Eins og undanfarnar vikur var ekki auðvelt að meta hvaða leikkerfi liðið myndi spila í dag út frá þeim leikmönnum sem voru valdir til verksins. Eftir nokkrar mínútur var ljóst að liðinu var stillt upp á eftirfarandi hátt:
Bekkur: Valdes, Jones, Valencia, Herrera, Young, Falcao, Wilson.
Blind var djúpur á miðjunni og beið á meðan bakverðirnir okkar fengu mikið frelsi til þess að fara upp kantana. Fellaini var örlítið fyrir aftan Robin van Persie í framlínunni og Di Maria og Rooney á köntunum.
Þetta byrjaði þó ekkert sérstaklega vel. Það var ekki liðin mínúta af leiknum þegar Cambridge fékk sitt besta færi. Blind var ekki alveg viss um hvort hann væri að senda boltann eða taka á móti honum og sendi sóknarmann Cambridge einn í gegn á móti De Gea. Sem betur fer fyrir okkur skaut hann í stöngina og við sluppum því með skrekkinn.
Eftir þetta bökkuðu Cambridge-menn duglega og augljóst að þar ætluðu menn að endurskapa síðasta leik liðanna. Þeir vörðust á 8-9 mönnum og voru þéttir fyrir sem gerði það að verkum að við reyndum mikið af fyrirgjöfum enda með Fellaini alltaf inn í teig. Framan af spilaðist þetta á svipaðan hátt og í fyrri leiknum. Þeir vörðust, við sóttum. Við áttum þó í erfiðleikum með að brjóta þá niður enda erfitt að að sækja gegn liði sem er með 9 menn í vörn við sinn eigin teig.
Við nýttum þó tækifærið vel þegar Cambridge-menn reyndu sókn eftir rúmlega 20 mínútur. Við unnum boltann og keyrðum hratt á þá. McNair átti laglega þversendingu á Mata. Hann kom boltanum út á vinstri kant þar sem Di Maria var mættur. Hann sendi fína sendingu fyrir þar sem Fellaini beið á nærstöng. Hann skallaði boltann niður og þar var litli töframaðurinn Juan Mata mættur til þess að klára færið. Hann hatar ekki FA-bikarinn. Hann hefur tekið þátt í 15 FA-bikarleikjum og komið að 15 mörkum (6 mörk, 9 stoðsendingar).
Juan Mata 15 FA Cup appearances… involved in 15 goals http://t.co/kvcwe96f7Gpic.twitter.com/bAEQOVBWfN
— Match Zone (@MailMatchZone) February 3, 2015
Eftir þetta mark var mönnum létt og leikplan Cambridge-manna í molum. Næstu 60 mínútur eða svo var leikurinn nánast ekkert nema einstefna að marki Cambridge-manna. Við bættum við marki eftir hornspyrnu á 32. mínutu en það verður að segjast að hornspyrnurnar í leiknum voru óvenju góðar. Di Maria tók hornið. Fellaini var alveg glæpsamlega einn í teignum og fékk allan tíma í heiminum til að kassa hann niður og taka skot. Boltinn fór í varnarmenn Cambridge, barst til vinstri þar sem Robin van Persie var, hann vippaði boltanum utanfótar inn í teig þar sem Rojo hefði getað tjaldað í friði, hann var svo óvaldaður. Hann skallaði hann auðveldlega í netið og fyrsta mark hans fyrir félagið staðreynd. Við fórum því inni í seinni hálfleik með ansi þægilega forustu og var leiknum í raun lokið á þessum tímapunkti.
Seinni hálfleikur virtist í raun bara vera fínasta æfing á þessari leikspeki sem Louis van Gaal er alltaf að tala um. Menn létu boltann ganga hratt á milli sín og náðu oft á tíðum flottum spilaköflum. Menn voru líka að vaða í færum. Robin van Persie hefði getað skorað þrennu, Rooney með örlítilli heppni hefði skorað 1-2 og Di Maria var ekki langt frá því í 1-2 skipti. Meira að segja Paddy McNair hefði getað skorað í leiknum. Endapunkturinn var svo þegar að varamennirnir tveir, Wilson og Herrera skópu mark nr. 3. Þeir höfðu rétt áður komið inn fyrir Robin van Persie og Di Maria og þeir voru ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Herrera sýndi hvað hann er alltaf klár í að hefja sóknir með því að finna Wilson í góðri stöðu fyrir framan teig Cambridge. Hann dansaði þar örlítið áður en hann lét vaða á markið og boltinn söng í netinu.
Þar með var þetta búið og eina svekkelsið kannski að ná ekki að bæta við fleiri mörkum. Það skiptir þó engu máli í þessari keppni enda liðið komið áfram í 5. umferð.
Nokkrir punktar
- Paddy McNair. Hann átti stjörnuleik í hægri bakverði. Hann og Rooney unnu vel saman á kantinum og síðar Herrera þegar hann færði sig þangað. McNair var með áætlunarferðir upp hægri vænginn. Það eitt og sér er ekki nóg en hann var einstaklega öruggur í öllum sínum aðgerðum. Tók góð hlaup og átti góðar fyrirgjafir, hann var meira að segja óheppinn að skora ekki í fyrri hálfleik. Hann átti mjög góðan leik í þessari stöðu gegn Liverpool í u-21 leik fyrir skömmu og því veltir því maður fyrir sér hvort að þetta sé ekki bara staðan hans? Það er ekki eins og við séum að kafna úr gæðum í þessari stöðu og því er það vel þess virði að láta reyna á kappann.
- Leikkerfið. Það er orðið ansi erfitt að spá fyrir um hvaða leikkerfi hefur orðið fyrir valinu þegar það brýst út á Twitter hvaða leikmenn séu að fara að spila. Í dag kom Louis van Gaal öllum að óvörum með því að henda Fellaini nánast bara í framlínuna og að spila Rooney á kantinum. Þetta virkaði afskaplega vel. Vissulega er Cambridge ekki sterkasti andstæðingur í heiminum en með fjóra miðverði er allt uppspil töluvert betra og auðveldara. Blind stóð sig vel í að bera upp spilið og vernda vörnina sem gerði það að verkum að bakverðirnir okkar gátu teygt allsvakalega á Cambridge-liðinu. Þetta opnaði pláss á öllu miðsvæðinu og liðið var mjög hættulegt. Meira af þessu, takk.
- Hornin. Ég er ekki frá því að hvert eitt og einasta horn hafi drifið yfir fyrsta varnarmann. Markmaðurinn greip einhver en hornin fóru öll á hættulegt svæði í teignum. Ég veit ekki hvort að menn hafi verið að vinna í þessu en þetta er bara jákvætt.
- Næsti leikur. Við sluppum við bikarlið Sheffield United og förum í staðinn til Preston. Við erum einfaldlega í dauðafæri til þess að ná langt í þessari keppni og ég held að það sé mikill vilji til þess í hópnum. Með brottför Darren Fletcher er enginn leikmaður eftir í hópnum sem hefur unnið bikarinn með Manchester United þó að Mata og Robin van Persie hafi báðir unnið bikarinn með öðrum félögum.
Ég vona að nú sé 3-4-1-2 kerfið komið á haugana og þessi 4 manna varnarlína sé kominn til þess vera. Varnarlega er liðið orðið mun örugga en það var fyrr á tímabilinu og því ætti að vera óhætt að treysta liðinu til þess að þurfa ekki að hafa 3 miðverði til þess að geta varist sómasamlega. Næsti leikur er gegn West Ham á meðan Arsenal og Spurs spila innbyrðis og Liverpool á erfiðan útileik gegn Everton. Leikurinn gegn West Ham er því gríðarlega mikilvægur í Meistaradeildarbaráttunni og með sigri þar náum við að skilja okkur frá a.m.k. einu þessara liða. hann er á sunnudaginn, þangað til, góðar stundir.
ellioman says
Þetta Herrera dæmi er virkilega byrjað að fara í taugarnar á mér. Finnst alveg óskiljanlegt af hverju hann fær ekki fleiri tækifæri hjá Van Gaal…. muuuu
Magnús Már says
var að sjá allt annað byrjunarlið í myndbandi frá old trafford… þar var valencia í hægri bak og shaw í vinstri, rooney hægra megin og januzaj vinstra megin með blind á miðjunni, di maria fyrir framan þá og persie og falcao frammi ?
Tryggvi Páll says
Þar eru MUTV-menn eitthvað að klikka. Hér má finna mynd af leikskýrslu leiksins:
Andri says
Thetta er auđvitađ bara vitleysa, Valdes á ađ fá ađ spreyta sig og Herrera?! Halló?
Hilmar Gunnarsson says
Djöfull er McNair búinn að vera rosalegur hingað til í þessum leik.
Tony D says
Hef ekki stórar áhyggjur af Herrera, hann fær að spreyta sig og mun sýna að hann eigi skilið mun fleiri mínútur. Val des er enn ekki kominn í leikform og skil að hann hafi ekki verið í rammanum. Fínn leikur og Camebridge menn stóðu sig gríðarlega vel og voru sennilega að spila á 125% getu að lágmarki. Fín spilamennska en skyldu sigur.
Hannes says
Skelfilega leiðinlegt að horfa á leiki þetta tímabil. Var uppleggið í kvöld að negla inn í teig þar sem Fellaini átti að skalla niður á samherja ? Sjá öll þessi topplið á englandi , Arsenal, Man City, Chelsea og Liverpool , þau prjóna sig í gegnum varnir andstæðingana, við spilum ekki þannig í deildinni og gátum það ekki í kvöld gegn Cambridge Utd. Svo má DiMaria alveg fara að sýna afhverju hann var 60 milljon punda virði, maðurinn getur varla drifið inní teig úr hornspyrnu og gerir ekki annað en að taka máttlaus skot langt utan teigs.
valsarar.net says
Það var s.s. bara einhver galli í kerfinu sem gerði það að verkum að Di Maria var maður leiksins hjá MUTV?
Þórður says
Ég skil ekki alveg þessa fallegu umsögn um leikinn og leikmenn liðsins í kvöld.
Paddy var jú allt í lagi en framan af vissi hann ekkert hvað hann átti að gera, Maður sá Rooney vera benda honum að hlaupa í allar áttir, ekki tók hann overlapið þegar tækifærin voru endalaus fyrir þau. En hann skánaði þegar á leið en það stafar ekki mikil ógn af honum og ekki var Rooney skárri.
Rooney virðist geta spilað flestar stöður á vellinum nema hægri kannt og að sjálfsögðu færir Gaalinn hann þangað.
Menn tala endalaust um mörkin hans Mata, hann gerði ekkert annað í leiknum nema að skora þetta eina mark og ekki vantaði hann tækifærin til að senda úrslitasendingu trekk í trekk en hann ákvað frekar að spila bara til baka og labba síðan um og hafa það notalegt.
Engillinn er sá eini sem horfir alltaf fram á veginn en það kemur ofsalega lítið úr því sem hann gerir, maður sem kostar tæpar 70 milljónir á að vera góður, ekki prýðilegur eða ágætur, Góður!
Svo hef ég bullandi áhyggjur af Blind, hann er alltaf reyna úrslita sendingu og honum er fokk sama hvort liðið græðir á henni en ég hef trú á að hann nái að losa sig við þessar hræðilegu kæruleysis sendingar.
Ég vil minna á að þetta lið sem Man spilaði við í kvöld er í fjórðu deild, þessi spilamennska var crap.
Er það mögulegt að liðið nái að spila svona illa í allan vetur með alla þessa milljarðamenn innanborðs? Það þarf góðan mann til að rannsaka hvernig Gaalinn nær að fá liðið til að spila svona illa og svona leiðinlegan bolta.
Guð blessi og til hamingju með sigurinn
DMS says
Voðalega sjá sumir allt það svarta í öllu. Sáum við mörg stórlið gjörsamlega valta yfir andstæðinga sína í bikarnum? Svarið er nei.
Á pappír þá ætti United að taka svona lið eins og Cambridge og snýta sér á þeim með 5-6 marka sigri. Það hefði svo sem alveg getað gerst í kvöld með betri nýtingu á færum, en eftir 2 fyrstu mörkin þá datt ákefðin aðeins niður og leikurinn í raun búinn. Við sjáum Chelsea fá á sig 4 mörk á brúnni eftir að hafa komist í 2-0 gegn liði sem er ekki í úrvalsdeild. Þetta er bikarinn og ekkert er gefið, sama hver andstæðingurinn er.
Fínn skyldusigur sem hægt er að byggja ofan á. Margt jákvætt í leiknum en líka margt sem má enn bæta.
Tryggvi Páll says
Tökum þetta lið fyrir lið Doddi minn:
Paddy McNair er 19 ára strákur sem á núna heila 10 aðalliðsleiki með félaginu. Hann er miðvörður að upplagi, ekki bakvörður. Er ekki bara eðlilegt að hann þekki ekki stöðuna alveg 100% og sé óstyrkur í byrjun? Tala nú ekki um ef landsliðsfyrirliðinn sjálfur er að spila fyrir framan þig. Hér er smá tölfræði fyrir þig: Hann átti 10 langar sendingar og 9 af þeim heppnuðust, hann átti tvær lykilsendingar, aðeins þrír aðrir leikmenn United áttu fleiri lykilsendingar í leiknum. Er hægt að biðja um eitthvað meira frá 19 ára leikmanni sem er að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu og að spila í nýrri stöðu? Hann var meira að segja óheppinn að skora ekki!
Sammála þér með Rooney. En í raun og veru var hann ekki eiginlegur kantmaður í þessum leik. McNair sá um að vera alveg upp við hliðarlínu þannig að Rooney gat leitað meira inn á miðjuna. Ég hefði frekar viljað sjá Herrera í þessari stöðu en hann virðist ekki njóta trausts LvG af einhverjum ástæðum. Hann fær þó að sjá alla leikmenn liðsins æfa, ekki við.
Mata er mjög góður í að skora mörk og er ótrúlega naskur við það að vera á réttum tíma á réttum stað. Hann skín oft gegn litlum liðum á Old Trafford en týnist á útivelli og þarf klárlega að sýna meira þar til þess að réttlæta kaupverð sitt. Hann átti þó ágætis leik í dag. 3 lykilsendingar og þar var aðeins Di Maria með fleiri.
Di Maria hefur eitt hlutverk í þessu liði. Hlaupa, skapa og valda usla. Hann hefur svolítið frjálst hlutverk og hefur leyfi til þess að taka meiri áhættur en aðrir leikmenn. Vegna þess eru auðvitað meiri möguleikar á því að það sem hann gerist mistakist. En oft tekst það og yfirleitt skapast hætta. Í kvöld átti hann flestar lykilsendingar, flestar langar sendingar og flestar stungusendingar. Ég er ekki sammála því að það komi lítið úr því sem hann gerir. Hann er stoðsendingahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu og leiðir liðið í þessum tölfræðiþáttum.
Hvað varðar Blind. Hann er í þriðja sæti í deildinni hvað varðar hlutfall heppnaðra sendinga á eftir ekki ómerkari mönnum en Yaya Touré og Cesc Fabregas. 89% sendinga hans heppnast. Það er ekki langt síðan Neville og Carragher gagnrýndu hann fyrir að vera einmitt EKKI að taka áhættusamar sendingar og vera of mikið í einföldu sendingunum.
Þú segir að spilamennskan hafi verið crap. Hvernig á lið að spila gegn liði sem ætlar sér ekkert annað en að verjast á vítateignum með 9-10 menn’ Möguleikarnir eru takmarkaðir og svoleiðis leikir bjóða yfirleitt ekki upp á einhverja blússandi skemmtun. Þvert á móti leystu liðsmenn United þennan leik bara vel og spiluðu bara ágætlega, þeir brutu á bak aftur þennan gríðarlega varnarmúr með því að fylgja leikplaninu sem var sett upp fyrir þennan leik. Auðvitað hefði verið fínt ef liðið hefði unnið 8-0 eða eitthvað en ég sé ekki alveg hvernig liðið átti að spila þennan leik eitthvað öðruvísi eða mikið betur en það gerði. Færanýtingin hefði kannski mátt vera betri, skal gefa þér það.
Svo keppast menn alltaf við að segja að United liðið sé svo lélegt og hafi verið að spila ömurlegan bolta allt tímabilið. Það er einfaldlega ekki satt. Vissulega hafa komið inn leikir þar sem liðið er kannski ekki að maxa skemmtanagildið en að segja að liðið hafi spilað illa allt tímabilið er í besta falli fáranlegt. Hvernig getur lið sem er að spila illa verið í þriðja sæti deildarinnar? Mikið rosalega hljóta þá öll hin liðin að vera léleg og að vera að spila illa á sama tíma. United hefur spilað vel í mörgum leikjum á tímabilinu og átt góða kafla í þeim flestum. 3 lið hafa skorað fleiri mörk og 2 lið hafa fengið á sig færri mörk. Ég er ekkert að segja að allt sé frábært og ekkert sé að. Liðið getur bætt sig verulega, vissulega.
Mig langar samt að spurja þig á móti hvað er það sem þú vilt? Það er ekkert lið í heiminum sem fer í gegnum heilt tímabil með einhverjum blússandi sóknarbolta þar sem varla má líta af skjánum svo maður missi ekki af öllum skemmtilegheitunum. Er alltaf gaman að horfa á Chelsea spila? City? Barcelona? Bayern Munchen? Miðað við það að LvG er að vinna með tiltölulega nýjan hóp og að auki þurft að glíma við stjarnfræðileg meiðsli sem myndu hafa gríðarleg áhrif á öll lið í deildinni er hann bara að standa sig þokkalega og rúmlega það. Það er alveg sama hvað þú eyðir mörgum milljörðum, ef þú gerir miklar breytingar á hóp og þarft að glíma við mikil meiðsli á sama tíma er alltaf eitthvað að fara láta undan.
Og talandi um skemmtilegheit, það er nú ekki eins og síðustu árin undir Sir Alex Ferguson hafi einkennst af frábærri spilamennsku og eintómri gleði.
Þórður says
Ég sagði líka að paddy hafi verið ágætur, ef það þarf að bæta við að hann sé bara 19 ára og spili ekki þessa stöðu þá finnst mér eins og þú sért að verja hann. Knattspyrnumenn eiga að vita hvað overlap er, sama hvaða stöðu þí spilar, annars vantar mikið upp á knattspyrnugreind.
Þetta er kennt í 6. flokk.
Ert þú virkilega að segja mér að þessar sendingar Blind pirri þig ekkert, hann eina 2 í hverjum leik alveg á pressu og veldur stór hættu.
En þetta er allt sem mun skána, Paddy, Blind og Engillinn með alla sína milljarða á bakinu. „Það er ekkert lið í heiminum sem fer í gegnum heilt tímabil með einhverjum blússandi sóknarbolta þar sem varla má líta af skjánum svo maður missi ekki af öllum skemmtilegheitunum“ segir þú Tryggvi…. Þetta er svo rétt hjá þér, það er ekkert lið sem spilar blússandi heila leiktíð en getur topplið spilað hund leiðinlega heila leiktíð? Gaalinn er að slá öll met í leiðindum og nánast hægt að segja að hann hafi spilað skítabolta í allan vetur. það eru einstaka hálfleikir sem horfandi er á en heilt yfir er þetta varla fólki bjóðandi.
Ekki reyna að neita því þar sem ég hef séð ykkur kvarta undan 3 miðvarða vörninni.
Ef liðið heldur svona áfram þá þarftu ekkert að tala lengi um þetta þiðja sæti sem liðið situr í í dag. Southamton, Tottenham og þá sérstaklega Arsenal og Liverpool eru að spila miklu btur en Man U og liðið þarf að girða sig feitt tilað halda meistaradeildarsæti.
En ein spurning: Af hverju takið þið það svona inn á ykkur ef maður er ekki að dásama liðið og biðja til Gaal? Liðið hefur spilað illa og leiðinlega og það er bara eitthvað sem maður á ekki að venjast, meira að segja þegar liðið gatekkert in the 80´s þá spilaði það mun skemmtilegri bolta en í dag.
En takk fyrir flotta síðu og megi Gaalin koma liðinu á rétta braut
Tryggvi Páll says
Ef ég má spyrja þig, hvað er það sem þú vilt sjá?
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Ekki tengt þessum leik, en mikið er ég ánægður að það voru ekki keyptir inn fullt af dýrum leikmönnum núna í janúar. Finnst liðið gott og þurfa frekar á því að halda að læra að vinna saman betur.
Rosalega er ég annars hrifin af Rojo, held að hann eigi eftir að verða rosalegur næstu árin :D
eeeeinar says
Rólegur Þórður. Þetta er enska bikarkeppnin – leikir gegn neðrideildarliðum einkennast sjaldan af fegurð og glæsileika. Ég veit ekki betur en í þessari sömu umferð hafi Chelsea dottið út á heimavelli á móti Bradford, Man. City tapaðu fyrir Middlesborough, Southampton líka dottið út, Liverpool var að ströggla með Bolton. Það er ótrúlegt hvað 3-0 sigur getur fært sumum miklar kvalir.
Varðandi McNair. Vá hvað þessi drengur er mikið efni – hann var frábær!
„Knattspyrnumenn eiga að vita hvað overlap er, sama hvaða stöðu þí spilar, annars vantar mikið upp á knattspyrnugreind.“
Varstu að horfa á sama leik og ég? McNair var að crossa, átti góð „overlöpp“ og gaf liðinu extra vídd hægra meginn sem hefur heldur betur vantað hjá liðinu. Hann átti algjöran stjörnuleik í bakverðinum.
„Ert þú virkilega að segja mér að þessar sendingar Blind pirri þig ekkert, hann eina 2 í hverjum leik alveg á pressu og veldur stór hættu.“
Jeez…
Sammála með að þessi tilraunamennsku með Rooney á hægri kannti og Di Maria frammi ekki ganga, en hey, unnum mikilvægur sigur. Tökum þennan bikar í ár! :)
Þórður says
„Ef ég má spyrja þig, hvað er það sem þú vilt sjá?“ Ég vil sjá liðið spila betur, thats it. Það hefur verið hápunktur vikunar hjá með síðustu rúmlega 20 ár að horfa á leik liðsins. Nú er þetta svo leiðinlegt. Ég vil að allir þessir milljarðaleikmenn spila upp í verðið á sér og Mata spili vörn.
Síðan, án þess að það hafi e-ð að gera með Gaainn er Januzaj að valda gífurlegum vonbrigðum. Ég gerði mér vonir um að hann væri einn af 5 bestu leikmönnum eftir 2-3 ár en það lítur ekki út fyrir það.
Nei ég er ekki búinn að gefast upp á honum annað tímabils sindrommið í fullum gangi, vona það besta.
Annars er ég helvíti góður