Það var ansi þungt í manni hljóðið eftir leikinn gegn Swansea um síðustu helgi. Þetta fer fljótt að verða að klisju en liðin í baráttunni um Meistaradeildarsætin mega ekki misstíga sig mikið það sem eftir er af tímabilinu. Það var því alveg grautfúlt að missa þennan leik niður í tap, sérstaklega í ljósi þess að Liverpool og Arsenal unnu sína leiki en þetta virðast vera okkar helstu andstæðingar um 3-4. sæti. Staðan er einfaldlega þannig að United má helst ekki tapa leik það sem eftir er tímabilsins, eða hvað?
Miðað við hvernig þetta tímabil hefur spilast og þá leiki sem liðin í 3-7. sæti eiga eftir tel ég það ekki vera fjarstæðukennt að áætla að eitthvað í kringum 70 stig muni duga til þess að vinna Wenger-bikarinn (ná 4.sæti) á þessu tímabili. Það er reyndar mjög nálægt meðaltalinu frá því að úrvalsdeildin fékk að senda 4 lið í Meistaradeildina en síðan þá hefur liðið í 4. sæti að meðaltali verið með 69.5 stig. Arsenal setti met á síðasta tímabili með því að vera með 79 stig í 4. sætinu en það var óvenju gott tímabil hjá félaginu, yfirleitt eru liðin í 4. sæti með um og yfir 70 stig. Ég ætla því að negla þann stigafjölda niður sem takmarkið sem Louis van Gaal og félagar þurfa að ná.
Eins og staðan er í dag er United með 47 stig og þyrfti því að næla sér í a.m.k. 23 stig í þessum 12 leikjum sem eftir eru. Það þýðir að það eru 36 stig eftir í pottinum. Það eru því ýmsar leiðir fyrir United til þess að tryggja þessi 23+ stig:
Eins og sjá má verður United að vinna 6 leiki til þess að eiga möguleika á því að ná að a.m.k. 23 stigum. Ef liðið nær að vinna 7 leiki ætti liðið að vera í góðri stöðu og allt umfram 8 sigra ætti að setja liðið örugglega í 4. sæti, jafnvel ofar. Það hefur mikið verið talað um að dagskráin hjá United sé af erfiðari taginu næstu vikurnar og það er alveg rétt. Við eigum nokkra af erfiðustu úti- og heimaleikjum tímabilsins eftir:
Það er auðvitað ekkert gefins að eiga eftir útileiki gegn Chelsea og Liverpool og heimaleik gegn City og þurfa að ná úrslitum í þessum leikjum. Inni á milli þessara stórleikja eru þó nokkrir leikir sem verða að teljast skyldusigrar. Samkvæmt mínum kokkabókum ætti United alltaf að vinna 6 af þessum 12 leikjum sem eftir eru. Leikina gegn Sunderland, Newcastle, Villa, WBA, Palace og Hull. Ef það gengur eftir (sem það mun án efa ekki gera) er United með ansi gott svigrúm í erfiðu leikjunum og þarf ekki að treysta á sigur í þeim jafnmikið og maður hefur haldið. Leikirnir gegn Liverpool, Tottenham og Arsenal eru þó sérstaklega mikilvægir enda sannkallaðir 6 stiga leikir í þessari geysihörðu baráttu.
Það kæmi mér þó reyndar ekkert á óvart ef að United stæði sig betur en reiknað er með í þessum erfiðu leikjum en verr en reiknað er með í þeim leikjum sem eiga að teljast auðveldir. Þetta er alveg þannig tímabil. Inni í þetta kemur svo heimavallar- og útivallargengi liðanna en gengi United eftir því hvort það spilar heima eða úti er eins og munurinn á svörtu og hvítu. Burtséð frá því er þó alveg ljóst að þrátt fyrir gott gengi liðanna í kringum United og alla hina þættina sem munu spila inn í þetta er lokaniðurstaða tímabilsins alveg fyllilega í höndunum á leikmönnunum og þjálfurum liðsins.
Fyrsta skrefið er auðvitað ekkert nema sigur gegn Sunderland á morgun.
Andstæðingurinn
Á síðustu leiktíð voru viðureignirnar við Sunderland nokkuð mikilvægir leikir. Í fyrri leik liðanna í október 2013 skaut Adnan Januzaj sjálfum sér upp á stjörnuhimininn þegar hann tryggði United sigurinn á Stadium of Light. Poyet og félagar negldu svo nokkra nagla í líkistuna hans David Moyes þegar þeir slógu okkar menn út úr undanúrslitum deildarbikarsins. Ekki nóg með það skemmtu þeir sér svo vel í David Moyes eftirpartý-inu okkar að þeir urðu eina liðið til þess að sigra Manchester United undir stjórn Ryan Giggs, helvítis melirnir.
Fyrri leikur liðanna á þessu tímabili var háður í lok ágúst og gerðu liðin jafntefli. Ég var á leikskýrsluvakt í þessum leik en hann hefur greinilega verið svo bragðdaufur að ég man ekki nokkurn skapaðan hlut úr þessum leik.
Sunderland er að eiga mjög Sunderland-legt tímabil. Liðið eru rétt fyrir ofan fallsvæðið og hættulega nálægt því að sogast niður í bullandi fallbaráttu. Sunderland-menn munu þó pottþétt ná að bjarga sér og enda tímabilið í 13-15. sæti eins og alltaf. Það er því kominn sá tími tímabilsins þegar Sunderland fer að ná í óvænt úrslit líkt og á síðasta tímabili þegar þeir gerðu sér lítið fyrir og gerðu jafntefli við Manchester City og unnu United og Chelsea, allt á útivelli. Bara eins og menn gera.
Gengi Sunderland hefur verið nokkuð dapurt undanfarið og liðinu gengur alveg afskaplega illa að vinna leiki. Í raun hefur liðið aðeins unnið 4 leiki í deildinni en gert heil 13 jafntefli. Það skiptir liðið litlu sem engu máli hvort það spili á heima- eða útivelli enda liðið með sambærilegan árangur, 14 stig á heimavelli, 12 á útivelli. Það sem hefur vantað uppá er einfaldlega markaskorun. Aðeins Aston Villa hefur skorað færri mörk á tímabilinu en Sunderland hefur skorað 22 mörk. Þeirra markahæsti maður er með 4 mörk á öllu tímabilinu. Jermaine Defoe var keyptur í janúar fyrir fullt af pening til þess að bæta úr þessu og hann hefur nú þegar skorað heil 2 mörk í þeim 5 leikjum sem hann hefur spilað.
Þeirra besti maður á tímabilinu hefur verið markmaðurinn Costel Pantilimon sem kom frá City fyrir tímabilið. Hann er í liði ársins það sem af er hjá tölfræðisíðunni WhoScored og er í þriðja sæti hjá tölfræðisíðunni Squawka. Hann hefur spilað 17 leiki og haldið hreinu í 7 af þeim sem er dágott, jafnoft og okkar besti maður á tímabilinu, David de Gea hefur haldið hreinu. Sebastian Larsson, Adam Johnson og bakvörðurinn Patrick van Anholt hafa staðið sig þokkalega á tímabilinu en aðrir menn hafa verið frekar daprir, þar með taldir vinir okkar John O’Shea og Wes Brown.
Í stuttu máli. Þetta er lið sem elskar að gera jafntefli og markmaðurinn þeirra er í þrusuformi. Boðar gott?
United
Louis van Gaal hélt blaðamannafund í hádeginu. Hann sagðist vera nokkuð ánægður með stöðu mála á töflunni en væri óánægður með frammistöður í nokkrum leikjum. Hann talaði einnig um að baráttan um Meistaradeildarsætin væri svokallað ‘rat-race’ og að mikilvægt væri að vinna hvern einasta leik. Hann talaði einnig um að það yrði mikil vonbrigði að missa af einu af efstu fjóru sætunum.
LVG “We are not unhappy but we could have better results. We have not been played off the pitch. We have mainly been the better team. #mufc
— Stuart Mathieson (@StuMathiesonMEN) February 27, 2015
LVG on race for top 4 “It is because of the rat race between five clubs that we have to win, we have to be there”#mufc
— Stuart Mathieson (@StuMathiesonMEN) February 27, 2015
Hann staðfesti jafnframt að Michael Carrick væri allur að braggast en Robin van Persie meiddist gegn Swansea og verður frá næsta mánuðinn eða svo. James Wilson fór útaf meiddur í leik með u-21 liðinu á þriðjudaginn en gæti spilað á morgun. Ég vona að hann fái sitt tækifæri því hann getur ekki staðið sig mikið verr en þeir félagar Falcao og Robin van Persie, eða hvað?
Aðrir eru heilir. Það kæmi mér ekki á óvart ef að við fengjum að sjá svipað lið og spilaði gegn Swansea. Að mörgu leyti var sú spilamennska ágæt en varnarleikurinn verður að batna í næstu leikjum, það er á hreinu. Á köflum var meiri hraði í stutta spilinu hjá United gegn Swansea og það er lykilinn að því að ná árangri. Að því leyti verður Ander Herrera að byrja leikinn og jafnframt vil ég sjá Juan Mata í holunni á kostnað Marouane Fellaini enda er þetta fullkominn leikur fyrir litla Spánverjann okkar. Að auki er einfaldlega of freistandi að negla háum boltum á Fellaini þegar hann er í liðinu en það gæti verið gott að eiga hann á bekknum, sérstaklega í ljósi þess að tveir af fjórum framherjum okkar eru meiddir.
Í ljósi þess hvað Sunderland er hálfglatað sóknarlega gæti verið athyglisvert að setja Antonio Valencia og Ashley Young í bakvarðarstöðurnar til þess að teygja betur á Sunderland-liðinu. Þeir eru á útivelli og munu tjalda einhverstaðar á vítateigslínunni. Það er alveg morgunljóst að við munum fá færi í þessum leik og þau verða framherjar okkar að nýta. Helst sem fyrst í leiknum svo að Sunderland-menn gefist upp. Ég sé liðið einhvernveginn svona fyrir mér:
Það gæti reyndar verið gaman að sjá liðið stilla upp með einn framherja en maður er að vonast til þess að það sé framtíðin undir stjórn Louis van Gaal. Það væri virkilega gaman að sjá eftirfarandi lið hefja leikinn á morgun:
Efri uppstillingin er þó alltaf líklegri. Við erum á heimavelli og erum með afskaplega góðan árangur á Old Trafford á tímabilinu. Allt nema sigur í þessum leik yrði stórslys og myndi setja óþarfa pressu á okkur fyrir framhaldið. Liðin í kringum okkur eiga þannig leiki að þau geta vel tapað stigum um helgina. Ég er einstaklega bjartsýnn og spái 3-0 sigri, Falcao með þrennu í fyrri hálfleik og áður en leiknum lýkur verður Woodward búinn að millifæra 43 milljónir punda á Monaco.
Leikurinn er á morgun kl. 15.00 – dómari er Roger East.
Audunn says
Ég er að vona að þetta tap gegn Swansea geri liðinu gott, maður var búinn að bíða eftir þessu tapi ef svo má segja í nokkurn tíma.
Stundum þarf svona gott spark í rassinn til að menn komist aftur á beinubrautina, er samt ekkert brjálæðislega bjartsýnn á að það verði svo.
Er farinn að hafa miklar áhyggjur af því að liðið nái ekki einu af efstu fjórum, eins og staðan er í dag þá eru Arsenal og Liverpool að spila miklu betur í deildinni þannig að United verður heldur betur að taka sig á og það strax.
Vill sjá liðið svona
D Gea
Rafael, Jones, Rojo, Shaw
Blind – Carrick/Herrera
Mata – Di Maria – Herrera/Januzaj
Rooney
Runólfur Trausti says
Standardinn í upphitunum hjá þér Tryggvi minn eru beyond. Bravó.
Annars fer þessi leikur annað hvort 5-2 eða 1-0 fyrir United. Það verður ekkert þarna á milli. Þetta verður slátrun þar sem United kemst í 3-0 í hálfleik, 3-1, 4-1, 4-2, 5-2 eða þá að United vinnur 1-0 gegn Sunderland liði sem setur 10 menn inn í teig og sóknarleikur United verður áfram copy paste af þessum handboltafærslum síðustu leikja.
Kv. RTÞ
Björn Friðgeir says
Það eru meiri líkur á því að minn maður Hames Wilson setji þrjú í þessum leik en Falcao. Svo segir kassi af bjór.
Guðni says
Flott upphitun :) Þetta er allt í okkar höndum ennþá og vonandi verður þetta byrjunin á öflugum endaspretti :)
Bjarni Ellertsson says
Hef sagt það áður að í denn áttum við lið sem gata klárað vonlausa stöðu trekk í trekk á síðast a korterinu ef svo bar undir. Oft hvatti það menn til dáða að tapa leikjum. Eigum ekki enn það lið í dag enda vantar leiðtoga í liðið. En hins vegar kemur það á endanum þannig að ég spái enn einum erfiðum leiknum aþr sem mótherjinn skorar á undan eða jafnar fljótlega og við strögglumst til að ná í sigur eða mesta lagi jafntefli. Ef þetta verður hins vegar upprúll þá sætti ég mig við það líka, vona að þeir taki sig saman í andlitinu og spila öruggan leik frá A-Ö, eigum það skilið.
Sigurbjörn says
Byrjunarliðið mætt.
Getur verið að við séum að spila með tvo kantmenn?!?!?!