Athugið, færslan hefur verið uppfærð, nú má sjá endanlega styrkleikaflokkaröðun hérna neðst.
Á morgun verður dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. 48 lið verða í pottinum og verða þau dregin í 12 riðla. Drátturinn fer fram í Mónakó og hefst klukkan 11:00 að íslenskum tíma. Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með drættinum og færa fréttir af niðurstöðunni.
Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar þetta tímabilið mun fara fram á Friends Arena í Stokkhólmi miðvikudaginn 24. maí 2017. Manchester United hefur aldrei spilað leik á Friends Arena svo það er alveg kominn tími á það.
Keppnin
Forveri UEFA Cup var keppni sem hét Inter-Cities Fairs Cup. Sú keppni hóf göngu sína árið 1955 og var þá tengd alþjóðlegum vörusýningum sem haldnar voru í evrópskum borgum. Liðin sem tóku þátt í keppninni komu frá borgunum sem héldu þessar vörusýningar, árangur liðanna í deildum heima fyrir hafði þá ekkert að segja.
Upphaflega tóku 11 lið þátt í Inter-Cities Fairs Cup en sú keppni stækkaði bæði að umfangi og vinsældum næstu árin og 1971 voru liðin orðin 64. UEFA tók þá yfir keppnina, breytti nafninu í UEFA Cup og fyrsta tímabilið í þeirri keppni var veturinn 1971-72.
UEFA Cup var, líkt og Inter-Cities Fairs Cup á undan, eingöngu útsláttarkeppni. Fram til 1997 var spilað heima og að heiman á öllum stigum mótsins en frá og með úrslitaviðureigninni 1998 var aðeins spilaður einn úrslitaleikur.
Árið 2009 var keppninni breytt í núverandi fyrirkomulag. Í stað þess að eingöngu væri um útsláttarkeppni að ræða var tekin upp riðlafyrirkomulag svipað því sem er í Meistaradeild Evrópu.
Alls taka 188 lið frá 54 þjóðum þátt í keppninni á þessu tímabili og koma inn í keppnina á mismunandi stigum hennar. Áður en komið er að riðlakeppninni þarf að fara í gegnum 3 umferðir af undankeppni og í kjölfar þeirra eru umspilsleikir áður en 48 lið standa eftir, tilbúin í riðlakeppnina.
Árangur Manchester United í keppninni til þessa
Manchester United tók einu sinni þátt í Inter-Cities Fairs Cup. Það var tímabilið 1964-65. Þá fór United alla leið í undanúrslit eftir að hafa lagt Djurgården, Borussia Dortmund, Everton og Strasbourg. Í undanúrslitum var andstæðingurinn ungverska liðið Ferencváros frá Budapest. United vann heimaleikinn 3-2 en tapaði síðan 0-1 á útivelli. Þá var engin útimarkaregla en í staðinn var leikinn aukaleikur til að fá niðurstöðu. Aftur var spilað á heimavelli Ungverjanna og aftur unnu heimamenn, í þetta skiptið 2-1. Ferencváros vann síðan Juventus í úrslitaleiknum.
United hefur 8 sinnum tekið þátt í UEFA Cup/Europa League. Tvisvar missti félagið af tækifærinu til að taka þátt vegna þess að ensk lið voru í banni frá Evrópukeppnum í kjölfar harmleiksins á Haysel árið 1985. Árangur United í keppninni hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir, í helming skipta féll liðið út strax í fyrstu umferð.
Besti árangur liðsins kom tímabilið 1984-85. Þá sigraði United ungverska liðið Rába ETO Gyor, PSV og Dundee United áður en það tapaði í 8-liða úrslitum fyrir Videoton (annað ungverskt lið) eftir vítaspyrnukeppni. Videoton fór alla leið í úrslitaleikinn það ár en tapaði þar fyrir Real Madrid.
United hefur tvisvar tekið þátt í keppninni eftir að hún varð þekkt sem Evrópudeildin. Í hvorugt skiptið hefur liðið þurft að fara í gegnum riðlakeppnina heldur öðlast þátttökurétt í Evrópudeildinni með því að enda í 3. sæti síns riðils í Meistaradeildinni.
Árangurinn í bæði skipti var mjög áþekkur. Fyrst kom sigur í 32-liða úrslitum þar sem United þurfti að taka seinni leik á Old Trafford til að snúa við tapi úr fyrri leiknum (Ajax árið 2012 og Midtjylland nú í ár) áður en eftir fylgdi sannfærandi tap í 16-liða úrslitum (gegn Athletic Bilbao 2012 og Liverpool í ár).
Mögulegir andstæðingar
Þegar þetta er skrifað eru 26 lið örugg um sæti í riðlakeppninni. Það kemur svo í ljós í kvöld hver hin 22 liðin verða eftir að seinni leikirnir í umspilsviðureignum Evrópudeildarinnar klárast. Þá kemur líka endanlega í ljós í hvaða styrkleikaflokk liðin raðast.
Manchester United verður samt í efsta styrkleikaflokki, svo mikið er öruggt. Þar eru 8 önnur lið örugg sem United mun því ekki mæta í riðlakeppninni. Þau eru:
- Schalke 04 (Þýskaland)
- Zenit Saint Petersburg (Rússland)
- Athletic Bilbao (Spánn)
- Villareal (Spánn)
- Ajax (Holland)
- Internationale (Ítalía)
- Fiorentina (Ítalía)
- Viktoria Plzen (Tékkland)
Að auki getur Manchester United ekki mætt Southampton (sem verður í styrkleikaflokki 2, 3 eða 4 eftir því hvaða lið komast áfram í kvöld) þar sem lið frá sama landi eru ekki dregin saman í riðlakeppninni.
Liðin sem eru komin áfram og United getur mætt eru því:
- Braga (Portúgal)
- Red Bull Salzburg (Austurríki)
- Roma (Ítalía)
(Liðin hér að ofan gætu endað í efsta styrkleikaflokki eftir leiki kvöldsins, annars í 2. flokki.)
- Steaua Bukuresti (Rúmenía)
- APOEL (Kýpur)
- Standard Liege (Belgía)
(Liðin að ofan verða í 2. styrkleikaflokki.)
- Young Boys (Sviss)
- Celta Vigo (Spánn)
- Feyernoord (Holland)
- Mainz 05 (Þýskaland)
(Liðin að ofan verða í 2. eða 3. styrkleikaflokki.)
- Zürich (Sviss)
- Nice (Frakkland)
(Liðin að ofan gætu farið í 2., 3. eða 4. styrkleikaflokk.)
- Zorya Luhansk (Úkraína)
- Konyaspor (Tyrkland)
(Liðin að ofan verða í 3. eða 4. styrkleikaflokki.)
- Hapoel Be’er Sheva (Ísrael)
- Dundalk (Írland)
(Liðin að ofan verða í 4. styrkleikaflokki.)
Fyrsti umspilsleikurinn í dag hefst klukkan 16:30 og sá síðasti klukkan 19:05. Það ætti því að vera komið í ljós milli 21 og 22 hvaða lið fara áfram og hvernig liðin raðast í styrkleikaflokka.
Hér má sjá liðin sem mætast í kvöld og hvernig fyrri leikir liðanna fóru:
Leikdagar
Þrátt fyrir að enn eigi eftir að draga í riðla þá eru leikdagarnir samt sem áður komnir á hreint. Við munum spila á fimmtudögum, það er bara þannig. Ekki skemmtilegasti dagurinn fyrir Evrópuleiki en það verður bara að hafa það í þetta skiptið. Verður svo væntanlega breyting á því á næsta tímabili þegar við fáum inn þriðjudags- og miðvikudagsleiki aftur.
Tímasetningin á fimmtudagsleikjunum mun hins vegar verða breytileg. Fyrstu þrír leikirnir verða ýmist klukkan 17:00 eða 19:05 að íslenskum tíma en seinni leikirnir þrír verða eftir að vetrartími verður tekinn upp í Evrópu og því spilaðir klukkan 18:00 eða 20:05 að íslenskum tíma. Leikdagarnir sjálfir verða:
- 15. september
- 29. september
- 20. október
- 3. nóvember
- 24. nóvember
- 8. desember
Væntingar fyrir tímabilið
Manchester United hefur aldrei komist nálægt því að vinna þessa keppni. Ýmist hefur liðið ekki verið nógu gott til að vinna hana eða ekki tekið hana nógu alvarlega. Þessi keppni hefur vissulega ekki sama glamúrinn og stóri bróðir hennar, Meistaradeildin. En þetta er bikar sem Manchester United vantar í safnið svo það er um að gera að sækja hann líka.
En deildinni verður aldrei fórnað fyrir þessa keppni, við vitum það alveg. Og réttilega, aðalfókusinn á að vera á aðalkeppninni. Manchester United er hins vegar komið með góðan hóp leikmanna sem ættu að gera Mourinho kleift að stilla upp sterku og skemmtilegu liði í þessari keppni jafnvel þótt einnig verði hægt að hvíla mikilvæga menn fyrir deildina sem þurfa á hvíld að halda. Mourinho hefur talað mikið um að hann bíði spenntur eftir að fleiri keppnir hefjist svo hann geti leyft fleiri leikmönnum að spila. Það er alveg hægt að taka undir það.
Uppfærsla, endanleg styrkleikaflokkun
Nú er öllum leikjum lokið í umspilinu og komið í ljós hvaða lið verða í pottinum og í hvaða styrkleikaflokkum.
Styrkleikaflokkur 1 (Manchester United mætir engum liðum úr þessum flokki)
- Schalke 04 (Þýskaland)
- Zenit Saint Petersburg (Rússland)
- Manchester United
- Shakhtar Donetsk (Úkraína)
- Athletic Bilbao (Spánn)
- Olympiacos (Grikkland)
- Villareal (Spánn)
- Ajax (Holland)
- Internationale (Ítalía)
- Fiorentina (Ítalía)
- Anderlecht (Belgía)
- Viktoria Plzeň (Tékkland)
Styrkleikaflokkur 2
- AZ Alkmaar (Holland)
- Braga (Portúgal)
- Red Bull Salzburg (Austurríki)
- Roma (Ítalía)
- Fenerbahçe (Tyrkland)
- Sparta Prague (Tékkland)
- PAOK (Grikkland)
- Steaua București (Rúmanía)
- Genk (Belgía)
- APOEL (Kýpur)
- Standard Liège (Belgía)
- Saint-Ètienne (Frakkland)
Styrkleikaflokkur 3 (Manchester United getur ekki mætt Southampton)
- Gent (Belgía)
- Young Boys (Sviss)
- Krasnodar (Rússland)
- Rapid Wien (Austurríki)
- Slovan Liberec (Tékkland)
- Celta Vigo (Spánn)
- Maccabi Tel Aviv (Ísrael)
- Feyernoord (Holland)
- Austria Wien (Austurríki)
- Mainz 05 (Þýskaland)
- Zürich (Sviss)
- Southampton (England)
Styrkleikaflokkur 4
- Panathinaikos (Grikkland)
- Sassuolo (Ítalía)
- Quarabağ (Aserbaídsjan)
- Astana (Kasakstan)
- Nice (Frakkland)
- Zorya Luhansk (Úkraína)
- Astra Giurgiu (Rúmenía)
- Konyaspor (Tyrkland)
- Osmanlıspor (Tyrkland)
- Gabala (Aserbaídsjan)
- Hapoel Be’er Sheva (Ísrael)
- Dundalk (Írland)
Það eru nokkrar reglur varðandi dráttinn. Lið frá sama landi geta til að mynda ekki dregist saman. Lið frá Rússlandi og Úkraínu geta ekki dregist í sama riðil. Riðlarnir skiptast svo í tvo helminga, annars vegar A-F og hins vegar G-L. Það hefur áhrif á klukkan hvað leikirnir eru. Sérstaklega verður passað upp á að lið frá sömu löndum dreifist vel milli þessara helminga. Þá þarf að passa upp á að lið frá sömu borg eigi ekki heimaleiki á sama degi.
Það er ljóst að á síðustu metrunum hafa bæst við þó nokkur lið frá Fjarskanistan og Langtíburtistan, lið sem væri mjög gott að sleppa við upp á að þurfa ekki að leggja í löng og leiðinleg ferðalög. Við myndum því alltaf vilja sleppa við lið frá löndum eins og Rússlandi, Úkraínu, Aserbaídsjan, Ísrael og jafnvel Tyrklandi. En við tökum því sem kemur, það er góður skóli í þessu öllu.
Hjörvar Ingi Haraldsson says
Fyrir Hull upphitunina, finnst alltaf gaman af þessum myndböndum: https://youtu.be/JZo1FKSKw0I
Dogsdieinhotcars says
Vil sjá okkur reyna að fá sem flesta leiki fyrir unga og efnilega. Sætti mig við ekkert minna en undanúrslit, höfum léttilega hópinn og unga menn sem þurfa leiki í það. Eftir allt saman er þetta náttúrulega mikil evrópureynsla fyrir þá.
Vil þess vegna sjá unga og efnilega spila í bland við eldri reynslubolta og að við tökum þessu aðeins alvarlega.