma klukkan 20.06.
Ég veit ekki hvað er málið með þessar 6 mínútur.
Rúnar Þór says
@ Tryggvi Páll:
takk fyrir þetta Tryggvi, ætli maður kíki nú ekki á leikinn er hvort sem er í fríi ;)
Andri Haukstein Oddsson says
Frábær pistill og gefur manni betri hugmynd um þennan spennandi leikmann. Viðurkenni að ég vissi lítið um hann en vonandi á hann eftir að blómstra hjá United.