Í síðustu leikjum Manchester United hefur Louis van Gaal stillt upp í 3-4-1-2 uppstillingu sem hefur farið mikið í taugarnar á stuðningsmönnum United. Við hér á ritstjórninni munum á næstu dögum birta okkar skoðanir á því hvernig best væri að stilla upp liðinu, við vitum jú auðvitað miklu betur en Louis van Gaal!
Fyrirkomulagið er þannig að við birtum tvo byrjunarlið, eitt sem á að rúlla upp QPR á heimavelli og annað sem á að ná í sigur á Stamford Bridge gegn Chelsea. Runólfur ríður á vaðið og birtir sín byrjunarlið fyrst.
Runólfur:
Persónulega hef ég aldrei verið hrifinn af neinu öðru en venjulegu 4-4-F*cking-2 eða þessu venjulega 4-2-3-1. Að því sögðu þá tel ég núverandi leikmannahóp Manchester United einfaldlega ekki nýtast almennilega í tilteknum leikkerfum. Mér persónulega finnst 4-4-2 leikkerfi með tígulmiðju nýtast liðinu hvað best sóknarlega. Gegn „slakari“ mótherjum myndi ég sum sé vilja sjá liðið spila það leikkerfi (enda hefur það virkað hvað best í vetur). Hvað varðar blessað 3-4-2-1 / 5-3-2 / 3-5-2 leikkerfið þá má það einfaldlega fara þangað sem sólin skín ekki. Held að hatur sé kannski full sterkt orð til að lýsa skoðun minni á því leikkerfi en í hvert skipti sem Van Gaal stillir upp í þetta leikkerfi deyr eitthvað innra með mér.
Ég myndi stilla liðinu upp svona gegn QPR eða öðrum „slakari“ mótherjum
Markmannsstaðan er augljós. David De Gea á hana í dag og þyrfti líklega að gera nokkuð katastrófísk mistök, ítrekað, til að missa hana. Bakverðina þarf svo líklega ekki að deila um – þetta eru hreinlega einu bakverðirnir sem liðið á (gæti þó breyst ef Seamus Coleman slúðrið gengur upp). Hvað varðar hafsenta þá hef ég verið mjög hrifinn af Marcos Rojo í vetur, hann er með einhvern töffara-factor sem spilar þar inn í. Svo var maður örugglega hrifinn af honum því hann var ekkert meiddur, þangað til hann meiddist auðvitað. Ef hann er heill þá startar hann með Chris Smalling sér við hlið. Fyrir utan Manchester City leikinn þá hefur Smalling heillað mig mun meira en Phil Jones og Jonny Evans. Sá síðarnefndi hefur í raun verið það slakur í vetur að sé hann ekki spila mikið lengur með Manchester United nema rétt út þetta tímabil.
Michael Carrick fær svo það hlutverk að sitja djúpt á miðjunni, fyrir mér er Carrick einn mikilvægasti leikmaðurinn í leikmannahóp liðsins í dag. Liðið er einfaldlega betri með hann í þessari holu milli varnar og miðju, smá svona Andrea Pirlo fýlingur í honum (fyrir utan skeggrótina og hárið). Hinir þrír miðjumennirnir eru svo allt leikmenn sem komu til liðsins árið 2014. Angel Di Maria og Ander Herrera eru á miðri miðjunni og Juan Mata í holunni á bakvið framherjana. Vissulega mjög sóknarsinnuð þriggja manna miðja en þetta er Manchester United og maður vill sjá blússandi sóknarleik og þessir þrír leikmenn bjóða upp á það. Almenn gæði þessara þriggja miðjumanna ætti að valda hvaða vörn sem er vandræðum. Tala nú ekki um þegar Shaw og Rafael koma bombandi upp vængina. Ef miðjan væri svo að lenda í basli gegn ,,þungavigtar“ mönnum á borð við Steven N’Zonzi eða Kevin Nolan þá er um að gera að henda Marouane Fellaini inn á og jafna leika.
Frammi í þessu leikkerfi myndi ég spila Wayne Rooney og Robin Van Persie. Rooney gæti fallið aðeins aftar og sótt boltann / barist / hlaupið eins og hauslaus hæna (gert almennt það sem Rooney gerir). Robin Van Persie væri svo í þessu Poacher hlutverki sem fremsti maður. Van Persie og Rooney geta svo vissulega skipt um stöðu þar sem þeir eru báðir mjög góðir í því að tengja milli miðju og sóknar sem og að þeir geta leitt línuna.
Gegn Chelsea eða öðrum „sterkari“ mótherjum myndi ég breyta liðinu talsvert. Ég myndi stilla því upp svona:
Þetta leikkerfi er þó ekki alveg fast, þetta væri í rauninni einhverskonar afbrigði af 4-1-4-1 / 4-2-3-1. Rökstuðningur varðandi liðið sjálft: Markmaður, varnarlína og Michael Carrick eru alveg eins. Tel þetta einfaldlega vera sterkustu sex leikmennina í þessar sex stöður. Því miður finn ég mig knúinn að taka Juan Mata út úr liðinu en í leikjum gegn liðum eins og Chelsea / Manchester City og tala nú ekki um ef liðið spilar erfiða útileika í Meistaradeildinni. Í slíkum leikjum þarf Carrick annan mann með sér til að verja vörnina, í þessu leikkerfi væri Daley Blind sá leikmaður. Að hafa tvo leikmenn fyrir framan vörnina hjálpar talsvert gegn leikmönnum á borð við Eden Hazard og David Silva sem koma mikið inn á völlinn í sóknaraðgerðum sínum. Rétt fyrir framan Carrick og Blind væri maðurinn með olnbogana frægu; Fellaini. Gegn mönnum eins og Yaya Toure og Nemanja Matic er mikilvægt að hafa einn stóran, sterkan fauta inn á til að umræddir leikmenn valti ekki yfir léttleikandi miðju United.
Ég myndi svo vilja sjá Di Maria og Rooney á sitt hvorum kantinum, þó svo að þeir væru frekar innarlega – væru ekki í þessum klassísku out and out winger hlutverkum. Í rauninni mættu þeir skipta um kant og gefa liðinu þannig mismunandi möguleika í skyndisóknum. Ég myndi þó líklega stilla Rooney upp þeim megin sem mótherjinn væri með sinn sterkasta mann (Eden Hazard, David Silva, Alexis Sanchez, Raheem Sterling og fleiri). Það er erfitt að færa rök fyrir því að spila Rooney á ,,vængnum“ þar sem hann hefur ekki náð frábærum árangri þar en á móti kemur að ég vill sjá Robin Van Persie upp á topp og þar af leiðandi er þetta eina staðan eftir á vellinum fyrir Rooney. Van Persie er upp á topp því hann getur haldið boltanum vel, á auðvelt með að spila samherja sína inn í leikinn sem og hann er öflugur að finna pláss fyrir sinn baneitraða vinstri fót.
Hér er þó verið að reikna með að allir leikmenn liðsins séu heilir og enginn meiðist í umræddum leikjum – sem við vitum allir að er aldrei að fara gerast!
Á morgun höldum við áfram og Bjössi varpar fram sínu áliti.
Orri says
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú setur Van Persie upp á topp frekar en Falcao? Ég myndi allann daginn velja Falcao framyfir Persie.. :)
Óli says
Persie hefur sannað sig, ekki Falcao.
Davíð says
DDG-Valencia,jones,Rojo,Blind-Carrick,Fellaini,Herrera-Di Maria,Januzaj-Rooney
Runólfur Trausti says
Hef bara ekki séð nóg af Falcao myndi ég segja. Á meðan ég veit nákvæmlega hvað Van Persie hefur upp á að bjóða.
Á Twitter rúnti dagsins rakst ég svo á mjög skemmtilega samantekt frá 433.is varðandi Rojo, Terry og Kompany. Það er ekkert að ástæðulausu að maður er svona hrifinn af drengnum: http://433.moi.is/enski-boltinn/tolfraedi-rojo-stendur-sig-betur-en-terry-og-kompany/?utm_source=dlvr.it&utm_medium=twitter
Kv. RTÞ
Hilmar Gunnarsson says
Lítur ágætlega út. Reyndar segja fyrstu tveir tölfræðiþættirnir lítið þegar ekki kemur fram hve mörgum tæklingum/skallaeinvígjum þeir tapa. Ef Terry/Kompany tapa bara einu af hvoru en Rojo fjórum þá lítur þetta alltí einu ekki svo vel út. Væri með öðrum orðum áhugaverðara að sjá prósentulega séð hvað þeir vinna mikið.
Þá segir sá þriðji lítið annað en að það sé of mikið að gera hjá United vörninni :)
Það breytir því hinsvegar ekki að ég er mjög hrifin af þessum strák og vonandi heldur hann sér lausum við meiðsli og getur spilað í miðverði út tímabilið.
Audunn Sigurdsson says
Persónulega hef ég ekkert á móti þessu kerfi sem Van Gaal hefur verið að spila, ég læt það ekki fara í taugarnar á mér þótt það sé kannski ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér heldur.
Hann spilaði þetta sama kerfi með Hollendingum á HM, eins spilaði hann þetta kerfi í USA s.l sumar og það gékk mjög vel.
Við höfum hinsvegar ekki séð liðið vera að brillera neitt lengi lengi og þá hefur ekki skipt neinu máli hvaða kerfi liðið hefur spilað.
Besti leikur United í langan tíma var úti gegn Spurs, en þá vantaði að klára færin sem liðið fékk.
Í þeim leik spilaði Van Gaal þetta umdeilda kerfi og það svínvirkaði út á vellinum en liðið náði ekki að nýta sér það. Það má benda mönnum á það að það eru aðeins tvö lið sem hafa fengið á sig færri mörk í deildinni og það þrátt fyrir að liðið er búið að vera í bullandi vandræðum með meiðsli varnarmanna allt tímabilið þannig að eitthvað eru menn nú að gera rétt.
Það sem pirrar mig hinsvegar er að þetta kerfi býður að mér finnst ekki nægilega mikið upp á vængspil, það vantar mikið upp á tvöföldun á vængjunum þegar þetta kerfi er spilað.
Ég myndi hinsvegar aldrei láta mér detta það í hug að setja Herrera eða Rooney út á hægri vænginn, það er nú bara algjört brjálæði.
Þá myndi ég frekar hafa Di Maria hægra megin og Mata v/megin, Herrera fyrir aftan Rooney og einhvern annan framherja. Mata hefur hinsvegar ekki virkað sem vængmaður þannig að þetta væri ekki alveg uppáhalds kerfið en þar sem ég þoli ekki Valencia þá fæ ég mig ekki til að hafa það í liðinu. Spurning um að fara að gefa Januzaj einhvern séns á vinstri eða hægri vænginn, honum vantar reyndar hraða og áræðni finnst mér.
Ég verð bara að segja eins og er að ég veit ekki hvaða kerfi hentar Man.Utd best og ég er nokkuð viss um að Van Gaal veit það varla sjálfur.
EIns með byrjunarliðið, það er mjög erfitt og nánast útilokað að spila Mata, Rooney, RVP, Di Maria, Herrera og Falcao öllum í einu og svo aftur mjög erfitt að skilja einhvern af þeim útundan.
Ég myndi selja Mata í sumar og kaupa meiri/betri vængmann og svo líka miðjumann.
Mér finnst líka vanta svoldið upp á sjálfstraust, menn eru skíthræddir við að gera misstök, sendingar eru lélegar og það vantar drifkraft og áræðni til að leita fram völlinn.
Miðjumenn eru ragir, senda mikið tilbaka og eru að missa boltann sí og æ, sóknarmenn ætla að sóla 11 og skora fimm mörk í hverri sókn. Það er svo mikið óðagot og stress í leik liðsins sem er merki um lágt sjálfstraust.
Þegar t.d Smalling eru með boltann þá er eins og hann haldi á spengju, þegar Jones æðir af stað með boltann þá bíður maður eftir einhverju stórslysi og Evans veit ekki hvort hann er að fara til hægri eða vinstri.
Þrátt fyrir þetta eru þeir allir fínir í því að verjast og kýla boltann eitthvað út í loftið en agalega lélegir að bera boltann fram og finna réttu sendingarnar.
Rúnar Þór says
Ég er mjög sammála kerfunum hans Runólfs, set spurningamerki við RVP (Falcao kannski í staðinn) og svo veit maður ekki alveg með Rooney á kantinum (hann gæti samt djöflast og skilað fínni vinnu). En Carrick, Blind og Fellaini saman í stórleikjunum gæti verið hrikalega gott.
Eyky says
Ég er að fá gubbandi heilablóðfall útaf þessu 5-3-2 væli. Farið að minna mig á Moyse vælið í fyrra.
Annars:
1) Jones frekar en Smalling? Ég hef alltaf reynt að hugsa jákvætt um Smalling en jafnvel Nani hefur efni á að hrissta hausinn yfir sumum ákvörðunum hjá honum.
2) Herrera út á kant eða ekki í hóp? Varnarsinnaður miðjumaður sem getur dreift boltanum nýtur sín væntanlega best inn á miðjum vellinum.
3) Shaw? ctr+f segir mér að það sé enginn búinn að Nefna Young nafni í þessari grein. Það er frekar magnað þar sem þetta hefur verið hans besta tímabil og Shaw er búinn að vera _lélegur_.
4) Runólfur fær prik fyrir að skella Rooney í framherjann.
Runólfur Trausti says
Verð að vera mjög ósammála Auðunni hér:
Til að byrja með er það galin hugmynd að selja Juan Mata. Stórkostlegur fótboltamaður og mjög mikilvægur hluti af liðinu – tala nú ekki um ef liðið kemur sér í Meistaradeildina á næsta ári. Juan Mata kom inn á hægri vænginn gegn Crystal Palace ef ég man rétt og skoraði markið sem vann leikinn. Vissulega er hann langbestur í holunni og þar ætti hann að spila – helst í sóknarsinnuðu 4-2-3-1 leikkerfi.
Og til hvers að kaupa kantmann þegar við eigum ennþá Nani? Ef þú vilt „out and out“ kantmann þá er Nani eins góðir og þeir verða. Nema menn vilji punga út sirka 25 kúlum fyrir menn á borð við Pedro – ef Reus er í boði þá hins vegar erum við að tala saman en þá þyrfti Van Gaal fyrst að fara spá í að henda þessu 3-4-1-2 leikkerfi sínu í ruslið. Væri vissulega mjög gaman að sjá Reus koma og United spila sókndjarft 4-2-3-1 leikkerfi á næsta ári – sé það þó ekki gerast.
Svo skil ég ekki alveg þessa gagnrýni á hafsentana. Smalling er til að mynda með flestar heppnaðar sendingar af varnarmönnunum í liðinu eða 89% (sem er sama tala og Demichelis og Kompany eru með – Cahill er með 87% og Terry er með 91%). Reyndar er Smalling eini hafsent United sem hefur unnið færri tæklingar heldur en áðurnefdnir hafsentar Chelsea og City. Annars held ég að mikið af tölfræði factor-um hafsenta United megi skrifa á a) leikkerfið b) meiðsli c) reynslu. Hafsentapör Chelsea og City eru talsvert eldri en hjá United og það er löngu vitað að varnarmenn toppa seint. Nemanja Vidic og Rio Ferdinand voru bestir í kringum 28-33 ára myndi ég segja – á meðan eru hafsentar United flestir í kringum 23-25 ára aldurinn. Ég tel allavega að það eigi að gefa þeim talsvert lengri tíma – þó mögulega sé Jonny Evans kominn á sinn allra síðasta séns.
Varðandi blessað 3-4-1-2 leikkerfi; Þrátt fyrir að þetta leikkerfi hafi virkað vel hjá Hollendingum í sumar þá er stór munur á útsláttarkeppni og deildarkeppni. Holland-Spánn var stórkostlegur en restin af leikjum Hollands voru hreint út sagt drepleiðinlegir ef ég man rétt. Og eina ástæðan fyrir að Van Gaal spilaði þetta var sú að Strootman meiddist, ef hann hefði verið með Hollendingum þá hefðu þeir aldrei spilað þetta glataða leikkerfi.
Að lokum tel ég þetta útkljá öll mál varðandi leikkerfi: https://twitter.com/SkySportsMNF/status/557255714637643776/photo/1 (taka skal fram að United spilaði með 4 í öftustu línu gegn Chelsea og City en 3 gegn liðum eins og Sunderland, Burnley, Swansea).
Tryggvi Páll says
Rétt að taka það fram að í fyrri uppstillingu Runólfs eru Herrera og Di María í raun á miðjunni frekar en út á köntunum. Kerfið sem við notum til að sýna uppstillinguna stillir bara demantinum upp svona þannig að það lítur út fyrir að miðjumennirnir tveir séu á köntunum frekar en á miðjunni, eins og þeir eiga að vera.
Þórður Birgisson says
Ég skil ekki alveg þetta dálæti á Di Maria, það hefur bara ekkert gengið þegar hann er í liðinu.
Young og Valencia á köntunum,það vantar sárlega fleiri bolta í boxið ef þeir eru ekki með. Fyrirliðin á sínum stað, Mata fastamaður í holu, ( ef hann skorar ekki þá á hann stoðsendinguna) RVP/ Falcao,spurning sitthvor hálfleikurinn? Carrick á sínum stað með Fellaini sér við hlið. Smalling, Rojo,Shaw og svo nýji kongurinn í markinu.