Í annað skiptið síðan nýtt fyrirkomulag var tekið upp hefur United keppni í Evrópudeildinni eftir áramót eftir að hafa dottið úr Meistaradeildinni fyrir áramót. Síðast komst United í 16 liða úrslit en nú eru verðlaun fyrir sigur í Evrópudeildinni ekki bara eini alvörubikar sem Manchester United hefur aldrei unnið, heldur einnig sæti í Meistaradeildinni í haust, og það eru ansi margir sem horfa á stöðuna í deildinni og segja að þetta sé okkar eini möguleiki til þess.
Það er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin, vinna þarf fimm lið til að hampa þessum stóra gullfallega bikar og það eru mörg strembin lið eftir í keppninni, t.a.m. Borussia Dortmund, Fenerbahçe með vini okkar Robin van Persie og Nani innanborðs, Napoli og Fiorentina, sem eru í öðru og þriðja sæti í Serie A, Olympiakos er að rústa grísku deildinni án hjálpar Alfreðs Finnbogasonar, Bayer Leverkusen með einhvern mexíkanskan markahrók í aðalhlutverki, Athletic, Valencia og Sevilla frá Spáni og síðast og síst Tottenham og Liverpool. Þarna eru nóg af liðum sem gætu reynst brothættu liði Manchester United þolraun.
En það er ekkert af þessum evrópsku risum sem við heimsækjum á morgun. Í stað þess liggur leið okkar á heiðar Jótlands þar sem FC Midtjylland, dönsku meistararnir bíða.
FC Midtjylland
FC Midtjylland er innan við 20 ára gamalt félag, sameinað lið Herning Fremad og Ikast FS. Liðið leikur á MCH Arena í Herning
Þrátt fyrir sameiningu gekk liðinu ekki mikið betur en áður þangað til í fyrra. Það sem tryggði þann meistaratitil var að koma Matthew Benham, aðaleiganda enska liðsins Brentford. Benham er eigandi Smartodds veðmálafyrirtækisins. Úr því starfi þekkir hann vel notkun tölfræði og beitir henni óspart við stjórnun þessara tveggja liða. Benham er þó meinilla við að kalla þetta Moneyball og er ekki að kaupa menn út á tölfræðina eina saman. En því er ekki að neita að þetta er að virka að mörgu leyti. Brentford óð upp deildir og komst í úrslitakeppnina um að komast í úrvalsdeildina, og Midtjylland tók titilinn á fyrsta ári.
En nú er Brentford um miðja deild, og FC MidtJylland í þriðja sæti í Alka ofurdeildinni. United hlýtur því að hugsa gott til glóðarinnar.
FC MidtJylland fór í jólafrí 10. desember eftir jafnteflið við FC Brugge sem skilaði liðinu áfram úr riðli sínum í Evrópudeildinni. Napoli vann alla leikina í riðlinum, en MidtJylland komst áfram með sjö stig. Þeir töpuðu báðum leikjunum við Napoli illa 1-4 heima og 0-5 úti.
Danska deildin er enn ekki hafin á ný og þetta verðu því fyrsti alvöru leikur liðsins í tvo mánuði. Liðið hefur styrkt sig nokkuð í hléinu, Sex nýir leikmenn hafa komið til liðsins, þeirra dýrastur framherjinn Václav Kadlec frá Eintract Frankfurt, Harmeet Singh, sem einhver kallar víst „norska Iniesta“ kom frá Molde og tveir miðverðir koma að láni, Daniel O’Shaugnessy frá systurfélaginu Brentford og Nikolai Bodurov frá Fulham.
Böðvar Böðvarsson sem tengiliðir mínir í íslenska boltanum fullvissa mig um að sé kallaður „Böddi löpp“ er líka í láni hjá FC Midtjylland frá FH, en hann tók þátt í Evrópuleikjum FH í haust og er því ekki gjaldgengur í Evrópudeildina
Það má því búast við að liðið sé því nokkuð sterkara en það var í haust þó miðvörðurinn Erik Sviatsjenkó hafi verið seldur til Celtic.
Fyrir í liðinu eru bestu menn þess, miðjumaðurinn Tim Sparv sem er fyrirliði finnska landsliðsins og líklega besti varnarmiðjumaður í dönsku deildinni og Pione Sisto, 21 árs danskur kantmaður sem var frábær á meistaratímabilinu en hefur víst aðeins dalað í vetur.
Eitt af meginvopnum Dananna eru föst leikatriði, allt að helmingur marka þeirra koma úr slíkum og þeir hljóta að hafa horft á leikinn gegn Sunderland af miklum áhuga hvað það varðar.
En þegar litið er til þess að liðið er að koma úr vetrarfríi þá er eitthvað mikið að ef okkar menn taka þetta ekki föstum tökum og vinna auðveldlega. Og, jú það er ýmislegt að hjá United.
Lið United
Nú síðdegis bárust fréttir sem skýra hvers vegna Wayne Rooney ferðaðist ekki með liðinu.
Hann er meiddur á hné og verður frá allt að tvo mánuði!
Þessar fréttir eru auðvitað hrikalegar fyrir klúbbinn, ekki síst þar sem Rooney hefur verið að ná sér verulega á strik undanfarið.
Anthony Martial hlýtur nú að spila fremst og plön um að gefa Will Keane séns fara líklega á hilluna.
Framundan eru fjórir leikir á 11 dögum, þrír mikilvægir en léttir á pappír leikir gegn FC Midtjylland og Shrewsbury, og síðan Arsenal leikurinn þrem dögum eftir seinni leikinn gegn Midtjylland.
Enginn af aðalliðsleikmönnunum sem lékum með U-21 í stórsigrinum gegn Norwich um daginn var með móti Reading á mánudag og þeir eiga eftir að koma mikið við sögu í næstu þrem leikjum. Ég ætla samt að giska á að liðið á morgun verði það sterkasta af þessum þrem. Þannig má tryggja góð úrslit sem þýða að hægt verði að hvíla menn í seinni leiknum sem þurfa að vera góðir gegn Arsenal.
Hópurinn sem ferðaðist til Danmerkurvar samt frekar ungur og leit svona út: De Gea, Romero, Love, McNair, Smalling Blind, Poole, Riley, Carrick, herrera, Schneiderlin, Lingard, Pereira, Weir, Mata, Memphis, Martial, Keane.
Cameron Borthwick-Jackson fær frí og Fellaini er meiddur
Þetta er auðvitað alger ágiskun. Vörnin er sjálfvalin, allir inni sem eru ómeiddir, Paddy McNair fær þó örugglega að byrja í einhverjum af næstu þrem leikjum. Það væru mikil vonbrigði að sjá Carrick og Schneiderlin byrja, Herrara á skilinn séns. Andreas Pereira hlýtur að spila, og vonandi nógu vel til að fá að spila alla næstu þrjá leiki. Will Keane á skilið leik, hvort sem það verður þessi eða gegn Shrewsbury en meiðsli Rooney breyta ansi miklu.
Hvað um það. Auðveldur sigur á morgun er krafan og að koma heim frá Danmörku með sæti í næstu umferð því sem næst tryggt.
Leikurinn er kl. 18:00 á morgun
Frikki says
Veit einhver hvad er langt í schweinsteiger?
Björn Friðgeir says
Nei, það er amk mánuður held ég í bæjarfógetann.
Annars erum við aftur komnir á toppinn í meiðsladeildinni. Jei!!
http://www.physioroom.com/news/english_premier_league/epl_injury_table.php
Samkvæmt James Robson á MEN verður svo Donald Love í byrjunarliði í kvöld